• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
22
Jan

Ríkisstjórnin verður að koma fiskvinnslufólki til hjálpar

Eins og fram kom hér á heimasíðunni í gær þá verður tæplega 70 starfsmönnum landvinnslunnar hjá HB-Granda á Akranesi sagt upp störfum frá og með 1. febrúar nk. en 20 starfsmönnum verður boðin endurráðning.

Það er sorglegt fyrir okkur Skagamenn að hafa þurft að horfa á eftir uppundir 150 störfum hverfa úr byggðarlaginu eftir að fyrirtækið Haraldur Böðvarson sameinaðist Granda árið 2004.  Það er eitthvað sem engum Skagamanni hefði dottið í hug að gæti gerst.  Það liggur algerlega ljóst fyrir að við Skagamenn höfum farið afskaplega illa útúr þessari sameiningu og er þar vægt til orða tekið.

Formaður félagsins telur að sú ákvörðun stjórnar HB Granda að nánast hætta landvinnslu hér á Akranesi sé röng, ef tekið er tillit til hagsmuna fyrirtækisins til lengri tíma litið. Verkalýðsfélag Akraness telur að stjórn HB Granda geri sér ekki grein fyrir þeim gríðarlega mannauði sem er fólginn í mikilli þekkingu og reynslu sem tapast við áðurnefnda ákvörðun.

Það er ekki aðeins verið að segja upp fólki hér á Akranesi heldur dynja yfir landsbyggðina vítt og breitt uppsagnir landvinnslufólks og eru þær uppsagnir flestar byggðar á þeim niðurskurði sem orðið hefur á aflaheimildum í þorski.

Formanni reiknast til að á síðustu mánuðum hafi á milli 300 og 400 starfsmenn í fiskvinnslu misst lífsviðurværi sitt. Flestar þessar uppsagnir eru eins og áður sagði byggðar á  30% niðurskurði á aflaheimildum í þorski.

Er það eðlilegt að það séu nánast einungis fiskvinnslufólk sem verði illilega fyrir barðinu á þessum niðurskurði? Hvað með samfélagslega ábyrgð útgerðarmanna í þessum samdrætti?

Það liggur fyrir að Alþingi hefur komið til móts við útgerðarmenn vegna niðurskurðar á aflaheimildum í þorski og sem dæmi má nefna að veiðileyfagjald á þorski hefur verið fellt niður og hækkun á veiðileyfagjaldi í öðrum aflategundum hefur verið frestað um óákveðinn tíma. Þetta sparar útgerðaraðilum á milli 200 og 300 milljónir. Hvað með fólkið sem núna stendur á götunni? Lífsviðurværið hefur verið tekið af því.

Það er skylda íslenskra stjórnvalda að koma þessu fólki tafalaust til hjálpar. En þær mótvægisaðgerðir sem ríkisstjórnin hefur kynnt virðast á lítinn sem engan hátt koma því fólki til hjálpar.

Það er skoðun formanns að það fiskveiðistjórnunar- og framsalskerfi sem nú er við lýði sé meginorsök þess vanda sem heilu byggðalögin standa nú frammi fyrir. Það getur ekki verið eðlilegt að einstaka útgerðarmenn geti tekið ákvörðun um að selja aflaheimildir sínar burt úr sínu byggðalagi og skilja tugi fjölskyldna eftir í átthagafjötrum eins og nú er að gerast vítt og breitt um landið.

Það heyrast harmakvein frá forsvarsmönnum LÍÚ vegna þeirra erfiðleika sem steðja að sjávarútvegi. En þegar grannt er skoðað virðist það fyrst og fremst vera fiskvinnslufólk og sjómenn sem verða fyrir hvað mestum skaða. LÍÚ talar um að þeir séu að taka á sig gríðarlegar skerðingar vegna ákvörðunar sjávarútvegsráðherra og þeir telja að þegar þorskstofninn stækkar aftur þá eigi skerðingin sem þeir hafa orðið fyrir að sjálfsögðu að renna aftur til þeirra. En eins og áður sagði er það fyrst og fremst fiskvinnslufólk sem er að verða fyrir launaskerðingu sem og atvinnumissi. Því er tækifæri nú fyrir íslensk stjórnvöld að taka til sín væntanlega aukninguna á aflaheimildum í þorski, þegar og ef hún verður. Það er algerlega ástæðulaust að skila slíkri aukningu til útgerðarmanna sem hafa hagað sér með þeim hætti sem alþjóð hefur orðið vitni að á undanförnum vikum og mánuðum.

Formaður Verkalýðsfélags Akraness mun beita sér fyrir því innan Starfsgreinasambands Íslands að haldinn verði fundur með forsætisráðherra og sjávarútvegsráðherra vegna þessara skelfilegu tíðinda sem nú dynja á fiskvinnslufólki um allt land.

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image