• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
Fréttir

Fréttir

22
Feb

Kynningar á samningnum standa nú á fullu yfir

Stjórn og trúnaðarráð fundaði í gærkvöldi og var þar farið yfir nýgerðan kjarasamning. Voru fundarmenn almennt sáttir við samninginn og þá sérstaklega þann þátt sem lýtur að hækkun lægstu launa. Samt sem áður hefðu stjórnarmenn viljað sjá meiri hækkanir.

Ákveðið var á fundinum að fyrirkomulag kosninga um samninginn verði með þeim hætti að opinn kjörfundur verður þar sem hægt verður að kjósa um samninginn á skrifstofu félagsins.

Formaður mun kynna samninginn hjá lifrarbræðslunni Jóni Þorsteinssyni á mánudaginn og mun starfsmönnum gefast kostur á að kjósa um samninginn að lokinni kynningu. Einnig verður kynning á þriðjudaginn í fyrirtækinu Smellinn en þó nokkur fjöldi starfsmanna þar er af erlendu bergi brotinn og verður pólskur túlkur því með í þeirri kynningu.

Síðan verður opinn félagsfundur á þriðjudagskvöld kl. 20:00 í sal HB Granda og þar mun félagsmönnum einnig gefast kostur á að kjósa um samninginn.

Hægt verður að kjósa um samninginn á skrifstofu félagsins frá 29. febrúar til 7 mars en þá verður kjörfundi lokið.

21
Feb

Kjarasamningurinn kynntur fyrir starfsmönnum Fangs

Formaður félagsins fór í morgun og kynnti nýgerðan kjarasamning fyrir starfsmönnum Fangs, en það eru starfsmenn sem starfa í mötuneyti og við ræstingar hjá Íslenska járnblendifélaginu.

Fyrir gerð nýs kjarasamnings voru grunnlaun starfsmanna eftir 5 ára starf 166.748 kr. en verða eftir nýgerðan samning komin uppí 184.748 kr. sem er hækkun uppá 10.8%

Föst laun þ.e.a.s. vaktarálag, ferðapeningar og bónus hjá starfsmanni eftir 5 ára starf var fyrir nýgerðan kjarasamning 223.929 kr. en verða eftir samning 248.908 kr. sem er hækkun uppá 24.978 kr. á mánuði eða sem nemur 11% hækkun.  Þetta er hækkun sem gildir fyrsta ár samningsins.

Starfsmenn voru almennt mjög ánægðir með samninginn og telja þetta jákvætt skref í að bæta kjör þeirra sem eru með hvað lægstu launin. 

20
Feb

Stjórn og trúnaðarráð kemur saman til fundar á morgun

Á morgun mun stjórn og trúnaðarráð Verkalýðsfélags Akraness koma saman til fundar þar sem farið verður yfir nýgerðan kjarasamning.

Einnig verður tekin ákvörðun um hvort kosið verður um kjarasamninginn í allsherjar póstatkvæðagreiðslu eða á opnum kjörfundi.

Stjórn félagsins hvetur alla þá sem taka laun eftir nýgerðum kjarasamningi að kynna sér hann í þaula en hægt er að nálgast samninginn á skrifstofu félagsins sem og hér á heimasíðunni undir kjaramál hér vinstra megin.

Einnig geta fyrirtæki óskað eftir kynningu á vinnustöðum og hefur einn stór vinnustaður þegar óskað eftir slíkri kynningu.

19
Feb

Kynning hafin á nýjum kjarasamningi

Fyrsti kynningarfundur nýs kjarasamnings fór fram í gær en það voru starfsmenn HB Granda sem fengu kynningu á helstu atriðum samningsins.

Á þriðjudaginn kemur verður haldinn kynningarfundur í sal HB Granda kl. 20:00 þar sem farið verður ítarlega yfir nýgerðan kjarasamning. Einnig geta félagsmenn óskað eftir að formaður komi á vinnustaði og kynni samninginn.

Hægt er að nálgast nýgerðan kjarasamning SGS við SA með því að smella hér.

Kjarasamning iðnaðarmanna er hægt að nálgast með því að smella hér.

Yfirlýsingu Ríkisstjórnarinnar er hægt að nálgast með því að smella hér.

18
Feb

Fundað um málefni starfsmanna HB Granda

Fundur var haldinn með starfsmönnum HB Granda í dag þar sem farið var yfir hin ýmsu úrræði sem starfsmönnum munu standa til boða vegna þeirra uppsagna sem starfsmönnum voru tilkynntar ekki alls fyrir löngu.

Forstöðumenn Vinnumálastofnunar fóru yfir ýmis mál tengd réttindum til atvinnuleysisbóta og þeim úrræðum sem Vinnumálastofnun býður atvinnuleitendum. Starfsmenn spurðu forsvarsmenn Vinnumálastofnunar fjölmargra spurninga er lúta að réttindum tengdum atvinnuleysisbótum.

Formaður félagsins fór yfir það hvað félagið hefur verið að gera til að aðstoða þá félagsmenn sína sem misstu lífsviðurværi sitt í áðurnefndum uppsögnum. Fram kom í máli formanns að þessa stundina eru ekki ýkja mörg úrræði í sjónmáli hvað varðar atvinnumöguleika fyrir þá einstaklinga sem sagt hefur verið upp störfum og á það sérstaklega við um kvenfólk. Samt sem áður kom fram í máli formanns að nokkur fyrirtæki hafa í huga að ráða starfsmenn þegar líður á vorið en því miður eru það flest störf sem henta karlmönnum betur.

Formaður greindi einnig frá því að forsvarsmenn Hrafnistuheimilanna í Reykjavík hafa haft samband við formann og eru tilbúin til að bjóða starfsmönnum sem misst hafa atvinnuna í heimsókn til að kynna þá starfsemi sem fram fer á heimilunum. Kom fram í máli forsvarsmanna Hrafnistuheimilanna að þar vantar sárlega fólk í vinnu.

Starfsmenn hafa þegið þetta boð og er verið að vinna að því að fara í slíka heimsókn og er hún fyrirhuguð á fimmtudaginn kemur.

Eftir að Verkalýðsfélag Akraness gagnrýndi það hvernig forsvarsmenn HB Granda stóðu að áðurnefndum uppsögnum þá hafa orðið alger umskipti og hefur það samstarf sem hefur verið á milli forsvarsmanna Vinnumálastofnunar, Verkalýðsfélags Akraness og forsvarsmanna HB Granda hefur verið til mikillar fyrirmyndar núna.

Ákváðu aðilar að funda aftur eftir nokkrar vikur með það að markmiði að sjá hvernig þróunin hefur orðið varðandi þá aðila sem misst hafa vinnuna.

17
Feb

Nýr kjarasamningur SGS og SA undirritaður í kvöld

Hækkun launa þeirra tekjulægstu, kaupmáttaraukning og efnahagslegur stöðugleiki var meginmarkmið Starfgreinasambandsins í kjaraviðræðum við Samtök atvinnulífsins.

Þetta markmið hefur að mestu náð fram í þeim kjarasamningi sem undirritaður verður nú í kvöld. Kjör þeirra sem lægst hafa launin og kaupmáttur þeirra, sem setið hafa eftir í launaþróuninni hækka umtalsvert meira en annarra.

Samið er um að taxtar hækki verulega  og öryggisnetið þar með gert tryggara. Samið er til eins árs með möguleika á framlengingu í tvö ár ef efnahagslegar forsendur standast, m.ö.o. að aðrir, þar með talin stjórnvöld, axli einnig ábyrgð í efnahagslífinu þannig að verðbólga og vaxtabyrðin lækki. Þessi atrið geta tryggt kaupmáttaraukningu á samningstímabilinu.

Launataxtar hækka frá og með 1. febrúar s.l., um 18.000 krónur, um 13.500 krónur árið 2009 og 6.500 krónur árið 2010.

Í samningum er fjallað um fyrstu skref að nýju kerfi veikinda-, slysa- og örorkuréttinda á almennum markaði, en grunnur er nú lagður að nýjum endurhæfingarsjóði aðila vinnumarkaðarins. Veruleg hækkun bóta slysatrygginga launafólks var markmið sem náðist í kjarasamningnum.

Dánarbætur til eftirlifandi maka hækka um 31,4% og til barna mun meira. Bætur vegna varanlegrar örorku hækka um 71,2% og dagpeningar vegna tímabundinnar örorku um 65%.

Önnur markið Starfsgreinasambandsins svo sem um aukin framlög atvinnurekenda í fræðslu- og endurmenntunarsjóði náðist, einnig aukin vernd  launafólks við uppsagnir og að tekið verði markvisst á kynbundnum launamun.

Með kjarasamningum, sem Starfgreinasambandið hefur borið hita og þunga af, eru send mikilvæg skilaboð út  í samfélagiðið. Skilaboð um stöðugleika á vinnumarkaði á Íslandi næstu þrjú árin, stöðugleika sem er afar mikilvægur í því óvissuástandi sem við blasir í atvinnu- og efnahagslífinu. Kjarasamningarnir eru til þess fallnir að styrkja íslenska vinnumarkaðinum og um leið tækifæri, ef vel til tekst, til að auka hagvöxt og þar með kaupmátt launafólks.

16
Feb

Beðið eftir aðkomu ríkisins

Beðið eftir svari frá ríkisstjórn ÍslandsBeðið eftir svari frá ríkisstjórn ÍslandsAðalsamninganefnd Starfsgreinasambands Íslands hefur fundað nær sleitulaust síðustu daga til að leggja lokahönd á nýjan kjarasamning fyrir verkafólk á hinum almenna vinnumarkaði. 

Það liggur fyrir að aðilar eru nánast klárir með nýjan kjarasamning til undirritunar en því miður var ákveðið að fresta viðræðum við Samtök atvinnulífsins kl 17:00 í dag vegna þess að ekki hefur borist viðunandi svar frá ríkisstjórninni um aðkomu hennar að kjarasamningum aðila vinnumarkaðarins.

Aðalsamninganefnd SGS hefur verið boðuð til fundar á morgun kl. 13:00 og vonast samningsaðilar að þá liggi fyrir hver aðkoma ríkissins verði að kjarasamningum á hinum almenn vinnumarkaði.  Það má fastlega gera ráð fyir því að undirritað verði undir nýjan kjarasamning á morgun.

16
Feb

Sérkjarasamningur vegna síldarbræðslunnar var samþykktur

Sérkjarasamningur starfsmanna síldarbræðslunnar hjá HB Granda sem undirritaður var hjá ríkissáttasemjara í morgun var tekinn til atkvæðagreiðslu seinni partinn í gær og var samningurinn samþykktur með öllum greiddum atkvæðum starfsmanna. 

Starfsmenn lýstu yfir ánægju með samninginn en taxtahækkunin ein og sér er að gefa starfsmönnum 216.000 króna hækkun á fyrsta ári samningsins.

Einnig mun taxtahækkunin hafa veruleg áhrif á greiðslu vegna vaktarálags og er óvarlegt að áætla að samningurinn muni gefa starfsmönnum vel yfir 300.000 króna hækkun á ársgrundvelli, ef tekið er tillit til fjölda staðinna vakta á síðasta ári.     

15
Feb

Fyrsti samningurinn undirritaður í húsakynnum Ríkissáttasemjara

Klukkan 9 í morgun var undirritaður sérkjarasamningur á milli VLFA og Samtaka atvinnulífsins vegna starfa í fiskimjölsverksmiðju HB Granda á Akranesi.

Þetta er væntanlega fyrsti samningurinn sem hefur verið undirritaður hjá ríkissáttasemjara í þessari samningslotu sem nú stendur yfir. Hækkanir á launaliðum samningsins eru með sama hætti og fyrirhugaður er á hinum almenna vinnumarkaði, þ.e.a.s. 18.000 kr. hækkun gildir frá 1. febrúar 2008, 13.500 kr. frá 1. mars 2009 og 6.500 kr. frá 1. mars 2010.

Einnig var samið um ýmis önnur sérmál sem lúta að verksmiðjunni.

Kosið verður um samninginn á morgun.

14
Feb

Vel miðar áfram við gerð nýs kjarasamnings

Aðalsamninganefnd Starfsgreinasambands Íslands varð ásátt í morgun um meginútlínur launaliða nýs kjarasamnings.

Í þessum niðurstöðum er talað um að almennir taxtar hækki um 18.000 kr. við undirskrift, 13.500 kr. árið 2009 og 6.500 kr. árið 2010. Einnig er samkomulag um launaþróunartryggingu. Í því felst að þeir sem hafa verið í starfi hjá sama atvinnurekanda og hafa ekki náð að lágmarki 5,5% launahækkun frá 2. janúar 2007 til undirritunar samnings fái það sem upp á vantar.

18.000 þúsund króna hækkun á launataxtana á fyrsta árinu þýðir 216.000 hækkun á ársgrundvelli. 

Á árinu 2009 verði launaþróunartrygging 3,5%. Árið 2010 verði almenn launahækkun 2,5% og gildir sú hækkun fyrir þá sem ekki fá 6.500 króna taxtahækkunina.

Verið er að vinna í því sem lýtur að afturvirkni samningsins en það hefur verið skýr krafa samninganefndarinnar að einhvers konar greiðsla skuli koma til vegna dráttar á samningi. Einnig er unnið að því að ná launaþróunartryggingunni hærra upp.

Umtalsverðar líkur eru á að gengið verði frá nýjum kjarasamningi um helgina.

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image