• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
Fréttir

Fréttir

09
Dec

Góð vinnustaðaheimsókn til Norðuráls

Formaður fór í vinnustaðaheimsókn til Norðuráls síðasta föstudag, en stjórn félagsins leggur mikla áherslu á að vera í nánu og góðu sambandi við félagsmenn sína og var þessi vinnustaðaheimsókn einn liður í þeirri vinnu.

Á föstudaginn var það C vaktin sem formaður heimsótti og fór formaðurinn víða um verksmiðjuna og tók tugi starfsmanna tali en heimsóknin stóð í tæpa þrjá tíma.

Þau mál sem brunnu helst á starfsmönnum voru öryggis og launamál og fékk formaður fjölmargar spurningar þessum málum tengdar.  Formaður er ekki í neinum vafa um að öryggismál Norðuráls verða tekin föstum tökum á næstu misserum. Sérstaklega í ljósi þess að öll orka fyrirtækisins á liðnum árum hefur farið í stækkun verksmiðjunnar, nú er þeim kafla hins vegar lokið.  Á þeirri forsendu munu forsvarsmenn Norðurál geta einbeitt sér mun betur að þeim þáttum er lúta að innri kjarastarfsemi fyrirtækisins t.d. öryggismálum.

Fram kom í máli formanns að í næstu kjarasamningum verður gerð skýlaus krafa um að minnka launamuninn  á milli Alcan og Norðuráls enn frekar.  Enda er það með öllu óásættanlegt að það skuli ríkja launamunur á milli verkasmiðja í sömu starfsgrein.

Þessi heimsókn var feikilega vel heppnuð og mun formaður stefna að því að heimsækja allar vaktirnar á næstu vikum.  Í dag starfa um 500 manns hjá Norðuráli og eru um 400 þeirra félagsmenn Verkalýðsfélags Akraness. 

07
Dec

Verkalýðsfélag Akraness styrkir góðgerðarmál á Akranesi

Í lok árs 2005 gerði stjórn Verkalýðsfélags Akraness mjög góðan samning við Landsbankann á Akranesi um öll bankaviðskipti félagsins. Í einu ákvæði samningsins er kveðið á um að Landsbankinn greiði Verkalýðsfélagi Akraness kr. 500.000 í sérstakan styrktarsjóð sem nota á til að styrkja góðagerðarmál á félagssvæði VLFA.

Þetta er í annað sinn sem stjórn félagsins útdeilir úr styrktarsjóðnum.  Þau félög og samtök sem fá styrki úr sjóðnum í ár eru:

  • Styrktar-og líknarsjóður Akraneskirkju 100.000 kr.
  • Björgunarfélag Akraness unglingastarf 100.000 kr.
  • Mæðrastyrksnefnd Akraness               100.000 kr.
  • Skátafélagið Akranesi unglingastarf     100.000 kr.
  • Sambýlið Akranesi Vesturgötu              50.000 kr.
  • Sambýlið Laugabraut                           50.000 kr
06
Dec

Kynningarfundur með starfsmönnum Íslenska járnblendifélagsins

Undanfarna mánuði hefur formaður félagsins verið með kynningarfundi fyrir starfsmenn Íslenska járnblendifélagsins um réttindi og skyldur starfsmanna Íj og í dag voru það starfsmenn á C vakt sem fengu sína kynningu.  Formaður er búinn að halda kynningarfundi með öllum vöktunum og nú á einungis eftir að funda með dagmönnunum.

Þessir kynningafundir hafa heppnast alveg ótrúlega vel og hafa starfsmenn látið mjög vel af þessum fundum og ávalt hafa skapast skemmtilegar umræður um hin ýmsu mál er lúta að starfi starfsmanna Íslenska járnblendifélagsins.

Þessir fundir hafa klárlega skilað árangri og sem dæmi má nefna að á þeim hefur formaður farið ítarlega yfir bónuskerfi starfsmanna sem því miður hefur ekki verið að skila þeim árangri sem samningsaðilar vonuðust til þegar bónuskerfið var sett á.  Það eru þættir í bónuskerfinu sem starfsmenn geta haft áhrif á og hefur formaður farið yfir þá þætti á fundunum sem haldir hafa verið.  Það hefur skilað þeim árangri að bónusinn hefur aldrei mælst jafnhár eins og síðustu tvo mánuði.

05
Dec

Fundað stíft vegna kjarasamnings á hinum almenna vinnumarkaði

Fundartörnin við Samtök atvinnulífsins vegna kjarasamnings á hinum almenna vinnumarkaði hélt áfram í dag.  Þau málefni kjarasamningsins sem voru til umfjöllunar í dag voru m.a. sérmál fiskvinnslunnar, ræstingin og málefni er lúta þjónustusviði samningsins.  Á morgun verður hins vegar fundað um sérmál er lúta að iðnaðarkafla kjarasamningsins.

Þrátt fyrir nokkuð stíf fundarhöld síðustu daga þá er ekkert byrjað að ræða um launaliði samningsins og ekki er vitað á þessari stundu hvenær þær viðræður muni hefjast.

Í Morgunblaðinu í dag er talað um að efasemdir séu innan verkalýðshreyfingarinnar um að það takist að klára samninga fyrir jól.  Erfitt er að leggja mat á slíkar vangaveltur þar sem samningsaðilar eru ekki farnir að ræða aðalmálið sem er að sjálfsögðu launaliðir kjarasamningsins.  En vonandi næst að ganga frá nýjum kjarasamningi í desember eins og viðræðuáætlun samningsaðila gerir ráð fyrir. 

Eins og fram hefur komið hér á heimasíðunni þá er VLFA með tvo sérkjarasamninga sem eru lausir nú um áramótin, annarsvegar vegna starfsmanna síldarbræðslunnar og hins vegar vegna starfsmanna gjaldskýlisins við Hvalfjarðagöng.  Formaður hefur lagt fram kröfugerð vegna þessara samninga til Samtaka atvinnulífsins og er áformað að funda fljótlega vegna þessara samninga með forsvarsmönnum SA.

04
Dec

Annríki í Karphúsinu

Fulltrúar SGS, þau Aðalsteinn, Anna, Vilhjálmur og Fjóla ræða við fulltrúa SA , þá Arnar og Jón Rúnar í KarphúsinuFulltrúar SGS, þau Aðalsteinn, Anna, Vilhjálmur og Fjóla ræða við fulltrúa SA , þá Arnar og Jón Rúnar í KarphúsinuFormaður félagsins hefur haft í nógu að snúast í dag. Fyrir hádegi sat hann samningafund vegna sérkjarasamnings fyrir starfsmenn fiskimjölsverksmiðja. Eftir hádegið tók við fundur samninganefndar SGS við SA vegna almennu kjarasamninganna.

Á morgun verður fundað vegna sérmála fiskvinnslunnar og einnig verður farið yfir málefni er lítur að ræstingarkafla kjarasamningsins.

Ljóst er að kjaraviðræður eru komnar á fullt skrið og framundan er gríðarlegt annríki vegna þeirra.

03
Dec

Lyf & heilsa á Akranesi neitar að taka þátt í verðkönnun

Mikill verðmunur reyndist vera á hæsta og lægsta verði á lausasölulyfjum, þ.e. lyfjum sem seld eru án lyfseðils, í verðkönnun sem verðlagseftirlit ASÍ gerði mánudaginn 26. nóvember sl. Kannað var verð á 24 algengum tegundum lausasölulyfja á höfuðborgarsvæðinu og á Akranesi. Lyfjaver við Suðurlandsbraut var langoftast með lægsta verðið í könnuninni eða á 15 lyfjum af þeim 24 sem skoðuð voru.

Könnunin var gerð í eftirfarandi 10 apótekum: Árbæjarapótek Hraunbæ 102b, Garðsapótek Sogavegi 108, Laugarnesapótek Kirkjuteigi 21, Lyf og heilsa Eiðistorgi Seltjarnarnesi, Lyfja Lágmúla 5, Lyfjaval Þönglabakka 6, Lyfjaver Suðurlandsbraut 22, Rimaapótek Langarima 21, Apótek Vesturlands Akranesi og Lyf & heilsu Akranesi. Könnunin var gerð með þeim hætti að lausasölulyfin voru skönnuð á kassa í viðkomandi apóteki og verðtökufólkið fékk kassastrimil. Ef ekki var mögulegt að fá strimil var verð skráð jafnóðum niður þegar það var skannað á kassa.

Forsvarsmaður Lyf & heilsu á Akranesi hafði samband við ASÍ eftir að könnuninni lauk og fór fram á að verð á lauasölulyfjum úr apótekinu yrði ekki birt miðað við framangreinda aðferðafræði.

Formaður Verkalýðsfélags Akraness harmar þá ákvörðun hjá forsvarsmönnum hjá Lyfju & heilsu að neita að taka þátt í áðurnefndri könnun og það eftir að búið er að taka verðkönnuna.

Það er alveg ljóst að eftir að Apótek Vesturlands kom inná markaðinn hér á Akranesi þá hefur lyfjaverð lækkað umtalsvert neytendum til hagsbóta. Það sést vel á því að Apótek Vesturlands var með lægsta verðið í sex af 24 tilfellum í verðkönnuninni.

Hægt er að skoða niðurstöður verðkönnunarinnar í heild sinni með því að smella hér.

30
Nov

Samtökum atvinnulífsins afhent kröfugerð vegna sérkjarasamnings starfsmanna Spalar ehf

Kröfugerð starfsmanna Spalar í gjaldskýlinu við Hvalfjarðargöng lögð framKröfugerð starfsmanna Spalar í gjaldskýlinu við Hvalfjarðargöng lögð framVilhjálmur Birgisson formaður Verkalýðsfélags Akraness sat í dag fund með fulltrúum Samtaka fiskvinnslustöðva og Samtaka atvinnulífsins þar sem farið var yfir sérmál fiskvinnslufólks í komandi kjarasamningum. 

Fulltrúar SGS á fundinum í dag voru Aðalsteinn Baldursson formaður matvælasviðs SGS, Vilhjálmur Birgisson formaður Verkalýðsfélags Akraness, Fjóla Pétursdóttir starfsmaður SGS og Anna Júlíusdóttir frá Einingu- iðju
Fundurinn átti að hefjast í morgun en vegna veðurs komust fulltrúar SF ekki á fundinn fyrr en eftir hádegi. Á fundinum kynntu aðilar áherslur sínar og er áætlað að næsti fundur verði haldinn næsta miðvikudag.

Eftir að búið var að fara yfir sérmál fiskvinnslunnar þá afhenti formaður Verkalýðsfélags Akraness fulltrúa Samtaka atvinnulífsins kröfugerð félagsins vegna sérkjarasamnings félagsins við Spöl ehf vegna starfsmanna Hvalfjarðaganga. 

29
Nov

Stjórn VLFA fundar í kvöld

Í kvöld mun stjórn félagsins koma saman. Þar mun formaður kynna fyrir stjórninni kröfugerðina sem Starfsgreinasamband Íslands lagði fram í gær til Samtaka atvinnulífsins.

Það liggur fyrir að gríðarleg vinna er framundan við kjarasamningsgerð og sem dæmi mun formaður eiga þrjá fundi á morgun vegna kjarasamninga á okkar félagssvæði. Það eru kjarasamningurinn á hinum almenna vinnumarkaði, kjarasamningur starfsmanna Síldarbræðslunnar á Akranesi og einnig verður lögð fram kröfugerð vegna starfsmanna Spalar ehf. í gjaldskýli Hvalfjarðarganga.

Eins og fram hefur komið hér á heimasíðunni þá er það algerlega morgunljóst að Verkalýðsfélag Akraness verður ekki tilbúið að slá af þeim kröfum sem fram hafa verið lagðar til Samtaka atvinnulífsins og vonandi næst víðtæk sátt innan SGS um að standa fast á þeirri kröfugerð sem aðildarfélögin hafa lagt fram. Ef árangur á að nást í komandi kjarasamningum verða öll aðildarfélög SGS að standa þétt saman, ef það verður ekki verður árangurinn mun rýrari fyrir íslenskt verkafólk.

28
Nov

Krafa SGS lögð fram- lágmarkslaun verði 165.000 í samningslok

Viðræðunefnd SGS lagði fram kröfur sínar á fundi með Samtökum atvinnulífsins nú áðan. Gert er ráð fyrir að laun hækki almennt um 4% þann 1. janúar n.k. og svo aftur um 4%  1. janúar 2009.

Þá er þess krafist að allir launataxtar SGS hækki þann 1. janúar n.k. um kr. 20.000 og aftur um kr. 15.000 1. janúar 2009.

Lagt er til að lágmarks tekjutrygging í dagvinnu hækki úr kr. 125.000 í kr. 150.000 þann 1. janúar n.k. og verði kr.  165.000,- 1. janúar 2009.

Þá segir í kröfugerð SGS að sérstaklega verði hugað að þeim sem setið hafa eftir í launaþróun frá endurskoðun kjarasamninga 2006 og einnig er gert er ráð fyrir aðkomu ríkisvaldsins að kjarasamningunum með aðgerðum í velferðar- og skattamálum í þágu þeirra sem hafa lág laun og miðlungslaun.

Samkvæmt kröfugerðinni er gert ráð fyrir að samið verði til tveggja ára með skýrum forsenduákvæðum, þannig að mögulegt verði að segja upp launaliðum samningsins eftir eitt ár.

Formaður Verkalýðsfélags Akraness hefur bæði sagt það í viðræðunefndinni og á formannafundi SGS að þessi kröfugerð sé með þeim hætti að ekki sé hægt að gefa neitt eftir af þeim kröfum sem lagðar hafa verið fram. 

Eins og áður sagði þá telur formaður VLFA ekki vera svigrúm til að gefa eftir af þeirri kröfugerð sem sambandið lagði fram í dag og því mun félagið standa fast á þeim kröfum er lúta að launaliðum kröfugerðarinnar. 

27
Nov

Gangsetningu stækkunar álvers Norðuráls í 260.000 tonn lokið

Stækkað álver Norðuráls á Grundartanga er nú komið í full afköst eftir að síðustu 28 kerin voru tekin í notkun um miðja síðustu viku. Verksmiðjan kemur nú til með að framleiða 260 þúsund tonn á ári. Til samanburðar má geta þess að framleiðslugeta verksmiðjunnar var 180 þúsund tonn áður en ráðist var í stækkun í ársbyrjun 2005.

Aukning framleiðslugetu álversins upp í 260.000 tonn hefur gert það að verkum að störfum hefur fjölgað gríðarlega undanfarin ár og er heildarfjöldi starfsmanna Norðuráls í kringum 500 manns. Langflestir starfsmenn Norðuráls tilheyra Verkalýðsfélagi Akraness eða sem nemur rétt tæplega 400 starfsmönnum.

Það er ekkert ofsögum sagt að Norðurál hafi átt veigamikinn þátt í að treysta búsetu og atvinnufæri hér á Akranesi enn frekar, enda kemur stór hluti starfsmanna frá Akranesi eins og áður sagði.

Þessi mikla uppbygging sem orðið hefur hjá Norðuráli á Grundartanga hefur skipt okkur Skagamenn og nærsveitir gríðarlegu máli.  Það eina sem skyggir á gleðina við þessa miklu uppbyggingu Norðuráls á Grundartanga er að launakjör starfsmanna NA eru þó nokkuð lakari en kjör starfsfélaga þeirra hjá Alcan.

Stéttarfélögin sem eiga aðild að kjarasamningi NA munu einbeita sér að því að eyða þessum launamun þegar núverandi samningur rennur út.  Enda er það óeðlilegt með öllu að kjör starfsmanna NA séu lakari en hjá starfsmönnum Alcan enda um sambærileg störf að ræða.

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image