• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
02
Apr

Umtalsverðar verðhækkanir á matvöru á síðustu 10 mánuðum

Verð á algengum mat- og drykkjarvörum sem verðlagseftirlit ASÍ kannaði verð á fimmtudaginn 27. mars hefur hækkað um allt að 10-30% frá því í maí í fyrra. Af þeim vörum sem skoðaðar voru hefur meðalverð hækkað mest á brauðmeti, pasta og hrísgrjónum, sem hefur víða hækkað um 20-30% á milli mælinga. Þá hefur meðalverð á íslenskum agúrkum hækkað um þriðjung og á sykri um 24%. Þær mjólkurvörur sem skoðaðar voru hækkuðu almennt minna en aðrar vörur eða um 2% - 5%.

Verð á brauði, pasta, hrísgrjónum og kexi sem kannað var hækkaði almennt minna í lágvöruverðsverslunum en í öðrum verslunum. Sem dæmi má nefna að verð á Fittý samlokubrauði lækkaði um 6,5% í Kaskó og Nettó, hækkaði um 11% í Bónus og 4,5% í Krónunni. Á sama tíma hækkaði verðið á samskonar brauði um 27% í Hagkaupum, 37% í Nóatúni og um 55% í Samkaupum-Úrval. Tilda Basmati hrísgrjón hækkuðu sömuleiðis um 13-16% í lágvöruverðsverslunum en um 22% í Hagkaupum, 25% í Samkaupum-Úrval, 41% í Fjarðarkaupum og um 48% í Nóatúni.

Verð á mjólk hækkaði um 1,4% til 3,8% á milli mælinga. Mest í Hagkaupum og Samkaup-Úrval. Verð á AB-mjólk og skyri sem kannað var lækkaði almennt um 1-3% í lágvöruverðsverslunum en hækkaði um 3%-5% í öðrum verslunum.

Grænmeti og ávextir hafa einnig hækkað mikið í verði. Kílóverð á íslenskum agúrkum hækkaði t.a.m. um 105% í Kaskó, 73% í Bónus og Nettó og um 40% í Krónunni. Breytingin var nokkuð minni í öðrum verslunum, í Hagkaup lækkaði kílóverð á agúrkum um 6% milli mælinga, í Nóatúni var hækkunin 31%, 15% í Samkaupum-Úrval og 10% í Fjarðarkaupum.

Verð á Merrild kaffi hækkaði víðast um 9%-11%, nema í Kaskó þar sem hækkunin var einungis 2%.

Þá hækkaði verð á 2 lítra flösku af Coca cola um 15-25% í lágvöruverðsverslunum en um 4-9% í öðrum verslunum.

Þær verðbreytingar sem hér birtast eru í ágætu samræmi við verðbreytingar á mat- og drykk i vístölu neysluverðs þótt vissulega geti verið umtalsverður munur þegar skoðað er verð á einstökum vöruliðum og verslunum. Sem dæmi hafa brauð og kornvörur í vísitölunni hækkað um 10% frá því í maí í fyrra, mjólk um 2,8%, ávextir um 15%, grænmeti um 18%, kaffi um 4,5% og sykur um 9%.

Þær verðbreytingar sem hér eru birtar miða við breytingar á verði verslana milli verðmælinga verðlagseftirlits ASÍ í byrjun maí 2007 og verðkönnunar verðlagseftirlitsins frá 27.mars 2008. Rétt er að árétta að mæld eru þau verð sem eru í gildi á hverjum tíma í verslunni og geta tilboðsverð haft umtalsverð áhrif á verðbreytingar einstakra vara.

Verðbreytingar eru skoðaðar í eftirtöldum verslunum; Bónus, Krónunni, Nettó, Kaskó, Hagkaupum, Nóatúni, Samkaupum-Úrval Hafnarfirði og Fjarðarkaupum.

Hér er aðeins um beinan verðsamanburð að ræða, en ekki er lagt mat á gæði eða þjónustu söluaðila.

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image