• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
Fréttir

Fréttir

21
May

Aðalsamninganefnd SGS fundaði í húsakynnum ríkissáttasemjara

Aðalsamninganefnd Starfsgreinasambands Íslands kom saman til fundar í húsakynnum ríkissáttasemjara á mánudaginn var vegna kjarasamnings við ríkið en sá samningur rann út 31. mars sl.

Það hafa verið nokkuð stífar viðræður við samninganefnd ríkisins að undanförnu og vonast menn til að það fari að sjá fyrir endann á þessum kjaraviðræðum.  Það er mat formanns félagsins að það sé mjög mikilvægt að ganga frá samningi á næstu dögum og er formaður reyndar nokkuð bjartsýnn á að það takist.

Það liggur fyrir að starfsmenn sem starfa hjá ríkinu eru orðnir mjög óþolinmóðir vegna þess hversu langt er síðan kjarasamningurinn rann út og á þeirri forsendu er eins og áður sagði mjög mikilvægt að gengið verði frá viðunandi kjarasamningi á næstu dögum.

Það er ljóst að samningurinn við ríkið þarf að vera innihaldsríkari en kjarasamningurinn sem gerður var á hinum almenna vinnumarkaði einfaldlega vegna þess að allt aðrar forsendur eru nú í íslensku efnahagslífi en þegar gengið var frá kjarasamningi á hinum almenna vinnumarkaði 17 febrúar sl.

20
May

Sumar 2008 - Lausar vikur í orlofshúsum

Nú er endurúthlutun orlofshúsa lokið og var eindaginn á föstudaginn sl. Búið er að losa þær vikur sem ekki voru greiddar á eindaga og er nú hægt að skoða lista yfir lausar vikur hér. Þessi listi verður uppfærður eftir þörfum.

Þeim sem hafa áhuga á að bóka viku af listanum er bent á að snúa sér til skrifstofu félagsins, Sunnubraut 13, eða í síma 4309900.

19
May

Enn eru til miðar á Bubba tónleikana

Eins og áður hefur komið fram hér á heimasíðunni þá ætlar Verkalýðsfélag Akraness að bjóða félagsmönnum sínum á tónleika með Bubba Morthens í Bíóhöllinni föstudaginn 30. maí kl. 20:00.

Fjölmargir félagsmenn Verkalýðafélags Akraness hafa komið við á skrifstofu félagsins síðan á föstudaginn til þess að krækja sér í miða á tónleikana.

Enn eru þó til miðar svo þeir félagsmenn sem ætla að nýta sér þetta boð eru eindregið hvattir til þess að sækja miðann sinn á skrifstofu félagsins.

16
May

Bæjarstjórn Akraness vill halda ráðstefnu um atvinnumál sjávarútvegsfyrirtækja og fyrirkomulag kvótamála

Bæjarstjórn Akraness samþykkti á fundi sínum síðasta þriðjudag að skoða möguleika á að standa fyrir ráðstefnu á haustdögum um atvinnumál sjávarútvegsfyrirtækja og fyrirkomulag kvótamála í samvinnu við Samband sveitarfélaga.  Það var afar ánægjulegt að sjá að tillagan var samþykkt samhljóða í bæjarstjórn.

Það var Guðmundur Páll Jónsson bæjarfulltrúi sem lagði tillöguna fram.  Í máli Guðmundar Páls kom fram að liðinn vetur sé búinn að vera okkur Akurnesingum sérstaklega erfiður varðandi þróun í fiskvinnslu- og útgerðamálum.  Hann sagði einnig að almenning hér á Akranesi setti algjörlega hljóðan yfir þeirri þróun sem átt hefur sér stað í fiskvinnslumálum og átti hann við þann mikla samdrátt og uppsagnir sem átt hafa sér stað hjá HB Granda.

Í máli bæjarfulltrúans kom fram að ráðstefnuna verði að halda í samvinnu eða á vettvangi Sambands íslenskra sveitarfélaga.  Á þessari ráðstefnu vill bæjarfulltrúinn að farið verði yfir leikreglur sem gilda í íslenskum sjávarútvegi og í stjórnun fiskveiðistjórnunarkerfisins með tilliti til þess sem byggðirnar og samfélögin hafa þurft að mæta. 

Guðmundur Páll vill einnig að menn spyrji á þessari ráðstefnu hvort þær leikreglur sem gilda í íslenskum sjávarútvegi í dag séu barns síns tíma.  Hann vill einnig að menn spyrji sig þeirrar spurningar hvort leikreglunar þurfi ekki að vera með öðrum hætti en þær eru í dag.  Hann vill að sveitarstjórnarstigið skoði á þessari ráðstefnu leikreglur fiskveiðistjórnunarkerfisins á hlutlausan og yfirvegaðan hátt með hagsmuni almennings sem í byggðunum býr og hafa búið að leiðarljósi.

Formaður félagsins fagnar því að bæjarstjórn Akraneskaupstaðar hafi tekið frumkvæðið í því að halda slíka ráðstefnu því það er með öllu óþolandi hvernig það fiskveiðistjórnunarkerfi sem nú er við lýði hefur leikið þetta samfélag hér á Akranesi sem og aðrar byggðir þessa lands. 

Það er full ástæða til að kalla eftir nýjum leikreglum í íslenskum sjávarútvegi í ljósi þess að fjölda byggðarlaga hefur nánast blætt út vegna þess kerfis sem hér hefur verið í hart nær 24 ár.

Hægt er að hlusta á tillögu og ræðu Guðmundar Páls Jónssonar með því að smella hér.  Ræðan hans er þegar 1.09 er liðin á fundinn.

15
May

Tveir af fjórum starfsmönnum síldarbræðslu HB Granda endurráðnir

Forsvarsmenn HB Granda hafa endurráðið tvo af þeim fjórum starfsmönnum sem sagt var upp ekki alls fyrir löngu í Síldar- og fiskimjölsverksmiðjunni á Akranesi. Þessu fagnar formaður félagsins þó vissulega hefði hann kosið að sjá endurráðningu allra starfsmannanna.

Það var skoðun formanns félagsins að forsvarsmenn HB Granda hafi ekki staðið rétt að áðurnefndum uppsögnum enda var  hér um lykilstarfsmenn í verksmiðjunni að ræða sem búa yfir áratugalangri reynslu í rekstri verksmiðjunnar.

Það er eins og áður sagði fagnaðarefni að nú sé búið að endurráða tvo af þeim fjórum sem gefur okkur tilefni til bjartsýni á að rekstur verksmiðjunnar muni haldast lítið breyttur til lengri tíma litið. 

Eftir þessar endurráðningar eru fjórir starfsmenn starfandi í bræðslunni og í gær var gengið frá ráðningu á nýjum verksmiðjustjóra en það er Guðmundur Hannesson en hann hefur verið vaktformaður í verksmiðjunni til fjölda ára.

15
May

Endurbótum í Svarfhólsskógi að ljúka

Mikið hefur gengið á í bústað félagsins í Svarfhólsskógi, Svínadal undanfarið. Þar hafa staðið yfir framkvæmdir sem nú sér fyrir endann á.

Það er óhætt að segja að bústaðurinn hafi fengið algera andlitslyftingu því skipt var um mestallt gólfið og gólfefni ásamt því að eldhúsinnrétting og tæki voru endurnýjuð. Tækifærið var notað og skipulagi eldhússins breytt til hins betra með því að opna það og við þá breytingu er mun rýmra um dvalargesti.

Hægt er að skoða fleiri myndir úr Svínadal hér.

Opið og bjart eldhús, uppþvottavélin rétt ókomin í húsOpið og bjart eldhús, uppþvottavélin rétt ókomin í hús  StofusófinnStofusófinn

14
May

Allir starfsmenn bæjarins fá eingreiðslu á sama tíma

Bæjarstjórn Akraness samþykkti á fundi sínum í gær að greiða starfsmönnum Akraneskaupstaðar eingreiðslu að fjárhæð 60.000.- miðað við fullt starf og hlutfallslega miðað við starfshlutfall eins og launagreiðslur voru m.v. 1. maí 2008.  Bæjarstjórn stefnir að því að greiða starfsmönnum áðurnefndar eingreiðslur föstudaginn 16. maí nk.

Með þessari ákvörðun hefur bæjarstjórn vikið frá fyrri áætlan sinni að tengja eingreiðslunnar við komandi kjarasamninga.  Ef eingreiðslan hefði verið tengd komandi kjarasamningum þá hefði stórhluti starfsmanna ekki fengið sína greiðslu fyrr en í desember.

Formaður Verklýðsfélags Akraness var búinn að benda á það hér á heimasíðu félagsins að ef bæjarráð ætlaði að tengja eingreiðslunnar við komandi kjarasamninga þá myndi slík ákvörðun valda umtalsverðri úlfúð og óánægju hjá starfsmönnum bæjarins.

Á þeirri forsendu fagnar formaður félagsins þessari ákvörðun bæjarstjórnar að hverfa frá fyrri ákvörðun sinni um að tengja áðurnefndar eingreiðslur komandi kjarasamningum.  Vissulega hefði formaður viljað sá þessa eingreiðslu hærri eða alla vega með sambærilegum hætti og var að gerast hjá sveitarfélögunum á höfuðborgarsvæðinu og á Reykjanesi.  Samt er full ástæða til að fagna því að vikið var frá því að tengja þessa greiðslu við komandi kjarasamninga.

13
May

Verkalýðsfélag Akraness býður félagsmönnum sínum á tónleika með Bubba Morthens

Verkalýðsfélag Akraness býður félagsmönnum sínum á tónleika með Bubba Morthens. Tónleikarnir verða haldnir í Bíóhöllinni föstudaginn 30. maí kl. 20:00. Húsið opnar kl. 19:30

Hver félagsmaður fær afhentan einn miða á skrifstofu félagsins frá og með föstudeginum 16. maí á meðan þeir endast.

Athugið að takmarkað magn miða verður í boði og því gildir reglan: fyrstur kemur, fyrstur fær.

09
May

Vinnustaðaheimsókn til Íslenska járnblendifélagsins

Formaður félagsins fór í hefðbundna vinnustaðaheimsókn til starfsmanna Íslenska járnblendifélagsins í morgun, en yfir 100 félagsmenn Verkalýðsfélags Akraness starfa hjá Íj í dag og hefur þeim fjölgað töluvert á liðnum misserum.

Starfsmenn Íj hafa undanfarna mánuði verið að vinna að undirbúningi nýrrar framleiðslu sem nefnist FSM en sú framleiðsla mun gera rekstur fyrirtækisins mun stöðugri en hann hefur verið undanfarin ár.

Formaður fór víða um verksmiðjuna og tók starfsmenn tali fram kom í máli starfsmanna að mjög mikilvægt sé að hefja þessa nýju vinnslu á FSM sem mun væntanlega tryggja rekstur fyrirtækisins mun betur til lengri tíma litið bæði starfsmönnum og eigendum til hagsbóta.

Kjarasamningur starfsmanna rennur út 30. nóvember nk. og bera starfsmenn miklar væntingar til þess samnings einfaldlega vegna þess að starfsmenn Íj hafa ekki notið þess mikla launaskriðs sem verið hefur á hinum almenna vinnumarkaði á síðustu árum.  Undirbúningur fyrir komandi kjarasamning hjá Íslenska járnblendifélaginu mun hefjast stax eftir sumarleyfi og er stefnt að því að kröfugerðin liggi fyrir í september eða október.

08
May

Kennsla raskast ennþá í skólum Akraneskaupstaðar

Eins og fram hefur komið fréttum að undanförnu þá hefur ríkt umtalsverð óánægja hjá kennurum Grundaskóla og Brekkubæjarskóla á Akranesi sem og öðrum starfsmönnum bæjarins í vetur, sem hafa vitnað til þeirra kjarabóta sem sveitarfélög á höfuðborgarsvæðinu og Reykjanesi hafa veitt sínum starfsmönnum á undanförnum mánuðum.

23. apríl gripu kennarar til aðgerða og í bréfi sem bæjarstjórn fékk afhent frá trúnaðarmönnum skólanna 22. apríl sl. segir: “Í þessu felst að við sinnum ekki veikindaforföllum, dygðastundum, samkennslu, tilfærslu úr stuðningi í kennslu, gæslu, bekkjarkvöldum, fundum eftir að vinnutímaramma lýkur, ferðalögum sem falla utan vinnutímaramma né öðru því sem fellur undir forföll og/eða óumsamda yfirvinnu.”

 Á aukafundi bæjarstjórnar Akraness sem haldinn var 28. apríl sl. var samþykkt að bjóða kennurum við grunnskóla bæjarins 60 þúsund króna eingreiðslu til að koma til móts við kröfur þeirra að undanförnu. Þessi greiðsla verði borguð þegar búið verður að greiða atkvæði og samþykkja nýgerðan kjarasamning grunnskólakennara.  Bæjarstjórn samþykkti einnig að aðrir starfsmenn fengju ekki sína eingreiðslu fyrr en búið verður að semja við Launanefnd sveitarfélaga en kjarasamningur annarra starfsmanna rennur ekki út fyrr en 30. nóvember. 

Það liggur fyrir að kennarar og aðrir starfsmenn bæjarins eru alls ekki ánægðir með þessa ákvörðun hjá bæjarráði og eru þeir ósáttir við að verið sé að tengja þessa eingreiðslu við þá kjarasamninga sem nú eru lausir og einnig eru starfsmenn ekki sáttir við þá upphæð sem sem bæjarráð samþykkti að láta starfsmenn fá.  Telja starfsmenn að hún sé mun lægri en þær kjarabætur sem nágrannasveitarfélögin hafa verið að greiða sínum starfsmönnum.

Í tölvupósti sem barst frá Sigurði Arnari Sigurðssyni aðstoðarskólastjóra til foreldra Grundaskóla í gær segir: 

"Eins og undanfarið voru forföll í starfsliði Grundaskóla í dag. Kennarar hafa ekki enn náð sáttum við Akraneskaupstað og hafa því ekki aflýst yfirvinnubanni.

Í dag miðvikudag 7. maí tókst okkur ekki að leysa nema hluta af forföllum, og þar af leiðandi féllu niður kennslustundir hjá nokkrum bekkjum".

 

Formaður tekur undir með starfsmönnum bæjarins að það sé óþolandi að verið sé að tengja áðurnefndar kjarabætur við þá kjarasamninga sem nú eru lausir og það er algjörlega óviðunandi að aðrir starfsmenn bæjarins eigi að bíða eftir sínum greiðslum mun lengur en kennarar eða alla vega til 1. desember.  Slík ákvörðun  geri ekkert annað en að valda úlfúð á meðal starfsmanna.

Formaður skorar á bæjaryfirvöld að greiða öllum starfsmönnum Akraneskaupstaðar meðaltal af þeim kjarabótum sem sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu og Reykjanesi hafa greitt sínum starfsmönnum á undanförnum misserum.  Einnig skorar formaður á bæjaryfirvöld að tengja þessa greiðslur alls ekki þeim kjarasamningum sem nú eru lausir, en slíkt hleypi einungis illu blóði í starfsmenn.

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image