• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
Fréttir

Fréttir

23
Mar

Starfsfólk hrognavinnslunnar Vignis G. Jónssonar fær áður umsamdar launahækkanir

Formaður félagsins hefur í morgun haft samband við nokkur fyrirtæki vegna þeirrar ákvörðunar HB Granda að koma strax með áður umsamdar launahækkanir til handa starfsfólki.

Eitt af þeim fyrirtækjum sem formaður hafði samband við í morgun er að skoða hvort fyrirtækið muni flýta áður umsömdum launahækkunum til handa starfsmönnum og mun niðurstaða í því máli liggja fyrir innan örfárra daga.

Það er skemmst frá því að segja að þegar að haft var samband við hrognavinnslu Vignis G. Jónssonar á Akranesi þá var formanni tjáð að fyrirtækið hefði tilkynnt starfsmönnum sínum í síðustu viku að áður umsamdar launahækkanir myndu taka gildi frá og með 1. mars sl. eins og samningar kváðu á um.

Stjórn Verkalýðsfélags Akraness vill taka ofan fyrir forsvarsmönnum þessa góða rótgróna fjölskyldufyrirtækis þar sem starfa nú um 30 manns. Ljóst er að þessi ákvörðun forsvarsmanna fyrirtækisins um launahækkun mun koma því góða starfsfólki sem þar starfar klárlega til góða.

Stjórn Verkalýðfélags Akraness vill halda áfram að skora á öll fyrirtæki sem hafa fjárhagslega burði til að standa við áður umsamdar launahækkanir, að láta þær taka gildi strax.

Það er ljóst að til eru fyrirtæki sem standa vel og hafa, eins og Verkalýðfélag Akraness og 5 önnur landsbyggðarfélög hafa bent á, alla burði til að standa við kjarasamninginn sem gerður var 17. febrúar 2008. Nú þegar hafa tvö þeirra brugðist snarlega við og hækkað laun síns fólks. Ljóst er að fyrirtæki eru hvert af öðru að svara kalli Verkalýðsfélags Akraness um að standa við þann samning og ljóst að sú mikla vinna sem félagið hefur lagt í þessi mál er að skila árangri, íslensku verkafólki til hagsbóta.

20
Mar

Fiskvinnslufólk HB Granda fær 13.500 kr. hækkun

Rétt í þessu var að ljúka fundi með forstjóra HB Granda, starfsmönnum fyrirtækisins á Akranesi og formanni Verkalýðsfélags Akraness. Eins og fram hefur komið í fréttatilkynningu þá hefur stjórn HB Granda ákveðið að láta áður umsamdar launahækkanir upp á 13.500 kr. taka gildi eins og samningurinn kvað á um.

Formaður Verkalýðsfélags Akraness sagði á fundinum að hann fagnaði innilega þessari ákvörðun forsvarsmanna HB Granda og benti á að þetta væri það sem félagið hefði farið fram á þegar að í ljós hefði komið að fyrirtækið væri að skila ágætis afkomu.

Það fór ekki á milli mála að starfsmenn fyrirtækisins voru afskaplega ánægðir með þessi málalok og endurspeglaðist það í lófaklappi sem fylgdi í kjölfarið á tilkynningu um að laun starfsmanna myndu hækka eins og kjarasamningar kvæðu á um.

Ljóst er að sú vinna sem Verkalýðsfélag Akraness hefur lagt í þetta mál hefur nú skilað starfsmönnum fyrirtækisins umtalsverðum ávinningi.

Félagið sendi stjórn HB Granda bréf þar sem félagið fagnaði góðri afkomu fyrirtækisins og skoraði jafnframt á stjórn fyrirtækisins að koma með áður umsamdar launahækkanir til handa starfsmönnum í ljósi góðrar afkomu. Hægt er að lesa bréfið hér.

Verkalýðsfélag Akraness var fyrst allra félaga til að fjalla um þetta mál þann 12. mars sl. og það var gríðarlega ánægjulegt og jákvætt að finna þann mikla stuðning sem félagið hefur fengið í baráttunni í þessu máli enda hefur þessi barátta skilað fiskvinnslufólki sem starfar hjá HB Granda launahækkunum sem munu koma því til góða.

Stjórn Verkalýðsfélags Akraness vill skora á fyrirtæki sem eru vel sett að taka ákvörðun forsvarsmanna HB Granda til fyrirmyndar og láta áður umsamdar launahækkanir taka gildi strax, enda var tilgangur Verkalýðsfélags Akraness í þessu máli einvörðungu sá að bæta kjör síns fólks.

Að lokum vill félagið ítreka þakklæti til forsvarsmanna HB Granda fyrir að láta það góða starfsfólk sem hjá þeim starfar njóta ávinning af góðri afkomu fyrirtækisins og er þetta farsæll endir á þessu máli.

Hægt er að skoða myndir frá fundinum í dag með því að smella hér.

19
Mar

Launataxtahækkanir komi strax hjá fyrirtækjum sem standa vel

Fundur formanna aðildarfélaga Starfsgreinasambands Íslands sem haldinn var í dag skorar á HB Granda að láta launahækkanir upp á 13.500 krónur koma strax til framkvæmda.

Einnig  hvetur Formannafundurinn öll fyrirtæki sem standa vel, að láta launataxtahækkanirnar koma til framkvæmda strax.

Fram kom í máli formanns að hann væri afar ósáttur með ályktun frá miðstjórn ASÍ frá því í gær.  Í þeirri ályktun kemur meðal annars fram að miðstjórnin skori á HB Granda að draga arðgreiðslunar til baka ella greiða starfsfólki áður umsamdar launahækkanir án tafar. 

Að miðstjórn ASÍ skuli leggja málið upp með þeim hætti að ef ekki verði greiddur út arður til hluthafa þá þurfi ekki að greiða starfsmönnum áður umsamdar launahækkanir er óskiljanleg nálgun.  Rædd var við formann félagsins í morgunfréttum rúv í morgun hægt að hlusta hér

Formaður Verkalýðsfélags Akraness sagði einnig á formannafundinum í dag að það væri gríðarlega jákvætt að HB Grandi væri að skila hagnaði uppá 2,3 milljarða og á þeirri forsendu ætti fyrirtækið að greiða áður umsamdar launahækkanir til handa starfsmönnum. 

Líflegar og góðar umræður urðu á fundinum í dag og mikil samstaða um að álykta um málið. Fundurinn samþykkti einróma eftirfarandi ályktun:

„Sú ávörðun stjórnar HB Granda, að leggja til að greiða hluthöfum 8% arð er forkastanleg og óásættanleg með öllu í því ástandi sem nú ríkir. SGS skorar á fyrirtækið að láta launahækkanir upp á 13.500 krónu koma strax til framkvæmda.

Vissulega eru til fyrirtæki, eins og HB Grandi, sem vel geta staðið undir þeim kjarabótum sem hefðu komið til framkvæmda 1. mars s.l. ef kjarasamningar hefðu verið framlengdir. Formannafundurinn hvetur þess vegna þau fyrirtæki sem standa vel, að láta launataxtahækkanirnar koma til framkvæmda strax.

Launafólk á Íslandi hefur ekki vikist undan því að bera ábyrgð í samfélaginu. Á sama hátt krefst formannafundurinn þess að atvinnulífið í landinu, með samtök sín í farabroddi, axli einnig samfélagslega ábyrgð.“

18
Mar

Málefni lífeyrissjóðanna og arðgreiðslur HB Granda ræddar við formann félagsins

Í gær var viðtal við formann félagsins í Íslandi síðdegis á Bylgjunni. Til umfjöllunar var starfsemi lífeyrissjóðanna og þau ofurlaun sem forstjórar, framkvæmdastjórar og stjórnarformenn sumra sjóðanna hafa fengið greitt fyrir störf sín. Stjórn Verkalýðsfélags Akraness hefur oft fjallað um málefni lífeyrissjóðanna á stjórnarfundum og lagt fram gagnrýni bæði á áðurnefnd ofurlaun og einnig aðkomu atvinnurekenda að stjórnum sjóðanna.   Það er mat stjórnar VLFA að atvinnurekendur eigi ekkert með að véla með lífeyri verkafólks og ómögulegt sé að treysta því að fjárfestingarstefna sjóðanna litist ekki af setu atvinnurekenda í stjórnum þeirra. Einnig fjallaði formaður um málefni HB Granda og fyrirhugaðar arðgreiðslur til hluthafa. Hægt er að hlusta á viðtalið hér.

Í kvöldfréttum Stöðvar 2 í gær var einnig fjallað um fyrirhugaðar arðgreiðslur HB Granda og rætt við Aðalstein Baldursson sviðsstjóra matvælasviðs Starfsgreinasambandsins og formann Framsýnar á Húsavík þar sem hann segir m.a. HB Granda eiga að sjá sóma sinn í því að hætta við fyrirhugaða arðgreiðslu og láta hana þess í stað renna til starfsmanna í formi launahækkunar. Hægt er að horfa á fréttina hér.

17
Mar

Óskar eftir utandagskrárumræðu um arðgreiðslur HB Granda

Kristinn H. Gunnarsson alþingismaður hefur óskað eftir því við forsætisráðherra að fram færi hið fyrsta umræða utan dagskrár á Alþingi um arðgreiðslur til eigenda HB Granda hf og frestun kauphækkunar launafólks.

Kristinn vekur í þessu sambandi athygli á því að fyrri ríkisstjórn kom til móts við útgerðir í landinu með því að lækka veiðigjald fyrir aflaheimildir. Þetta var gert þegar aflaheimildir í þorski voru skertar úr 190 þúsundum tonnum í 130 þúsund tonn. „Ætla má að ávinningur HB Granda af lækkuninni sé um 60 milljónir króna á ári. Fleira má nefna sem stjórnvöld hafa beitt sé fyrir og gagnast fyrirtækjum í sjávarútvegi,“ segir Kristinn H. Gunnarsson alþingismaður.

Heimild Skessuhorn

17
Mar

Höfðu landsbyggðarfélögin rétt fyrir sér í gagnrýni sinni á frestun á umsömdum launahækkunum?

Eins og fram hefur komið hér á heimasíðunni þá var Verkalýðsfélag Akraness ásamt fimm öðrum landsbyggðarfélögum algjörlega ósammála meirihluta verkalýðshreyfingarinnar að fresta áður umsömdum launahækkunum sem áttu að taka gildi 1. mars sl.

Forseti ASÍ boðaði til tveggja funda með formönnum aðildarfélaga Alþýðusambandsins til að fjalla um það hvort fresta ætti endurskoðun og umsömdum launahækkunum og lögðust sex landsbyggðarfélög algerlega gegn því að áðurnefndum launahækkunum yrði frestað.

Rök Verkalýðfélags Akraness og hinna fimm landsbyggðarfélaganna voru þau að til væru fyrirtæki sem klárlega hefðu borð fyrir báru til að standa við þær hækkanir sem áttu að taka gildi 1. mars sl. Bentu félögin á að þau fyrirtæki sem störfuðu í útflutningi, t.d. fiskvinnslan, gætu vel komið með 13.500 kr. taxtahækkun til handa sínu fólki.

Því miður var ekki hljómgrunnur á meðal meirihluta verkalýðshreyfingarinnar fyrir þessum rökum og á þeirri forsendu gekk samninganefnd Alþýðusambands Íslands frá frestun á endurskoðun og umsömdum launahækkunum til 1. júlí nk. Eins og einnig hefur komið fram í fréttum þá lágu þessi sex aðildarfélög undir ámælum víða í verkalýðshreyfingunni fyrir að hafa haldið þessari skoðun sinni hátt á lofti og barist fyrir henni af alefli.

Gekk þetta t.a.m. svo langt að forseti ASÍ lagði til við þessi sex félög að þau myndu slíta sig frá því samkomulagi sem gert yrði við Samtök atvinnulífsins. Það er alvitað að það þýðir lítið fyrir sex félög á landsbyggðinni að ætla að reyna að fá eitthvað meira fyrir sína félagsmenn þegar 85% verkalýðshreyfingarinnar hefur ákveðið að fresta umsömdum launahækkunum til 1. júlí nk. Á þeirri forsendu var enginn grundvöllur fyrir þessi sex félög að slíta sig frá samkomulaginu.

Eins og Verkalýðfélag Akraness, fyrst allra félaga, hefur bent á er HB Grandi að skila 2,3 milljörðum í hagnað og hefur tilkynnt að til standi að greiða út 8% arð til hluthafa. Þessa ákvörðun hefur VLFA gagnrýnt harðlega og sent stjórn HB Granda áskorun um að standa við áður umsamdar hækkanir. Með þessum hagnaði HB Granda og ákvörðun þeirra um arðgreiðslu til hluthafa hefur komið í ljós að landsbyggðarfélögin höfðu rétt fyrir sér í því að til væru fyrirtæki sem klárlega gætu staðið við áður umsamdar launahækkanir. Einnig kom fram hjá Guðmundi Gunnarssyni, formanni Rafiðnaðarsambandsins í Kastljósþætti í gær, að RSÍ hafi gengið frá samkomulagi við nokkra atvinnurekendur vegna áðurnefndra hækkana sem áttu að koma til 1. mars.

Það er því gríðarlega jákvætt að forystumenn Alþýðusambands Íslands, þ.e.a.s. forseti ASÍ Gylfi Arnbjörnsson, Guðmundur Gunnarsson formaður RSÍ, Sigurður Bessason formaður Eflingar og Kristján Gunnarsson formaður SGS, skuli vera orðnir sammála þeim landsbyggðarfélögum sem hafa verið að benda á að til væru fyrirtæki sem hefðu bolmagn til að standa við gerða samninga. Allir áðurnefndir aðilar hafa skorað á HB Granda að koma með áður umsamdar launahækkanir til starfsmanna sinna og er það eins og áður sagði jákvætt að þeir skuli vera orðnir sammála landsbyggðarfélögunum.

Kristján Gunnarsson, formaður Starfsgreinasambandsins, segir í Morgunblaðinu í dag um þá ákvörðun stjórnar HB Granda að greiða hluthöfum 8% arð:

"Þetta neyðir okkur til að endurmeta þá ákvörðun að fresta endurskoðun kjarasamninga, því það er greinilega meiri innistæða fyrir hendi heldur en upp var gefin, a.m.k. í þessari starfsgrein." Þetta er akkúrat nákvæmlega það sama og formaður Verkalýðsfélags Akraness sagði á formannafundi ASÍ, að fiskvinnslan hefði bolmagn til að standa við áður umsamdar launahækkanir. Á þeirri forsendu voru það stór mistök að hafa gengið frá samkomulagi við Samtök atvinnulífsins á þeim nótum sem gert var og einnig að hafa hunsað vilja sex landsbyggðarfélaga um að samkomulagið skyldi lagt í allsherjaratkvæðagreiðslu á meðal þeirra félagsmanna sem unnu eftir þeim kjarasamningum sem frestunin á launahækkununum náði til. Það er því full ástæða til að kanna hvort það séu lagalegar forsendur til að rifta því samkomulagi sem samninganefnd ASÍ gekk frá við Samtök atvinnulífsins þann 25. febrúar sl.

Að lokum, það veit á gott að forystumenn Alþýðusambands Íslands eru að hluta til orðnir sammála þeim aðilum sem héldu uppi háværum mótmælum um frestun á endurskoðun og umsömdum launahækkunum sem áttu að taka gildi 1. mars. Það er mikilvægast, því batnandi mönnum er best að lifa.

17
Mar

Góður fundur með nýkjörnum formanni VR

Í gær kom nýkjörinn formaður VR, Kristinn Örn Jóhannsson, í heimsókn á skrifstofu félagsins og fundaði með formanni Verkalýðsfélags Akraness.

Fundurinn stóð í tæpa tvo tíma og var afar gaman og fróðlegt að heyra í Kristni og greinilegt var á máli hans að hann er fullur tilhlökkunar að takast á við það ábyrgðarmikla starf sem formennska í VR er.

Formaður félagsins ítrekaði hamingjuóskir með nýja embættið frá stjórn félagsins og færði Kristni blómvönd og bókina Með oddi og egg, sem fjallar um stéttarfélög á Íslandi. Þakkaði Kristinn kærlega fyrir þær móttökur sem hann fékk og vonaðist hann til að eiga gott samstarf við Verkalýðfélag Akraness í framtíðinni.

16
Mar

Fréttin um arðgreiðslur HB Granda hefur vakið gríðarlega athygli

Það er óhætt að segja að fréttin um nýlega ákvörðun stjórnar HB Granda hafi vakið mikla athygli. Þessi ákvörðun snerist um að leggja það til við hluthafafund að greiða út 8% arð til hluthafa, á sama tíma og launafólk hefur frestað sínum umsömdu launahækkunum um allt að 3 mánuði til að koma til móts við atvinnurekendur í því árferði sem nú ríkir í íslensku atvinnulífi.

Stjórn Verkalýðsfélags Akraness fagnar því innilega að fyrirtækið skuli hafa skilað 2,3 milljörðum í hagnað, sem sýnir það að fyrirtækið hefur vel borð fyrir báru til að standa við þær launahækkanir sem áttu að koma til 1. mars sl. En þær hækkanir áttu að nema 13.500 krónum til þeirra sem vinna eftir kauptöxtum, og 3,5% til handa þeim sem eru með einhvers konar yfirborganir.

Það stenst ekki nokkra skoðun að almennt launafólk afsali sér tímabundið sínum umsömdu launahækkunum, á sama tíma og greiddur er út arður til hluthafa. Arðgreiðslan nemur 150 milljónum króna sem myndi duga til að greiða landvinnslufólki fyrirtækisins hækkunina í 8 ár. Þetta sýnir svo ekki verður um villst að fyrirtækið getur staðið við þann samning sem gerður var þann 17. febrúar 2008 og á þeirri forsendu hefur stjórn Verkalýðsfélags Akraness sent forsvarsmönnum HB Granda bréf þar sem skorað er á stjórn fyrirtækisins að greiða þá launahækkun sem átti að taka gildi 1. mars sl. Með því myndi fyrirtækið sýna feikilega gott fordæmi. Bréfið má lesa með því að smella hér.

Það er einnig ljóst að það kraumar mikil reiða á meðal launþega yfir þeirri ákvörðun að fresta umsömdum launahækkunum og horfa síðan upp á tillögur um að greiddur skuli út arður vegna góðrar afkomu fyrirtækja. Slíkt er argasta móðgun við íslenska launþega sem Verkalýðsfélag Akraness mun ekki og getur ekki sætt sig við.

Hér fyrir neðan eru tenglar á vefsíður sem fjalla um þetta efni:

Arðgreiðsla móðgun við fiskvinnslufólk

Hófsamar arðgreiðslur

Hagnaður hjá HB Granda

HB Grandi greiðir út arð en hækkar ekki laun starfsmanna

Greiða sér arð í stað þess að hækka laun starfsmanna

Erfitt að fá svör hjá stjórn HB Granda

Arðgreiðslur HB Granda afar hófsamar

Starfsmenn Granda viðja fá launauppbót

Hér má heyra þáttinn Vikulokin á Rás 1 frá 14.03.2009 en formaður félagsins var einn af gestum þáttarins.

13
Mar

Verðandi formaður VR í heimsókn

Kristinn Örn Jóhannesson, nýkjörinn formaður VRKristinn Örn Jóhannesson, nýkjörinn formaður VRKristinn Örn Jóhannesson, nýkjörinn formaður VR, hefur þegið boð formanns Verkalýðsfélags Akraness um að koma í heimsókn á skrifstofu félagsins á mánudaginn kemur. Eins og flestir vita þá sigraði Kristinn í nýafstaðinni allsherjarkosningu til formanns í VR.

Það er óhætt að segja að veigamikið starf bíði Kristins, en koma hans að formennsku í VR er með mjög líkum hætti og þegar formaður Verkalýðsfélags Akraness tók við starfi sínu árið 2003. En þá fór fram allsherjarkosning í Verkalýðsfélagi Akraness til formanns og reyndar stjórnarinnar í heild sinni, en mikil átök höfðu verið í félaginu um nokkra hríð áður.

Formaður ætlar að miðla til Kristins af sinni reynslu sem formaður félagsins, en vert er að hafa í huga að vart er hægt að líkja saman því starfi sem hann er að taka að sér þar sem um 27.000 félagsmenn eru í VR en í kringum 3.000 í Verkalýðsfélagi Akraness.

Stjórn Verkalýðsfélags Akraness óskar Kristni innilega til hamingju með sigurinn og velfarnaðar í því veigamikla starfi sem hann er nú að taka við og vonast félagið eftir því að eiga gott samstarf við verðandi formann.

12
Mar

8% arður greiddur út en umsömdum launahækkunum frestað!

Hægt að greiða út 8% arð en ekki  hægt að standa við gerða kjarasamningaHægt að greiða út 8% arð en ekki hægt að standa við gerða kjarasamningaÞað eru afar ánægjuleg tíðindi að HB Grandi sé að skila 2,3 milljörðum í hagnað á síðasta ári og þá sérstaklega í ljósi þess ástands sem nú ríkir í íslensku samfélagi.

Stjórn HB Granda hefur ákveðið í ljósi góðrar afkomu að leggja til á aðalfundi félagsins sem haldinn verður föstudaginn 3. apríl að greiddur verði 8% arður til hluthafa.

Rétt er að minna á að samninganefnd Alþýðusambands Íslands gekk frá samkomulagi við Samtök atvinnulífsins þann 25. febrúar sl. um frestun til loka júní á endurskoðun kjarasamninga og þeim umsömdu launahækkunum sem áttu að koma til handa verkafólki 1. mars sl. 

Verkalýðsfélag Akraness ásamt fimm öðrum landbyggðarfélögum var ósammála meirihluta verkalýðshreyfingarinnar um að fresta umsömdum launahækkunum og voru rök formanns VLFA t.d. þau að það væru til fyrirtæki sem hæglega gætu staðið við gerða kjarasamninga, til að mynda fyrirtæki í fiskvinnslunni.  

Nú hefur komið í ljós að HB Grandi var rekinn með 2,3 milljarða hagnaði og ætlar að greiða hluthöfum 8% arð á næsta hluthafafundi. Á sama tíma var ekki var hægt að hækka laun fiskvinnslufólks um 13.500 kr. eins um hafði verið samið.  Það er móðugun við fiskvinnslufólk HB Granda ef greiddur verður út arður til hluthafa á sama tíma og ekki var staðið við þær launahækkanir sem áttu að koma til 1. mars sl.

Þetta sýnir einnig að það var hárrétt hjá Verkalýðsfélagi Akraness og hinum landsbyggðarfélögunum að leggjast af alefli gegn því að fresta umsömdum launahækkunum.  Verkalýðsfélag Akraness skorar á aðalfund HB Granda að greiða þær launahækkanir sem áttu að koma 1. mars strax og sýna þannig í verki að góð fyrirtæki eru ekki rekin með hagnaði nema með góðum starfsmönnum.  Í dag er sérhæfður fiskvinnslumaður eftir 7 ára starf með 154.500 kr. fyrir fulla vinnu, án bónusgreiðslna.  Ef þær launahækkanir sem áttu að koma til 1. mars hefðu komið þá hefði sérhæfður fiskvinnslumaður farið uppí 168.000 kr. fyrir fullt starf.

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image