• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
11
Aug

Kaupmáttur í júní 3,7% minni en í fyrra

Í júní hækkuðu laun heldur meira að meðaltali en verðlag. Kaupmáttur jókst því örlítið milli mánaða. Þetta breytir samt ekki því að á ársgrundvelli lækkaði kaupmáttur um 3,7%. Lækkunin átti sér fyrst og fremst stað á tímabilinu frá febrúar til maí sl.

Launavísitala í júní hækkaði um 1,2% frá fyrri mánuði. Í hækkuninni að þessu sinni gætir áhrifa samkomulags aðildarfélaga BSRB við samninganefnd ríkisins um breytingar og framlengingu á fyrri kjarasamningum aðila. Samkvæmt samkomulaginu var samið um 20.300 króna launahækkun frá 1. maí 2008. Í vísitölunni gætir einnig áhrifa nýgerðs kjarasamnings Félags grunnskólakennara og launanefndar sveitarfélaga sem kvað meðal annars á um 25.000 króna hækkun þann 1. júní 2008. 

Laun á fyrsta ársfj. hækkuðu að meðaltali um 7,1% frá sama tíma í fyrra; 7,5% á þeim almenna en 6,1% hjá opinberum starfsmönnum. Á almennum markaði hækkuðu laun mest meðal sérfræðinga (10,9%) en minnst meðal iðnaðarmanna (5,7%).

Ætla má að áhrif af kjarasamningum á almennum markaði svo og flestra stéttarfélaga við ríkið séu að mestu kominn fram í launavísitölunni. Því er ekki líklegt að hún hækki mikið á næstu mánuðum. Enn er samt mikill verðbólguþrýstingur í hagkerfinu. Í júlí mældist tólfmánaða verðbólgan t.d. 13,6%. Vísitalan hækkaði mikið frá fyrra mánuði þrátt fyrir að sumarútsölur væru víða í verslunum.

Í ljósi slaka á vinnumarkaði og viðvarandi verðbólguþrýstings er líklegt að ársbreyting kaupmáttar mælist neikvæð áfram á næstunni. Þetta er áhyggjuefni þar sem heimilin í landinu hafa safnað upp miklum skuldum síðustu ár og eiga mörg hver á hættu að lenda í erfiðleikum með að greiða af lánum sínum ef tekjur dragast saman.

Sjá nánar: Myndir 

Sjá nánar: Tengt efni

Sjá nánar: Eldra efni

Heimild: ASÍ

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image