• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
Óskiljanleg ákvörðun forsvarsmanna HB Granda Ingunn Ak landaði kolmunna í Vestmannaeyjum í gær
10
Apr

Óskiljanleg ákvörðun forsvarsmanna HB Granda

Gríðarlegt kurr er komið í starfsmenn síldarbræðslunnar hér á Akranesi eftir að forsvarsmenn HB Granda gerðu samkomulag við Ísfélagið í Vestmannaeyjum um að landa þar einum kolmunnafarmi á hvert skip fyrirtækisins, en þau skip sem um ræðir eru Ingunn AK, Faxi RE og Lundey NS.

Ástæðan fyrir þessari ákvörðun um að láta skipin landa hjá Ísfélaginu í Vestmannaeyjum en ekki í síldarbræðslu sem HB Grandi á sjálft er sú að Ísfélagið er tilbúið að greiða mun hærra verð fyrir kolmunnann heldur en forsvarsmenn HB Granda voru tilbúnir að greiða sínum skipverjum fyrir.

Ísfélagið í Vestmannaeyjum er tilbúið að greiða 14,80 kr. fyrir pr. kíló af kolmunnanum, en það sem forsvarsmenn HB Granda buðu sínum áhöfnum var mun lægra verð eða frá 11,20 kr/kg upp í 12,50 allt eftir gæðum hráefnisins.  Skipverjarnir á öllum skipum HB Granda höfnuðu því verði sem eigendur HB Granda buðu í kosningu um borð í skipunum og fór atkvæðagreiðslan þannig að 39 höfnuðu þessu verði, einn samþykkti og einn sat hjá. 

Verkalýðsfélag Akraness skilur fullkomlega þá afstöðu skipverjanna að vilja fá sama verð og Ísfélagið er að greiða og það er í raun óskiljanlegt af hverju HB Grandi getur ekki greitt sama verð fyrir kg af kolmunnanum og Ísfélagið.  Sérstaklega í ljósi þess að verksmiðjan á Akranesi er ein sú allra fullkomnasta á landinu og nánast allt hráefnið sem til hennar berst fer í hágæðamjöl.

Ástæða þess að mikið kurr er komið í starfsmenn er sú að tekjur starfsmanna síldarbræðslunnar byggjast að langstærstum hluta á því að staðnar séu vaktir þegar bræðsla á sér stað og á þeirri forsendu eru starfsmenn að verða fyrir umtalsverðu tekjutapi vegna þess að aflanum er nú landað tímabundið í Vestmannaeyjum en ekki í verksmiðju HB Granda. 

Hvernig má það vera að forsvarsmenn HB Granda sem eiga og reka eina fullkomnustu síldarbræðslu á landinu skulu taka ákvörðun um að landa ekki afla af sínum eigin skipum í sína eigin verksmiðju.  Forsvarsmenn fyrirtæksins verða að átta sig á því að þeir hafa sterkar skyldur gagnvart þeim starfsmönnum sem starfa í síldarbræðslum fyrirtækisins sem verða eins og áður sagði af umtalsverðum tekjum vegna þessarar ákvörðunar.

Formaður hefur leitað svara hjá forsvarsmönnum HB Granda vegna þessarar ákvörðunar og svarið sem formaður fékk var það að verðið sem Ísfélagið væri að greiða væri einfaldlega alltof hátt og HB Grandi treysti sér ekki til að greiða slíkt verð.

Hví í ósköpunum getur Ísfélagið greitt þetta verð fyrir kolmunnann en ekki HB Grandi.  Varla eru eigendur Ísfélagsins að leika sér að því að greiða verð fyrir kolmunnann sem ekki stenst neina skoðun.

Það verður að segjast alveg eins og er að formaður Verkalýðsfélags Akraness skilur alls ekki ýmsar ákvarðanir sem forsvarsmenn HB Granda hafa tekið í rekstri fyrirtækisins og er þessi ákvörðun ein af þeim.  Áður hefur verið fjallað um það hér á heimasíðunni hvernig við Skagamenn höfum farið útúr sameiningunni við Granda sem átti sér stað árið 2004 en frá sameiningunni hafa tapast yfir 150 störf.  Eins og flestir vita hafa forsvarsmenn HB Granda sagt upp öllum starfsmönnum nema 20 í landvinnslunni hér á Akranesi. 

Eins og áður sagði þá er margt sem formaður félagsins skilur ekki í rekstri fyrirtækisins og nægir að nefna síðustu síldarvertíð í því samhengi.  Siglt var með allan síldarkvóta skipa fyrirtækisins, sem var veiddur rétt fyrir utan Grundarfjörð, til Vopnafjarðar til vinnslu, í siglingu sem tók yfir 40 klukkustundir.  Það virðist ekki hafa komið til greina að koma upp græjum til að vinna síldina hér á Akranesi þó svo að sigling af miðunum við Grundarfjörð til Akranes taki einungis rúma 8 tíma eða 32 tímum skemmur heldur en til Vopnafjarðar.  Formaður spyr sig hvað ef síldin mun halda áfram að veiðast í Grundarfirði ætla forsvarsmenn að halda þeirri vitleysu áfram að láta skip sín sigla í 40 tíma með aflann til vinnslu, hverlags vinnubrögð eru þetta?

Einnig er hægt að nefna vinnnubrögðin í kringum loðnufrystinguna, en ráðist hefur verið í mjög miklar framkvæmdir henni tengdri á Vopnafirði og frystigetan þar hefur verið aukin á síðustu árum í um 400 tonn á sólarhring en hér á Akranesi er frystigetan einungis 100 tonn á sólarhring.  Samt er megnið af loðnunni sem unnin er til hrognatöku veidd hér í námunda við Reykjanesið.  Umtalsverðu magni af loðnuhrognum var keyrt frá Akranesi bæði á þessari vertíð sem og á vertíðinni í fyrra frá Akranesi til Vopnafjarðar til frystingar.  Því spyr formaður sig ætla forsvarsmenn HB Granda að auka frystigetuna hér á Akranesi fyrir næstu vertíð eða ætlar fyrirtækið að halda áfram að keyra hrognum til Vopnafjarðar til frystingar með tilheyrandi kostnaði?

Eins og áður sagði þá er sorglegt að sjá hvernig við Skagamenn höfum farið útúr þessari sameingu við Grandamenn einfaldlega vegna þess að svo virðist sem öll "hagræðing" sé látin bitna á okkur Skagamönnum.

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image