• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
19
Feb

Frábær fundur í Vinaminni í gærkveldi

Á milli 60 og 70 manns mættu á fræðslufund um efnahagsmál og framtíðarhorfur í íslensku samfélagi sem haldinn var í gær miðvikudaginn 18. febrúar í safnaðarheimilinu Vinaminni á Akranesi.  Fundurinn hófst  kl 20:00 og lauk ekki fyrir kl 22:30.

Það voru Borgarfjarðarprófastsdæmi og Verkalýðsfélag Akraness sem efndu til þessa fræðslufundar um efnahagsmál og horfur á Íslandi og var fundurinn öllum opinn.

Þeir Vilhjálmur Bjarnason formaður félags fjárfesta og Stefán Einar Stefánsson guðfræðingur og viðskiptasiðfræðingur fluttu erindi á fundinum.  Erindi Vilhjálms fjallaði um efnahagsmál þjóðarinnar - stöðuna, tilurðina og horfurnar, erindi Stefáns var um Mammon, Guð og manneskjan og viðskiptasiðferði.

Vilhjálmur Bjarnason sagði að ljóst væri að allir eftirlitsaðilar hefðu brugðist hlutverki sínu hvað varðar eftirlit með fjármálakerfinu.  Hann sagði einnig mjög mikilvægt væri að fram færi uppgjör vegna þess hruns sem orðið hefði samhliða hruni bankanna og miklar væntingar væru bundnar við ráðningu sérstaks saksóknara sem á að rannsaka hvort lögbrot hafi verið framið í kjölfar bankahrunsins.  Vilhjálmur sagðist aðspurður ekki vera í neinum vafa að lögbrot hafi verið framið í starfsemi bankanna. 

Stefán Einar Stefánsson viðskiptasiðfræðingur fjallaði að stórum hluta um siðferði í viðskiptum í sínu erindi.  Erindi Stefáns var afar fróðlegt og kom til að mynda fram hjá Stefáni að hann taldi það hafa verið mikil mistök hjá forseta Íslands að neita að staðfesta fjölmiðlalögin á sínum tíma.  Stefán taldi að það væri afar óheppilegt að stór hluti fjölmiðla í landinu væru á hendi sömu aðila. 

Eftir að þeir félagar voru búnir að flytja sín erindi þá var opnað fyrir fyrirspurnir og komu fjölmargar spurningar til þeirra Vilhjálms og Stefáns sem þeir svöruðu eftir bestu getu og vitund.

Í lokin sagði sr. Þorbjörn Hlynur Árnason prófastur að mjög mikilvægt væri að þjóðin yrði að geta fyrirgefið og sátt þyrfti að nást íslensku samfélagi.  En það kom einnig fram í hans lokaávarpi að kalla þyrfti fram sannleikann varðandi hrun íslensks efnahagslífs og þeir aðilar sem hafa brotið lög verða að sæta ábyrgð.

Fundarstjórar voru Vilhjálmur Birgisson, formaður Verkalýðsfélags Akraness og sr. Þorbjörn Hlynur Árnason prófastur.

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image