• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
Fréttir

Fréttir

19
Mar

Ávinningur kjarasamninga horfinn

Það er sorglegt að sjá að sá ávinningur sem náðist í nýgerðum kjarasamningum á hinum almenna vinnumarkaði skuli vera allur horfinn og það á einugis einum mánuði.  Fall krónunar hefur gert það að verkum að nú blasir við umtalsverð hækkun verðbólgunnar eins og greiningardeildir bankanna hafa verðið að spá undanfarna daga.

Í nýgerðum kjarasamningum er endurskoðunarákvæði og eins og staðan er í dag er stórhætta á að kjarasamningum verði sagt upp í mars á næsta ári, ef ekki næst að koma böndum á þá skelfilegu þróun sem nú blasir við íslensku efnahagslífi.  Fall krónunnar hefur gert það að verkum að greiðslubyrði íslenskra launþega hefur stórhækkað á síðustu dögum og algjörlega ljóst allir verða að leggjast á eitt við að koma böndum á þá þróun sem nú er að eiga sér stað.

Í nýgerðum kjarasamningum var meginmarkmiðið að auka kaupmátt íslenskra launþega. Á þeirri forsendu voru gerðir skynsamir og hófstilltir kjarasamningar. Því er sorglegt að sjá þá þróun sem nú er að eiga sér stað, því eins og áður hefur komið fram er allur sá ávinningur fyrir bí.

Ríkisstjórnin verður að flýta aðgerðum getið er um í yfirlýsingu frá 17. febrúar, m.a. með því að láta hækkur persónuafsláttar taka gildi tafarlaust og koma með hækkun vaxta- og barnabóta. Einnig verður ríkisstjórnin að lækka álögur á eldsneyti á meðan þær gríðarlegu hækkanir á heimsmarkaði eru að eiga sér stað.

Nú eru kjarasamningar við ríki og sveitarfélög framundan og ljóst að sú þróun sem hefur átt sér stað í íslensku efnahagslífi að undanförnu mun ekki auðvelda þá samningsgerð. Grundvallaratriðið nú er að allir leggist á eitt við að koma böndum á það ástand sem nú ríkir í íslensku efnahagslífi og er vonlaust að undanskilja neinn í þeim efnum. Því ef það ekki tekst mun fara mjög illa fyrir mörgum íslenskum heimilum.

18
Mar

Orlofshús sumarið 2008!

Undanfarna daga hafa starfsmenn skrifstofu félagsins unnið að því að koma umsóknum um sumardvöl í orlofshúsum félagsins í póst til félagsmanna. Umsóknareyðublöð og nýr orlofshúsabæklingur fóru í póst í gær og ætti því að berast félagsmönnum fyrir páska.

Í sumar verður sem fyrr boðið upp á dvöl í orlofshúsum félagsins í Húsafelli, Svínadal, Hraunborgum, Ölfusborgum og í þremur íbúðum á Akureyri. Einnig er félagið með í leigu íbúð í Stykkishólmi (nánari upplýsingar hér), bústað að Eiðum (nánari upplýsingar hér) og tvö hús að Koðrabúðum á landi Heiðar í Biskupstungum (nánari upplýsingar hér).

Helstu dagssetningar:

11. apríl - Frestur til að skila inn umsóknum um orlofshús í sumar

15. apríl - Fyrri úthlutun fer fram, þeir sem fá úthlutað fá það staðfest með bréfi

02. maí  - Eindagi fyrri úthlutunar, þeim vikum sem ekki eru greiddar á eindaga er úthlutað aftur

07. maí  - Endurúthlutun fer fram, þeir sem fá úthlutað fá það staðfest með bréfi

16. maí  - Eindagi endurúthlutunar

19. maí  - Fyrstur kemur, fyrstur fær! Lausum vikum er úthlutað til þeirra sem fyrstir koma

  Úthlutun fer þannig fram að allar umsóknir eru skráðar inn í tölvukerfi félagsins. Kerfið raðar öllum umsóknum í röð eftir punktastöðu, þ.e. þeir umsækjendur sem flesta hafa punktana eru fremstir í röðinni og svo koll af kolli. Ef punktar tveggja eru jafnir fær sá úthlutað sem fyrr sótti um. Kerfið vinnur sig síðan í gegnum umsóknirnar og úthlutar vikum eftir punktastöðu.

  Þeir sem ekki fá úthlutað í fyrri úthlutun lenda sjálfkrafa í endurúthlutun þar sem þeim vikum er úthlutað sem ekki voru greiddar á eindaga fyrri úthlutunar. Eftir eindaga endurúthlutunar verða lausar vikur auglýstar hér á heimasíðunni og hægt verður að sækja um þær á skrifstofu félagsins. Gildir þá hin ágæta regla: Fyrstur kemur, fyrstur fær.

14
Mar

Hver að verða síðastur

Frá því ný stjórn félagsins tók við árið 2003 hefur Verkalýðsfélag Akraness boðið félagsmönnum sínum upp á aðstoð við gerð einfaldra skattframtala. 

Þessi þjónusta hefur alltaf mælst gríðarlega vel fyrir og venjulega kemst aðeins hluti þeirra að sem vilja. Af þeim sökum verða helmingi fleiri tímar í boði í framtalsaðstoð í ár en áður hafa verið. 

Það er Björg Bjarnadóttir starfsmaður Verkalýðsfélags Akraness sem hefur veg og vanda að skattaframtalsaðstoðinni í ár og hefur hún gert það með miklum sóma. 

Stjórn félagsins er afar stolt af þessari þjónustu og greinilegt að félagsmenn kunna svo sannarlega að meta þessa þjónustu ef marka má þá gríðarlegu aukningu sem er á milli ára.

Þeir félagsmenn sem vilja nýta sér þessa þjónustu eru því hvattir til að panta tíma sem allra fyrst vilji þeir komast að en nú fer hver að verða síðastur í þeim efnum.

13
Mar

Íslenskum loðnuskipum greitt mun lægra verð en færeyskum

Þó nokkurrar gremju gætir á meðal íslenskra sjómanna vegna þeirrar staðreyndar að vinnslufyrirtæki hafa verið að greiða erlendum skipum mun hærra verð fyrir landaða loðnu á yfirstandandi vertíð.

HB Grandi á og rekur fjögur uppsjávarskip og greiðir skipunum 7 krónur fyrir hvert kíló sem landað er af loðnu í bræðslu og 80-90 krónur fyrir loðnuhrogn allt eftir gæði hrognanna.

Fram hefur komið á heimasíðu færeyskra skipa að verið er að greiða þeim meðalverð frá 1.80 dönskum krónum upp í 2 krónur danskar fyrir pr. kíló af loðnu, sem gerir 25-28 krónur íslenskar eins og kemur fram hér.

Þetta er umtalsvert hærra verð en greitt hefur verið til íslensku skipanna. Meðalverðið hjá íslensku skipunum hefur verið frá 13 upp í 20 krónur á yfirstandandi vertíð.

Þann 6. mars sl. landaði færeyska skipið Finnur Fríði 1600 tonnum á Akranesi á meðalverðinu 1,80 danskar krónur sem gera 25 íslenskar krónur. Aflaverðmæti skipsins var því 40 milljónir ISK. Meðalverðið hjá íslensku skipunum í kringum 6. mars sl. var frá 15-17 ISK og því hefðu 1600 tonnin gert 25.600.000 ISK hjá þeim. Munurinn er heilar 14.400.000 krónur. Hásetinn á íslensku skipunum er með ca 15.000 kr.  fyrir milljónina og ef íslensku skipin væru að fá sama verð og þau færeysku væri hásetahluturinn á íslensku skipunum 210.000 krónum hærri fyrir 1600 tonna loðnufarm.

Það er með öllu óþolandi að útgerðir sem eru að selja afla í eigin vinnslu skuli geta greitt erlendum skipum mun hærra verð en sínum eigin. Þetta að sjálfsögðu bitnar fyrst og fremst á sjómönnunum sem verða af umtalsverðum tekjum vegna þessa.

Þetta er eitthvað sem sjómenn eiga ekki að sætta sig við og er íslenskri útgerð til vansa.

12
Mar

Loðnuvinnslunni senn að ljúka

Nú er allt útlit á að loðnuvertíð sé að klárast en í nótt kom Ingunn Ak með síðasta loðnufarminn til vinnslu hér á Akranesi. Samkvæmt þeim upplýsingum sem formaður hefur þá eru öll skip HB Granda búin með sinn kvóta nema Lundey en hún er í sínum síðasta túr. 

Vissulega vonast sjómenn, útgerðarmenn og fiskvinnslufólk eftir því að svokölluð vesturganga láti sjá sig þannig að hægt verði að auka við loðnukvótann öllum til hagsbóta.  Því miður eru ekki miklar líkur á að svo verði.

Formaður fór í morgun í vinnustaðaheimsókn til HB-Granda þar sem vinnsla á loðnuhrognum stendur nú yfir af fullum krafti.  Gunnar Hermannsson vinnslustjóri leiddi formann um vinnslusalina og fræddi hann um vinnsluferlið.  Fram kom hjá Gunnari að búið sé að hreinsa um 2000 tonn af hrognum sem er um 800 tonnum minna en í fyrra. 

Af þessum 2000 tonnum er búið að frysta um 1400 tonn hér á Akranesi, en restinni hefur verið keyrt til Vopnafjarðar þar sem frystigetan hér á Akranesi er ekki nægileg mikil.

Á milli 70 til 80 manns hafa komið að þessari loðnuvinnslu í ár og hafa þessir starfsmenn unnið nær sleitulaust á vöktum í hálfan mánuð.

11
Mar

Gríðarlega jákvæð uppbygging á Grundartanga

Gríðarlega jákvæð uppbygging á GrundartangasvæðinuGríðarlega jákvæð uppbygging á GrundartangasvæðinuÞað er óhætt að segja að iðnaðaruppbyggingin á Grundartangasvæðinu haldi áfram af fullum krafti. Uppbyggingin gerir það að verkum að störfum á félagssvæði Verkalýðsfélags Akraness hefur fjölgað umtalsvert og mun þeim án efa fjölga áfram á næstu misserum.  Nú liggur fyrir að Stálsmiðjan og Mjólkurfélag Reykjavíkur hafa tekið ákvörðun um flytja sína starfsemi uppá Grundartanga.

Einnig eru tvö til fjögur önnur fyrirtæki að velta því fyrir sér hvort þau flytji sína starfsemi uppá Grundartanga en það mun skýrast á næstu tveimur vikum.  Eins og áður sagði þá hefur uppbygging á Grundartanga verið umtalsverð á liðnum árum og mánuðum og hefur störfum á svæðinu fjölgað um fleiri hundruð þá sérstaklega hjá Norðuráli og Íslenska járnblendifélaginu.

Nú hefur Norðurál lokið við stækkun álversins og er heildarfjöldi starfsmanna Norðuráls farinn að nálgast 500 manns.  Einnig hefur Íslenska járnblendið staðið í stórræðum og mun t.d. hefja framleiðslu á sérefni sem nefnist FSM sem mun gera það að verkum að reksturinn verður mun tryggari heldur en hefur verið á liðnum árum. Starfsmönnum Íslenska járnblendifélagsins hefur fjölgað um 40 á síðustu mánuðum vegna þessarar nýju framleiðslu.

Það er ekki nokkur vafi á því að Grundartangi verður eitt af aðaliðnaðarsvæðum landsins áður en langtum líður og ekki ólíklegt að stór hluti út- og innflutnings muni fara fram í gegnum höfnina á Grundartanga.

Þessi jákvæða uppbygging á Grundartanga hefur gert það að verkum að okkur skagamönnum hefur fjölgað mikið á liðnum árum og eru Akurnesingar nú orðnir 6.414.  Formaður vill ekki hugsa þá hugsun til enda ef stóriðjunnar á Grundartanga nyti ekki við í þeim mæli sem nú er sérstaklega í ljósi þess samdráttar sem orðið hefur á veiðum og vinnslu á liðnum árum.  

Rætt var við formann félagsins um atvinnumál og atvinnuhorfur í Reykjavík síðdegis í gær. Hægt að hlusta á það hér.

10
Mar

Kjarasamningur SGS og SA samþykktur hjá Verkalýðsfélagi Akraness

Eftir að talið hefur verið upp úr kjörkössum er ljóst að kjarasamningur Starfsgreinasambands Íslands við Samtök atvinnulífsins sem undirritaður var þann 17. febrúar sl. hefur verið samþykktur hjá Verkalýðsfélagi Akranesi.

Kjarasamningurinn var víða kynntur í fyrirtækjum, m.a. hjá HB Granda, Lifrarbræðslu Jóns Þorsteinssonar, Smellinn, Fangi, Norðanfiski og síðan á almennum félagsfundi. Á fundunum kom fram að félagsmenn voru almennt ánægðir með innihald samningsins.

Kosið var á opnum kjörfundi en því miður var kjörsókn afar dræm og er það áhyggjuefni að félagsmenn skuli ekki láta í ljós hug sinn með því að nýta kosningarétt sinn. Rétt er þó að geta þess að 98% þeirra sem kusu sögðu já, þannig að samningurinn var samþykktur með yfirburðum.

07
Mar

Gríðarleg aðsókn í aðstoð við gerð skattframtala

Eins og undanfarin ár býður Verkalýðsfélag Akraness félagsmönnum sínum upp á aðstoð við gerð einfaldra skattframtala. 

Þessi þjónusta hefur alltaf mælst gríðarlega vel fyrir og venjulega kemst aðeins hluti þeirra að sem vilja. Af þeim sökum verða helmingi fleiri tímar í boði í framtalsaðstoð í ár en áður hafa verið.

Aðsóknin er síst minni nú en áður og eru þeir félagsmenn sem vilja nýta sér þessa þjónustu því hvattir til að panta tíma sem allra fyrst vilji þeir komast að.

06
Mar

Búið að landa um sex þúsund tonnum

Um sex þúsund tonn hafa komið til bræðslu hingað á Akranes það sem af er af þessari vertíð, en unnið hefur verið á vöktum frá síðasta sunnudag. 

Það er löngu vitað að tekjur starfsmanna bræðslunnar byggjast að miklu leiti uppá að staðnar séu vaktir og á þeirri forsendu eru það ánægjuleg tíðindi að loðna sé farin að berast til bræðslu hér á Akranesi eftir allanga bið.

Formaður fór og hitti starfsmenn bræðslunnar í dag og voru þeir nokkuð sáttir, en telja hins vegar að þessi vertíð verði því miður frekar snubbótt sökum þess hversu lítill loðnukvótinn er í ár.

Þau skip sem hafa landað loðnu hér á Akranesi á þessari vertíð eru Lundey,Víkingur,Faxi og Finnur fríði frá Færeyjum.

Þó svo að mikið sé að gera hjá bræðsluköllunum þá er ekki minna að gera hjá starfsmönnum HB Granda, sem unnið hafa sleitulaust á vöktum við loðnufrystingu síðustu daga og að sögn starfsmanna hefur hrognatakan og frystingin gengið mjög vel og góð stemming er á meðal starfsmanna.   

05
Mar

Fundað með mannauðsstjóra Century Aluminum

Formaður félagsins fundaði í morgun með starfsmannastjóra Norðuráls og yfirmannauðsstjóra Century Aluminum. Mannauðsstjórinn var í kynnisferð hér á landi og óskaði hann eftir því að fá að hitta formenn þeirra félaga á Vesturlandi sem eiga aðild að kjarasamningi Norðuráls.

Þetta var fínn fundur og vildi mannauðsstjórinn fá upplýsingar um hvernig stéttarfélög hér á landi starfa og gafst formanni tækifæri til að koma með ábendingar sem lúta að réttindum starfsmanna Norðuráls.

Formaður hefur áður bent á að það er launamunur á milli Alcan og Norðuráls og er afar brýnt að þeim launamun verði eytt þegar samningar fyrirtækisins verða næst lausir. Einnig benti formaður VLFA mannauðsstjóranum á að hugsanlega væri 8 tíma vaktakerfi mun betra en það 12 tíma kerfi sem nú er við lýði hjá Norðuráli.

Margt jákvætt hefur verið að gerast hjá Norðuráli síðustu vikurnar og sem dæmi þá er fyrirtækið að vinna að nýju hæfnismati fyrir starfsmenn sem mun væntanlega skila starfsmönnum þó nokkrum ávinningi þegar það tekur gildi.  Reiknað er með að nýtt hæfnismat fyrir starfsmenn verði klárt á næsta ári.

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image