• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
17
Mar

Höfðu landsbyggðarfélögin rétt fyrir sér í gagnrýni sinni á frestun á umsömdum launahækkunum?

Eins og fram hefur komið hér á heimasíðunni þá var Verkalýðsfélag Akraness ásamt fimm öðrum landsbyggðarfélögum algjörlega ósammála meirihluta verkalýðshreyfingarinnar að fresta áður umsömdum launahækkunum sem áttu að taka gildi 1. mars sl.

Forseti ASÍ boðaði til tveggja funda með formönnum aðildarfélaga Alþýðusambandsins til að fjalla um það hvort fresta ætti endurskoðun og umsömdum launahækkunum og lögðust sex landsbyggðarfélög algerlega gegn því að áðurnefndum launahækkunum yrði frestað.

Rök Verkalýðfélags Akraness og hinna fimm landsbyggðarfélaganna voru þau að til væru fyrirtæki sem klárlega hefðu borð fyrir báru til að standa við þær hækkanir sem áttu að taka gildi 1. mars sl. Bentu félögin á að þau fyrirtæki sem störfuðu í útflutningi, t.d. fiskvinnslan, gætu vel komið með 13.500 kr. taxtahækkun til handa sínu fólki.

Því miður var ekki hljómgrunnur á meðal meirihluta verkalýðshreyfingarinnar fyrir þessum rökum og á þeirri forsendu gekk samninganefnd Alþýðusambands Íslands frá frestun á endurskoðun og umsömdum launahækkunum til 1. júlí nk. Eins og einnig hefur komið fram í fréttum þá lágu þessi sex aðildarfélög undir ámælum víða í verkalýðshreyfingunni fyrir að hafa haldið þessari skoðun sinni hátt á lofti og barist fyrir henni af alefli.

Gekk þetta t.a.m. svo langt að forseti ASÍ lagði til við þessi sex félög að þau myndu slíta sig frá því samkomulagi sem gert yrði við Samtök atvinnulífsins. Það er alvitað að það þýðir lítið fyrir sex félög á landsbyggðinni að ætla að reyna að fá eitthvað meira fyrir sína félagsmenn þegar 85% verkalýðshreyfingarinnar hefur ákveðið að fresta umsömdum launahækkunum til 1. júlí nk. Á þeirri forsendu var enginn grundvöllur fyrir þessi sex félög að slíta sig frá samkomulaginu.

Eins og Verkalýðfélag Akraness, fyrst allra félaga, hefur bent á er HB Grandi að skila 2,3 milljörðum í hagnað og hefur tilkynnt að til standi að greiða út 8% arð til hluthafa. Þessa ákvörðun hefur VLFA gagnrýnt harðlega og sent stjórn HB Granda áskorun um að standa við áður umsamdar hækkanir. Með þessum hagnaði HB Granda og ákvörðun þeirra um arðgreiðslu til hluthafa hefur komið í ljós að landsbyggðarfélögin höfðu rétt fyrir sér í því að til væru fyrirtæki sem klárlega gætu staðið við áður umsamdar launahækkanir. Einnig kom fram hjá Guðmundi Gunnarssyni, formanni Rafiðnaðarsambandsins í Kastljósþætti í gær, að RSÍ hafi gengið frá samkomulagi við nokkra atvinnurekendur vegna áðurnefndra hækkana sem áttu að koma til 1. mars.

Það er því gríðarlega jákvætt að forystumenn Alþýðusambands Íslands, þ.e.a.s. forseti ASÍ Gylfi Arnbjörnsson, Guðmundur Gunnarsson formaður RSÍ, Sigurður Bessason formaður Eflingar og Kristján Gunnarsson formaður SGS, skuli vera orðnir sammála þeim landsbyggðarfélögum sem hafa verið að benda á að til væru fyrirtæki sem hefðu bolmagn til að standa við gerða samninga. Allir áðurnefndir aðilar hafa skorað á HB Granda að koma með áður umsamdar launahækkanir til starfsmanna sinna og er það eins og áður sagði jákvætt að þeir skuli vera orðnir sammála landsbyggðarfélögunum.

Kristján Gunnarsson, formaður Starfsgreinasambandsins, segir í Morgunblaðinu í dag um þá ákvörðun stjórnar HB Granda að greiða hluthöfum 8% arð:

"Þetta neyðir okkur til að endurmeta þá ákvörðun að fresta endurskoðun kjarasamninga, því það er greinilega meiri innistæða fyrir hendi heldur en upp var gefin, a.m.k. í þessari starfsgrein." Þetta er akkúrat nákvæmlega það sama og formaður Verkalýðsfélags Akraness sagði á formannafundi ASÍ, að fiskvinnslan hefði bolmagn til að standa við áður umsamdar launahækkanir. Á þeirri forsendu voru það stór mistök að hafa gengið frá samkomulagi við Samtök atvinnulífsins á þeim nótum sem gert var og einnig að hafa hunsað vilja sex landsbyggðarfélaga um að samkomulagið skyldi lagt í allsherjaratkvæðagreiðslu á meðal þeirra félagsmanna sem unnu eftir þeim kjarasamningum sem frestunin á launahækkununum náði til. Það er því full ástæða til að kanna hvort það séu lagalegar forsendur til að rifta því samkomulagi sem samninganefnd ASÍ gekk frá við Samtök atvinnulífsins þann 25. febrúar sl.

Að lokum, það veit á gott að forystumenn Alþýðusambands Íslands eru að hluta til orðnir sammála þeim aðilum sem héldu uppi háværum mótmælum um frestun á endurskoðun og umsömdum launahækkunum sem áttu að taka gildi 1. mars. Það er mikilvægast, því batnandi mönnum er best að lifa.

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image