• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
Formaður félagsins ekki sammála forseta ASÍ varðandi verðtrygginguna Frá fundinum í gær
20
Nov

Formaður félagsins ekki sammála forseta ASÍ varðandi verðtrygginguna

Annar fundurinn í fundarherferð ASÍ um landið fór fram í Grundaskóla á Akranesi í gærkveldi.  Yfirskrift herferðarinnar er Áfram Ísland - fyrir hag heimilanna.

Gylfi Arnbjörnsson forseti ASÍ var þar með framsögu og formaður Verkalýðsfélags Akraness flutti ræðu á fundinum.


Því miður var aðsóknin ekki nægilega góð en samt sem áður sköpuðust ágætar umræður m.a. um verðtryggingu lána, en áhyggjur fundarmanna af hækkandi lánum var augljós og fundarmenn vildu vita hvert Alþýðusamband Íslands stefndi í þeim málum.

Það er ljóst að formaður Verkalýðsfélags Akraness er ekki sammála forseta ASÍ varðandi verðtrygginguna enda kom það fram í ræðu sem formaður félagsins hélt á fundinum.  Þetta sagði formaður VLFA m.a. í sinni ræðu:

"Það olli mér hins vegar gríðarlegum vonbrigðum að ekki skyldi hafa verið tekin ákvörðun um að frysta verðtrygginguna á meðan mesti verðbólgu skellurinn dynur á skuldsettum heimilum þessa lands.  Það liggur fyrir að hinir ýmsu aðilar hafa spáð því að verðbólgan fari í 20 til 30% á næstu mánuðum, þar á meðal hagdeild ASÍ. 

Ég skil ekki af hverju ekki er hægt að frysta verðtrygginguna  meðan mesta verðbólguskotið gengur yfir því flestum aðilum ber saman um að verðbólgan muni ganga hratt niður á næsta ári.  Ég geri mér grein fyrir því að með því að frysta ekki verðtrygginguna er verið að verja Íbúðalánasjóð, bankastofnanir, lífeyrissjóðina og sparifjáreigendur.  Ég spyr af hverju eru lánveitendur bæði með belti og axlabönd á meðan skuldsett heimili sem eru með verðtryggð lán taka alla ábyrgð á sínar herðar? Vart er verið gæta hags heimilanna með því að frysta ekki verðtrygginguna. 

Við verðum að gera okkur grein fyrir því að þeir tímar sem við horfum nú uppá eru afar afbrigðilegir og á þeirri forsendu eigum við að frysta verðtrygginguna á meðan mesta verðbólguskotið gengur yfir. 

Ég veit að forseti ASÍ er mér ekki sammála og verður bara svo að vera, en þetta er mín skoðun og ljóst að ég er ekki einn um þá skoðun".

Hægt er að lesa ræðuna sem formaður Verkalýðsfélags Akraness flutti í gær í heild sinni með því að smella hér.

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image