• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
14
Aug

Ólög sem breyta þarf tafarlaust

SéreignarsparnaðurSéreignarsparnaðurTil félagsins leitaði nýverið félagsmaður sem varð fyrir 100% örorku vegna vinnuslyss. Þessi viðkomandi félagsmaður var búinn að leggja í séreignarsjóð vel á fjórðu milljón króna. Eftir að hann varð öryrki þá hugðist hann taka út allan sinn séreignarsparnað til þess að greiða þær skuldir sem hann hafði stofnað til og ekki getað staðið skil á vegna mikils tekjumissis sökum örorku sinnar.

Þegar hann fer og kannar hvort hann geti ekki tekið sinn séreignarsparnað út þá kemur í ljós að hann verði að fá séreignina greidda út með jöfnun greiðslum á 7 ára tímabili eins og lög nr. 129/1997 kveða á um.

Bankinn sem viðkomandi félagsmaður lagði sína séreign inn hjá vísaði í áðurgreind lög en bauðst hins vegar til að útvega lán sem félagsmaðurinn er alls ekki sáttur við að taka, einfaldlega vegna þeirra okurvaxta sem nú eru í gangi og þess mikla kostnaðar sem hann yrði fyrir tæki hann slíkt lán.

Það er mat formanns Verkslýðsfélags Akraness að hér sé um hrein ólög að ræða því þeir einstaklingar sem verða fyrir 100% örorku og hafa þar af leiðandi tapað allri sinni starfsgetu fyrir aldur fram eiga að sjálfsögðu að eiga skýlausan rétt til að taka sinn séreignarlífeyrir út, kjósi þeir svo. Sérstaklega í ljósi þess að oft verða þessir einstaklingar fyrir umtalsverðu fjárhagslegu raski. En lögin eru hins vegar hvellskýr því þar kemur fram orðrétt í 11. gr laganna.

"Verði rétthafi öryrki og orkutapið sem hann verður fyrir er 100% á hann rétt á að fá lífeyrissparnað og vexti greidda út með jöfnum árlegum greiðslum á sjö árum."

Í lögunum er einnig kveðið á um eftirfarandi: "Í reglugerð skal kveðið á um styttri útborgunartíma ef um lágar upphæðir er að ræða."

Þetta þýðir að Þeir einstaklingar sem lagt hafa fyrir í séreignarsjóð og eiga eign inni undir 800.000 kr. hafa heimild til að taka alla upphæðina út í einu lagi, sé hún hins vegar yfir 800.000 kr. þá þarf að dreifa henni á 7 ára tímabili eins og áður hefur komið fram. Þetta kallar í raun og veru á það að þeir sem eru að leggja í séreignarsparnað ættu að tryggja það að eiga aldrei meira en 800.000 kr. inn á hverjum séreignarreikningi því verði þeir fyrir 100% örorku þá er tryggt að þeir geti tekið alla upphæðina út í einu sé hún undir 800.000 kr. Sé hún hærri þá fá þeir hana greidda með jöfnum afborgunum á 7 ára tímabili.

Formaður veltir því einnig fyrir sér þegar um er að ræða einstakling sem veikist mjög alvarlega, og lifir jafnvel ekki nema í 2-3 ár eftir að hann veikist. Ef hann hefur lagt fyrir í séreign, er þá ekki eðlilegt að viðkomandi einstaklingur fái að taka sína séreign alla út í einu og njóta þeirra ára sem hann á eftir, í staðinn fyrir að fá einungis hluta af sinni séreign greiddan og restin gengur til lögerfingja?

Það er alveg klárt mál að þessum lögum þarf að breyta í þá veru að verði rétthafi fyrir 100% örorku þá hafi hann skýlausan valkost um að taka sína séreign út í einu lagi. Myndi það klárlega koma þeim einstaklingum sem verða fyrir slíkum áföllum til góða. Formaður hefur nú þegar rætt við Guðbjart Hannesson formann félagsmálanefndar Alþingis vegna þessara laga því eins og áður sagði telur félagið brýnt að þessari grein laganna verði breytt.

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image