• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
02
Jan

Forsætisráðherra : Það eru fleiri en verkafólk sem þurfa að viðhalda stöðugleika í þessu samfélagi

Geir H. Haarde, forsætisráðherra, kom inn á komandi kjarsamninga á hinum almenna vinnumarkaði í áramótaávarpinu sínu til þjóðarinnar á gamlásdag. 

Þar sagði forsætisráðherrann m.a.

"Framundan eru kjarasamningar á almennum vinnumarkaði og þar með mikilvægar ákvarðanir í efnahagsmálum Íslendinga. Reynsla undanfarinna ára vekur sannarlega vonir um framhald farsællar stefnu. Í forystusveit launamanna og vinnuveitenda er ábyrgt fólk sem hefur lært það af reynslunni að hóflegir kjarasamningar sem byggja á traustu atvinnulífi og stöðugleika í efnahagsmálum leiða til mestra kjarabóta".

 

það fór ekki á milli mála að forsætisráðherra er að kalla eftir þjóðarsátt í komandi kjarasamningum og biður verkafólk um að gerðir verða hóflegir kjarasamningar í komandi samningum.

Starfsgreinasamband Íslands hefur lagt fram sýna kröfugerð til Samtaka atvinnulífsins og í þeirri kröfugerð er gert ráð fyrir að lágmarkslaun hækki úr 125.000 1. janúar 2008 í 150.000 síðan er gerð krafa um að lágmarkslaunin verði orðin 165.000 1. janúar 2009. 

Það er mat formanns félagsins að þessi krafa sé hófstillt, kannski of hófstillt.  Samt sem áður eru Samtök atvinnulífsins nú þegar búin að hafna því að lágmarkslaunin hækki í 165.000 kr.  Stjórn og trúnaðarráð Verkalýðsfélags Akraness hefur sagt að grunnforsenda þess hægt verði að ganga frá kjarasamningum sé að lágmarkslaunin hækki úr 125.000 í 165.000 á samningstímanum sem yrði til tveggja ára.

Forsætisráðherra talar um að gerðir verði hóflegir kjarasamningar til að viðhalda stöðugleika í íslensku samfélagi. Það skýtur skökku við að í fréttum fyrir örfáum dögum síðan kom fram að laun æðstu stjórnenda ríkisins hefðu hækkað um 18% á síðustu tveimur árum, en almennir starfsmenn hins opinbera hækkuðu einungis um 7-9%. Því spyr formaður sig, gilda hóflegir kjarasamningar einungis fyrir ófaglærða hjá hinu opinbera og á hinum almenna vinnumarkaði?

Þessu til viðbótar hafa laun seðlabankastjóra hækkað um 200.000 kr. á mánuði eins og fram hefur komið hér á heimasíðunni áður. Þess vegna er það óþolandi með öllu að í hvert sinn sem kemur að kjarasamningum hjá verkafólki á hinum almenna vinnumarkaði þá skuli úr öllum áttum heyrast varnaðarorð sem lúta að hóflega gerðum kjarasamningum.

Einnig er rétt að minna á það að ríki og sveitarfélög hafa á undanförnum dögum og mánuðum verið með sértækar aðgerðir vegna launamála starfsmanna sinna og nægir að nefna að dómsmálaráðherra hækkaði laun lögreglumanna um 30.000 kr. ekki alls fyrir löngu, sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu hafa einnig verið með sértækar aðgerðir handa sínum starfsmönnum og sem dæmi þá hækkuðu laun grunnskólakennara í Kópavogi um 18.000 kr. Allar þessar launahækkanir og sértæku aðgerðir koma þrátt fyrir að kjarasamningar þessara hópa séu ekki lausir. Vissulega ber að fagna þessum sértæku aðgerðum en að sama skapi er það eins og áður sagði óþolandi að þegar kemur að kjarasamningum hjá almennu verkafólki þá skuli heyrast varnaðarorð úr öllum áttum um að nú skuli stigið varlega til jarðar ella sé stöðugleika í íslensku samfélagi ógnað.

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image