• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
11
Mar

Lífeyrissjóðir ekki hafnir yfir gagnrýni

Það er óhætt að segja að viðtal við Ragnar Þór Ingólfsson verslunarmann í síðasta Silfri um starfsemi lífeyrissjóðanna hafi vakið gríðarlega athygli.

Í umræddu viðtali gagnrýndi Ragnar ýmislegt í starfsemi lífeyrissjóðanna. Sérstaklega gagnrýndi hann lífeyrissjóð Verslunarmanna og þau launakjör sem forstjóri þess sjóðs er með.  Formaður Verkalýðsfélags Akraness tekur heils hugar undir þá gagnrýni Ragnars á þau umræddu ofurlaunakjör sem nema tæpum 30 milljónum á ársgrundvelli eða launum sem nema tæpum 2,5 milljónum á mánuði.

Það er alveg ljóst að lífeyrissjóðirnir eru ekki hafnir yfir gagnrýni og hefur formaður félagsins t.d. bent á það hér á þessari heimasíðu að launþegar eiga að hafa sjálfir val um hvaða lífeyrissjóð þeir velja.  Einnig er það mat stjórnar Verklýðsfélags Akraness að atvinnurekendur eiga ekki að sitja í stjórnum lífeyrissjóðanna enda er hér um lífeyri launafólks að ræða og eiga atvinnurekendur því ekkert að vera að véla með lífeyri verkafólks.

Það er einnig mat formanns VLFA að það eigi að sameina lífeyrisssjóði enn frekar og með því myndu sparast gríðarlegir fjármunir enda eru flestir lífeyrissjóðir að gera nákvæmlega sömu hlutina.

Formaður VLFA hefur skoðað launakjör forstjóra, framkvæmdastjóra og stjórnarformanna nokkurra lífeyrissjóða. Þeir sjóðir sem formaður skoðaði eru:  Lífeyrissjóður Verslunarmanna, lífeyrissjóðurinn Gildi, lífeyrissjóðurinn Stapi, og lífeyrissjóðurinn Festa sem Verkalýðsfélag Akraness er aðili að. Rétt er að geta þess lífeyrissjóðirnir eru með mis marga sjóðsfélaga á bakvið sig.  Launakjörin samkvæmt ársreikningum fyrir árið 2007 voru eftirfarandi:

Nafn forstjóra / frkv.stjóra Lífeyrissjóður Árslaun Mánaðarlaun
Þorgeir Eyjólfsson Verslunarmenn 29.842.000 2.486.000
Árni Guðmundsson Gildi 21.534.000 1.794.500
Gylfi Jónasson Festa 13.103.006 1.091.917

Kári Arnór Kárason

Stapi 12.917.000 1.076.417
Nafn stjórnarformanns   Lífeyrissjóður Árslaun Mánaðarlaun
Gunnar P Pálsson Verslunarmenn 2.070.000 172.500
Vilhjálmur Egilsson Gildi 1.542.000 128.500
Björn Snæbjörnsson Stapi 1.140.000   95.000
Bergþór Guðmundsson Festa 805.844   67.153

Á þessari samantekt sést að launakjör framkvæmdastjóra verða að teljast nokkuð rífleg og þá sérstaklega hjá forstjórum lífeyrissjóðs Verslunarmanna og hjá Gildi. Þegar ofurlaun hafa verið gagnrýnd hefur hingað til verið í tísku að svara því til að starfinu fylgi mikil ábyrgð og á þeirri forsendu séu launa uppá 30 milljónir á ári réttlætanleg.  Rétt er að minna á að lífeyrissjóðirnir eru að tapa gríðarlegum fjármunum samhliða bankahruninu og því spyr formaður sig hver er ábyrgð forstjóra lífeyrissjóðanna hvað það varðar milljarðatap sjóðanna? 

Það má einnig spyrja sig hvort það sé eðlilegt að forstjórar og framkvæmdastjórar lífeyrissjóða séu með hærri laun en forsætisráðherra landsins.  Það má einnig spyrja sig hvort það sé eðlilegt að formaður í stéttarfélagi sé með hærri mánaðarlaun fyrir stjórnarformennsku í lífeyrissjóði en þau lágmarkslaun sem eru í gildi hjá viðkomandi stéttarfélagi eins og í tilfelli Gunnars Pálssonar.  Svar formanns VLFA við því er að sjálfsögðu NEI, slíkt er alls ekki eðlilegt, enda gegna stjórnarformenn lífeyrissjóða fullu starfi annars staðar.

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image