• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
11
Jan

Erfiðar kjaraviðræður framundan

Viðræðunefnd Starfsgreinasambands Íslands kom saman til fundar í gær í húsakynnum ríkissáttasemjara, en formaður Verkalýðsfélags Akraness á sæti í viðræðunefndinni.

Eins og fram hefur komið fréttum í gær þá hafnaði ríkisstjórnin tillögum verkalýðshreyfingarinnar um sérstakan persónuafslátt á þá tekjulægstu sem gerir það að verkum að viðræður við Samtök atvinnulífsins eru komnar í hnút.  Það hefur ætíð legið fyrir af hálfu stéttarfélaganna að ríkisvaldið verði að koma að þessum viðræðum til að liðka fyrir því að hægt sé að ganga frá nýjum kjarasamningi.  

Rétt er að minna enn og aftur á það að ríkisstjórnin gerði með sér stjórnarsáttmála þar sem fram kemur að stefnt skuli að frekari lækkun skatta á einstaklinga á kjörtímabilinu, meðal annars með hækkun persónuafsláttar.  Einnig kemur fram í stjórnarsáttmálanum að unnið skuli að endurskoðun á skattkerfinu með það að markmiði að bæta hag lágtekjufólks og millitekjufólks.  Með öðrum orðum er verkalýðshreyfingin einungis að biðja ríkisstjórnina um að standa við sín eigin loforð.

Formaður félagsins finnur að þolinmæði verkfólks er að þrotum komin og vill fólk að verkalýðshreyfingin sýni fulla hörku til að knýja fram viðunandi kjarasamning til handa verkafólki.  Verkafólk horfir uppá þá miklu misskiptingu sem orðin er á launum í þessu samfélagi.  Það liggur t.d. fyrir að laun æðstu stjórnenda ríkisins hafa hækkað um 18% á síðastliðnum 2 árum á með almennt fólk hjá hinu opinbera hefur einungis fengið 7% til 9% á sama tímabili.  Eins og fram hefur komið hér á heimasíðunni áður þá hafa sveitastjórnir á höfuðborgarsvæðinu verið með sértækar aðgerðir til handa sínu fólki og t.d. eru lágmarkslaun hjá Kópavogi komin uppí 160.000 kr. á meðan lágmarkslaun á almenna vinnumarkaðnum er einungis 125.000 kr.  Þessar sértæku aðgerðir á höfuðborgarsvæðinu eru að koma þrátt fyrir að kjarasamningar séu ekki lausir hjá sveitarfélögunum fyrir en í nóvember.  Að sjálfsögðu ber að fagna þessum hækkunum enda kalla þær á að verkafólk á hinum almenna vinnumarkaði fái leiðréttingu á sínum launum í samræmi við þær hækkanir sem orðið hafa hjá sveitarfélögunum.

Á fundinum í gær var farið yfir stöðu mála og því velt fyrir sér hvað sé í stöðunni og komu til að mynda hugmyndir um að semja einungis eins árs en ekki til tveggja ára eins og áður var fyrirhugað.  Formanni félagsins líst vel á þá hugmynd, en til að það geti orðið að veruleika þurfa taxtar að hækka um 20 þúsund krónur og lágmarkslaun þurfa að hækka úr 125.000 kr. í 150.000 kr. Einnig þyrfti að koma almenn 4% til 6% launahækkun til þeirra sem ekki væru að vinna eftir töxtum.

Það er alveg ljóst að framundan eru mjög erfiðar kjaraviðræður við Samtök atvinnulífsins en með fullri samstöðu á að vera hægt að knýja fram umtalsverðar kjarabætur handa þeim sem eru með hvað lægstu launin í komandi kjarasamningum.

Viðræðunefnd SGS mun koma aftur saman til fundar strax eftir helgi til að meta stöðuna.

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image