• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
Hvaða hagræðissjónarmið ráða hér för? Frá hrognavinnslu hér á Akranesi
23
Feb

Hvaða hagræðissjónarmið ráða hér för?

Eins og flestir vita þá gaf sjávarútvegsráðherra á dögunum út 15.000 tonna rannsóknarloðnukvóta en í hlut HB Granda komu um 2.800 tonn.  Í frétt á heimasíðu HB Granda kemur fram að áhöfnin á Lundey NS hafi á föstudaginn sl. haldið til loðnuveiða út af Reykjanesi og fengust þar 1.100 til 1.200 tonn af loðnu í þremur köstum.

Einnig kom fram í fréttinni að skipið væri á leiðinni til Vopnafjarðar þar sem loðnan fer til hrognatöku, í frystingu og bræðslu.  Það kom líka fram á heimasíðunni að allur aflinn fari til hrognatöku hjá fiskiðjuveri HB Granda á Vopnafirði. 

Þessa stundina er verið að landa úr Lundey NS á Vopnafirði, Faxi RE er á leiðinni með loðnu til hrognatöku á Vopnafirði og Ingunn Ak er að veiðum við Reykjanesið þessa stundina.

Formaður félagsins gerir að sjálfsögðu ekki athugasemdir við það að fyrirtækið leiti allra leiða til að hagræða í rekstri sínum og ef það er styttra fyrir uppsjávarskip fyrirtækisins að sigla með aflann til vinnslu annars staðar en á Akranesi þá er ekkert við því að segja.  Enda eiga hagræðissjónarmið fyrirtækisins ávalt að vera höfð að leiðarljósi þegar tekin er ákvörðun um hvar vinna á aflann. 

Forsvarsmenn HB Granda verða hins vegar að útskýra það fyrir okkur Skagamönnum á hvað forsendum þeir taka ákvörðun um að láta skip fyrirtækisins sigla með aflann í 35 tíma og það bara aðra leiðina til Vopnafjarðar til hrognatöku.

Eins og áður hefur komið fram þá er loðnan að veiðast við Reykjanesið og það tekur skipin einungis 2 tíma að sigla með aflann á Akranes.  Samkvæmt upplýsingum sem formaður hefur aflað sér þá er allt klárt í vinnslunni hér á Akranesi til að hefja hrognatöku þannig að það er ekki skýringin á því að siglt er með aflann til Vopnafjarðar.

Formaður spyr: hvaða hagræðissjónarmið ráða því að skip fyrirtækisins eru látin sigla með afla sinn í 35 tíma og það með ærnum olíukostnaði?  Það er alveg ljóst að nokkrar milljónir myndu sparast í olíukostnað yrðu skipin látin landa á Akranesi. 

Það hljóta að vera einhverjar eðlilegar skýringar á þessari ákvörðun forsvarsmanna HB Granda en því miður sér formaður félagsins þær ekki. Óhagræðið æpir á fólk þegar það sér skip fyrirtækisins á veiðum örfáar mílur frá Akranesi og þau síðan látin sigla í 35 tíma með aflann til vinnslu. Á þeirri forsendu er mikilvægt að skýring komi á þessari ákvörðun forsvarsmanna HB Granda

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image