• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
08
Jan

Óþolinmæði farið að gæta hjá verkafólki

Starfsgreinasamband Íslands boðaði til formannafundar í gær í Reykjavík.  Á fundinum, var farið yfir stöðu kjaraviðræðna við Samtök atvinnulífsins og kröfur ASÍ gagnvart ríkinu.

Á fundinum var kynnt ný hugmynd að nýrri kröfugerð sem til stendur að leggja fram fyrir atvinnurekendur á morgun. 

Formaður félagsins gat ekki undir nokkrum kringumstæðum samþykkt þessar nýju hugmyndir, einfaldlega vegna þess að þær hugmyndir sem þarna voru kynntar voru ekki fullmótaðar og því erfitt að vita hvað þær þýddu í raun fyrir okkar fólk.

Á þeirri forsendu lagði formaður Verkalýðsfélags Akraness áherslu á að Starfsgreinasambandið héldi sig við þá kröfu sem lögð hefur verið fram til Samtaka atvinnulífsins.

Eins og áður hefur komið fram hér á heimasíðunni þá telur félagið það vera höfuðkröfu í komandi kjarasamningum að kjör þeirra sem lægstu hafa launin hækki stórlega í komandi kjarasamningum.

Stjórn og trúnaðarráð félagsins hefur skorað á samninganefnd SGS að standa þétt saman að þeirri kröfu sambandsins að lágmarkslaun hækki úr 125.000 kr. í 150.000 kr. á árinu 2008 og lágmarkslaunin verði orðin 165.000 kr. 1.janúar 2009.

Einnig hefur stjórn og trúnaðarráð skorað á samninganefnd SGS að hvika hvergi frá þessum kröfum.  Enda telur formaður að áðurnefndar kröfur séu forsenda fyrir því að hægt sé að ganga frá nýjum kjarasamningi.

Til að þessi krafa náist fram þurfa öll aðildarfélög SGS að standa þétt saman, án fullrar samstöðu er borin von að ná slíkri kröfu fram.

Vissulega mun skipta töluverðu máli hvernig aðkoma ríkisins verður að þessum samningum og þá sérstaklega hvað varðar skattalækkanir handa þeim tekjulægstu.  Rétt er að minna á að í stjórnarsáttmála ríkistjórnarinnar er talað um að lækka skatta á lágtekjufólk og millitekjufólk og því væri gott ef ríkisstjórnin efndi loforð sitt sem myndi klárlega liðka fyrir gerð nýs kjarasamnings.

Samninganefnd SGS mun koma saman til fundar á fimmtudaginn nk. kl. 13:00 þar sem farið verður yfir stöðuna eins og hún mun líta út þá.

Það er alveg orðið ljóst að farið er að gæta óþolinmæði hjá verkafólki hversu hægt þessar viðræður ganga, en nú eru liðnir 10 dagar frá því að kjarasamningar runnu út og ekki útlit fyrir að skrifað verði undir nýjan kjarasamning á næstu dögum.

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image