• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
21
Nov

Munu erlendir aðilar eignast auðlindir hafsins?

Í hádegisfréttum RUV kom fram að Björgvin G. Sigurðsson, viðskiptaráðherra, telji rétt að skoða af fullri alvöru að útlendingar eignist hlut í bönkunum. 

Almenningur í þessu landi þarf að fá að vita hversu mikið gömlu bankarnir lánuðu útgerðamönnum til kvótakaupa með veði í aflaheimildunum.  Í dag er talað um að íslenskur sjávarútvegur skuldi allt að 500 milljarða króna.  Hversu mikið af þeirri skuld er með veðsetningu í aflaheimildum sem eiga að kallast sameign þjóðarinnar? 

Hvað gerist ef nýju ríkisbankarnir verða seldir að hluta til eða að öllu leiti til erlendra aðila.  Munu erlendir aðilar því hugsanlega eignast auðlindir hafsins í gegnum hlut sinn í bönkunum?  Er þessi 500 milljarða króna skuld sjávarútvegsins ef til vill næsti reikningur sem þessi þjóð fær í hausinn?

Formaður félagsins fjallaði um sjávarútvegsmál í ræðu sinni á fundi sem Alþýðusamband Íslands stóð fyrir undir yfirskriftinni Áfram Ísland - hagur heimilanna.  Formaður sagði m.a. þetta um sjávarútvegsmál þjóðarinnar:

"Það á einnig að skoða það núna af fullri alvöru hvort ekki eigi að þjóðnýta aflaheimildir útgerðamanna og endurskipuleggja íslenskan sjávarútveg algjörlega upp á nýtt.  Krafa almennings í þessu landi um allanga hríð hefur verið sú að afnema eigi gjafakvótakerfið.

Það fiskveiðistjórnunarkerfi sem hér hefur verið lýði frá 1984 hefur farið eins og hvirfilbylur um hinar dreifðu byggðir þessa lands og skilið fiskvinnslufólk og sjómenn eftir í átthagafjötrum.  Það þekkjum við Skagamenn mæta vel enda  virðast útgerðamenn ekki vilja bera neina samfélagslega ábyrgð eins og dæmin svo sannarlega sýna um allt land. Ráðamenn þessarar þjóðar og forysta LÍÚ hafa sagt að þetta sé besta fiskveiðistjórnunarkerfi sem völ er á.  Rétt er að minna á að þegar kvótakerfið var sett á árið 1984 þá mátti veiða 267 þúsund tonn af þorski. Í dag 24 árum síðar má veiða 130 þúsund tonn og þessu til viðbótar er áætlað að íslenskur sjávarútvegur skuldi allt að 500 milljarða kóna. Svo segja menn að þetta sé besta fiskveiðistjórnunarkerfi í heimi.   

Ég spyr hvort þetta sé næsti reikningur sem alþýða þessa lands fær í hausinn".

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image