• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
28
Apr

Ávinningur kjarasamninga í frjálsu falli

Óhætt er að segja að sá ávinningur sem náðist í síðustu kjarasamningum á hinum almenna vinnumarkaði sé nú í frjálsu falli. Samkvæmt nýustu mælingum hjá Hagstofunni mælist verðbólgan í apríl 11,8% en þegar kjarasamningar voru gerðir þann 17. febrúar sl. var verðbólgan 5,7% og hefur því hækkað um 6,1% frá undirritun samninganna.

Það er algjörlega ljóst að kjarasamningar á hinum almenna vinnumarkaði geta komist í mikið uppnám þegar endurskoðun á sér stað í febrúar 2009 og eins og staðan er núna er fátt sem bendir til annars en að samningunum verði sagt upp.

Það er grátlegt að sjá þann ávinning sem náðist í síðustu samningum hvað varðar hækkun á lægstu launum hverfa á jafnskömmum tíma og raunin hefur orðið.

Þetta mun ekki aðeins koma niður á nýgerðum kjarasamningum heldur verður gríðarlega erfitt að ganga frá þeim kjarasamningum sem nú eru lausir svo sem við ríkið, sjómenn og stóriðjurnar enda eru allt aðrar forsendur nú en þegar gengið var frá kjarasamningum á hinum almenna vinnumarkaði.

Það er mat formanns að það verði ekki hægt að ganga frá áðurnefndum samningum á sömu forsendum og gert var 17. febrúar sl. vegna þeirrar þróunar sem verið hefur á hækkun neysluvísitölunnar.

Það er með ólíkindum hversu hratt áhrif gengisfalls krónunnar hafa skilað sér út í verðlagið og spurning hvort einhverjir verslunareigendur séu að nýta sér það ástand sem nú er í íslensku efnahagslífi. Það verður fróðlegt að sjá, þegar að krónan styrkist aftur, hvort verslunareigendur verði jafn fljótir að lækka sínar vörur og þeir hafa verið fljótir að grípa til hækkana. Það var aðdáunarvert að sjá tilkynningu frá forsvarsmönnum IKEA sem tóku þá ákvörðun að grípa ekki til hækkana þrátt fyrir fall krónunnar. Það er einnig ljóst að fleiri verslanir mættu taka sér IKEA til fyrirmyndar.

Það er mjög mikilvægt að verðlagseftirlit Alþýðusamband Íslands hafi fengið aukafjármagn til þess að sinna verðlagseftirliti og vonandi mun slíkt eftirlit skila tilsettum árangri.

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image