• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
Fréttir

Fréttir

08
Sep

Frystihús HB Granda á Akranesi opnar eftir sumarlokun

Starfsemi í frystihúsi HB Granda hér á Akranesi er nú að komast á fullt skrið aftur eftir sumarlokun sem stóð frá 11. júlí til 18. ágúst. Í sumarlokuninni var frystihúsinu breytt og settur upp nýr lausfrystibúnaður þar sem nú er verið að vinna léttsöltuð og lausfryst ufsaflök.

Rúmlega 20 manns starfa í frystihúsinu núna og nú er bara að vona að þessi nýja framleiðsla muni ganga sem allra best með von um að fjölga þurfi starfsmönnum við þessa nýju vinnslu.

04
Sep

Formaður í vinnustaðaheimsókn í Norðuráli

Í morgun fór formaður félagsins í vinnustaðaheimsókn til Norðuráls. Tilefni heimsóknarinnar var að fara yfir það hvað Norðurál hefur verið að gera í hinum ýmsu málum er tengjast öryggi starfsmanna. Formaður fór í steypuskála og skautsmiðju þar sem honum var sýnt hvað gert hefur verið í öryggismálum á liðnum mánuðum.

Ánægjulegt var að sjá að forsvarsmenn Norðuráls virðast leggja töluverðan fókus á öryggi starfsmanna þessi misserin enda skipta öryggismál gríðarlega miklu máli bæði fyrir starfsmenn og fyrirtækið sjálft.

Formanni var t.d. sýnt hvar ný handrið hafa verið sett til að afmarka hættuleg svæði ásamt hinum ýmsu öðrum atriðum sem eiga að leiða til aukins öryggis starfsmanna. Fram kom í máli forsvarsmanna fyrirtækisins að þegar kemur að öryggismálum þá séu verkefnin ærin og unnið sé nú eftir lista yfir atriði sem starfsmenn og forsvarsmenn telja að þurfi að bæta. Markmið fyrirtækisins er að reyna að koma sem flestum þessara atriða til betri vegar á sem skemmstum tíma.

Öryggismál skipta gríðarmiklu máli í verksmiðju þar sem hættur geta leynst víða og skemmst er að minnast alvarlegs slyss fyrir ekki svo löngu þegar starfsmaður missti hluta af fæti vegna þess að hann varð fyrir lyftara. Á þeirri forsendu er mikilvægt að starfsmenn og forsvarsmenn fyrirtækisins vinni eins vel og hægt er að því að bæta öryggi í verksmiðjunni enn frekar. Það var því afar ánægjulegt að sjá að til er aðgerðalisti um öryggismál sem nú er unnið af hörðum höndum við að vinna í.

03
Sep

Fundað með starfsmönnum leikskólans Akrasels

Í gærkvöldi átti formaður félagsins fund með starfsmönnum á leikskólanum Akraseli. Á þeim fundi fór formaður yfir hin ýmsu réttindi er standa félagsmönnum Verkalýðsfélags Akraness til boða.

Einnig var töluvert fjallað um komandi kjarasamninga og ljóst að starfsmenn Akraneskaupstaðar bera umtalsverðar væntingar til komandi kjarasamninga enda ljóst að laun ófaglræðra starfsmanna á leikskólum Akraneskaupstaðar upp á rétt rúmar 156.000 kr. á mánuði duga vart til lágmarksframfærslu. Einnig liggur fyrir að laun sundlaugarvarða og annarra ófaglærðra starfsmanna sveitarfélagsins eru allt of lág og þau þarf klárlega að leiðrétta svo um munar í komandi kjarasamningagerð.

01
Sep

Verðbólgan hefur hækkað um 8,7% frá undirritun kjarasamninga 17. febrúar

Forsendur kjarasamninga kolbrostnarForsendur kjarasamninga kolbrostnarVerðbólgan mælist nú 14,5% og hefur ekki verið hærri í hart nær tvo áratugi.  Kaupmáttur launa dregst hratt saman og skuldsettar fjölskyldur standa frammi fyrir miklum vanda við að láta enda ná saman.  Þessu til viðbótar hafa tæplega fjórtán hundruð manns misst vinnuna í hópuppsögnum á árinu og fleiri hundruðum til viðbótar hefur líklega verið sagt upp í minni uppsögnum. Á þessu sést að það eru öll merki um stóraukið atvinnuleysi og mjög líklegt að haustið og veturinn verði mjög erfiður hvað varðar samdrátt í atvinnulífinu. 

Það er morgunljóst að það þurfa fleiri en íslenskt verkafólk að leggja sitt af mörkum til að viðhalda hér stöðugleika og lágri verðbólgu.  Nú er komið að öðrum axla ábyrgð á verðbólguvandanum. Þann 17. febrúar sl. var gengið frá mjög hóflegum kjarasamningum sem höfðu það markmið að auka hér kaupmátt og koma böndum á verðbólguna.  Það er því grátlegt að horfa uppá það efnahagsástand sem nú ríkir í íslensku samfélagi og bitnar hvað harðast á skuldsettum verkamannafjölskyldum.

Verðbólgan var 5,8% þegar gengið var frá kjarasamningum á hinum almenna vinnumarkaði 17. febrúar 2008. Nú einungis 6 mánuðum frá undirritun hefur verðbólgan aukist um hvorki meira né minna um 8,7% og mælist verðbólgan í dag 14,5%  Ein af grunnforsendum fyrir því að gengið var frá kjarasamningum á þeim nótum sem gert var 17. febrúar sl. var endurskoðunarákvæði í samningunum, en þar er getið um að í byrjun febrúar 2009 muni endurskoðunarnefnd koma saman til að vega og meta hvort forsendur kjarasamningsins hafi staðist.  Þessar forsendur byggjast á því hvort kaupmáttur hafi staðið í stað eða aukist.  Einnig þurfti verðbólgan að hafa farið lækkandi.  Með lækkandi verðbólgu var átt við að verðbólga innan ársins 2008 þ.e. 12 mánaða verðbólgan í desember 2008 sé lægri en 5,5%.  Ennfremur er getið um í endurskoðunarákvæðinu að verðbólga á 6 mánaða tímabilinu ágúst 2008- janúar 2009 sé innan við 3,8% miðað við árs hraða. 

Á þessu sést svo ekki verður um villst að forsendur kjarasamninga eru kolbrostnar en þær byggðu eins og áður hefur komið fram á þeim forsendum að það tækist að koma böndum á verðbólgu og verja kaupmátt.

Þegar endurskoðun kjarasamninga fer fram verður verkalýðshreyfingin að gera skýlausa kröfu um að fá viðbót við kjarasamninginn ella er ekkert annað í stöðunni en að segja samningnum upp eins og heimilt er samkvæmt endurskoðunarákvæðinu.

Það er ljóst að fyrirtæki eru að hagræða hjá sér í rekstri með því að segja upp fólki í stórum stíl og mörg önnur fyrirtæki hækka verð á sinni vöru og þjónustu. 

Rjúfa verður þann vítahring að seljendur vöru og þjónustu hækki verð í samræmi við liðna verðbólgu og leggi þannig grunn að enn meiri verðbólgu. Gera verður þá lágmarkskröfu á ríki og sveitarfélög að þau haldi aftur af gjaldskrárhækkunum sínum en nokkuð hefur borið á þeim að undanförnu.

Hinn almenni launþegi getur lítið sem ekkert gert þegar kaupmáttur launa dregst hratt saman og greiðslubyrðin hækkar frá mánuði til mánaðar.  Á þeirri forsendu verða að koma einhverjar viðbætur við kjarasamninginn þegar endurskoðun á sér stað, ella er ljóst að illa mun fara fyrir íslensku verkafólki.

29
Aug

Vel heppnuð dagsferð eldri félagsmanna

Í gær bauð Verkalýðsfélag Akraness eldri félagsmönnum sínum ásamt mökum í dagsferð undir dyggri leiðsögn Björns Finsen. Þessi ferð er árlegur viðburður í starfsemi félagsins og að þessu sinni var farið um Suðurland.

Það voru 99 félagsmenn sem ásamt fimm fulltrúum félagsins og leiðsögumanni lögðu af stað í tveimur rútum frá Akranesi í ágætis veðri. Ekið var sem leið lá um Hvalfjarðargöng, í gegnum Mosfellsbæ þar sem fyrsti viðkomustaður var í Gvendarbrunnum. Þar var tekið veglega á móti ferðafólki af starfsmönnum Orkuveitu Reykjavíkur og starfsemin kynnt fyrir því.

Frá Gvendarbrunnum var ekið að Litlu kaffistofunni og stutt stopp gert þar. Á Litlu kaffistofunni eru myndir til sýnis sem margar tengjast knattspyrnusögu Akraness og fróðlegt var að skoða.

Næsti viðkomustaður var Hótel Örk í Hveragerði þar sem snæddur var hádegisverður. Boðið var upp á súpu og steiktan fisk og ríkti mikil ánægja með það sem á boðstólum var.

Frá Hveragerði var ekið til Þorlákshafnar en þar tók séra Baldur Kristjánsson á móti okkur í kirkjunni. Hélt hann afar fróðlegan fyrirlestur um mannlífið og kirkjuna á staðnum.

Frá Þorlákshöfn var haldið að Urriðafossi og hann skoðaður vel og vandlega og í ljós kom að þó nokkuð margir voru að sjá þennan foss í fyrsta skipti.

Að endingu var ekið að Nesjavöllum þar sem boðið var upp á kaffi og meðlæti í Nesbúð áður en haldið var heim á leið.

Þessi ferð þykir hafa heppnast ákaflega vel og kann félagið öllum þeim sem að ferðinni komu hinar bestu þakkir fyrir.

27
Aug

Starfsleyfi Sementsverksmiðjunnar

Eins og fram hefur komið í fréttum þá samþykkti bæjarráð Akraneskaupstaðar að skipa starfshóp með einum fulltrúa frá hverjum stjórnmálaflokki sem sæti á í bæjarstjórn, til að gera tillögu að umsögn um starfsleyfi fyrir Sementsverksmiðjuna á Akranesi. Bæjarritara var falið að vinna með starfshópnum og leiða starf hans.

Eins og komið hefur fram lagðist umhverfisnefnd bæjarins gegn því að drög að starfsleyfi fyrir verksmiðjuna yrðu samþykkt óbreytt.

Í þeim drögum sem nú liggja fyrir er m.a. gert ráð fyrir að Sementsverksmiðjan hafi heimild til að forvinna 25 þúsund tonn af föstum flokkuðum úrgangi til brennslu í gjallofni verksmiðjunnar og er gert ráð fyrir að starfsleyfið gildi til ársins 2024. 

Eins og fram hefur komið í fréttum að undanförnu þá er umtalsverð andstaða við þessa ósk um breytingu á starfsleyfi Sementsverksmiðjunnar.  Forsvarsmenn Sementsverksmiðjunnar hafa skrifað grein inná heimasíðu fyrirtækisins þar sem fram kemur að nokkurs misskilnings hefur gætt í umræðu um nýtt starfsleyfi fyrir Sementsverksmiðjuna á Akranesi. 

Formaður Verkalýðsfélags Akraness fagnar því að bæjarráð ætli að skipa starfshóp til að gera tillögu að umsögn um starfsleyfi fyrir Sementsverksmiðjuna á Akranesi þar sem farið verður yfir málið af yfirvegun og með hagsmuni allra að leiðarljósi, m.a. bæjarbúa, starfsmanna og eigenda verksmiðjunnar.  Það liggur fyrir að Sementsverksmiðjan hefur í fimmtíu ár kappkostað að starfa í sátt við íbúa Akraness og umhverfið.  Það er afar mikilvægt að svo verði áfram. 

Hægt er að lesa grein um málið sem birtist á vef Sementsverksmiðjunnar með því að smella á sement.

26
Aug

Eldri félagsmenn fara í dagsferð á fimmtudag

Næstkomandi fimmtudag munu um 100 félagsmenn Verkalýðsfélags Akraness 70 ára og eldri halda í dagsferð sem félagið býður árlega upp á.  Lagt verður af stað kl. 9:00 frá Íþróttamiðstöðinni að Jaðarsbökkum.

Meðal annars verður komið við í Gvendarbrunnum, Hveragerði, Þorlákshöfn, við Urriðafoss og á Nesjavöllum svo eitthvað sé nefnt. Áætluð heimkoma er um kl. 18 til 18:30.

Áð verður á nokkrum stöðum í ferðinni og m.a. boðið uppá léttan hádegisverð á Hótel Örk í Hveragerði. Boðið verður upp á aðrar veitingar um kaffileytið. Leiðsögumaður í ferðinni verður Björn Finsen.

Boðsbréf hefur verið sent til félagsmanna og fer skráning fram á skrifstofu félagsins að Sunnubraut 13 eða í síma 430-9900 og stendur hún til kl. 12:00 á hádegi miðvikudaginn 27. ágúst n.k.

Myndir og fréttir úr ferðinni verða settar inn hér á heimasíðunni við fyrsta tækifæri.

22
Aug

Vilji fyrir eins árs kjarasamningi

Formaður félagsins fór í hefðbundna vinnustaðaheimsókn til starfsmanna Elkem Íslands á Grundartanga í morgun.  Einnig kíkti formaður á starfsmenn Klafa en þeir sjá um alla út- og uppskipun á Grundartangasvæðinu. 

Að sjálfsögðu voru komandi kjarasamningar aðallega ræddir en kjarasamningar hjá þessum fyrirtækjum verða lausir 1. desember nk. 

Fram kom í máli þeirra starfsmanna sem formaður ræddi við að þeir vilja gera skammtímasamning í eitt ár enda telja þeir að óvarlegt sé að gera langtímasamning í því ástandi sem ríkir í íslensku efnahagslífi.  Formaður er algerlega sammála þeim starfsmönnum sem hann ræddi við, því að gera lengri samning en til eins árs er algert glapræði þegar verðbólgan er tæp 14% og fá teikn á lofti um að hún sé að niðurleið.

Einnig kom fram hjá starfsmönnum að krafa um umtalsverða hækkun grunnlauna verði mjög hávær í komandi samningum enda hafa starfsmenn stóriðja setið töluvert eftir í því launaskriði sem verið hefur á hinum almenna vinnumarkaði á liðnum árum. 

20
Aug

Álit um atvinnuhorfur

Vilhjálmur Birgisson formaður Verkalýðsfélags AkranessVilhjálmur Birgisson formaður Verkalýðsfélags AkranessFormaður félagsins var með eftirfarandi álit um atvinnumál í 24 stundum í dag:   

Óhætt er að segja að nú séu blikur á lofti í íslensku atvinnulífi. Eftir mjög gott atvinnuástand síðastliðin ár má búast við að atvinnuleysi vaxi hratt með haustinu eins og fjöldauppsagnir liðinna mánaða gefa sterklega til kynna. Í kjölfar samdráttar í aflaheimildum upp á 30% á síðasta ári misstu um 500 einstaklingar atvinnu sína og kom sá samdráttur hvað harðast niður á landsbyggðinni.

Hins vegar mun sá samdráttur sem nú er framundan að mínu mati bitna hvað harðast á byggingariðnaðinum á höfuðborgarsvæðinu vegna þess ástands sem nú ríkir á íbúðalánamarkaðnum vegna offramboðs. Einnig hafa þau fyrirtæki sem byggt hafa starfsemi sína í kringum íbúðarhúsnæðismarkaðinn átt mjög erfitt með að fá lánsfjármagn þar sem bankarnir hafa nánast lokað fyrir allar lánveitingar til byggingar íbúðarhúsnæðis.

Slíkt mun að sjálfsögðu leiða til mikilla uppsagna þegar líður á haustið og veturinn. Við Skagamenn höfum mátt þola umtalsverða fækkun í störfum tengdum fiskvinnslu á liðnum mánuðum og misserum.

En við búum hins vegar svo vel að hafa hér stóriðju á Grundartangasvæðinu sem hefur styrkt stoðir atvinnulífsins hér á Akranesi svo um munar. Með stækkun Norðuráls upp í 260.000 tonn hefur starfsmönnum þar fjölgað gríðarlega að undanförnu og starfa nú tæplega 500 manns hjá Norðuráli. Einnig hefur Elkem Íslands verið að færa út kvíarnar með aukinni framleiðslu og hefur störfum þar fjölgað samhliða því. Á Grundartanga starfa á milli 700-800 manns fyrir utan afleidd störf. 

Ég vil ekki hugsa þá hugsun til enda ef við Akurnesingar hefðum ekki þessi atvinnutækifæri sem tengjast stóriðjunni á Grundartanga.  Þess vegna er gríðarlega mikilvægt að hraða sem fyrst þeim stóriðjuframkvæmdum sem nú eru framundan, bæði í Helguvík en ekki síður framkvæmdunum á Bakka við Húsavík.

Það er í raun og veru óskiljanlegt að íslenskir stjórnmálamenn séu að leggja stein í götu þessara framkvæmda í ljósi þeirra jákvæðu áhrifa sem stóriðjan hefur haft á svæðið hér á Akranesi. Það er gríðarlega mikilvægt að allir leggist á eitt við að vinna bug á því efnahagsástandi sem nú ríkir í íslensku samfélagi og þar getur enginn skotið sér undan ábyrgð.

19
Aug

Undirbúningur að kröfugerð hjá stóriðjunum að hefjast

Þann 1. desember nk. munu kjarasamningar hjá Klafa, Elkem Íslandi á Grundartanga og Sementsverksmiðjunni renna út. Undirbúningur að kröfugerð mun hefjast fljótlega en ljóst er að starfsmenn þessara fyrirtækja bera miklar væntingar til komandi kjarasamnings.

Það er morgunljóst að ekki verður hægt að semja á þeim nótum sem samið var um á hinum almenna vinnumarkaði enda eru allt aðrar forsendur nú heldur en þegar gengið var frá nýjum kjarasamningi á hinum almenna vinnumarkaði 17. febrúar sl. Í því samhengi nægir að benda á að nú er 14% verðbólga sem er umtalsvert hærri verðbólga en var 17. febrúar.

Það er mat formanns að starfsmenn þessara fyrirtækja muni leggja mjög mikla áherslu á umtalsverða hækkun á launatöxtum, enda hafa starfsmenn þessara fyrirtækja ekki notið þess mikla launaskriðs sem verið hefur á undanförnum árum sökum þess að hér er um fastlaunasamninga um að ræða.

Kjarasamningur Norðuráls rennur út rúmu ári seinna eða nánar til getið 31. desember 2009.  Hins vegar munu laun starfsmanna Norðuráls taka sömu breytingum og um semst hjá sambærilegum fyrirtækjum í sambærilegum iðnaði.  Það er hins vegar hvell skýrt að þegar kjarasamningur Norðuráls rennur út 2009 þá verður krafan skýr, það er að þeim launamun sem ríkt hefur á milli Alcan og Norðuráls verði endanlega eytt.

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image