• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
02
May

Óskiljanleg vinnubrögð af hálfu Vinnueftirlitsins

Alvarlegt vinnuslys varð miðvikudaginn 30. apríl í steypustöð BM Vallár við Höfðasel á Akranesi. Slysið varð með þeim hætti að karlmaður á fertugsaldri fékk utan í sig stórt steypusíló sem féll úr 5 til 6 metra hæð. Hann var fyrst fluttur á Sjúkrahúsið á Akranesi en fljótlega þaðan með forgangshraði á Landspítalann í Reykjavík.  Samkvæmt upplýsingum sem formaður félagsins hefur aflað sér þá liggur maðurinn sem er félagsmaður í Verkalýðsfélagi Akraness á gjörgæsludeild Landspítalans, alvarlega slasaður og er honum haldið sofandi í öndunarvél.

Það sem formaður félagsins undrast í máli þessu eru vinnubrögð Vinnueftirlitsins en slysið er tilkynnt til neyðarlínunar kl. 17:15 og kl. 17:56 hefur vinnuveitandinn strax samband við Vinnueftirlitið á Vesturlandi og tilkynnir að vinnuslys hafi orðið hjá fyrirtækinu.  Hins vegar sér fulltrúi Vinnueftirlitsins á Vesturlandi sér ekki fært að koma í vettvangsrannsókn strax og tilkynnir að hann muni koma á föstudagsmorgun eða vel á annan sólarhring eftir að slysið varð.

Ugglaust eru eðlilegar skýringar á því að fulltrúi Vinnueftirlitsins á Vesturlandi hafi ekki getað komið strax á vinnustaðinn og tekið út viðkomandi búnað.  Hins vegar er það með öllu óskiljanlegt að ekki hafi verið fenginn fulltrúi frá Vinnueftirlitinu á höfuðborgarsvæðinu þegar um jafn alvarlegt vinnuslys er að ræða.  Formanni er kunnugt um að sólahringsvakt sé hjá Vinnueftirlitinu á höfuðborgarsvæðinu og því hefði verið lítið mál að fá annan fulltrúa til að mæta á slysstað.

Það er mat formanns að það sé algjört lágmark að þegar jafn alvarlegt vinnuslys á sér stað að þá sé rannsókn Vinnueftirlitsins hafin yfir allan vafa enda getur það vart talist eðlileg vinnubrögð að bíða með vettvangsrannsókn í tæpa tvo sólarhringa frá því að slysið á sér stað.

Verkalýðsfélag Akraness hefur haft samband við Vinnueftirlit Ríkisins í Reykjavík og gert alvarlegar athugasemdir við þessi vinnubrögð enda mun félagið ekki sætta sig við slík vinnubrögð þegar jafn alvarleg slys eiga sér stað á félagssvæði Verkalýðsfélags Akraness.

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image