• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
Fréttir

Fréttir

28
Jan

Stjórn HB Granda staðfestir uppsagnir allra starfsmanna í landvinnslunni á Akranesi

Rétt í þessu var að ljúka fundi með forsvarsmönnum HB Granda þar sem tilkynnt var að stjórn fyrirtækisins hefði á fundi í morgun staðfest fyrri áform sín um að segja öllum starfsmönnum landvinnslunnar hér á Akranesi upp störfum frá og með 1. febrúar að telja. Eins og fram hefur komið þá er um að ræða 66 starfsmenn en áformað er að endurráða 20.

Með þessari ákvörðun telur Verkalýðsfélag Akraness að HB Grandi hafi brotið lög nr. 63/2000 um hópuppsagnir. Það er alveg hvellskýrt af hálfu félagsins og trúnaðarmanna að fyrirtækið hafi ekki uppfyllt ákvæði um upplýsinga- og samráðferli eins og lögin kveða á um.

Formaður mun eiga fund með lögmanni Alþýðusambands Íslands á morgun þar sem undirbúningur að stefnu á hendur fyrirtækinu vegna brota á áðurnefndum lögum mun eiga sér stað.

Það er algjört virðingarleysi gagnvart því fólki sem starfað hefur hjá þessu fyrirtæki í áraraðir og jafnvel áratugi að gefa því ekki færi á að koma með athugasemdir og tillögur með það að markmiði að milda áðurnefndar uppsagnir.

Með þessari ákvörðun er þessi dagur orðinn einn sá dekksti sem við Akurnesingar höfum upplifað í áraraðir ef ekki áratugi.

28
Jan

Bæjarstjórn Akraness boðar til áríðandi fundar vegna málefna HB Granda

Bæjarstjórn Akraness hefur boðað til fundar í dag í bæjarþingsalnum. Þeir sem eru boðaðir eru stjórn HB Granda, þingmenn Norðvestur kjördæmis og formaður Verkalýðsfélags Akraness.

Til fundarins er boðað vegna áforma stjórnar HB Granda um að segja öllum starfsmönnum landvinnslunnar á Akranesi upp störfum og í fundarboðinu kemur fram að óskað er eftir því að stjórn fyrirtækisins geri grein fyrir ákvörðunum sínum og geri grein fyrir framtíðarrekstri fyrirtækisins á Akranesi.

Á fundinum mun formaður félagsins fara yfir afleiðingar þess að Haraldur Böðvarsson hf sameinaðist Granda árið 2004. Eftir þá sameiningu hafa tapast upp undir 150 störf hjá HB Granda hér á Akranesi. Er það mat Verkalýðsfélags Akraness að megnið af hagræðingu fyrirtækisins hafi verið látin bitna á okkur Skagamönnum. Það voru t.a.m. rétt tæplega 150 manns starfandi í landvinnslunni rétt fyrir sameiningu þessara áðurnefndra fyrirtækja, en þegar þessar uppsagnir hafa tekið gildi verða einungis 20 manns eftir. Einnig hefur skrifstofufólki fækkað umtalsvert, smíðaverkstæðið lagt niður, vélaverkstæðið einnig, starfsmönnum Síldarbræðslunnar fækkað úr 15 í 4, aflaskipinu Víkingi AK lagt og skuttogarinn Haraldur Böðvarsson AK hefur verið seldur. Þessu til viðbótar hafa stjórnendur HB Granda látið frystiskip fyrirtækisins og skuttogara hætta löndunum hér á Akranesi, sem hefur haft það í för með sér að mörg afleidd störf hafa tapast.

Haraldur Böðvarsson hf. var stofnað árið 1906 og hefur þ.a.l. staðið af sér tvær heimsstyrjaldir. Það er því kaldhæðnislegt að það skuli vera fiskveiðistjórnunarkerfið sem við sjálf höfum komið okkur upp sem virðist ætla að leggja þetta fyrirtæki að velli hér á Akranesi. Það verður að gera þá kröfu til þeirra sem fara með eignarhald á auðlindum hafsins að þeir sýni samfélagslega ábyrgð í þeim niðurskurði sem orðið hefur á aflaheimildum í þorski á undanförnum árum. Það er algerlega óásættanlegt að það skuli vera þeir sem síst skyldi sem þurfa að taka skellinn, þ.e.a.s. verkafólk sem starfar í landvinnslu og sjómenn. Þess má geta að starfsfólk HB Granda nýtur greinilega víðtæks stuðnings annarra sem gengið hafa í gegnum sambærilegar hremmingar og barst starfsfólkinu í liðinni viku skeyti sem hægt er að skoða hér.

Eins og fram hefur komið hér á heimasíðunni þá hyggst félagið stefna HB Granda vegna brota á lögum um hópuppsagnir. Félagið telur að stjórnendur fyrirtækisins hafi ekki uppfyllt ákvæði um upplýsinga- og samráðsferlis sem kveðið er á um í lögunum. Það er algert lágmark að stjórnendur fyrirtækisins fari eftir lögum um hópuppsagnir og einnig að starfsmönnum, sem sumir hverjir hafa starfað hjá fyrirtækinu í 50 ár, sé sýnd sú virðing að þeir fái tækifæri til að koma með athugasemdir og tillögur til að milda þær fyrirhuguðu uppsagnir eins og kostur er.

Mikið hefur verið fjallað um þetta mál í fjölmiðlum á undanförnum dögum, m.a. í Ísland í bítið í morgun. Hægt er að hlusta á það með því að smella hér, viðtal við formann spilast þegar 1:16 mínútur eru liðnar af þættinum.

Einnig var fjallað um málið í kvöldfréttum útvarps í gær, hægt er að hlusta á það með því að smella hér.

Að auki var fjallað um málið í kvöldfréttum RUV í gær, hægt er að horfa á þá frétt með því að smella hér.

25
Jan

Verkalýðsfélag Akraness hyggst stefna HB Granda vegna brota á lögum um hópuppsagnir

Eins og  fram hefur komið hér á heimasíðunni þá áformar HB-Grandi stórbreytingar í rekstri fyrirtækisins á Akranesi til að bregðast við skerðingu aflamarks þorsks á fiskveiðiárinu 2007-2008.  Áformin byggjast á því að öllum starfsmönnum landvinnslu HB Granda á Akranesi verði sagt upp störfum 1. febrúar næstkomandi og síðan yrðu endurráðnir 20 starfsmenn í flakavinnslu og til vinnslu loðnuhrogna. Um er ræða um 66 starfsmenn samkvæmt félagatali VLFA.

Þessi áform kynntu stjórnendur HB Granda á fundi með formanni Verkalýðsfélags Akraness og trúnaðarmönnum starfsfólks á mánudaginn var og síðan á almennum starfsmannafundi sem haldinn var á Akranesi sama dag. 

Fram kom hjá forsvarsmönnum fyrirtækisins að stjórn HB Granda myndi taka endanlega ákvörðun um breytingar á Akranesi á mánudaginn kemur, þann 28. janúar. 

Á fundinum á mánudaginn sl. þar sem trúnaðarmönnum HB Granda og formanni félagsins voru kynnt þessi áform var ákveðið að trúnaðarmenn gætu komið með athugasemdir vegna þessara uppsagna. Var því ákveðið að fundað yrði aftur föstudaginn 25. janúar þar sem þessar athugasemdir yrðu lagðar fram.

Eftir fundinn á mánudaginn þá fór formaður Verkalýðsfélags Akraness að kanna hver réttur starfsmanna væri.  Sérstaklega í ljósi þess að VLFA telur að þessi áform séu röng með hagsmuni HB-Granda í huga og hægt væri að ná fram mun betri hagræðingu í landvinnslu fyrirtækisins án þessara uppsagna hér á Akranesi.  Í þessari könnun formanns kom fram að um þessar uppsagnir gilda að sjálfsögðu lög um hópuppsagnir nr. 63/2000 sem atvinnurekendum ber að fara eftir í hvívetna. 

Í lögunum kemur skýrt fram að vinna skuli eftir ákveðnu upplýsinga- og samráðsferli með trúnaðarmönnum séu uppi áform um hópuppsagnir.  Í 5. gr. laganna er kveðið á um að í samráðinu felist skylda atvinnurekanda til að kynna og ræða við trúnaðarmann eða fulltrúa starfsmanna, sbr. 1. mgr., um áformin, rökstyðja þau og gefa honum kost á að koma sjónarmiðum sínum og tillögum á framfæri áður en endanleg ákvörðun er tekin af atvinnurekanda.

Einnig er kveðið á um í 6. gr. laganna að atvinnurekandi skuli vegna samráðs aðila skv. 5. gr. láta trúnaðarmanni eða fulltrúa starfsmanna, sbr. 1. mgr. 5. gr., skriflega í té allar upplýsingar sem máli skipta um fyrirhugaðar uppsagnir. (sjá nánar í lögunum með því að smella hér)

Á fundinum í morgun gerði formaður VLFA alvarlegar athugasemdir við að ekki hafii verið farið eftir því samráðsferli sem lögin kveða skýrt á um.  Á fundinum á mánudaginn sl. var okkur tilkynnt um þessi áform án þess að nein skrifleg rök fyrir þessari ákvörðun væru lögð fram.  Á þeirri forsendu lögðu trúnaðarmenn og Verkalýðsfélag Akraness á fundinum í dag fram athugasemdir vegna áforma stjórnar HB Granda um að segja öllum starfsmönnum landvinnslunnar upp störfum 1. febrúar 2008.  Hægt er að skoða athugasemdirnar með því að smella hér.

Á þessum athugasemdum sést að VLFA og trúnaðarmenn hafa óskað eftir skriflegum upplýsingum frá stjórn HB Granda um hvaða fjárhags- og rekstrarforsendur eru fyrir því að hagkvæmt sé fyrir félagið að segja upp öllum starfsmönnum fiskvinnslunnar á Akranesi og færa stærstan hluta starfsemi hennar á annað starfssvæði. Einnig kemur fram að VLFA og trúnaðarmenn telja að hægt sé að ná fram hagræðingu í rekstri fyrirtækisins með öðrum hætti en kynnt hefur verið.  Þá niðurstöðu ætluðu trúnaðarmenn og VLFA að kynna að fengnu svari frá stjórn HBGranda. 

Rétt er að minna á að stjórn HB Granda tilkynnti í ágúst í fyrra að fyrirtækið ætlaði að reisa nýtt fiskiðjuver hér á Akranesi og flytja alla landvinnsluna hingað og stjórnarformaðurinn Árni Vilhjálmsson rakti í bréfi til Faxaflóahafna hagkvæmnina sem af því hlytist.  Því spyrja starfsmenn hér á Akranesi sig, hvað hefur breyst? 

Gert er ráð fyrir að samráðsferli taki alla jafna um 30 daga en þetta "samráð" er keyrt í gegn á einungis 7 dögum. Þetta gerir trúnaðarmönnum ókleyft að koma sínum athugasemdum á framfæri eins og lögin kveða skýrt á um.  Þessi framkoma verður að teljast með ólíkindum í ljósi alvarleika málsins og er forsvarsmönnum HB Granda til skammar. 

Það er skoðun formanns Verkalýðsfélags Akraness og lögmanna félagsins að HB Grandi hafi brotið lög um hópuppsagnir. Á þeirri forsendu hefur Verkalýðsfélag Akraness ákveðið stefna HB Granda fyrir dómstóla vegna þess máls.

Það er sorglegt að sjá hvernig farið hefur verið með okkur Skagamenn í þessari sameiningu við Granda. Sem dæmi þá höfum við tapað yfir 150 störfum frá sameiningunni 2004 og með þessari ákvörðun er verið að skrifa lokakaflann í 100 ára atvinnusögu útgerðar og fiskvinnslu á Akranesi.  

Hægt að lesa ítarlega um hópuppsagnir í umfjöllun Ingvars Sverrissonar hdl. og lögfræðings ASÍ með því smella hér.

24
Jan

Góður fundur haldinn í opinberu deildinni í gær

Aðalfundir deilda félagsins standa nú yfir þessa dagana. Á mánudaginn hélt stóriðjudeildin sinn aðalfund og á þriðjudaginn var það Iðnsveinadeildin sem hélt sinn fund.  Báðir þessir fundir voru mjög góðir og voru fjölmörg mál til umræðu t.d. þær kjaraviðræður sem nú standa yfir.

Í gærkveldi hélt opinbera deildin sinn fund og var hann afar góður, en nánast allir þeir starfsmenn sjúkrahúss Akraness sem tilheyra Verkalýðsfélagi Akraness mættu á fundinn.  Formaður vill að það komi skýrt fram að það er til algjörar fyrirmyndar hversu vel starfsmenn SHA mæta ávalt þegar boðað til til fundar hjá Verkalýðsfélagi Akraness og mættu aðrar deildir innan félagsins taka starfsmenn SHA sér til fyrirmyndar.

Á fundinum í gær voru fjölmörg mál til umræðu en hæst bar þó komandi kjarasamningar við ríkið, en núverandi kjarasamningur rennur út 31. mars nk.  Á fundinum var mótuð krafa félagsins vegna komandi samninga við ríkið og í kröfugerðinni kemur m.a fram að krafist verður stór-hækkunar á launatöxtum til handa starfsfólki sem starfar á heilbrigðisstofnunum.

Formaður gerði grein fyrir hinum ýmsu málum sem félagið er að vinna að þessa daganna t.d. samningaviðræðum við Samtök atvinnulífsins vegna kjarasamnings á hinum almenn vinnumarkaði.  Einnig var fjallað um þau skelfilegu tíðindi er lúta að uppsögnum starfsmanna HB-Granda. Fram kom í máli formanns að reynt verður allt til að fá stjórnendur HB-Granda til breyta þessari ákvörðun sinni.  Það er skoðun stjórnar VLFA að hagsmunum fyrirtækisins í heild sinni sé betur borgið með því að hverfa frá þessum uppsögnum og leita annarra leiða til hagræðingar í rekstri fyrirtækisins og eru margar leiðir sem hægt væri að fara í þeim efnum. 

Eftir á að halda tvo aðalfundi í deildunum en það er hjá almennu deildinni sem verður á mánudaginn og að lokum er það matvæladeildin sem verður með sinn fund á þriðjudaginn.  Báðir fundirnir eru haldnir í fundarsal félagsins að Sunnubraut 13. og hefjast kl. 20:00.

23
Jan

Málefni fiskvinnslufólks til umræðu á Rás 1

Eins og fram hefur komið í fjölmiðlum á undanförnum dögum þá er búið að boða samdrátt og lokanir hjá fiskvinnslustöðvum víða um land.  Við Skagamenn teljum að með ákvörðun stjórnar HB-Granda um að segja öllum starfsmönnum landvinnslunnar upp störfum séu þeir í raun að semja lokakaflann í 100 ára atvinnusögu útgerðar og fiskvinnslu á Akranesi.      

Málið verður til umræðu á Rás 1 í fyrramálið klukkan 7:30 og mun Vilhjálmur Birgisson formaður félagsins taka þátt í umræðum um alvarlega stöðu fiskverkafólks vítt og breytt um landið. 

Hægt er að fylgjast með umræðunni með því að smella hér.

23
Jan

Bæjarbúar lamaðir vegna ákvörðunar HB Granda

Bæjarbúar á Akranesi eru sem lamaðir vegna frétta af fyrirhuguðum uppsögnum HB Granda. Fjallað var um málið á bæjarstjórnarfundi á Akranesi sem haldinn var í gær og var þar lögð fram harðorð ályktun vegna uppsagna HB Granda á öllum starfsmönnum fyrirtækisins í landvinnslu á Akranesi. Fram kemur mikil óánægja og vonbrigði með þessa ákvörðun stjórnenda fyrirtækisins.

„Bæjarstjórn Akraness harmar að stjórn og stjórnendur HB Granda hf. hafi gripið til þeirrar óheilla ákvörðunar að segja upp öllum starfsmönnum fyrirtækisins, sem vinna í fiskvinnslu á Akranesi og tapa þar með í leiðinni miklum mannauði og trúverðugleika.  Ákvörðunin kemur verulega á óvart eftir fyrri yfirlýsingar og fyrirheit stjórnarformanns félagsins, Árna Vilhjálmssonar.

Bæjarstjórn lýsir yfir megnri óánægju með ákvörðun stjórnar og stjórnenda fyrirtækisins, en með henni eru þeir í raun að semja lokakaflann í 100 ára atvinnusögu útgerðar og fiskvinnslu á Akranesi.  Með ákvörðun um stórfelldar uppsagnir starfsfólk í fiskvinnslu á Akranesi  er vegið alvarlega að grundvallar atvinnustarfsemi í bæjarfélaginu og lífsviðurværi bæjarbúa.  Bæjarstjórn Akraness mótmælir harðlega þeim vinnubrögðum sem stjórnendur fyrirtækisins hafa haft við niðurskurð starfa á Akranesi á undanförnum misserum og ekki hvað síst þeirri ákvörðun sem tilkynnt er um nú.  Uppsagnirnar, sem eru gerðar í nafni hagræðingar orka mjög tvímælis m.a. í ljósi ákjósanlegra aðstæðna á Akranesi til útgerðar og fiskvinnslu. Kynntar hafa verið hugmyndir um frekari þróun Akraneshafnar HB Granda hf. til hagsbóta og þar er fyrir hendi öflugt og traust starfsfólk, sem nú blasir við að missi atvinnu sína.

Bæjarstjórn Akraness óskar eftir tafarlausum fundi með stjórn og stjórnendum HB Granda hf. þar sem þeir geri grein fyrir ákvörðunum sínum og framtíðar rekstri fyrirtækisins á Akranesi.  Ennfremur óskar bæjarstjórn eftir fundi með þingmönnum Norð-Vesturkjördæmis um stöðu mála.“

Stjórn Verkalýðsfélags Akrnaess fagnar innilega þessari ályktun sem allir bæjarfulltrúar Akraness stóðu að.  Ályktunin er algerlega í samræmi við þann málflutning sem formaður félagsins hefur haft vegna þessa uppsagna.  Stjórn VLFA telur jafnframt að allir bæjarbúar þurfi að leggast á eitt um fá þessari röngu ákvörðun stjórnar HB-Granda breytt enda telur stjórn Verkalýðsfélags Akraness þessar uppsagnar ekki vera byggðar á hagræðissjónarmiðum.

Nokkrir bæjarfulltrúar voru eðlilega harðorðir í garð stjórnenda HB-Granda vegna þessara uppsagna og voru ræður Sveins Kristinssonar, Guðmundar Páls Jónssonar og Guðrúnar Gunnarsdóttur mjög góðar.  Einnig var afar ánægjulegt að breið pólítísk samstaða var um áðurnefnda ályktun og því fagnar Verkalýðsfélag Akraness þessari ályktun innilega eins og áður sagði .

Hægt er að hlusta á upptöku frá bæjarstjórnarfundinum með því að smella hér.

22
Jan

Ríkisstjórnin verður að koma fiskvinnslufólki til hjálpar

Eins og fram kom hér á heimasíðunni í gær þá verður tæplega 70 starfsmönnum landvinnslunnar hjá HB-Granda á Akranesi sagt upp störfum frá og með 1. febrúar nk. en 20 starfsmönnum verður boðin endurráðning.

Það er sorglegt fyrir okkur Skagamenn að hafa þurft að horfa á eftir uppundir 150 störfum hverfa úr byggðarlaginu eftir að fyrirtækið Haraldur Böðvarson sameinaðist Granda árið 2004.  Það er eitthvað sem engum Skagamanni hefði dottið í hug að gæti gerst.  Það liggur algerlega ljóst fyrir að við Skagamenn höfum farið afskaplega illa útúr þessari sameiningu og er þar vægt til orða tekið.

Formaður félagsins telur að sú ákvörðun stjórnar HB Granda að nánast hætta landvinnslu hér á Akranesi sé röng, ef tekið er tillit til hagsmuna fyrirtækisins til lengri tíma litið. Verkalýðsfélag Akraness telur að stjórn HB Granda geri sér ekki grein fyrir þeim gríðarlega mannauði sem er fólginn í mikilli þekkingu og reynslu sem tapast við áðurnefnda ákvörðun.

Það er ekki aðeins verið að segja upp fólki hér á Akranesi heldur dynja yfir landsbyggðina vítt og breitt uppsagnir landvinnslufólks og eru þær uppsagnir flestar byggðar á þeim niðurskurði sem orðið hefur á aflaheimildum í þorski.

Formanni reiknast til að á síðustu mánuðum hafi á milli 300 og 400 starfsmenn í fiskvinnslu misst lífsviðurværi sitt. Flestar þessar uppsagnir eru eins og áður sagði byggðar á  30% niðurskurði á aflaheimildum í þorski.

Er það eðlilegt að það séu nánast einungis fiskvinnslufólk sem verði illilega fyrir barðinu á þessum niðurskurði? Hvað með samfélagslega ábyrgð útgerðarmanna í þessum samdrætti?

Það liggur fyrir að Alþingi hefur komið til móts við útgerðarmenn vegna niðurskurðar á aflaheimildum í þorski og sem dæmi má nefna að veiðileyfagjald á þorski hefur verið fellt niður og hækkun á veiðileyfagjaldi í öðrum aflategundum hefur verið frestað um óákveðinn tíma. Þetta sparar útgerðaraðilum á milli 200 og 300 milljónir. Hvað með fólkið sem núna stendur á götunni? Lífsviðurværið hefur verið tekið af því.

Það er skylda íslenskra stjórnvalda að koma þessu fólki tafalaust til hjálpar. En þær mótvægisaðgerðir sem ríkisstjórnin hefur kynnt virðast á lítinn sem engan hátt koma því fólki til hjálpar.

Það er skoðun formanns að það fiskveiðistjórnunar- og framsalskerfi sem nú er við lýði sé meginorsök þess vanda sem heilu byggðalögin standa nú frammi fyrir. Það getur ekki verið eðlilegt að einstaka útgerðarmenn geti tekið ákvörðun um að selja aflaheimildir sínar burt úr sínu byggðalagi og skilja tugi fjölskyldna eftir í átthagafjötrum eins og nú er að gerast vítt og breitt um landið.

Það heyrast harmakvein frá forsvarsmönnum LÍÚ vegna þeirra erfiðleika sem steðja að sjávarútvegi. En þegar grannt er skoðað virðist það fyrst og fremst vera fiskvinnslufólk og sjómenn sem verða fyrir hvað mestum skaða. LÍÚ talar um að þeir séu að taka á sig gríðarlegar skerðingar vegna ákvörðunar sjávarútvegsráðherra og þeir telja að þegar þorskstofninn stækkar aftur þá eigi skerðingin sem þeir hafa orðið fyrir að sjálfsögðu að renna aftur til þeirra. En eins og áður sagði er það fyrst og fremst fiskvinnslufólk sem er að verða fyrir launaskerðingu sem og atvinnumissi. Því er tækifæri nú fyrir íslensk stjórnvöld að taka til sín væntanlega aukninguna á aflaheimildum í þorski, þegar og ef hún verður. Það er algerlega ástæðulaust að skila slíkri aukningu til útgerðarmanna sem hafa hagað sér með þeim hætti sem alþjóð hefur orðið vitni að á undanförnum vikum og mánuðum.

Formaður Verkalýðsfélags Akraness mun beita sér fyrir því innan Starfsgreinasambands Íslands að haldinn verði fundur með forsætisráðherra og sjávarútvegsráðherra vegna þessara skelfilegu tíðinda sem nú dynja á fiskvinnslufólki um allt land.

21
Jan

Fjöreggi okkar Skagamanna að blæða út

Í morgun var formaður Verkalýðsfélags Akraness ásamt trúnaðarmanni HB-Granda boðaður á fund með forsvarsmönnum fyrirtækisins. Á þeim fundi var tilkynnt að fyrirtækið hyggðist segja öllum starfsmönnum landvinnslunnar á Akranesi upp störfum frá og með 1. febrúar nk. Einnig kom fram í máli forsvarsmanna fyrirtækisins að þeir hyggðust endurráða um 20 starfsmenn sem eiga að starfa í flakavinnslu og í vinnslu loðnuhrogna.

Samkvæmt þeim upplýsingum sem félagið hefur þá starfa í landvinnslunni rétt tæplega 70 manns. Sum þessara starfa eru hlutastörf.

Formaður sagði á fundinum í morgun að frá því að Haraldur Böðvarsson sameinaðist Granda og Tanga frá Vopnafirði árið 2004, þá hafi störfum tengdum fyrirtækinu hér á Akranesi fækkað gríðarlega. Sem dæmi þá voru starfandi í landvinnslunni í júlí 2004 í kringum 144 manns, en í dag er fjöldinn kominn niður í tæplega 70 manns. Á þessu sést að verulega hefur hallað á Akurnesinga við þessa sameiningu. Þessu til viðbótar er búið að leggja aflaskipinu Víkingi, og einnig var skuttogaranum Haraldi Böðvarssyni lagt ekki alls fyrir löngu. Starfsmönnum Síldarbræðslunnar hefur einnig fækkað verulega á undanförnum tveimur árum.

Samkvæmt gögnum sem félagið hefur undir höndum þá hefur starfsmönnum HB-Granda fækkað um 144 frá sameiningu og eru sjómenn með í þeirri tölu. Er hér einungis verið að tala um þá starfsmenn sem tilheyra Verkalýðsfélagi Akraness og eru þá ótaldir allir þeir starfsmenn sem störfuðu á skrifstofu fyrirtækisins, smíðaverkstæði og öðrum álíka einingum innan fyrirtækisins.

Einnig ákvaðu forsvarsmenn HB-Granda fyrir nokkrum mánuðum að hætta að landa úr frystiskipum fyrirtækisins og Sturlaugi H. Böðvarssyni hér á Akranesi og er aflanum í dag landað í Reykjavík í dag. Við þessa ákvörðun töpuðust þó nokkur afleidd störf því tengd.

Á þessu sést að við Skagamenn höfum farið skelfilega illa út úr þessari sameiningu og telur félagið að ekki sé hægt að sætta sig möglunarlaust við að 100 ára gamalt fyrirtæki sem hefur byggt upp það góða samfélag sem hér er, sé nánast látið blæða út eins og nú er að gerast.

Formaður félagsins tjáði forsvarsmönnum fyrirtækisins að þessi ákvörðun stjórnar HB-Granda um að segja öllu landvinnslufólki upp störfum væri ein sú skelfilegasta sem Akurnesingar hafa fengið á liðnum árum og áratugum.

Það var Eggert B. Guðmundsson, forstjóri HB-Granda, sem greindi starfsmönnum frá fyrirhuguðum uppsögnum á starfsmannafundinum. Í lok fundarins tók formaður félagsins tók til máls og í lokaorðum hans kom fram að forsvarsmenn HB-Granda ættu að skammast sín fyrir þessa ákvörðun enda hefur verulega hallað á okkur Skagamenn frá því að HB sameinaðist áðurnefndum fyrirtækjum.  Með þessari ákvörðun er verið eyðileggja áratuga þekkingu og reynslu þess góða fiskvinnslufólks sem starfað hefur hjá HB-Granda á Akranesi á undanförnum árum og áratugum.

Formaður talaði við starfsmenn eftir fundinn í morgun, og ljóst var að starfsmönnum var verulega brugðið við þessi tíðindi. Áttu einstaka starfsmenn erfitt með að leyna tilfinningum sínum enda hafa margir þeirra unnið þarna í áratugi.

Það er alveg ljóst að allflestir Skagamenn eru niðurbrotnir vegna þessarar ákvörðunar enda hefur þetta fyrirtæki verið fjöregg okkar Skagamanna í ein 100 ár.

18
Jan

Aðgerðahópur stofnaður til að knýja fram nýjan kjarasamning

Aðalsamninganefnd Starfsgreinasambandsins fundaði í gær um stöðu mála í kjaraviðræðum við Samtök atvinnulífsins, en lítið hefur þokast áfram eftir að kjarasamningur á hinum almenna vinnumarkaði rann út um áramótin.

Eins fram hefur komið í fréttum þá hafa forsvarsmenn SA hafnað kjarasamningi til skamms tíma og á þeirri forsendu ákvað samninganefndin að stofna sérstakan fimm manna aðgerðahóp sem hefur það verk að skoða leiðir til að knýja fram nýjan kjarasamning fyrir almennt verkafólk.  Formaður Verkalýðsfélags Akraness á sæti í þessum aðgerðahópi.  Það má segja að með stofnun sérstaks aðgerðahóps hafi Starfsgreinasambandið sýnt að það er svo sannarlega tilbúið að beita öllum ráðum til að knýja fram viðunandi kjarasamning til handa íslensku verkafólki.  Áætlað er að aðgerðahópurinn skili inn tillögum um aðgerðir, til að knýja á um nýjan kjarasamning í næstu viku ef ekkert þokast í dag og næstu daga við samningaborðið.

Heyrst hefur að Samtök atvinnulífsins vilji semja til langs tíma eða allt að fjögur ár.  Eins og fram kom hér á heimasíðunni þá hugnast formanni félagsins það ekki.  En að sjálfsögðu er ekki hægt að útiloka neina möguleika nema að fá að sjá hvað yrði í boði í slíkum kjarasamningi.  Það er mat formanns VLFA að til að hægt verði að ganga að slíkum langtímasamningi þá þyrftu endurskoðunarákvæði að vera hvellskýr þ.e.a.s. skýr uppsagnarákvæði er lúta að verðbólgu og launaþróun annarra starfsstétta. 

17
Jan

Aðalsamninganefnd SGS fundar í dag

Lagfæra þarf kjör fiskvinnslufólks sérstaklegaLagfæra þarf kjör fiskvinnslufólks sérstaklegaAðalsamninganefnd Starfsgreinasambands Íslands hefur verið boðuð til fundar í húsakynnum ríkissáttasemjara kl. 13:15 í dag, en formaður félagsins situr í þeirri nefnd. Á fundinum verður farið yfir stöðuna og væntanlega tekin ákvörðun um hver næstu skerf verða í þessum samningaviðræðum við Samtök atvinnulífsins.

Haft hefur verið eftir forsvarsmönnum SA í fréttum að þeir vilji að gildistími samningsins verði mun lengri en hugmyndir SGS hafa falið í sér og hafa forsvarsmenn SA talað um samning í allt að fjögur ár.  Formanni VLFA hugnast ekki svo langur samningur, einfaldlega vegna þeirrar miklu óvissu sem ríkir í efnahagsmálum þessa stundina og einnig hefur það verið reynslan að aðrir launahópar sem semja á eftir almennu verkafólki hafa verið að gera mun hagstæðari samninga.

Það gengur hreinlega ekki upp lengur að þess sé enn og aftur krafist af íslensku verkafólki að það stilli kröfum sínum í hóf til að hægt sé að viðhalda stöðuleika hér á landi.  Þeir aðilar sem hafa verið kalla eftir því að gerðir verði hófstilltir kjarasamningar hjá almennu verkafólki hafa margir hverjir verið að taka til sín gríðarlegar launahækkanir á síðustu misserum og nægir að nefna æðstu stjórnendur ríkisins í því sambandi.  Ekki má heldur gleyma þeim launahækkunum sem seðlabankastjórinn Davíð Oddsson hefur fengið á síðustu mánuðum en mánaðarlaun hans hafa hækkað um 200.000 þúsund á undanförnum mánuðum. 

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image