• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
02
May

Gylfi Arnbjörnsson framkvæmdastjóri ASÍ flutti kröftuga ræðu á 1. maí

Fjölmennt var í kröfugöngunni sem stéttarfélögin á Akranesi stóðu fyrir á 1. maí.  Að lokinni kröfugöngu þá var boðið uppá hefðbundna hátíðardagskrá í sal Verkalýðsfélags Akraness og eins og endranær var húsfyllir.  Formaður félagsins flutti ávarp að því loknu flutti Gylfi Arnbjörnsson hátíðarræðu dagsins og voru fundarmenn almennt mjög ánægðir með ræðu Gylfa.

 Gylfi kom víða við í hátíðarræðu sinni hjá stéttarfélögunum á Akranesi og varpaði fram þeirri spurningu hvort verkalýðshreyfingin hefði kjark til þess að horfast í augu við kaldan veruleikan þegar horft er á stöðu efnahagsmála. Hann ítrekaði að:

,,Við eigum að taka greiningu atvinnurekenda á vanmætti gjaldmiðilsins á orðinu en krefjast þess að gengið verði alla leið - ekki fleiri hálfkveðnar vísur og tilraunir með hagsmuni okkar og engin verður skilin eftir með ónýtan gjaldmiðil. Við eigum að bjóða þeim upp í dans og setja fram kröfuna um að stjórnvöld skilgreini með okkur samningsmarkmiðin og láti svo reyna á þau í viðræðum við Evrópusambandið.

Hvernig sem á þetta er litið er þetta mál of stórt og afdrifaríkt fyrir framtíð þjóðarinnar að stjórnamálamönnum leyfist að þagga það niður árum og misserum saman vegna þess að þeir treysta sér ekki til þess að takast á við ágreining innan flokkanna. Það verður að setja þetta mál á dagskrá og ræða það fordómalaust. Ég leyfi mér að taka svo djúpt í árinni að í því geti legið lykillinn að lausn þess efnahagsvanda sem við erum að glíma við - því það setur okkur skýr markmið um að koma hér á stöðugleika í gengis- og verðlagsmálum, það skapar launafólki trúverðuga sýn um mun lægri vexti og vöruverð og umfram allt traustari félagslega löggjöf. Það verði síðan þjóðin sjálf sem segi álit sitt í þjóðaratkvæðagreiðslu. Þjóðin á rétt á því.''

 

Hægt er að lesa ræðu framkvæmdastjórans með því að smella á meira

Gylfi Arnbjörnsson, framkvæmdastjóri ASÍ

Hátíðarávarp á 1. maí 2008  – Akranesi

Góðir félagar

Ég vill byrja á því að óska okkur til hamingju með daginn.  Það er nú gjarnan svo að á 1. maí lítum við yfir farinn veg og metum hvernig til hefur tekist í hagsmuna- og réttindabaráttu launafólks. Það er mikilvægt við þessi tímamót að við drögum lærdóma af reynslu liðinna ára og áratuga um leið og við tökumst á við nýjar áskoranir, setjum okkur ný verkefni og markmið til framtíðar.

Við skulum á þessum degi halda til haga að starf verkalýðshreyfingarinnar hefur skilað miklum árangri. Í raun er fátt líkt með þeim kjörum, réttindum og aðbúnaði sem við búum við í dag og fyrir örfáum áratugum. Hvað þá ef við lítum aftur um rúma öld þegar íslensk verkalýðshreyfing var að stíga sín bernskuspor. 

Það var ekki þannig þá, að kjarasamningar og löggjöf sem tryggja launafólki föst laun, hvíldartíma og frídaga, veikinda- og slysarétt, uppsagnarrétt, orlof, fæðingar- og foreldraorlof, reglur um mannsæmandi aðbúnað á vinnustað væru sjálfsagðir hlutir líkt og er í dag. Öll þessi réttindi, og fjölmörg önnur, eru í rauninni ávöxtur þeirra átaka og baráttu sem foreldrar okkar ömmur og afar háðu. Sama gildir um almannatryggingar, atvinnuleysistryggingar og réttinn til heilbrigðisþjónustu og menntunar. Okkur er bæði ljúft og skylt að minnast þess að sú velferð og það öryggi sem launafólk hér á landi býr við í dag er árangur af baráttu verkalýðshreyfingarinnar og bandamanna hennar. Ekkert af þessu féll af himnum ofan og við eigum að vera stolt af þeim árangri sem náðst hefur.

Síðustu ár hafa um margt verið íslensku launafólki gjöful. Kaupmáttur launa hefur aukist mikið, atvinnuleysi hefur verið lítið og við höfum náð mikilvægum árangri í að treysta velferðarkerfið á vinnumarkaði. Við höfum náð fram framsækinni löggjöf um fæðingar- og foreldraorlof, verulegri hækkun og tekjutengingu atvinnuleysisbóta, nýrri löggjöf um vinnumarkaðsaðgerðir sem m.a. er ætlað er að treysta stöðu og möguleika þeirra sem veikast standa á vinnumarkaði og þeirra sem búa við skerta starfsorku. Loks höfum við tryggt aukið fjármagn og öflugt átak í menntun launafólks, sérstaklega þeirra sem minnsta menntun hafa. Svo fátt eitt sé nefnt.

Ágætu félagar.

Útlendingum á íslenskum vinnumarkaði hefur fjölgað mikið undanfarin ár, svo mikið að það er þekkt víða um land að erlent launafólk er kjölfestan í atvinnu- og menningarlífi heilla byggðalaga. Ég fullyrði einnig að þessum félögum okkar hefur verið vel tekið og þeir hafi skilað miklu til okkar samfélags, bæði í efnahagslegu og menningarlegu tilliti.

En samhliða þessari þróun höfum við á undanförnum misserum og árum hins vegar orðið vitni af nýrri og alvarlegri þróun í þessum efnum. Ég er að vísa til vaxandi vanda þar sem fyrirtæki erlend og innlend brjóta á kjörum og réttindum erlends launafólks og misnota það til félagslegra undirboða og í ólöglega atvinnustarfsemi á íslenskum vinnumarkaði.

Verkalýðahreyfingin ákvað snemma að taka þessi mál mjög föstum tökum og ég fullyrði að við höfum náð mikilvægum árangri í baráttunni gegn þessum félagslegu undirboðum og svartri atvinnustarf með erlendu launafólki.

Að frumkvæði verkalýðshreyfingarinnar höfum við fengið löggjöf og samninga sem styrkja íslenskan vinnu­markað almennt, réttindi og stöðu launafólks, einkum innflytj­enda. Þá hafa samskipti og samstarf aðila vinnumarkaðarins og stjórnvalda á þessu sviði verið efld.

Stéttarfélögunum hefur með starfi sínu tekist að fá kjör og réttindi þúsunda erlendra launamanna leiðrétt og starfsemi fjölmargra svikafyrirtækja hefur verið lömuð eða upprætt.

Það er þó mikilvægt að við sofnum ekki á verðinum. Ég er fullviss um að þetta verður áfram eitt brýnasta verkefni verkalýðshreyfingarinnar að verja og treysta vinnumarkaðinn og þann árangur sem þar hefur náðst og tryggja að öll fyrirtæki sem hér eru með starfsemi virði reglur á íslenskum vinnumarkaði og að allir sem hér starfa njóti þeirra réttinda sem hér gilda, óháð þjóðerni.

Kæru félagar.

Eftir góðæri undangenginna ára eru alvarlegar blikur á lofti í íslensku efnahagslífi.  Verkalýðshreyfingin gerði sér grein fyrir því á haustmánuðum hvert stefndi og því var það megin markmið kjarasamningana sem náðust í febrúar að treysta kjör þeirra sem að setið höfðu eftir í launaskriði síðustu ára, hækka lægstu launin og það sem skiptir ekki minnstu máli að freista þess að verðbólgan færi ekki á fleygiferð.  Með mikilli samstöðu þar sem aðildarsamtök ASÍ stóðu sem órofa heild náðust þessi markmið í kjarasamningunum 17. febrúar. 

Í kjarasamningum var sérstök áhersla lögð á að hækka launataxta og bæta lægstu laun á vinnumarkaði umfram aðra. Um leið var séð til þess að þeir einstaklingar sem setið hafa eftir í launaskriði síðustu mánuði og misseri fengju sinn hlut bættan. Fullyrða má að launabreytingar samkvæmt kjarasamningunum eru róttækasta tilraun sem lengi hefur verið gerð til að hækka launataxta sérstaklega og bæta kjör þeirra sem taka laun samkvæmt þeim um leið og mikilvægum áfanga er náð í að færa almenna launataxta að greiddu kaupi.

Með þessum samningum voru margvísleg réttindi launafólks á vinnumarkaði einnig bætt frá því sem verið hefur. Orlofsréttur er aukinn og sama gildir um rétt foreldra vegna veikinda barna. Slysatryggingar launafólks vegna vinnuslysa eru stórbættar. Aukin áhersla er lögð á starfsmenntun. Áunnin réttindi vegna starfa erlendis eru viðurkennd.

Mér finnst einnig ástæða til að minnast sérstaklega á samkomulag okkar við atvinnurekendur um stofnun Endurhæfingarsjóðs, en með því tryggðum við verulegt fjármagn til starfsendurhæfingar þannig að hægt verði að efla það starf. Þó svo ég sé í þeim hópi sem vildi ganga lengra í þessu efni og stokka algerlega upp og auka verulega rétt okkar félagsmanna til launa og bóta í veikindum, slysum og örorku, tel ég að við höfum náð mikilvægum áfangasigri. Næst er að halda áfram með endurskoðun bótakerfisins.

Í tengslum við kjarasamningana tókst verkalýðshreyfingunni einnig að knýja fram umtalsverða hækkun skattleysismarka, barnabóta og vaxtabóta á samningstímanum, verulegar umbætur í húsnæðismálum og aðgerðir í starfsmenntamálum launafólks sem hefur litla formlega menntun. Ljóst er að allar þessar aðgerðir þjóna sérstaklega hagsmunum lágtekjufólks.

Launajafnrétti kynjanna er eitt brýnasta úrlausnarefnið á vinnumarkaði. Það er sameiginlegt verkefni okkar allra verkalýðshreyfingarinnar, samtaka atvinnurekenda og stjórnvalda að uppræta þetta óréttlæti á næstu misserum. Það er því fagnaðarefni að í kjarasamningunum er áréttað að „Jafnir möguleikar kvenna og karla  til starfa, starfsþróunar og launa er hagsmunamál launafólks og fyrirtækja”. Ég tel að þessi yfirlýsing samningsaðila marki tímamót í baráttunni fyrir jafnrétti kynjanna á vinnumarkaði.

Það er hins vegar engin launung á því að það olli miklum vonbrigðum um daginn þegar ríkisstjórnin opinberaði sérkennilega túlkun sína á ákvæðum þessara nýgerðu kjarasamninga. Það vill þannig til að ríkisstjórnin átti beina aðkomu að þessum samningum og fagnaði gerð þeirra með fögrum orðum, sérstaklega áherslunni á að hækka þá tekjulægstu sértaklega. Svo ákvað ríkisstjórnin sjálf að hækka elli og örorkulífeyri aðeins um 4-5000 kr. en ekki 18.000 kr. eins og kjarasamningarnir kváðu á um.  Það mál er þó góðu heilli ekki tapað og ASÍ treysti því að sú nefnd sem er að skoða það sjái að hér er um mikið sanngirnismál að ræða enda erum við að tala um þann hóp í samfélaginu sem býr við hvað lökust kjör.

En ágætu félagar.

Ég er þeirrar skoðunar að við gerðum góðan kjarasamning í febrúar en síðan hafa óveðursskýin hrannast upp á sjóndeildarhringnum. Alþjóðleg fjármálakreppa og verðhækkanir á matvöru og eldsneyti á alþjóðamörkuðum til viðbótar við mikla óstjórn efnahagsmála undanfarinna ára hefur komið illa við okkar samfélag. Í mars hrundi gengi krónunnar og berlega kom í ljós hversu veikur gjaldmiðill hún er. Í kjölfarið var dapurlegt að heyra boðskap nokkurra talsmanna verslunar í landinu sem boðuðu allt að 30% hækkun vöruverðs á næstu dögum. Hvar var ábyrgðartilfinning fyrirtækjanna sem mörg hver áttu aðild að nýgerðum kjarasamningum?  Í þessu samhengi ber sérstaklega að fagna framgöngu forráðamanna IKEA sem sýnt hafa mikla ábyrgð og gefið öðrum fordæmi.

Verðbólgan hefur tekið mikinn kipp síðustu vikur þannig að augljóst er að verðbólgudraugurinn lúrði handan við hornið. Verðlag hækkaði um hvorki meira né minna en 3,4% á milli mars og apríl sem er meiri hækkun en hægt er að una við á ársgrundvelli og nú er svo komið að verðbólgan mælist 12% s.l. 12 mánuði. Fara verður aftur fyrir gerð þjóðarsáttarinnar árið 1990 til að finna jafn mikla verðbólgu, eða 18 ár og er spáð áfram mjög hárri næstu mánuði.

Óstöðugleikinn í efnahags- og atvinnulífinu, gengisfall krónunnar, verðbólgan og vaxtaokrið koma verst niður á fólkinu í landinu. Ungu fólki og barnafjölskyldum sem eru að koma sér þaki yfir höfuðið. Venjulegu launafólki sem sér ávinninga kjarasamninga undangenginna ára eyðast upp í óðaverðbólgu. Verði ekkert að gert er ljóst að þúsundir fjölskyldna munu standa frammi fyrir alvarlegum fjárhagslegum þrengingum á næstu mánuðum.

Það ástand sem hér hefur verið lýst og sú framtíð sem það boðar er með öllu óásættanlegt. Ekkert atvinnulíf og engin fyrirtæki geta búið við slíkar aðstæður án þess að það hafi alvarlegar afleiðingar. Að óbreyttu er spáð umtalsverðum samdrætti í atvinnulífinu og hratt vaxandi atvinnuleysi. Þá liggur fyrir að fyrirtæki sem horft hefur verið til sem vaxtabrodda í íslensku atvinnulíf hafa þegar ákveðið eða hugleiða að flytja mikilvæga starfsemi sína úr landi.

Íslenskt samfélag, einkum launafólk og samtök þess, efnahags- og atvinnulífið standa nú frammi fyrir aðstæðum sem kalla á að við þeim verði brugðist af mikilli festu og framsýni, en umfram allt af ábyrgð. Í því ljósi hefur ASÍ að undanförnu ítrekað kallað eftir samráði ríkisstjórnar og aðila vinnumarkaðarins, enda vitum við að þeir sem verst fara út úr svona ástandi að óbreyttu er almennt launafólk í landinu.  Á sama tíma hafa stjórnvöld staðið álengdar og virðast gjörsamlega ráðþrota gagnvart viðfangsefninu sem við blasir. Með því hafa stjórnvöld enn aukið á óróleika og þá óvissu sem skapast hefur.

Ástandið á okkar veiku og óstöðugu krónu hefur eðlilega kynnt undir umræðu um upptöku Evru og inngöngu Íslands í Evrópusambandið. Það er ljóst að EES-samningurinn hefur á undanförnum 15 árum veitt launafólki mikla réttarbót. Að sama skapi er ljóst að það er verulega tekið að fjara undan félagslegri og vinnumarkaðslegri hlið þess samnings, en veigamiklar réttarbætur í Evrópu ná ekki til Íslands vegna ákvæða EES samningsins.  Þegar af þessum ástæðum verða stjórnmálamenn að hleypa í sig kjarki til að ræða næstu skref í Evrópumálum.  Viðsemjendur okkar hjá Samtökum atvinnulífsins hafa boðað að þeir vilji mæta auknum óstöðugleika í efnahagslífinu með einhliða evruvæðingu atvinnulífsins, m.a. með gerð kjarasamninga að öllu leyti í evrum. Verði það að veruleika munu sumir eiga kost á evrulaunum og evrulánum og versla vörur og þjónustu í evrum, en aðrir verði að búa við laun í óstöðugri krónu með háum vöxtum. Ljóst er að slík þróun mun fela í sér óþolandi mismunun gagnvart almenningi í landinu og var í nýrri bók Hvað með Evruna? eftir Eirík Bergmann Einarsson og Jón Þór Sturluson talin versta mögulega leiðin við evruvæðingu Íslands.  . Verkalýðshreyfingin getur ekki og mun aldrei sætta sig við að í þessu landi verði tekið upp kerfi að hætti gömlu Sovétríkjanna, þar sem búa tvær þjóðir, þar sem þeir útvöldu lifa í evruhagkerfi og versla í evrubúðum meðan allur almenningur á að sætta sig við ónýtan gjaldmiðil.

Það er þó rétt að halda því til haga að stefnumótun Samtaka atvinnulífsins byggir á því að fjöldi fyrirtækja í landinu er þegar farin að gera upp í evrum og er það þróun sem ekki verður stöðvuð. Að baki þessari þróun er þörf fyrirtækjanna fyrir meiri festu og fyrirsjáanleika í sínum rekstri og á því getur maður haft ríkan skilning því heimilin í landinu þurfa ekki síður slíkan stöðugleika. Það er því ekki skrýtið að verkalýðshreyfingin og atvinnurekendur sameinast í kröfunni um stöðugleika og festu í efnahagsmálum. Það er líka augljóst í mínum huga, að tilraun okkar íslendinga með sjálfstæða peningamálastefnu, sem hófst í mars 2001, hefur algerlega mistekist. Sveiflur í gengi krónunnar eru svo miklar að þær einar og sér eru að valda hér alvarlegum efnahagsvanda. Það sem meira er, Seðlabankanum hefur ekki tekist að sýna fram á að ná megi varanlegum stöðugleika með íslenskri krónu.

Ég tel því að við stöndum á krossgötum og verðum að hafa kjart til að leita nýrra leiða til að treysta hér raunverulegan jöfnuð og jafnvægi fyrir bæði fyrirtækin og heimilin í landinu. Það snýst um efnahags- og atvinnulífið og hag alls almennings og hvar við Íslendingar viljum skipa okkur í samfélagi þjóðanna í næstu framtíð. Það snýst um hvort við ætlum að taka á okkur byrðar til þess eins að leyfa stjórnmálamönnunum að gera sömu mistök í hagstjórn aftur eða trúverðuga og varanlega breytingu á aðstæðum. Aðdragandi þessa vanda núna er nefnilega að mörgu leiti keimlíkur þeim vanda sem við stóðum frammi fyrir árið 2001 nema hvað að nú þurfum við að glíma við afleiðingarnar við mjög erfiðar aðstæður á alþjóða fjármálamörkuðum og hækkandi heimsverðbólgu.

En erum við tilbúin til þess að horfast kalt í augu við þennan veruleika og gera þær ráðstafanir sem þarf? Atvinnurekendur hafa lýst því yfir að þeir ætli að greiða atkvæði með fótunum, þeir eru að yfirgefa krónunna og ætla að taka upp evru, en vilja að sama skapi ekki takast á við umræðuna um aðild að ESB. Stjórnmálin hafa reynst vanmáttug til þess að takast á við þetta verkefni – þar ítreka menn að þetta sé langtímamál og ekki á dagskrá svo árum skiptir. En hvað með okkur, hvað viljum við? Ég er þeirrar skoðunar að við þessar aðstæður eigi verkalýðshreyfingin í rauninni aðeins einn kost ef við viljum tryggja hér jöfnuð, jafnvægi og félagslegt réttlæti í framtíðinni í stað vaxandi ójafnaðar og ójafnvægis.

Við eigum að taka greiningu atvinnurekenda á vanmætti gjaldmiðilsins á orðinu en krefjast þess að gengið verði alla leið – ekki fleiri hálfkveðnar vísur og tilraunir með hagsmuni okkar og engin verður skilin eftir með ónýtan gjaldmiðil. Við eigum að bjóða þeim upp í dans og setja fram kröfuna um að stjórnvöld skilgreini með okkur samningsmarkmiðin og láti svo reyna á þau í viðræðum við Evrópusambandið.

Ég geri mér fulla grein fyrir því að ýmsir muni benda á þá miklu áhættu sem við tækjum í atvinnumálum með að afsala okkur sjálfstæðri peningamálastefnu – og eitt er víst að verkalýðshreyfingin mun aldrei láta atvinnuleysi viðgangast. Ég tel hins vegar að nú séu uppi aðstæður til að leysa þennan vanda. Samstaða virðist um að leggja allt að 500 miljarða króna í gjaldeyrisvarasjóð Seðlabankans til að skapa meiri trúverðugleika fyrir gjaldmiðilinn, án þess að rætt sé um þann gífurlega tilkostnað sem það hefði í för með sér. Ef við legðum bara helming þessara fjármuna í sérstakan sveiflujöfnunarsjóð sem væri ætlað til að mæta raunverulegum ytri áföllum hagkerfisins, líkt og  niðurskurð þorskafla á síðasta ári, þurfum við ekki að hafa miklar áhyggjur af þessu, þvert á móti gætum við tekist á við þann vanda með sterkan sjóð og vissu í gengismálum.

Hvernig sem á þetta er litið er þetta mál of stórt og afdrifaríkt fyrir framtíð þjóðarinnar að stjórnamálamönnum leyfist að þagga það niður árum og misserum saman vegna þess að þeir treysta sér ekki til þess að takast á við ágreining innan flokkanna. Það verður að setja þetta mál á dagskrá og ræða það fordómalaust. Ég leyfi mér að taka svo djúpt í árinni að í því geti legið lykillinn að lausn þess efnahagsvanda sem við erum að glíma við – því það setur okkur skýr markmið um að koma hér á stöðugleika í gengis- og verðlagsmálum, það skapar launafólki trúverðuga sýn um mun lægri vexti og vöruverð og umfram allt traustari félagslega löggjöf.Það verði síðan þjóðin sjálf sem segi álit sitt í þjóðaratkvæðagreiðslu. Þjóðin á rétt á því.

Góðir félagar.

Það er margt sem bendir til þess að misskipting og margskonar óréttlæti fari vaxandi í okkar samfélagi. Bilið á milli ríkra og fátækra fer vaxandi og það eru hópar í okkar samfélagi, meðal öryrkja, aldraðra, barnafjölskyldna og einstæðra mæðra, sem sitja eftir og búa við kröpp kjör.

Á sama tíma færa fjölmiðlar okkur fréttir af ofurlaunum, mikilli auðsöfnun fárra einstaklinga og ótrúlegum umsvifum þeirra. Það er reynt að koma því inn hjá fólki að í samfélagi nútímans felist verðmætasköpun helst í því að kaupa og selja verðbréf. Og þessari ímynd er alveg sérstaklega haldið að ungu fólki. Lausnarorðin eru taumlaus sérhyggja, þar sem hver og einn á aðeins að hugsa um sig. Við erum að tala um græðgisvæðinguna sem hvarvetna blasir við okkur.

Gegn þessum viðhorfum verðum við að setja fram jákvæða og framsækna samfélagssýn sem byggir á velferðarhugsjón verkalýðshreyfingarinnar.

Hvernig Ísland viljum við búa okkur sjálfum og börnum okkar til framtíðar?

Staðreyndir sýna að norræn samfélög sem byggja á velferðarhugsjón verkalýðshreyfingarinnar skapa íbúum sínum mesta almenna velferð og lífsgæði meðal þjóða heims.

Niðurstaðan er skýr. Samfélög sem byggja á öflugu og virku velferðarkerfi, góðri menntun fyrir alla, jöfnuði og jafnrétti og traustum réttindum launafólks er sá grunnur sem byggja þarf á til að takast á við og nýta þau tækifæri sem hnattvæðingin gefur.  Velferðin borgar sig, sama hvernig á það er litið.

Ágætu félagar.

Fyrsti maí er alþjóðlegur baráttudagur og alls staðar í heiminum er verkafólk og öll alþýða að vekja athygli á kjörum sínum og baráttumálum.

Með hnattvæðingunni hafa völd og áhrif fjölþjóðlegra stórfyrirtækja og fjármagnseigenda aukist til muna. Samhliða hafa tök þessarar aðila á fátækum þjóðum heimsins verið hert.

Í ávarpi Alþjóðasamtaka verkafólks á 1. maí segir að mannsæmandi vinna sé enn fjarlægur draumur fyrir stóran hluta jarðarbúa. Milljónir barna búi við þrældóm í stað þess að njóta menntunar og munurinn á milli fátækra og ríkra fari stöðugt vaxandi. Þá komi mikil hækkun á matvælaverði á heimsmarkaði sérstaklega illa við fátækasta hluta jarðarbúa með alvarlegum afleiðingum þar sem hungursneiðar og uppþot verði stöðugt vaxandi vandamál. Sem andsvar við þessum aðstæðum kallar alþjóðleg verkalýðshreyfing á ábyrga og réttláta hnattvæðingu.

Víða um heim er réttur verkafólks til að vera í verkalýðsfélögum og semja um kaup og kjör virtur af vettugi og forystumenn stéttarfélaga fangelsaðir og myrtir. Við þessar aðstæður skiptir alþjóðastarf verkalýðshreyfingarinnar æ meira máli. Alþjóðleg verkalýðshreyfing berst fyrir lýðræði og krefst sömu grundvallarréttinda fyrir launafólk alls staðar í heiminum. Alþjóðleg verkalýðshreyfing berst fyrir réttlátri hnattvæðingu og mannsæmandi lífi fyrir alla.Það er siðferðileg skylda okkar að leggja þessari baráttu lið. 

Góðir félagar.

Íslensk verkalýðshreyfing hefur svo sannarlega verk að vinna. Við þurfum að verja þann mikilvæga árangur sem náðst hefur um leið og við sækjum fram á nýjum sviðum. Í þeirri baráttu er mikilvægt að við stöndum saman sem órofa heild.

Við skulum sameinast um framtíðarsýn verkalýðshreyfingarinnar. Við skulum sameiginlega vinna að því að byggja upp réttlátt samfélag gegn misrétti og fátækt, þar sem komið er fram við alla af sanngirni og virðingu.  Þar sem allt launafólk, erlent jafnt sem íslenskt, nýtur mannsæmandi launa og réttinda í samræmi við kjarasamninga og lög. Við skulum hafa kjark til að horfast í augu við staðreyndir, bregðast við þeim og leita nýrra leiða að þessum sameiginlegu markmiðum okkar.

Við skulum verja kjörin.

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image