• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
Stjórn VLFA hefur áhyggjur af þróun efnahags- og atvinnumála Lambalæri með öllu tilheyrandi í lok aðalfundar
26
Apr

Stjórn VLFA hefur áhyggjur af þróun efnahags- og atvinnumála

Aðalfundur Verkalýðsfélags Akraness var haldinn í dag laugardaginn 26. apríl í matstofu Fortuna í sal Sementsverksmiðjunnar. Formaður félagsins, Vilhjálmur Birgisson, flutti skýrslu stjórnar og greindi frá því helsta sem stjórn og starfsmenn fengust við á annasömu ári. Félagsmönnum fjölgaði um 722 á síðasta ári og hagnaður af rekstri sjóða félagsins nam rúmlega 77 milljónum króna, samanborið við rúmlega 54 milljónir árið á undan. Félagssjóður skilaði rekstrarafgangi upp á tæpar 23 milljónir en var rekinn með halla þegar þessi stjórn tók við í árslok 2003. Staða sjúkrasjóðs er sterk og jókst hagnaður um 30% á milli ára þrátt fyrir auknar styrkveitingar, sem jukust um 37%. Sama er upp á teninginn með aðra sjóði félagsins, Orlofssjóð og Verkfallssjóð, staða þeirra hefur styrkst verulega.

 

Áhyggjur af þróun efnahags- og atvinnumála

Í máli Vilhjálms  kom fram að stjórn félagsins hefði áhyggjur af þróun efnahagsmála síðustu tveggja mánaða sem hefði leitt til þess að ávinningur nýrra kjarasamninga hefði tapast. Telur stjórn félagsins að allt stefni í að samningum yrði sagt upp strax í mars á næsta ári.

Formaður félagsins lét í ljós þungar áhyggjur af þróun atvinnumála í sjávarútvegi á Akranesi og var ómyrkur í máli um afleiðingar sameiningar HB hf og Granda sem leitt hefði til þess að yfir 150 manns hafi misst atvinnuna. Sagði Vilhjálmur forsvarsmenn HB Granda hafa sýnt Skagamönnum ótrúlegan fantaskap og að ekkert lát virtist ætla að verða á honum.

 

Setja markið hátt

Í skýrslu stjórnar kemur fram að hún sé stolt yfir því hvernig til hefur tekist þau fjögur ár sem stjórnin hefur starfað. Stórbætt afkoma félagsins og aukin þjónusta sjáist m.a. í því að yfir 90% félagsmanna eru ánægðir með það sem félagið hefur upp á að bjóða, samkvæmt könnun Capacent Gallup á síðasta ári. Markmið núverandi stjórnar er að Verkalýðsfélag Akraness verði það stéttarfélag sem mest og best þjónar sínum félagsmönnum hér á landi.

Í fundarlok var fundarmönnum boðið uppá lambalæri með öllu tilheyrandi.

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image