• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
29
Apr

Verkalýðsfélag Akraness harmar ákvörðun bæjarráðs

Eins og fram kom í fréttum í gær þá var farið skapast ófremdarástand í skólum bæjarins vegna þeirrar ákvörðunar kennara að vinna ekki tilfallandi yfirvinnu.  Með þeirri ákvörðun voru kennarar að mótmæla því að ekki hafi komið til viðbótargreiðslur og sértækar aðgerðir í launamálum hjá starfsmönnum Akraneskaupstaðar eins og gerst hefur hjá nágrannasveitarfélögunum á undanförnum mánuðum.

Öll sveitarfélögin á stór Reykjavíkursvæðinu hafa komið með sértækar aðgerðir í launamálum sinna starfsmanna vegna aukins álags og manneklu.  Á undanförnum vikum hafa sveitarfélögin á Reykjanesi einnig verið að tilkynna um sértækar aðgerðir til handa sínum starfsmönnum. 

Verkalýðsfélag Akraness var búið að óska eftir því við bæjarráð Akraneskaupstaðar ekki alls fyrir löngu að það myndi fara að fordæmi nágrannasveitarfélaganna og taka upp álíka sértækar aðgerðir í launamálum og önnur sveitarfélög hafa verið að kynna.  Þeirri ósk félagsins var hafnað.

Eftir aðgerðir kennara ákvað bæjarráð að greiða kennurum eingreiðslu kr. 60.000.- miðað við fullt  starf  þegar kjarasamningar kennara og Launanefndar sveitarfélaga hafa verið undirritaðir og samþykktir.  Eins fram hefur komið í fréttum þá er búið að undirrita nýjan kjarasamning fyrir grunnskólakennara og verður væntanlega kosið um þá fljótlega.

Bæjarráð samþykkti hins vegar að öðrum starfsmönnum Akraneskaupstaðar yrði greidd eingreiðsla kr. 60.000.- þegar þeirra kjarasamningar hafa verið undirritaðir að loknu núverandi samningstímabili en kjarasamningur við launanefnd sveitarfélaga rennur ekki út fyrr en 30. nóvember nk. Þetta þýðir að umrædd eingreiðsla mun ekki berast öðrum starfsmönnum bæjarins fyrr en eftir rúma sex mánuði.

Formaður félagsins harmar þá ákvörðun að ekki skuli allir starfsmenn Akraneskaupstaðar fá eingreiðsluna á sama tíma og telur fullvíst að þessi ákvörðun bæjarráðs muni valda umtalsveðri úlfúð hjá starfsmönnum bæjarins, enda er hún með öllu óskiljanleg.  Það er einnig óskiljanlegt að bæjrráð skuli tengja þessa eingreiðslu við komandi kjarasamninga en það hafa önnur sveitarfélög ekki gert

Verkalýðsfélag Akraness skorar á bæjaryfirvöld að endurskoða þessa ákvörðun og greiða öðrum starfsmönnum áðurnefnda eingreiðslu á sama tíma og gera á við kennara, enda er morgunljóst að aðrir starfsmenn bæjarins munu ekki sætta sig við slíka mismunun.  Einnig skorar Verkalýðsfélag Akraness á bæjaryfirvöld að hækka áðurnefnda eingreiðslu til samræmis við það sem Seltjarnnesbær er búinn að samþykkja handa sínum starfsmönnum.  En allir starfsmenn Seltjarnnesbæjar að undanskildum bæjarstjóranum munu fá eingreiðslu sem nemur 120.000 1. maí nk.

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image