• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
Mikilvægt að nýr kjarasamningur gildi afturvirkt Stjórn VLFA vill sýna fulla hörku í kjaraviðræðunum
16
Jan

Mikilvægt að nýr kjarasamningur gildi afturvirkt

Eins og fram kom hér á heimasíðunni þá var fyrsti stjórnarfundur ársins haldinn á mánudaginn var. Fjölmörg mál voru til umræðu en sérstaklega var fjallað um tvö mál, annars vegar kjaraviðræður við Samtök Atvinnulífsins og hins vegar málefni starfsmanna Glyms og þeim grófu félagslegu undirboðum sem þar hafa verið ástunduð.

Stjórn félagsins finnst kjaraviðræðurnar við SA ganga allt of hægt og fram kom hjá stjórnarmönnum að full ástæða sé til að fara að sýna fulla hörku hvað varðar þessar viðræður. Rétt er að minna á að í síðustu kjarasamningaviðræðum dróst að semja um nýjan kjarasamning í rúma tvo mánuði, eða til 7. mars. Því miður tók sá samningur ekki gildi um leið og sá eldri rann út og þegar svo er verður verkafólk af hækkunum á sínum launum allan þann tíma sem ekki tekst að ganga frá nýjum samningi.

Á þeirri forsendu telur stjórn félagsins fulla ástæðu til að krefjast þess við SA að nýr kjarasamningur gildi afturvirkt frá þeim tíma sem hann rann út, eða frá 1. janúar 2008.

Á stjórnarfundinum fór formaður einnig ítarlega yfir málefni Glyms, en eins og fram hefur komið hér á heimasíðunni þá liggur fyrir að gróf félagsleg undirboð hafa átt sér stað hjá umræddu fyrirtæki. Stjórn félagsins hefur ávalt haft það að leiðarljósi að taka fast á fyrirtækjum sem ekki fara eftir lögum og reglum á íslenskum vinnumarkaði, en gróf félagsleg undirboð gera ekkert annað en að gjaldfella launakjör íslensks verkafólks.

Það er grafalvarlegt mál að tveimur starfsmönnum Glyms skuli hafa verið sagt upp störfum vegna þess að þeir leituðu réttar síns hjá Verkalýðsfélagi Akraness. Mál starfsmanna Hótels Glyms er eitt það alvarlegasta sem félagið hefur fengið inn á sitt borð, og hefur félagið fjölda gagna undir höndum sem sum hver hafa verið birt hér á heimasíðunni og staðfesta þau grófu félagslegu undirboð sem þarna hafa verið ástunduð á liðnum árum.

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image