• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
Fréttir

Fréttir

23
Dec

Stál í stál

Nú á Verkalýðsfélag Akraness eftir að ganga frá einum kjarasamningi í þessari samningalotu, en það er kjarasamningur fyrir starfsmenn Klafa.  Starfsmenn Klafa sjá um allar upp- og útskipanir á Grundartangasvæðinu ásamt því að þjónusta bæði Norðurál og Elkem Ísland.

Eigendur Klafa eru stóriðjufyrirtækin á Grundartanga þ.e.a.s Norðurál og Elkem Ísland en þau eiga 50% hvort um sig.

Verkalýðsfélag Akraness hefur átt í viðræðum við Samtök atvinnulífsins að undanförnu vegna þessa kjarasamnings en hann rann út 1. desember sl.  Eins og fram kom hér á heimasíðunni þá samdi félagið við Elkem Ísland um nýjan kjarasamning og er sá kjarasamningur að gefa starfsmönnum 17,7% við undirskrift og uppí rúm 22% á samningstímanum.

Samtök atvinnulífsins lagði hins vegar fram tilboð að nýjum kjarasamningi Klafa fyrir nokkrum dögum en það tilboð var ekki í neinu samræmi við það sem um var samið fyrir starfsmenn Elkem fyrr í þessum mánuði.  Rétt er að það komi fram að starfsmenn Klafa voru eitt sinn starfsmenn Elkem og tóku laun eftir þeim samningi, en fyrir nokkrum árum var nokkrum deildum innan fyrirtækisins skipt upp og stofnuð fyrirtæki í kringum þær deildir.

Á þeirri forsendu er það óskiljanlegt að eigendur Klafa skuli hafa lagt fram tilboð til handa starfsmönnum Klafa sem kveður á um lakari hækkanir en um var samið hjá Elkem.  Það er ekki bara það að starfsmönnum Klafa hafi verið boðið lakari hækkanir en starfsmönnum Elkem, heldur vildu Samtök atvinnulífsins einnig að kjarasamningur Klafa yrði gerður að fyrirtækjasamningi.

Það er morgunljóst að Verkalýðsfélag Akraness mun alls ekki ganga frá samningi fyrir starfsmenn Klafa sem kveður á um lakari hækkanir og réttindi heldur en um var samið til handa starfsmönnum Elkem, frá þeirri kröfu verður ekki kvikað. 

Einnig liggur það fyrir að starfsmenn munu ekki samþykkja að breyta sínum kjarasamningi í fyrirtækjasamning.  Nú er bara að vona að eigendur Klafa og SA sjái að sér svo hægt verði að klára nýjan kjarasamning eins fljótt og kostur er, ella er allt eins líklegt að það stefni í átök til að ná fram þeirri sanngjörnu kröfu að starfsmenn Klafa fái sömu hækkanir og um var samið handa starfsmönnum Elkem Ísland fyrr í þessum mánuði. 

22
Dec

Elkem skoðar möguleika á sólarkísil verksmiðju á Grundartanga

Á vef Skessuhorns birtist þessi frétt.  Í tengslum við að Elkem á Íslandi, sem rekur Járnblendiverksmiðjuna á Grundartanga, vinnur nú að því að endurnýja starfsleyfi sitt, eru einnig uppi áform um að reisa þar sólarkísilverksmiðju. Elkem hugar nú að staðsetningu fyrir slíka verksmiðju sem framleiddi sólarrafhöðlur, m.a. í tjald- og fellihýsi.

Hörð samkeppni er um þessa nýju verksmiðju Elkem enda gæti hún skapað 200-300 störf.  Einar Þorsteinsson, forstjóri ELKEM á Íslandi, sagði í fréttum RUV að Grundartangi sé vel til þess fallinn að hýsa nýju verksmiðjuna og að í nýja starfsleyfinu sé óskað eftir heimild fyrir henni. Einar segir um sé að ræða 10.000 tonna verksmiðja, en ákvörðun um staðsetningu hennar verði tekin á næsta ári.

Verði Grundartangi fyrir valinu gæti þessi nýja verksmiðja risið innan fárra ára. Einar bendir á að margir aðrir staðir í heiminum komi einnig til greina, svo sem í Asíu og Bandaríkjunum, Kanada og víðar. Þarna sé aðallega spurning um hagstæðustu orkumöguleikana.

Einar segir að Ísland standi vel að því leyti að hér sé Elkem með járnblendiverksmiðju, en kísilsólarframleiðslan er mjög tengd slíkri framleiðslu. Einar telur líklegt að samkeppnin verði hörðust við Kanada, sökum þess að þar starfræki Elkem járnblendiverksmiðju.

Það yrði gríðarlega jákvætt ef þessi framleiðsla yrði að veruleika og myndi slík verksmiðja styrkja stoðir okkar Akurnesinga í atvinnumálum enn frekar.

22
Dec

Kjarasamningur við Launanefnd sveitarfélaga samþykktur

Á föstudaginn sl. var talið upp úr kjörkössum vegna kjarasamnings Verkalýðsfélags Akraness við Launanefnd sveitarfélaga og er skemmst frá því að segja að samningurinn var samþykktur með öllum greiddum atkvæðum.

Á miðvikudaginn sl. var haldinn kynningarfundur um samninginn og kom fram hjá fundarmönnum að miðað við aðstæður í íslensku efnahagslífi þá væri þetta ásættanlegur samningur, sérstaklega í ljósi þess að einungis væri um skammtímasamning í 9 mánuði að ræða.

Að undanförnu hefur starfsmönnum Akraneskaupstaðar í Verkalýðsfélagi Akraness fjölgað nokkuð og eru nú tæplega 100 starfsmenn félagsmenn í Verkalýðsfélagi Akraness. 

19
Dec

Uppbygging á Grundartanga

Ákjósanlegt iðnaðarsvæðiÁkjósanlegt iðnaðarsvæðiFréttabréf Verkalýðsfélags Akraness kom út í dag og er fréttabréfið borið út í öll hús og fyrirtæki á Akranesi og í nágrenni. 

Í fréttabréfinu er m.a. viðtal við Gísla Gíslason hafnastjóra Faxaflóahafna um væntanlega uppbyggingu fyrirtækja á Grundartanga.  Í viðtalinu segir Gísli að nokkrir aðilar hafi þegar ákveðið að hefja starfsemi á Grundartanga og vonast er til að a.m.k tveir þeirra hefjist handa við húsbyggingar á komandi ári.

Einnig kemur fram hjá Gísla að þó nokkur áhugi sé hjá fleiri aðilum sem eru með spennandi verkefni en ekki sjái fyrir endann á því hvort takist að klófesta þá aðila.  Gísli telur að Grundartangasvæðið sé ákjósanlegt fyrir ýmis konar iðnaðarstarfsemi. 

Formaður félagsins tekur undir það með hafnastjóranum að Grundartangasvæðið sé ákjósanlegt fyrir iðnaðarstarfsemi af ýmsum toga og telur hann að til lengri tíma litið séu atvinnuhorfur á félagssvæði VLFA nokkuð góðar sé tekið tillit til þess ástands sem nú ríkir í íslensku atvinnulífi.

Hægt er að lesa fréttabréfið með því að smella HÉR

18
Dec

Kjarasamningur milli SSÍ og LÍÚ undirritaður

Þann 17. desember 2008 var undirritaður nýr kjarasamningur milli Sjómannasambands Íslands og Landssambands ísl. útvegsmanna.

Samningurinn verður til umfjöllunar á aðalfundi Sjómannadeildar Verkalýðsfélags Akraness mánudaginn 29. desember nk. Samningurinn er framlenging á síðast gildandi samningi með þeim breytingum sem fram koma í þessum samningi.

Atkvæði um kjarasamninginn verða greidd hjá hverju aðildarfélagi fyrir sig og á atkvæðagreiðslu að ljúka fyrir áramót. Í upphafi næsta árs verða atkvæði síðan talin sameiginlega hjá aðildarfélögum SSÍ um samninginn.

Verði samningurinn samþykktur hækkar kauptrygging og launaliðir frá 1. janúr 2009. Hægt er að nálgast samninginn og kaupgjaldsskrána á heimasíðu Sjómannasambandsins http://www.ssi.is/

17
Dec

Hækkanir á launum starfsmanna Norðuráls skýrast í byrjun janúar

Þegar gengið var frá kjarasamningi Norðuráls árið 2005 var í honum kveðið á um að laun starfsmanna Norðuráls taki að meðaltali sömu breytingum fyrir árið 2009 og laun samkvæmt kjarasamningum stéttarfélaga og vinnuveitenda í sambærilegum orkufrekum iðnaði.

Fjölmargir starfsmenn Norðuráls hafa haft samband við skrifstofu félagsins að undanförnu til að fá upplýsingar um hver hækkunin verður á launum þeirra frá og með 1. janúar 2009.

Formaður félagsins hefur svarað starfsmönnum Norðuráls á þann veg að hann líti svo á að þær meðaltals hækkanir sem komu til handa starfsmönnum Elkems og Alcan komi til hækkunar hjá starfsmönnum Norðuráls.  Annað komi ekki til greina af hálfu Verkalýðsfélags Akraness. Einfaldlega vegna þess að skilningur Verkalýðsfélags Akraness á þessari grein er alveg hvellskýr, hann er sá að laun starfsmanna Norðuráls taki að meðaltali sömu hækkunum og um samdist við Elkem Ísland og Alcan nýverið enda séu það fyrirtæki sem eru í sambærilegum orkufrekum iðnaði og eru að selja sínar afurðir á erlendum mörkuðum.

Forsvarsmenn Norðuráls eru þessa dagana að skoða nýgerða kjarasamninga í orkufrekum iðnaði og mun niðurstaða um hver hækkun starfsmanna Norðuráls er liggja fyrir í byrjun janúar.

Kjarasamningur Elkem gaf starfsmönnum frá 17% hækkun upp í rúm 18% við undirskrift samningsins eða frá 46.000 uppí 56.000 króna hækkun á mánuði við undirskrift.

16
Dec

Kynningarfundur fyrir starfsmenn sveitarfélaga sem eru félagsmenn í Verkalýðsfélagi Akraness

Stjórn Verkalýðsfélags Akraness vill minna þá félagsmenn sína sem eru starfsmenn sveitarfélaga á að kynningarfundur vegna nýs kjarasamnings Verkalýðsfélags Akraness við launanefnd sveitarfélaganna fyrir hönd sveitarfélaganna á starfssvæði félagsins verður haldinn miðvikudaginn 17. desember kl. 20:00 í Skrúðgarðinum.

Hægt verður að kjósa um samninginn að aflokinni kynningu. Einnig verður hægt að kjósa fimmtudaginn 18. og föstudaginn 19. desember á skrifstofu félagsins.

Þeir félagar sem starfa eftir samningnum eru eindregið hvattir til að mæta.

15
Dec

Fundað um hækkanir á strætófargjöldum

Fundur var haldinn á laugardaginn var í Skrúðgarðinum vegna þeirrar ákvörðunar að hækka strætófargjöld á milli Akraness og Reykjavíkur. En eins og fram hefur komið hér á heimasíðunni þá eru stakar ferðir að hækka úr 280 kr. í 840 kr. eða sem nemur 200% hækkun. Eðlilega gætir mikillar gremju á meðal þeirra aðila sem nýta sér þessa þjónustu hjá Strætó bs. og á þeirri forsendu var boðað til þessa fundar.

Á fundinum var óskað eftir skýringum frá bæjaryfirvöldum. Frá bæjaryfirvöldum mætti  Gísli S. Einarsson bæjarstjóri og Karen Jónsdóttir forseti bæjarstjórnar. Einnig voru á fundinum tveir fulltrúar frá minnihlutanum, þau Guðmundur Páll Jónsson og Hrönn Ríkharðsdóttir.

Fram kom í máli Gísla og Karenar að þetta væri einhliða ákvörðun Strætó bs. og því miður hefði ekki tekist að hnekkja þeirri ákvörðun. Einnig kom fram í máli þeirra að Akraneskaupstaður hafi greitt þessa þjónustu niður um 30 milljónir á síðasta ári og áætlað væri að svo yrði áfram.

Það fór ekki á milli mála að þungt hljóð var í fólki vegna þessarar ákvörðun og kom fram í máli einstakra fundarmanna að það væri alveg spurning hvort þeir myndu áfram nýta sér þjónustu Strætó sökum þessara hækkana.

Formaður félagsins lagði til að bæjaryfirvöld myndu funda með eigendum Strætó bs. sem eru sjö sveitarfélög á höfuðborgarsvæðinu til að reyna að fá þessari ákvörðun stjórnar Strætó bs. breytt því það er alveg ljóst að hér eru miklir hagsmunir í húfi fyrir þá einstaklinga sem stunda nám og vinnu á höfuðborgarsvæðinu.

Vera Knútsdóttir og Guðríður Haraldsdóttir hafa ritað bæjarstjórn bréf um þetta mál, og einnig stjórn Strætó bs. Hægt er að lesa þau bréf hér.

12
Dec

Þolinmæði alþýðu þessa lands er að þrotum komin

Hvað eiga þessi lög sem Alþingi afgreiddi í gær að þýða? Hækkun gjalda á áfengi, tóbaki og bifreiðum auk kílómetragjalds og vörugjalds af ökutækjum og eldsneyti mun þýða umtalsverða hækkun á verðbólgu.

Hækkun þessara gjalda mun leiða til þess að neysluvísitalan mun hækka um 0,4-0,5%. Þetta koma m.a. fram hjá sérfræðingum Hagstofu Íslands í hádegisfréttum RUV.

Afleiðing þessa er að verðtryggt lán upp á eina milljón króna mun hækka um 5 þús.kr. og 20 milljón króna verðtryggt húsnæðislán því hækka um 100 þúsund krónur. Samtals munu verðtryggð lán heimilanna, sem eru 1.400 milljarðar króna, hækka um 6-7 milljarða króna bara vegna þessarar ákvörðunar og þá eru ótaldar aðrar gjaldskrárhækkanir eins og afnotagjöld RÚV o.fl.

Áttar ríkisstjórn Íslands sig ekki á því að það er ekki hægt að leggja meiri byrðar á skuldsett heimili landsins. Formaður Verkalýðsfélags Akraness spyr: varla eru þessar hækkanir hluti af aðgerðapakka ríkisstjórnarinnar til bjargar heimilum landsins.  Svo er bara bíða og sjá hvaða álögur sveitarfélögin munu leggja á almenning, en það liggur fyrir að mörg þeirra eiga í umtalsverðum rekstrarvandræðum vegna þess ástands sem nú ríkir í íslensku efnahagslífi.

Það er alveg ljóst að þolinmæði alþýðu þessa lands er að þrotum komin.  Það er ótrúlegt að engin hafi verið látinn sæta ábyrgð á þessu grafalvarlega ástandi sem ríkir í íslensku samfélagi og það á sama tíma og fólk verður fyrir skerðingu á sínum launum, atvinnumissi og verðlag á vöru og þjónustu stórhækkar og allur þessi vandi sem blasir við íslenskri þjóð er vegna græðgisvæðingar nokkurra fjárglæframanna. 

12
Dec

Skagamenn æfir af reiði vegna hækkunar á strætófargjöldum

Það er óhætt að segja að það sjóði á þeim einstaklingum sem hafa verið að nýta sér þjónustu Skagastrætó en nú liggur fyrir að fargjaldið er að hækka úr 280 kr. í 840 kr. sem er 200% hækkun. Einnig er verið að fækka stoppistöðvum samkvæmt þeim upplýsingum sem félagið hefur aflað sér.

Fjölmargir félagsmenn Verkalýðsfélags Akraness nýta sér strætó þannig að ljóst er að hér er um mikla hagsmuni að ræða fyrir okkar félagsmenn sem og alla Akurnesinga. Bæjaryfirvöld á Akranesi þurfa svo sannarlega að útskýra fyrir Akurnesingum á hvaða forsendu þessi hækkun er byggð því það er ljóst að sá hópur sem hefur verið að nýta sér þessa þjónustu mun ekki sætta sig við þessa hækkun.

Samkvæmt upplýsingum sem formaður hefur þá ætla þeir sem hafa verið að nýta sér þessa þjónustu að hittast á Skrúðgarðinum á morgun kl. 15:00 og fara yfir málið. Einnig verður óskað eftir því að bæjarfulltrúar mæti til að skýra þessa ótrúlegu hækkun því með henni er verið að kippa grundvellinum undan fólki sem stundar nám og atvinnu á höfuðborgarsvæðinu.

Á þeirri forsendu krefst stjórn Verkalýðsfélags Akraness þess að þessi hækkun verði endurskoðuð og dregin til baka að stórum hluta.

Hér má lesa skrif Guðríðar Haraldsdóttur um málið.

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image