• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
Óvissu um starfssemi Laugafisks eytt Starfsmenn Laugafisks að störfum
10
Jan

Óvissu um starfssemi Laugafisks eytt

Það var mikið fagnaðarefni þegar bæjarstjórn Akraness ákvað á fundi sínum að gera ekki athugasemdir við tillögur Heilbrigðiseftirlits Vesturlands um að starfsleyfi Laugafisks á Akranesi verði endurnýjað.  En töluverð óvissa hefur ríkt um hvort starfsleyfi fyrirtækisins yrði endurnýjað eða ekki.

Með þessari ákvörðun Heilbrigðiseftirlits Vesturlands og bæjarstjórnar Akraness hefur verið eytt þeirri óvissu sem ríkt hefur um störf allt að 30 starfsmanna Laugafisks.  Sú neikvæða umræða sem átt hefur sér stað um starfssemi fyrirtækisins á undanförnum árum og sú gríðarlega óvissa sem ríkt hefur um áðurnefnda starfssemi hefur valdið mörgum starfsmönnum fyrirtækisins töluverðri angist. 

Formaður félagsins hefur barist hart fyrir því að starfsleyfi Laugafisks yrði endurnýjað með hagsmuni starfsmanna að leiðarljósi og hefur t.d. fundað nokkrum sinnum með bæjarráði vegna málsins og einnig hefur formaður rætt við bæjarfulltrúa vegna málsins.

Formaður ætlar ekki að gera lítið úr þeim kvörtunum sem íbúar í námunda við fyrirtækið hafa komið á framfæri á undanförnum árum.  Hins vegar vita það allflestir að lyktarmengun frá Laugafiski hefur stórlagast á undanförnum árum, um það þarf ekki að deila.  Enda hefur fyrirtækið af fullum heilindum unnið að því að finna lausn á þessu hvimleiða vandamáli og hefur eins og áður sagði orðið verulega ágengt í þeim efnum.

Að sjálfsögðu þarf Laugafiskur eins og öll önnur fyrirtæki að fara eftir settum starfsleyfiskröfum og þeim skilmálum sem starfsleyfið er byggt á. 

Það var gríðarlegt fagnaðarefni að sjá hversu breiður pólitískur stuðningur var um málið og eiga bæjarfulltrúar heiður skilið fyrir hversu vel þeir settu sig inní málið. Það hefði ekki verið neitt grín að taka lífsviðurværið af allt að 30 einstaklingum í ljósi þess að stórlega hefur dregið úr lyktarmengun á undanförnum árum.

Formaður vill óska bæjarstjórn Akraness til hamingju með þessa ákvörðun en að sjálfsögðu þurfa forsvarsmenn Laugafisks að halda áfram á þeirri braut að draga úr mengun og formaður veit fyrir víst að svo verður.

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image