• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
Fréttir

Fréttir

26
Feb

Samkomulag SA og ASÍ ekki í atkvæðagreiðslu

Í gær náðist samkomulag á milli ASÍ og SA um frestun á endurskoðun og framlengingu kjarasamninga. Þetta þýðir að þeim launahækkunum sem hefðu átt að koma inn þann 1. mars nk. hefur nú verið frestað. Í samkomulaginu felst að ákvörðun um framlengingu og endurskoðun verði tekin eigi síðar en 30. júní á þessu ári. 

Þrátt fyrir frestun launahækkana náðist mikilvægur áfangi er varðar kauptryggingu lægstu launa. Frá og með 1. mars hækkar lágmarkstekjutrygging úr kr. 145.000 í kr. 157.000 eða um 12.000 krónur. Þessi upphæð verður lágmarkstekjutrygging fyrir fullt starf (173,33 tíma á mánuði).  Þetta var einn af þeim þáttum sem fimm aðildarfélög á landsbyggðinni hafa verið að benda á, að það gangi alls ekki upp að vera með lágmarkslaun lægri en atvinnuleysisbætur og því mikilvægt að þessi áfangi skuli hafa náðst.

Stjórn og trúnaðarráð Verkalýðsfélags Akraness vildi ekki fresta endurskoðun og þeim launahækkunum sem áttu að koma til 1. mars nk.  Því miður taldi meirihluti verkalýðshreyfingarinnar þá leið heppilegri og líklegri til árangurs, en því var VLFA ósammála.  Með öðrum orðum, það fór fram lýðræðisleg umræða um hvaða leið skyldi farin varðandi frestun launahækkana og fimm stéttarfélög á landsbyggðinni urðu undir í sinni skoðun og við því er ekkert að gera, enda virkar lýðræðið með þeim hætti að meirihlutinn ræður.

Hins vegar er formaður félagsins afar ósáttur við þá ákvörðun samninganefndar ASÍ að bera ekki samkomulagið sem gert var við Samtök atvinnulífsins undir þá félagsmenn sem vinna eftir umræddum kjarasamningum í allsherjaratkvæðagreiðslu á meðal þeirra.  Þessi fimm félög á landsbyggðinni höfðu lagt fram tillögu á formannafundi ASÍ þess efnis að slíkt skyldi gert þegar samkomulagið lægi fyrir við SA. Því miður varð samninganefnd ASÍ ekki við þessari ósk þeirra fimm landsbyggðafélaga.

Það geta ekki kallast lýðræðisleg vinnubrögð að fara ekki með þetta stórar ákvarðanir í atkvæðagreiðslu, ákvarðanir sem lúta að því að vinnandi fólk fær ekki sínar umsömdu launahækkanir samkvæmt gildandi kjarasamningi.

Almenningur í þessu landi kallar eftir því að ástunduð séu lýðræðisleg vinnubrögð í íslensku samfélagi, þau vinnubrögð að leggja frestun kjarasamninga ekki undir hinn almenna félagsmann í allsherjaratkvæðagreiðslu flokkast ekki sem lýðræðisleg vinnubrögð, svo mikið er víst.   

25
Feb

Öskudagur

Mótmælendur, trúðar, ungabörn, draugar, bændur og búalið eru á meðal þeirra furðuvera sem litið hafa inn á skrifstofu félagsins í dag, öskudag, og skemmt starfsfólki með söng og einstaka dansspori. Þeim hefur að sjálfsögðu verið vel launað fyrir vikið.

Hér má sjá nokkrar myndir sem teknar voru á skrifstofunni í dag.

24
Feb

Forseti ASÍ sendir fimm aðildarfélögum sínum bréf

Boðaður hefur verið fundur fimm félaga innan Así vegna erindis sem borist hefur frá forseta ASÍ þar sem félögin eru spurð hvort þau óski að segja sig frá samfloti aðildarfélaga ASÍ.

Formenn viðkomandi félaga eru nú að leita samráðs við samninganefndir félaganna og samverkafólk sitt hjá félögunum.

Fundurinn í dag verður símafundur en búast má við að félögin haldi fund á morgun eða fimmtudag þar sem formenn og aðrir í forystu félaganna hittist til að ræða óvænt erindi forseta ASÍ.

23
Feb

Samningur starfsmanna Sementsverksmiðjunnar samþykktur

Rétt í þessu var að ljúka kynningarfundi um nýgerðan kjarasamning starfsmanna Sementsverksmiðjunnar. Að aflokinni kynningu voru greidd atkvæði um samninginn og er skemmst frá því að segja að hann var samþykktur með öllum greiddum atkvæðum nema einu.

Fram kom hjá fundarmönnum að þeir voru almennt ánægðir með samninginn og þá sérstaklega í ljósi þess ástands sem nú ríkir á íslenskum vinnumarkaði.

23
Feb

Hvaða hagræðissjónarmið ráða hér för?

Eins og flestir vita þá gaf sjávarútvegsráðherra á dögunum út 15.000 tonna rannsóknarloðnukvóta en í hlut HB Granda komu um 2.800 tonn.  Í frétt á heimasíðu HB Granda kemur fram að áhöfnin á Lundey NS hafi á föstudaginn sl. haldið til loðnuveiða út af Reykjanesi og fengust þar 1.100 til 1.200 tonn af loðnu í þremur köstum.

Einnig kom fram í fréttinni að skipið væri á leiðinni til Vopnafjarðar þar sem loðnan fer til hrognatöku, í frystingu og bræðslu.  Það kom líka fram á heimasíðunni að allur aflinn fari til hrognatöku hjá fiskiðjuveri HB Granda á Vopnafirði. 

Þessa stundina er verið að landa úr Lundey NS á Vopnafirði, Faxi RE er á leiðinni með loðnu til hrognatöku á Vopnafirði og Ingunn Ak er að veiðum við Reykjanesið þessa stundina.

Formaður félagsins gerir að sjálfsögðu ekki athugasemdir við það að fyrirtækið leiti allra leiða til að hagræða í rekstri sínum og ef það er styttra fyrir uppsjávarskip fyrirtækisins að sigla með aflann til vinnslu annars staðar en á Akranesi þá er ekkert við því að segja.  Enda eiga hagræðissjónarmið fyrirtækisins ávalt að vera höfð að leiðarljósi þegar tekin er ákvörðun um hvar vinna á aflann. 

Forsvarsmenn HB Granda verða hins vegar að útskýra það fyrir okkur Skagamönnum á hvað forsendum þeir taka ákvörðun um að láta skip fyrirtækisins sigla með aflann í 35 tíma og það bara aðra leiðina til Vopnafjarðar til hrognatöku.

Eins og áður hefur komið fram þá er loðnan að veiðast við Reykjanesið og það tekur skipin einungis 2 tíma að sigla með aflann á Akranes.  Samkvæmt upplýsingum sem formaður hefur aflað sér þá er allt klárt í vinnslunni hér á Akranesi til að hefja hrognatöku þannig að það er ekki skýringin á því að siglt er með aflann til Vopnafjarðar.

Formaður spyr: hvaða hagræðissjónarmið ráða því að skip fyrirtækisins eru látin sigla með afla sinn í 35 tíma og það með ærnum olíukostnaði?  Það er alveg ljóst að nokkrar milljónir myndu sparast í olíukostnað yrðu skipin látin landa á Akranesi. 

Það hljóta að vera einhverjar eðlilegar skýringar á þessari ákvörðun forsvarsmanna HB Granda en því miður sér formaður félagsins þær ekki. Óhagræðið æpir á fólk þegar það sér skip fyrirtækisins á veiðum örfáar mílur frá Akranesi og þau síðan látin sigla í 35 tíma með aflann til vinnslu. Á þeirri forsendu er mikilvægt að skýring komi á þessari ákvörðun forsvarsmanna HB Granda

20
Feb

Rekstur Norðuráls er á heimsmælikvarða

Tap varð á rekstri Century, móðurfélags Norðuráls á Grundartanga, á síðasta ári. Var það fyrst og fremst vegna reiknaðra liða, svo sem skatta- og afleiðusamninga. 

Hagnaður var hins vegar af reglubundnum rekstri, að sögn Ágústar Hafberg framkvæmdastjóra viðskiptaþróunar og samskipta hjá Norðuráli.  Hann segir að rekstur Norðuráls á Grundartanga hafi gengið vel í fyrra. Þar voru framleidd 272.000 tonn af áli og var útflutningsverðmæti þess ríflega 60 milljarðar króna.

“Veruleg verðlækkun sem orðið hefur á áli hefur að sjálfsögðu mikil áhrif á rekstrargrundvöll álvera og hefur Century þegar hætt framleiðslu í einu álveri í Bandaríkjunum sem komið var til ára sinna og því ekki lengur samkeppnisfært við núverandi áðstæður. 

 Staða Norðuráls er hinsvegar mjög traust enda er reksturinn á Grundartanga á heimsmælikvarða.  Brugðist hefur verið við erfiðum aðstæðum með lækkun kostnaðar og hagræðingu en engin áform eru uppi um niðurskurð framleiðslu hjá Norðuráli,” segir Ágúst.

20
Feb

Samið við starfsmenn Sementsverksmiðjunnar

Samninganefnd starfsmanna Sementsverksmiðjunnar skrifaði undir framlengingu á kjarasamningi starfsmanna Sementsverksmiðjunnar í gær í húsakynnum ríkissáttasemjara.  Samningurinn gildir frá 1. febrúar 2009 til 31.desember 2010.

Frá 1. febrúar 2009 hækka launataxtar um 3,25% og frá og með 1. ágúst 2009 munu launataxtar hækka  í kringum 4%.  1. janúar 2010 munu mánaðarlaun hækka um 2,5%

Orlofs- og desemberuppbætur munu hækka úr 169.468 kr. í 202.000 eða um 32.532 kr. á ári.  Einnig verður greidd sérstök eingreiðsla uppá 20.000 kr. við næstu launaútborgun eftir gildistöku samningsins.

19
Feb

Frábær fundur í Vinaminni í gærkveldi

Á milli 60 og 70 manns mættu á fræðslufund um efnahagsmál og framtíðarhorfur í íslensku samfélagi sem haldinn var í gær miðvikudaginn 18. febrúar í safnaðarheimilinu Vinaminni á Akranesi.  Fundurinn hófst  kl 20:00 og lauk ekki fyrir kl 22:30.

Það voru Borgarfjarðarprófastsdæmi og Verkalýðsfélag Akraness sem efndu til þessa fræðslufundar um efnahagsmál og horfur á Íslandi og var fundurinn öllum opinn.

Þeir Vilhjálmur Bjarnason formaður félags fjárfesta og Stefán Einar Stefánsson guðfræðingur og viðskiptasiðfræðingur fluttu erindi á fundinum.  Erindi Vilhjálms fjallaði um efnahagsmál þjóðarinnar - stöðuna, tilurðina og horfurnar, erindi Stefáns var um Mammon, Guð og manneskjan og viðskiptasiðferði.

Vilhjálmur Bjarnason sagði að ljóst væri að allir eftirlitsaðilar hefðu brugðist hlutverki sínu hvað varðar eftirlit með fjármálakerfinu.  Hann sagði einnig mjög mikilvægt væri að fram færi uppgjör vegna þess hruns sem orðið hefði samhliða hruni bankanna og miklar væntingar væru bundnar við ráðningu sérstaks saksóknara sem á að rannsaka hvort lögbrot hafi verið framið í kjölfar bankahrunsins.  Vilhjálmur sagðist aðspurður ekki vera í neinum vafa að lögbrot hafi verið framið í starfsemi bankanna. 

Stefán Einar Stefánsson viðskiptasiðfræðingur fjallaði að stórum hluta um siðferði í viðskiptum í sínu erindi.  Erindi Stefáns var afar fróðlegt og kom til að mynda fram hjá Stefáni að hann taldi það hafa verið mikil mistök hjá forseta Íslands að neita að staðfesta fjölmiðlalögin á sínum tíma.  Stefán taldi að það væri afar óheppilegt að stór hluti fjölmiðla í landinu væru á hendi sömu aðila. 

Eftir að þeir félagar voru búnir að flytja sín erindi þá var opnað fyrir fyrirspurnir og komu fjölmargar spurningar til þeirra Vilhjálms og Stefáns sem þeir svöruðu eftir bestu getu og vitund.

Í lokin sagði sr. Þorbjörn Hlynur Árnason prófastur að mjög mikilvægt væri að þjóðin yrði að geta fyrirgefið og sátt þyrfti að nást íslensku samfélagi.  En það kom einnig fram í hans lokaávarpi að kalla þyrfti fram sannleikann varðandi hrun íslensks efnahagslífs og þeir aðilar sem hafa brotið lög verða að sæta ábyrgð.

Fundarstjórar voru Vilhjálmur Birgisson, formaður Verkalýðsfélags Akraness og sr. Þorbjörn Hlynur Árnason prófastur.

18
Feb

Ákvörðun um hvalveiðar stendur

Steingrímur J. Sigfússon sjávarútvegsráðherra tilkynnti í sjávarútvegsráðuneytinu í dag að ákvörðun Einars K. Guðfinnssonar, forvera síns, standi óbreytt fyrir yfirstandandi ár. Á hinn bóginn tók hann af öll tvímæli um að hvalveiðimenn geti ekki gengið að því sem vísu að ákvörðun fyrrverandi ráðherra standi hvað varðar veiðar næstu fjögur ár.

Þetta verða að teljast afar jákvæð tíðindi og ljóst að með þessari ákvörðun mun störfum hér á Vesturlandi fjölga töluvert og ekki veitir af í þeim hremmingum sem atvinnulífið á við að etja þessa daganna.  Það er einnig ljóst að sú harða barátta sem margir hagsmunaaðilar hafa háð að undanförnu hefur skilað árangri. 

18
Feb

Sjávarútvegsráðherra hittir sjávarútvegsnefnd í dag kl. 12:30

Formaður félagsins hefur heimildir fyrir því að Steingrímur J. Sigfússon sjávarútvegsráðherra muni hitta sjávarútvegsnefnd í dag kl. 12:30.  Væntanlega mun reglugerð sem fyrrverandi sjávarútvegsráherra gaf út 27. janúar um auknar hvalveiðar verða til umræðu á þeim fundi.
 
Það er líklegt að sjávarútvegsráðherra muni tilkynna í kjölfarið hvort hann láti ákvörðun fyrrverandi sjávarútvegsráðherra standa varðandi heimild til aukinnar hvalveiða.
 
Eins fram kom hér á heimasíðunni þá var haldinn opinn bæjarmálafundur þann 5. febrúar sl. um hvalveiðar með öllum þingmönnum NV kjördæmis og einnig mætti sjávarútvegsráðherra á þann fund.  Ekki fór á milli mála að víðtækur stuðningur var á meðal fundarmanna um að reglugerðin frá 27. janúar um auknar hvalveiðar myndi standa óhögguð.
 
Það liggur ljóst fyrir að ef hvalveiðar verða heimilaðar á grundvelli fyrirliggjandi reglugerðar þá mun það verða umtalsverð innspýting inní atvinnulífið hér á Vesturlandi enda er talið að auknar hvalveiðar geti skapað allt að 300 störf og veitir ekki af þegar yfir 500 manns eru án atvinnuá Vesturlandi í dag. 
 

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image