• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
18
Feb

Fundað um málefni starfsmanna HB Granda

Fundur var haldinn með starfsmönnum HB Granda í dag þar sem farið var yfir hin ýmsu úrræði sem starfsmönnum munu standa til boða vegna þeirra uppsagna sem starfsmönnum voru tilkynntar ekki alls fyrir löngu.

Forstöðumenn Vinnumálastofnunar fóru yfir ýmis mál tengd réttindum til atvinnuleysisbóta og þeim úrræðum sem Vinnumálastofnun býður atvinnuleitendum. Starfsmenn spurðu forsvarsmenn Vinnumálastofnunar fjölmargra spurninga er lúta að réttindum tengdum atvinnuleysisbótum.

Formaður félagsins fór yfir það hvað félagið hefur verið að gera til að aðstoða þá félagsmenn sína sem misstu lífsviðurværi sitt í áðurnefndum uppsögnum. Fram kom í máli formanns að þessa stundina eru ekki ýkja mörg úrræði í sjónmáli hvað varðar atvinnumöguleika fyrir þá einstaklinga sem sagt hefur verið upp störfum og á það sérstaklega við um kvenfólk. Samt sem áður kom fram í máli formanns að nokkur fyrirtæki hafa í huga að ráða starfsmenn þegar líður á vorið en því miður eru það flest störf sem henta karlmönnum betur.

Formaður greindi einnig frá því að forsvarsmenn Hrafnistuheimilanna í Reykjavík hafa haft samband við formann og eru tilbúin til að bjóða starfsmönnum sem misst hafa atvinnuna í heimsókn til að kynna þá starfsemi sem fram fer á heimilunum. Kom fram í máli forsvarsmanna Hrafnistuheimilanna að þar vantar sárlega fólk í vinnu.

Starfsmenn hafa þegið þetta boð og er verið að vinna að því að fara í slíka heimsókn og er hún fyrirhuguð á fimmtudaginn kemur.

Eftir að Verkalýðsfélag Akraness gagnrýndi það hvernig forsvarsmenn HB Granda stóðu að áðurnefndum uppsögnum þá hafa orðið alger umskipti og hefur það samstarf sem hefur verið á milli forsvarsmanna Vinnumálastofnunar, Verkalýðsfélags Akraness og forsvarsmanna HB Granda hefur verið til mikillar fyrirmyndar núna.

Ákváðu aðilar að funda aftur eftir nokkrar vikur með það að markmiði að sjá hvernig þróunin hefur orðið varðandi þá aðila sem misst hafa vinnuna.

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image