• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
21
Jan

Fjöreggi okkar Skagamanna að blæða út

Í morgun var formaður Verkalýðsfélags Akraness ásamt trúnaðarmanni HB-Granda boðaður á fund með forsvarsmönnum fyrirtækisins. Á þeim fundi var tilkynnt að fyrirtækið hyggðist segja öllum starfsmönnum landvinnslunnar á Akranesi upp störfum frá og með 1. febrúar nk. Einnig kom fram í máli forsvarsmanna fyrirtækisins að þeir hyggðust endurráða um 20 starfsmenn sem eiga að starfa í flakavinnslu og í vinnslu loðnuhrogna.

Samkvæmt þeim upplýsingum sem félagið hefur þá starfa í landvinnslunni rétt tæplega 70 manns. Sum þessara starfa eru hlutastörf.

Formaður sagði á fundinum í morgun að frá því að Haraldur Böðvarsson sameinaðist Granda og Tanga frá Vopnafirði árið 2004, þá hafi störfum tengdum fyrirtækinu hér á Akranesi fækkað gríðarlega. Sem dæmi þá voru starfandi í landvinnslunni í júlí 2004 í kringum 144 manns, en í dag er fjöldinn kominn niður í tæplega 70 manns. Á þessu sést að verulega hefur hallað á Akurnesinga við þessa sameiningu. Þessu til viðbótar er búið að leggja aflaskipinu Víkingi, og einnig var skuttogaranum Haraldi Böðvarssyni lagt ekki alls fyrir löngu. Starfsmönnum Síldarbræðslunnar hefur einnig fækkað verulega á undanförnum tveimur árum.

Samkvæmt gögnum sem félagið hefur undir höndum þá hefur starfsmönnum HB-Granda fækkað um 144 frá sameiningu og eru sjómenn með í þeirri tölu. Er hér einungis verið að tala um þá starfsmenn sem tilheyra Verkalýðsfélagi Akraness og eru þá ótaldir allir þeir starfsmenn sem störfuðu á skrifstofu fyrirtækisins, smíðaverkstæði og öðrum álíka einingum innan fyrirtækisins.

Einnig ákvaðu forsvarsmenn HB-Granda fyrir nokkrum mánuðum að hætta að landa úr frystiskipum fyrirtækisins og Sturlaugi H. Böðvarssyni hér á Akranesi og er aflanum í dag landað í Reykjavík í dag. Við þessa ákvörðun töpuðust þó nokkur afleidd störf því tengd.

Á þessu sést að við Skagamenn höfum farið skelfilega illa út úr þessari sameiningu og telur félagið að ekki sé hægt að sætta sig möglunarlaust við að 100 ára gamalt fyrirtæki sem hefur byggt upp það góða samfélag sem hér er, sé nánast látið blæða út eins og nú er að gerast.

Formaður félagsins tjáði forsvarsmönnum fyrirtækisins að þessi ákvörðun stjórnar HB-Granda um að segja öllu landvinnslufólki upp störfum væri ein sú skelfilegasta sem Akurnesingar hafa fengið á liðnum árum og áratugum.

Það var Eggert B. Guðmundsson, forstjóri HB-Granda, sem greindi starfsmönnum frá fyrirhuguðum uppsögnum á starfsmannafundinum. Í lok fundarins tók formaður félagsins tók til máls og í lokaorðum hans kom fram að forsvarsmenn HB-Granda ættu að skammast sín fyrir þessa ákvörðun enda hefur verulega hallað á okkur Skagamenn frá því að HB sameinaðist áðurnefndum fyrirtækjum.  Með þessari ákvörðun er verið eyðileggja áratuga þekkingu og reynslu þess góða fiskvinnslufólks sem starfað hefur hjá HB-Granda á Akranesi á undanförnum árum og áratugum.

Formaður talaði við starfsmenn eftir fundinn í morgun, og ljóst var að starfsmönnum var verulega brugðið við þessi tíðindi. Áttu einstaka starfsmenn erfitt með að leyna tilfinningum sínum enda hafa margir þeirra unnið þarna í áratugi.

Það er alveg ljóst að allflestir Skagamenn eru niðurbrotnir vegna þessarar ákvörðunar enda hefur þetta fyrirtæki verið fjöregg okkar Skagamanna í ein 100 ár.

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image