• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
Fréttir

Fréttir

31
Dec

Verkalýðsfélag Akraness styrkir Björgunarfélag Akraness

Í dag afhenti formaður Verkalýðsfélags Akraness Björgunarfélagi Akraness 100.000 kr. styrk úr styrktarsjóði félagsins.  Umrædd fjárhæð er eyrarmerkt unglingastarfi björgunarfélagsins.

Fréttir undanfarna daga sýna svo ekki verður um villst hversu fórnfúst og óeigingjarnt starf Björgunarfélag Akraness er vinna nánast dag hvern.  Því er stjórn Verkalýðsfélags Akraness stolt að geta styrkt björgunarsveitina um þessa fjárhæð.

Í lok árs 2005 gerði stjórn Verkalýðsfélags Akraness mjög góðan samning við Landsbankann á Akranesi um öll bankaviðskipti félagsins. Í einu ákvæði samningsins er kveðið á um að Landsbankinn greiði Verkalýðsfélagi Akraness kr. 500.000 í sérstakan styrktarsjóð sem nota á til að styrkja góðagerðarmál á félagssvæði VLFA.

Þetta er í annað sinn sem stjórn félagsins útdeilir úr styrktarsjóðnum.  Þau félög og samtök sem fá styrki úr sjóðnum í ár eru:

  • Styrktar-og líknarsjóður Akraneskirkju 100.000 kr.
  • Björgunarfélag Akraness unglingastarf 100.000 kr.
  • Mæðrastyrksnefnd Akraness               100.000 kr.
  • Skátafélagið Akranesi unglingastarf     100.000 kr.
  • Sambýlið Akranesi Vesturgötu              50.000 kr.
  • Sambýlið Laugabraut                           50.000 kr
28
Dec

Nú er komið að íslensku verkafólki

Nú er komið að öðrum en verkafólki að viðhalda stöðugleika í íslensku samfélagiNú er komið að öðrum en verkafólki að viðhalda stöðugleika í íslensku samfélagiÍ gærkveldi var haldinn hinn árlegi jólafundur stjórnar og trúnaðarráðs Verkalýðsfélags Akraness.

Þau mál sem helst voru til umfjöllunar á fundinum í gær voru komandi kjarasamningar, aðkoma félagsins að málefnum starfsmanna Hótels Glyms og sú mikla fjölgun sem orðið hefur á félagsmönnum í Verkalýðsfélagi Akraness á árinu sem nú er að líða. Í dag eru um 2.800 félagsmenn og hefur þeim fjölgað um rúma 600 á árinu. Þar af eru 473 félagsmenn með erlent ríkisfang.

Formaður fór ítarlega yfir viðræðurnar við Samtök atvinnulífsins vegna komandi kjarasamninga.  Á fundinum skoraði trúnaðarráð Verkalýðsfélags Akraness  á viðræðunefnd Starfsgreinasambands Íslands að standa grjótfast á þeirri kröfu sem sambandið hefur lagt fram og var formanni falið að koma þeirri áskorun á framfæri við viðræðunefnd SGS.

Trúnaðarráðið telur jafnframt að sú kröfugerð sem lögð hefur verið fram sé einfaldlega með þeim hætti að ekki sé grundvöllur til að gefa neinn afslátt af henni.  Fram kom á fundinum að það hljóti að vera komið að fleirum en íslensku verkafólki að tryggja stöðugleika í íslensku samfélagi.

Nýjustu fréttir herma að æðstu stjórnendur ríkisins hafi hækkað um 18% á síðustu tveimur árum á meðan almennir starfsmenn hjá hinu opinbera hafa einungis hækkað frá 7% og uppí 9%.  Ekki má heldur gleyma því að laun seðlabankastjóra hafa hækkað um 200 þúsund á mánuði og almennt verkafólk er agndofa vegna slíkra launahækkana, sérstaklega í ljósi þess að þessir sömu aðilar tala um að sýna þurfi sérstaka aðgæslu vegna komandi kjarasamninga verkafólks.

Trúnaðarráð félagsins stendur fast á því að nú sé tími verkafólks runninn upp hvað varðar lagfæringar á launakjörum íslensks verkafólks og hvetur allt verkafólk vítt og breitt um landið til þess að hvika hvergi frá þeirri kröfu um að lágmarkslaun verði orðin 165.000 kr. 1. janúar 2009.

Lágmarkslaun upp á 125.000 kr. eru íslensku samfélagi til skammar og við í Starfsgreinasambandi Íslands getum á engan hátt skotið okkur undan ábyrgð okkar á því hversu skammarlega lág lágmarkslaunin eru.  Á þeirri forsendu verður Starfsgreinasambandið að standa þétt saman í komandi kjarasamningum þannig að lágmarkslaunin verði okkur ekki til skammar sem og íslensku samfélagi. 

27
Dec

Akraneskaupstaður hafnar kröfu félagsins um jólabónus handa starfsmönnum

Eins og fram hefur komið hér á heimasíðunni þá átti formaður fund með bæjarráði Akraneskaupstaðar þann 14. desember sl. Á þeim fundi lagði Verkalýðsfélag Akraness fram áskorun til bæjarráðs um að starfsmönnum skyldi greiddur jólabónus, líkt og gerðist hjá Hafnarfjarðarbæ, að fjárhæð 30.000 kr.

Einnig skoraði Verkalýðsfélag Akraness á bæjarráð að skoða með jákvæðum huga þær sértæku aðgerðir í launamálum til handa þeim lægst launuðu sem sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu hafa verið að koma með handa sínu starfsfólki að undanförnu.

Formanni félagsins barst bréf frá bæjarráði í morgun þar sem bæjarráð hafði tekið fyrir erindi félagsins á fundi 20. desember sl. Niðurstaðan var sú að bæjarráð gæti ekki orðið við erindi félagsins, en veki athygli á því að verið væri að afla nánari upplýsinga um það hvað sveitarfélög hafa verið að gera í tilfellum sem þessum.

Það liggur fyrir að sveitarfélög á höfuðborgarsvæðinu hafa verið að koma með sértækar aðgerðir til handa þeim tekjulægstu og hefur það verið gert með margvíslegum hætti m.a. með mánaðarlegum eingreiðslum frá fjárhæð 6.000 til 16.000 kr. ásamt fjölda annarra sértækra aðgerða.

Það er með öllu óviðunandi að launakjör á höfuðborgarsvæðinu, fyrir sömu störf, séu mun hærri en gengur og gerist á landsbyggðinni. Það er einnig ljóst að í næstu samningum verður að byrja á því að para það sem er að gerast á höfuðborgarsvæðinu áður en menn geta sest niður til að hefja hinar eiginlegu kjaraviðræður. Annað mun starfsfólk sveitarfélaga á landsbyggðinni einfaldlega ekki sætta sig við. 

23
Dec

Jólakveðja!

Stjórnir og starfsmenn Verkalýðsfélags Akraness óskar félagsmönnum sínum og fjölskyldum þeirrra og landsmönnum öllum gleðilegra jóla og  farsældar á komandi ári.

21
Dec

Smábátasjómenn komnir með kjarasamning

Í dag var undirritaður kjarasamningur milli samtaka sjómanna (FFSÍ, SSÍ og VM) annars vegar og Landssambands smábátaeigenda hins vegar. Kjarasamningurinn tekur gildi þann 1. janúar 2008.
Fram til þessa hefur ekki verið í gildi kjarasamningur fyrir sjómenn á smábátum. Verkalýðsfélag Akraness fagnar þessum tímamótum þar sem um er að ræða fyrsta heildarkjarasamningurinn í sögu landssambandsins. 

Í dag eru þónokkrir smábátasjómenn sem eru félagsmenn Verkalýðsfélags Akraness.  Það er ljóst að þessi kjarasamningur mun eyða þeirri réttindaróvissu sem oft hefur ríkt hjá smábátasjómönnum.

Aðilar að samningum eru Landssambands smábátaeigenda annars vegar og Farmanna- og fiskimannasambands Íslands (FFSÍ), Sjómannasambands Íslands (SSÍ) og VM- Félags vélstjóra og málmtæknimanna hins vegar.
Samninginn í heild sinni má nálgast hér

20
Dec

Starfsfólk Glyms beitt grófum þvingunum

Eins og fram hefur komið hér á heimasíðunni hefur Verkalýðsfélag Akraness að undanförnu haft til rannsóknar málefni starfsmanna Hótels Glyms.

Aðalatriðið í málflutningi forsvarsmanna Glyms virðist vera fólgið í því að Verkalýðsfélag Akraness eigi ekki aðild að þessu máli heldur sé það Stéttarfélag Vesturlands. Það er algjört aukaatriði hvaða stéttarfélag vinnur að þessum grófu félagslegu undirboðum sem þarna eiga sér stað. Ástæða þess að Verkalýðsfélag Akraness kom að þessu máli var sú að starfsmenn hótelsins óskuðu sjálfir eftir því og Verkalýðsfélagi Akraness ber siðferðisleg skylda til að koma til hjálpar fólki sem óprúttnir atvinnurekendur níðast á. Sem dæmi þá hefur Verkalýðsfélag Akraness innheimt vegna félagslegra undirboða 6,2 milljónir á síðastliðnum þremur árum.

Í þessu tiltekna máli, sem er eitt það versta sem formaður hefur séð, hefur komið í ljós að verið er að borga starfsfólki langt undir lágmarkslaunum, allt niður í 317 kr. á tímann. Engin yfirvinna er greidd þótt unnið sé allt að 300 tíma á mánuði. Hvíldarákvæði eru virt að vettugi. Engar desember- eða orlofsuppbætur hafa verið greiddar fyrr en nú. Launaseðlar hafa ekki borist starfsfólki fyrr en nú. Dæmi eru um að unnið sé mánuðum saman án nokkurrar greiðslu, aðeins gegn fæði og húsnæði. Starfsfólk þarf að greiða allt að 70.000 kr á mánuði fyrir fæði og húsnæði þrátt fyrir að frítt fæði á vinnutíma sé tiltekið í kjarasamningum og húsnæðið sé herbergi á hótelinu sé það laust. Sé það ekki laust þarf starfsfólkið að flytja sig um herbergi, jafnvel oft á viku.

Þessi atriði, og fleiri til, bað starfsfólk hótelsins Verkalýðsfélag Akraness um að fara yfir fyrir sig og sækja leiðréttingu fyrir sína hönd. Í þeim tilgangi veitti það félaginu skriflegt umboð sitt.

Hægt er að lesa meira með því að smella á meira.

Í málum sem þessum er kallað eftir upplýsingum frá vinnuveitendum s.s. tímaskriftum, vinnuseðlum og öðrum gögnum sem nauðsynleg þykja. Það er ekki flókið reikningsdæmi að taka saman unna tíma og finna það út hvað starfsfólk á inni hjá vinnuveitanda en öflun þessara ganga er þó nauðsynleg forsenda þess.

Í þessu máli gekk Verkalýðsfélagi Akraness vægast sagt illa að afla þessara gagna. Launaseðlar og tímaskriftir fengust ekki frá hótelinu og ástæðan sem gefin var upp fyrir því var sú að starfsmenn hótelsins væru ekki félagar í Verkalýðsfélagi Akraness þrátt fyrir að það kæmi fram á þeim launaseðlum sem félagið hefur undir höndum. Formaður komst síðan að því að stéttarfélagsgjöldum hafði aldrei verið skilað af starfsmönnunum, hvorki til Verkalýðsfélags Akraness né í önnur félög og hefur það nú verið staðfest af endurskoðanda Hótels Glyms í pósti sem barst formanni í dag. Hægt er að skoða tölvupóstinn hér.

Maður spyr sig, fyrst bókarinn segir í póstinum að í september hafi verið ákveðið að skila stéttarfélagsgjöldum fyrst þá, hvað með þessi gjöld fyrir alla hina mánuðina og árin? Þessi játning bókarans um að ekki hafi verið greidd stéttarfélagsgjöld fyrr en nú í september sýnir hvers lags starfssemi þarna er rekin.

Í fjölmiðlum hafa hótelhaldarar sagst ekkert hafa að fela í þessu máli, en grunsemdir um annað hljóta að vakna þegar fyrirspurnir félagsins valda þvílíku fjaðrafoki að starfsmenn verkalýðsfélagsins hafa vart komist í annað eins. Kallar hótelhaldarinn þetta ekkert að fela?

Viðbrögð hótelhaldara hafa verið með ólíkindum. Gögnunum sem Verkalýðsfélag Akraness hafði krafist af hótelinu var aldrei skilað. Hins vegar voru starfsmenn kallaðir saman til starfsmannafundar á sunnudaginn síðastliðinn þar sem þeir voru krafðir afsökunarbeiðnar fyrir að hafa haft samband við Verkalýðsfélag Akraness! Þeir sem ekki báðust afsökunar þurftu að hætta strax og taka saman föggur sínar og yfirgefa svæðið. Þeir aðilar hafa nú þegar yfirgefið landið og eru án efa ólíklegir til að minnast veru sinnar hér á landi á jákvæðan hátt. Á fundinum var starfsfólk einnig þvingað til að skrifa undir afturköllun á umboði til Verkalýðsfélags Akraness, umboði sem félagið hafði þegar fengið undirritað hjá starfsmönnum, og starfsfólki Verkalýðsfélags Akraness gerð grein fyrir því að hafa ekki frekari afskipti af málinu. Málinu er síðan, að sögn hótelhaldara, beint til Stéttarfélags Vesturlands í Borgarnesi til frekari málsmeðferðar. Er það trúverðugt að hinir erlendu starfsmenn Glyms hafi upp á sitt eigið einsdæmi krafist að Verkalýðsfélag Akraness að hætti afskiptum af málinu? Þessir sömu starfsmenn sem grátbáðu félagið um hjálp? Svar formanns er skýrt: Nei. Þarna var starfsfólkið beitt grófum þvingunum.

Það er auðséð af viðbrögðum hótelhaldara að þau hafa heldur betur ýmislegt að fela. Auk þess er klárt mál að afskipti hótelhaldara af starfsfólki þeirra stangast á við lög. T.a.m. er í lögum um stéttarfélög og vinnudeilur skýrt kveðið á um að atvinnurekendum sé óheimilt að hafa áhrif á afskipti starfsmanna sinna af stéttarfélögum eða vinnudeilum. Það er ekki af ástæðulausu að þetta sé sérstaklega tiltekið í lögunum og augljóst er að þessi grein laganna ekki síður við í dag en hún gerði árið 1938 þegar lögin voru sett.

Það skiptir Verkalýðsfélag Akraness engu máli þó Stéttarfélag Vesturlands hafi fengið málið til meðferðar. Aðalmálið er að þessum grófu félagslegu undirboðum sem hafa verið við lýði á Hótel Glymi linni sem allra, allra fyrst og starfsmenn fái leiðréttingu sinna launa. Um það snýst þetta mál. 

18
Dec

Félagsleg undirboð hjá Hótel Glymi

Eins og fram kom hér á heimsíðunni í gær þá hefur félagið á undanförnum dögum verið að rannsaka málefni er lúta að félagslegum undirboðum gagnvart erlendum starfsmönnum sem starfa hér í nágrenni við Akraness.

Formaður félagsins ásamt pólskum túlki og starfsmanni VLFA voru búin að funda með þeim erlendu starfsmönnum sem um ræðir í tvígang og á þeim fundum kom í ljós að verið var að brjóta gróflega á þeirra réttindum.  Í kjölfarið veittu erlendu starfsmennirnir  Verkalýðsfélagi Akraness fullt og ótakmarkað umboð til að gæta sinna hagsmuna gagnvart vinnuveitanda sínum.

Formaður félagsins var ekki tilbúinn í gær að upplýsa um hvaða fyrirtæki væri að ræða þar sem félagið var enn að rannsaka málið og reyna að fá fyrirtækið til að afhenda gögn t.d. launaseðla og tímaskýrslur.  Hins vegar var viðtal við Hansínu B. Einarsdóttur á fréttastofu Ruv í gær þar sem hún staðfesti að það væri Hótel Glymur sem Verkalýðsfélag Akraness væri að rannsaka, en Hansína er hótelstjóri hjá Glymi.

Hægt er að lesa meira með því að smella á meira.

Hansína B Einarsdóttir sagði í áðurnefndu viðtali við fréttastofu að ásakanir um félagsleg undirboð væru fleipur. Hún sagði ráðningarsamninga staðfesta af Vinnumálastofnun og ef Vilhjálmur héldi því fram að verið væri að svindla á starfsfólki væri hann í raun að draga um hæfni starfsmanna Vinnumálastofnunar í efa.

Þessum ummælum er fljótsvarað. Rétt er það að Vinnumálastofnun staðfestir að ráðningarsamningar uppfylli kjarasamninga. Í þessu tilfelli er það hins vegar svo að þeir ráðningarsamningar sem Glymur skilaði inn til Vinnumálastofnunar eru alls ekki þeir sömu og starfsfólkið er að vinna eftir, enda hefur lögfræðingur Samtaka Atvinnulífsins staðfest við formann að ráðningarkjör starfsmanna Glyms séu of lág.

Í viðtalinu sagði hótelstýran einnig að formaður VLFA hafi ítrekað ónáðað starfsmenn sína, m.a. bankað upp á í þeirra bústað. Átaldi hún vinnubrögð formanns og sagði þau algjörlega ólíðandi.

Hið sanna er að Verkalýðsfélag Akraness fékk í síðustu viku alvarlega ábendingu um að verið væri að brjóta gróflega á þessu fólki og af þeim sökum setti formaður sig í samband við starfsmennina. Átti formaður og starfsmaður félagsins mjög góða fundi með starfsmönnum og á þeim fundum fékk formaður fjölmargar spurningar er lúta að réttindum starfsfólksins. Formaður fékk afhent þau gögn sem þau höfðu og veittu þau einnig félaginu, eins og áður hefur komið fram, fullt umboð til að gæta sinna hagsmuna gagnvart atvinnurekanda sínum.

Rétt er að geta þess að upphaf þessa máls má rekja til 24. ágúst sl. en þá barst tölvupóstur frá Póllandi þar sem óskað var eftir því að skoðað væri hvort verið væri að brjóta á starfsmönnum Hótelsins. Hægt er að skoða þennan tölvupóst með því að smella hér. Verkalýðsfélag Akraness lét þá þegar Stéttarfélag Vesturlands vita af þessu máli þar sem Glymur er á félagssvæði þess félags. Stóð formaður í þeirri trú að málefni starfsmannanna væru í réttum farvegi þar. Formanni er kunnugt um að Stéttarfélag Vesturlands hefur einnig verið að skoða málið á undanförnum vikum. Það var svo eftir þá alvarlegu ábendingu sem barst í liðinni viku að formaður fór sjálfur og hitti fólkið og eftir það fór boltinn fyrst að rúlla.

Ummæli Hansínu B Einarsdóttur um fleipur formanns dæma sig algerlega sjálf. Til að sýna fram á það ætlar VLFA að birta ráðningarsamning sem starfsmönnum VLFA var afhentur á þessum fundum.  Í þeim ráðningarsamningi sem gerður er 16. nóvember 2007 kemur fram að dagvinnulaun eru 635 kr. á tímann, hins vegar fái starfsmaðurinn einungis 50% af þeirri upphæð fyrsta mánuðinn, sem sagt 317 kr. á tímann. Hægt er að skoða ráðningarsamninginn með því að smella hér.

Formaður VLFA vill áætla að afbrotafræðingurinn og hótelhaldarinn Hansína B Einarsdóttir eigi að vita að tímakaup upp á 317 kr. stenst hvorki íslenska kjarasamninga né 7. gr. laga  um stéttarfélög og vinnudeilur.  Einnig á afbrotafræðingurinn og hótelhaldarinn að vita að það stenst ekki lög að láta starfsmann vinna 180 tíma á mánuði og það í þrjá og  hálfan mánuð án þess að fá nein laun, einungis fæði og húsnæði.  Þessu til viðbótar eiga forsvarsmenn Glyms að vita að fyrirtækjum ber að greiða yfirvinnukaup eftir að starfsmenn hafa uppfyllt dagvinnuskyldu sína.  Að sögn starfsmanna Glyms þá fengu þeir ekki greidda yfirvinnu þegar þeir voru búnir að uppfylla dagvinnuskylduna, fyrr en í nóvember á þessu ári.  Að sögn starfmanna voru þeir að vinna þetta á bilinu 250 og uppí 320 tíma á mánuði og því ljóst að hér sé um gróft brot á kjarasamningum að ræða.

Í morgun, þegar starfsmenn VLFA mættu til vinnu, beið þeirra fax frá Hótel Glymi þar sem kom fram að starfsmenn væru búnir að afturkalla það umboð sem Verkalýðsfélag Akraness hafði. Það er alveg ljóst í huga formanns félagsins að hér hafa starfsmenn verið beittir þvingunum til að afturkalla umboð félagsins. Telur afbrotafræðingurinn og hótelhaldarinn að með því að afturkalla umboð félagsins að þessu máli þá komi brotin ekki í ljós? Nei, slíkt mun Verkalýðsfélag Akraness ekki láta gerast og mun því afhenda Stéttarfélagi Vesturlands öll þau gögn sem félagið hefur aflað sér og sýna fram á þau grófu brot sem átt hafa sér stað á undanförnum mánuðum. Félagið hefur undir höndum undirritaðan vitnisburð starfsmanna þar sem fram kemur hvaða kjaraatriði það eru sem fyrirtækið hefur verið að brjóta gegn. Hægt er að skoða íslenska þýðingu þess vitnisburðar með því að smella hér.

Það er alveg ljóst að Verkalýðsfélag Akraness mun fylgjast grannt með því að þeir starfsmenn sem brotið hefur verið á muni fá leiðréttingu sinna launa

17
Dec

Gróf félagsleg undirboð

Félagsleg undirboð verða ekki liðinFélagsleg undirboð verða ekki liðinVerkalýðsfélag Akraness hefur nú til rannsóknar mál nokkurra erlendra félagsmanna sinna. Þeir hafa veitt félaginu fullt og ótakmarkað umboð til að gæta sinna hagsmuna gagnvart vinnuveitanda sínum.

Starfsmenn Verkalýðsfélags Akraness hafa fundað með erlendu starfsmönnunum að undanförnu og aflað gagna í þessu máli. Samkvæmt upplýsingum frá starfsmönnum og fyrirliggjandi gögnum þá liggur fyrir að hér er um mjög alvarleg brot að ræða.

Verkalýðsfélag Akraness hefur t.d. nýlegan ráðningarsamning undir höndum, þar sem fram kemur að dagvinnukaup starfsmannsins er 635 kr. á tímann. Hins vegar kemur fram í ráðningarsamningnum að starfsmanninum sé skylt að vinna fyrsta mánuðinn til reynslu á 50% launanna, sem gerir 317 kr. á tímann. Á þessu sést að hér er um gróft brot að ræða.

Einn starfsmaður fyrirtækisins tjáði starfsmönnum VLFA að á síðasta ári hefði hann unnið í þrjá og hálfan mánuð, án þess að fá nein laun fyrir. Hann fékk einungis frítt fæði og húsnæði á þessu tímabili. Starfsmaðurinn stóð í þeirri trú að þetta væri eðlilegt þar sem hann væri að læra í faginu. Í dag er hann með 659 kr. á tímann, sem er klárlega undir lágmarkslaunum.

Fram kom hjá starfsmönnunum að þó svo að þau ynnu meira en 173 tíma í mánuði og jafnvel upp í 300 tíma á mánuði þá fengu þau einungis greidd dagvinnulaun og vaktarálag, en ekki yfirvinnu eins og ber að gera eftir að starfsmaðurinn hefur uppfyllt dagvinnuskyldu sína.

Einnig kom fram hjá starfsmönnunum að þeir telji að rauðir dagar sem falla á virka daga hafi ekki verið greiddir eins og kjarasamningar kveða á um. 

Starfsmenn komu líka með fyrirspurnir varðandi hvíldarákvæði og orlofs- og desemberuppbætur, en starfsmenn tóku fyrst eftir slíkum greiðslum í síðasta mánuði. 

Formaður hefur undir höndum samning sem segir að starfsmenn skuli greiða fyrir fæði og húsnæði 25.000 kr. á mánuði. Hins vegar segja starfsmenn að fyrirkomulag sé með þeim hætti að starfsmenn greiði 25.000 á mánuði plús það að 35 tímar eru dregnir af þeim í hverjum mánuði til viðbótar. Þannig að starfsmaður getur verið að greiða yfir 70.000 krónur fyrir fæði og húsnæði á mánuði. Samt er þess getið í kjarasamningi að starfsmenn skuli hafa frítt fæði á meðan þeir eru að störfum.

Starfsmenn hafa ítrekað óskað eftir því að fá launaseðla sína afhenta, en þrátt fyrir ítrekaðar óskir þá hefur það ekki gengið eftir hingað til. Starfsmenn hafa einungis fengið október og nóvember launaseðla.  Þegar starfsmenn fá ekki launaseðla eins og kjarasamnmingar kveða á um, þá gerir það þeim mjög erfitt að fylgjast með hvort verið sé að greiða eftir þeim kjarasamningum sem í gildi eru.

Á þeirri forsendu hefur Verkalýðsfélag Akraness nú kallað eftir launaseðlum, tímaskriftum og öðrum hugsanlegum samningum sem gerðir hafa verið við starfsmenn. Þegar þetta er skrifað hefur fyrirtækið ekki orðið við þeirri ósk. Lögmaður félagsins hefur haft málið til skoðunar og einnig hefur Verkalýðsfélag Akraness gert Vinnumálastofnun grein fyrir þessu máli og mun félagið upplýsa Vinnumálastofnun um framvindu þess.

Við rannsókn málsins kom ennfremur í ljós að engir starfsmannanna eru með dvalarleyfi hér á landi, og eru þar af leiðandi að greiða sína skatta og sín gjöld án þess að njóta þeirra réttinda sem þeim annars bæri.

Krafa Verkalýðsfélags er hvellskýr í þessu máli, það er að launaseðlar og tímaskýrslur verði skoðaðar aftur í tímann og starfsmenn fái leiðréttingu á sínum launum samkvæmt þeirri úttekt sem gerð verður. Það er algjörlega ljóst í huga formanns félagsins að þar getur verið um umtalsverðar fjárhæðir að ræða miðað við þau gögn sem liggja fyrir í málinu.

Félagið mun fylgja þessu máli eftir af fullum þunga því það er með öllu ólíðandi að félagsleg undirboð af þessum toga séu látin viðgangast á íslenskum vinnumarkaði.  Háttsemi af þessum toga er að grafa undan íslenskum vinnumarkaði og ógnar því markaðslaunakerfi sem hér er í gildi.

14
Dec

Verkalýðsfélag Akraness skorar á bæjarráð að greiða starfsmönnum Akraneskaupstaðar jólabónus

Rétt í þessu var að ljúka fundi sem formaður félagsins átti með bæjarráði Akraneskaupstaðar. Tilefni fundarsins voru þær sértæku launahækkanir sem sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu hafa verið að veita sínum starfsmönnum að undanförnu. Þær sértæku aðgerðir hafa fyrst og fremst beinst að þeim tekjulægstu og hafa laun einstaka hópa t.d. skólaliða og starfsmanna og leikskólum, hækkað um 6 - 16 þúsund á mánuði.

Einnig hafa sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu verið að veita starfsmönnum sínum ýmis hlunnindi eins og líkamsræktarkort og annað slíkt.

Verkalýðsfélag Akraness skoraði á bæjarráð að greiða starfsmönnum Akraneskaupstaðar 30.000 kr. jólabónus líkt og starfsmenn Hafnarfjarðarbæjar fá. Einnig skoraði Verkalýðsfélag á bæjarráð að skoða með jákvæðum hug þær launahækkanir sem beinst hafa að tekjulægstu starfsmönnum sveitarfélaganna á höfuðborgarsvæðinu, enda er það með öllu ólíðandi að laun fyrir sambærileg störf séu lakari á landsbyggðinni en á höfuðborgarsvæðinu. Við slíkt verður ekki unað.

Bæjarráð ætlar að skoða þessi mál og nú er bara að vona að þeir fylgi fordæmi sveitarstjórnarmanna á höfuðborgarsvæðinu og geri vel við sína starfsmenn öllum til heilla.

12
Dec

Fundað með SA um sérkjarasamninga Verkalýðsfélags Akraness

Í morgun var fundað með Samtökum Atvinnulífsins vegna þeirra sérkjarasamninga sem Verkalýðsfélag Akraness er aðili að, þ.e.a.s. sérkjarasamningur starfsmanna Síldarbræðslunnar og einnig sérkjarasamningur starfsmanna Spalar.

Farið var yfir þær kröfur sem starfsmenn áðurnefndra fyrirtækja hafa lagt fram og viðbrögð fengin frá Samtökum Atvinnulífsins. Það er mat formanns eftir þessa fundi, að töluverð gjá sé á milli samningsaðila og er ljóst að ef takast á að ganga frá nýjum kjarasamningum fyrir áramót þá þurfi nánast kraftaverk til.

Næsti fundur hefur ekki verið ákveðinn, hvorki vegna sérkjarasamnings bræðslumanna né starfsmanna Spalar, en að öllum líkindum verður fundað aftur fyrir jól.

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image