• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
20
Aug

Álit um atvinnuhorfur

Vilhjálmur Birgisson formaður Verkalýðsfélags AkranessVilhjálmur Birgisson formaður Verkalýðsfélags AkranessFormaður félagsins var með eftirfarandi álit um atvinnumál í 24 stundum í dag:   

Óhætt er að segja að nú séu blikur á lofti í íslensku atvinnulífi. Eftir mjög gott atvinnuástand síðastliðin ár má búast við að atvinnuleysi vaxi hratt með haustinu eins og fjöldauppsagnir liðinna mánaða gefa sterklega til kynna. Í kjölfar samdráttar í aflaheimildum upp á 30% á síðasta ári misstu um 500 einstaklingar atvinnu sína og kom sá samdráttur hvað harðast niður á landsbyggðinni.

Hins vegar mun sá samdráttur sem nú er framundan að mínu mati bitna hvað harðast á byggingariðnaðinum á höfuðborgarsvæðinu vegna þess ástands sem nú ríkir á íbúðalánamarkaðnum vegna offramboðs. Einnig hafa þau fyrirtæki sem byggt hafa starfsemi sína í kringum íbúðarhúsnæðismarkaðinn átt mjög erfitt með að fá lánsfjármagn þar sem bankarnir hafa nánast lokað fyrir allar lánveitingar til byggingar íbúðarhúsnæðis.

Slíkt mun að sjálfsögðu leiða til mikilla uppsagna þegar líður á haustið og veturinn. Við Skagamenn höfum mátt þola umtalsverða fækkun í störfum tengdum fiskvinnslu á liðnum mánuðum og misserum.

En við búum hins vegar svo vel að hafa hér stóriðju á Grundartangasvæðinu sem hefur styrkt stoðir atvinnulífsins hér á Akranesi svo um munar. Með stækkun Norðuráls upp í 260.000 tonn hefur starfsmönnum þar fjölgað gríðarlega að undanförnu og starfa nú tæplega 500 manns hjá Norðuráli. Einnig hefur Elkem Íslands verið að færa út kvíarnar með aukinni framleiðslu og hefur störfum þar fjölgað samhliða því. Á Grundartanga starfa á milli 700-800 manns fyrir utan afleidd störf. 

Ég vil ekki hugsa þá hugsun til enda ef við Akurnesingar hefðum ekki þessi atvinnutækifæri sem tengjast stóriðjunni á Grundartanga.  Þess vegna er gríðarlega mikilvægt að hraða sem fyrst þeim stóriðjuframkvæmdum sem nú eru framundan, bæði í Helguvík en ekki síður framkvæmdunum á Bakka við Húsavík.

Það er í raun og veru óskiljanlegt að íslenskir stjórnmálamenn séu að leggja stein í götu þessara framkvæmda í ljósi þeirra jákvæðu áhrifa sem stóriðjan hefur haft á svæðið hér á Akranesi. Það er gríðarlega mikilvægt að allir leggist á eitt við að vinna bug á því efnahagsástandi sem nú ríkir í íslensku samfélagi og þar getur enginn skotið sér undan ábyrgð.

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image