• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
Fréttir

Fréttir

16
Sep

Félagsleg undirboð á íslenskum vinnumarkaði samfélagslegt mein

Norðurál hefur rift samningi við pólska verktakafyrirtækið Dabster eftir að Verkalýðsfélag Akraness og Félag-iðn og tæknigreina bentu forsvarsmönnum Norðuráls á að starfsmennn Dabster væru ekki með tilskilin leyfi til að starfa hér á landi eins og lög kveða skýrt á um. 

Ragnar Guðmundsson forstjóri Norðuráls sagði í viðtali við RUV í gærkveldi að um klárt lögbrot hafi verið að ræða. Mennirnir höfðu hvorki kennitölur, dvalarleyfi né önnur tilskilin leyfi til að starfa hér á landi.

Í september á síðasta ári gerði Norðurál samning við pólska verktakafyrirtækið Dabster. Alls var um fimm stöðugildi að ræða. Stöðurnar urðu þó tólf þegar mest var. Pólsku verkamennirnir sem komu hingað til lands til að manna þessar stöður störfuðu hér ólöglega í þrjá mánuði í senn, fóru þá úr landi og komu aftur til baka eða aðrir menn voru sendir í þeirra stað. Samningur Norðuráls við Dabster hefur gilt í ár. Því má gera ráð fyrir að um tuttugu til þrjátíu ólöglegir starfsmenn hafi komið til landsins og starfað á vegum Dabster fyrir Norðurál.

Það er ljóst að opinber gjöld vegna starfsmannanna ekki hafa verið greidd hér á landi. Slíkt skekkir alla samkeppnisstöðu gagnvart heiðarlegum fyrirtækjum og gjaldfellir kjör íslenskra launþega. Sterkar grunsemdir eru um að skort hafi á launagreiðslur til pólsku starfsmannanna.  Formanni félagsins er kunnugt um að Félag-iðn og tæknigreina er að kalla eftir gögnum til að ganga úr skuggum hvort brotið hafi verið á réttindum pólsku starfsmannana.  Einnig eru grunsemdir um að pólsku starfsmenirnir hafi ekki haft réttindi til að starfa hér á landi sem rafsuðumenn.

Það liggur fyrir að stéttafélögin sem eiga aðild að kjarasamningunum á Grundartangasvæðinu líða ekki lögbrot og félagsleg undirboð eins og í þessu tilviki.

Formaður félagsins fagnar þeirri ábyrgð sem Norðurál sýndi með því að rifta samningnum við Dabster. Félagsleg undirboð á íslenskum vinnumarkaði er samfélagslegt mein sem allir verði að taka höndum saman um að útrýma og lætur Verkalýðsfélag Akraness ekki sitt eftir liggja í þeim efnum. 

Hægt er að horfa á frétt um málið á RÚV með því að smella á Debster.

14
Sep

Gríðarleg vonbrigði

Það voru vægast sagt sorgleg tíðindi sem okkur Skagamönnum bárust í morgun þegar forsvarsmenn HB Granda tilkynntu að fyrirtækið væri hætt við að flytja alla landvinnslu fyrirtækisins upp á Akranes, eins og þeir höfðu tilkynnt 10 ágúst sl.

Akurnesingar fylltust gríðarlegri bjartsýni fyrir um mánuði síðan þegar HB Grandi tilkynnti að það hygðist reisa nýtt fiskviðjuver og að öll landvinnsla fyrirtækisins yrði flutt upp á Akranes.  Fram kom hjá forsvarsmönnum HB Granda að forsendan fyrir því að þessi áform myndu ganga upp væru að Faxaflóahafnir myndu flýta gerð nýrrar landfyllingar og hafnargarðs á Akranesi. HB Grandi stefndi að því að reisa á þeirri uppfyllingu nýtt fiskiðjuver sem yrði tilbúið síðla árs 2009. 

Nú hefur komið svar frá stjórn Faxaflóahafna um að þeir telja sig ekki geta verið tilbúna með nýja hafnaraðstöðu fyrir HB Granda fyrr en 2012 og á þeirri forsendu hefur stjórn HB Granda ákveðið að hætta við fyrirhuguð áform um að flytja alla landvinnsluna upp á Akranes. 

Það er með ólíkindum að forsvarsmenn HB Granda skuli nota þessa afsökun fyrir því að hætta við þessi áform sérstaklega í ljósi þess að Gísli Gíslason, forstjóri Faxaflóahafna, sagði í samtali við Skessuhorn að einn af hornsteinum í sameiningu hafnanna undir merkjum Faxaflóahafna hafi verið það að styrkja Akranes sem fiskihöfn. Þessi fyrirhugaða breyting myndi augljóslega falla mjög vel að því markmiði, sagði Gísli Gíslason.  Einnig sagði Gísli í þessu viðtali 10. ágúst að ekkert sé tæknilega því til fyrirstöðu að verða við þessari beiðni HB Granda.  Að stjórn HB Granda skuli hætta við allt saman vegna þess að Faxaflóahafnir telja sig þurfa örlítið meiri tíma til vera klárir með nýja hafnaraðstöðu, þetta er eins og áður sagði léleg afsökun hjá stjórn HB Granda.

Formaður VLFA taldi að loksins hefði óvissu fiskvinnslufólks á Akranesi verið eytt eftir að tilkynnt var um að landvinnsla HB Granda yrði flutt upp á Akranes.  Hver hefði getað trúað því að einungis einum mánuði seinna kæmi tilkynning um að stjórn HB Granda væri hætt við allt saman.  Hafi einhvern tímann ríkt óvissu ástand hjá fiskvinnslufólki hér á Akranesi þá er það núna.

Hvernig má það vera að forsvarsmenn HB Granda tilkynna áform um að reisa nýtt fiskiðjuver án þess að vera búnir að vinna sína heimavinnu, ef þannig má að orði komast?  Vekja upp tilhæfulausar væntingar án þess að nein innistæða sé fyrir slíkum væntingum.

Það má ekki gleyma því að eftir að Haraldur Böðvarsson & co sameinaðist Granda þá hefur störfum hjá fyrirtækinu hér á Akranesi fækkað á bilinu 60 til 80 manns.  Á þeirri forsendu er þessi tilkynning í dag gríðarlegt áfall fyrir samfélagið allt hér á Akranesi.

Formaður VLFA gerir þá kröfu að forsvarsmenn Reykjavíkurborgar, Akraneskaupstaðar, Faxaflóahafna og HB Granda setjist niður og finni farsæla lausn á þessu máli sem allir geta verið ásáttir með. 

Viðtal var við formann félagsins í kvöldfréttum sjónvarpsins varðandi þetta mál og er hægt að horfa á fréttina með því að smella á HB Grandi

13
Sep

Formaður félagsins í viðtali í þættinum Morgunvaktin

Formaður félagsins var í viðtali í morgun hjá Gísla S Einarssyni fréttamanni í þættinum Morgunvaktin.

Formaðurinn fór víða í umræddu viðtali t.d. voru komandi kjarasamningar, félagsleg undirboð og mótvægisaðgerðir ríkisstjórnarinnar til umræðu. 

Hægt er að hlusta á viðtalið við formann félagsins með því að smella á Morgunvaktin

12
Sep

Kallað verður eftir gögnum frá Formaco

Eins fram kom hér á heimasíðunni í gær þá fundaði formaður félagsins, ásamt Halldóri Grönvold aðstoðarframkvæmdarstjóra ASÍ, með aðstoðarmanni félagsmálaráðherra, lögmanni Vinnumálastofnunar og forstjóra Vinnumálastofnunar í gærmorgun.  

Tilefni fundarins var eins og áður hefur komið fram málefni er lúta að fyrirtækjum sem eru með erlenda starfsmenn í sinni þjónustu en aðallega var mál er tengist fyrirtækinu Formaco til umfjöllunar á fundinum. Verkalýðsfélag Akraness kærði áðurnefnt fyrirtæki til lögreglunnar þann 1. júní sl. vegna hinna ýmsu brota sem lúta m.a. að skráningu á erlendu vinnuafli.

Fundurinn var mjög góður og gagnlegur og algjörlega ljóst, miðað við fyrirliggjandi gögn, að fyrirtækið Formaco hefur ekki verið að fara eftir þeim lögum og reglum er gilda á íslenskum vinnumarkaði og lúta að erlendu vinnuafli.

Fram kom á fundinum að kallað yrði eftir ítarlegum skýringum frá Formaco, ásamt litháenska fyrirtækinu Statinu Statybos Centras (SSC) sem Formaco leigir erlenda starfsmenn af, verði krafið skýringa á hinum ýmsu atriðum sem lúta að skráningu og öðru slíku. Formaður gagnrýndi Vinnumálastofnun harðlega á umræddum fundi, sérstaklega í ljósi þess að ekki er komin niðurstaða í þetta mál þó svo að liðið sé á fjórða mánuð frá því VLFA lagði fram kæru á hendur fyrirtækinu.

Aðstoðarmaður félagsmálaráðherra Hrannar B Arnarsson lætur hafa eftir sér í dag í DV að margt sé óunnið í máli Formaco og að fyrirtækið beri klárlega einhverja ábyrgð í þessu máli.  Hrannar segir einnig að Formaco verði krafið ítarlegri skýringa og gengið verði hart í að afla svara frá fyrirtækinu.  Þessum ummælum fagnar formaður VLFA.

Ekki má gleyma því að það var Vinnumálastofnun sem hvatti VLFA eindregið til að kæra fyrirtækið fyrir brot á skráningum erlendra starfsmanna þess. Nú telur formaður víst að Vinnumálastofnun muni fara í þetta mál af festu og einurð, sérstaklega vegna fyrirliggjandi gagna og niðurstaða í þetta mál ætti því að vera komin fljótlega.

11
Sep

Formaður félagsins fundar með forstjóra Vinnumálastofnunar og aðstoðarmanni félagsmálaráðherra í dag

Formaður félagsins mun funda með aðstoðarmanni félagsmálaráðherra og Gissurri Péturssyni, forstjóra Vinnumálastofnunar kl. 10:30 í dag. Ásamt formanni félagsins mun Halldór Grönvold, aðstoðarframkvæmdarstjóri ASÍ, sitja fundinn.

Tilefni fundarins eru mál er lúta að fyrirtækjum sem eru með erlenda starfsmenn á félagssvæði Verkalýðsfélags Akraness. Eins og fram hefur komið á heimasíðu félagsins þá hefur félagið verið að vinna að nokkrum málum þeim tengdum að undanförnu.

Verkalýðsfélag Akraness er t.a.m. mjög óánægt með hversu mikla linkind Vinnumálastofnun hefur sýnt t.d. í máli tengdu Formaco og mun það mál meðal annarra mála verða til umræðu á þessum fundi

07
Sep

Lögbrot og félagsleg undirboð verði ekki liðin á íslenskum vinnumarkaði

Félagsmálaráðherra vill að Vinnumálastofnun sendi skýr skilaboð um að lögbrot verða ekki liðinFélagsmálaráðherra vill að Vinnumálastofnun sendi skýr skilaboð um að lögbrot verða ekki liðinEins og fram hefur komið hér á heimasíðunni þá telur formaður Verkalýðsfélags Akraness að gera þurfi allsherjar úttekt á fyrirtækjum sem eru með erlenda starfsmenn í sinni þjónustu.

Það var því afar ánægjulegt að Jóhanna Sigurðardóttir félagsmálaráðherra skuli hafa í fréttum í gær boðað stórhert eftirlit með skráningum, réttindum, kjörum og aðbúnaði erlends vinnuafls og vill ráðherra einnig að Vinnumálastofnun sendi skýr skilaboð um að lögbrot verði ekki liðin.

Formaður VLFA veit fyrir víst að félagsmálaráðherra mun ekki líða þau lögbrot og félagslegu undirboð sem ríkt hafa á íslenskum vinnumarkaði undafarin tvö til þrjú ár.

Fram kom hjá ráðherranum að áætlað sé að 1000-2000 erlendir starfsmenn séu án skráningar hjá Vinnumálastofnun.  Sú tala miðast við þá sem fengið hafa kennitölur hjá Þjóðskrá en hafa ekki verið skráðir hjá Vinnumálastofnun eins og lög kveða á um.  Hins vegar hefur enginn hugmynd um hversu margir erlendir starfsmenn eru hvorki með kennitölu né skráðir hjá Vinnumálastofnun.  Það er erfitt að segjaum það hversu margir erlendir starfsmenn eru að störfum án kennitalna hér á landi en dæmin að undanförnu sýna að sá fjöldi getur vel verið á annað þúsund starfsmanna.

Verkalýðsfélag Akraness er margbúið að benda á að eftirliti sé verulega ábótavant og t.d. í umsögn félagsins til félagsmálanefndar Alþingis vegna frumvarps um frjálsa för launafólks frá nýjum aðildarríkjum EES lagði félagið eftirfarandi til:

Viðkomandi stéttarfélag fái skýra heimild til þess að afla gagna hjá atvinnurekendum sem hafa erlent vinnuafl í sinni þjónustu, t.d. ráðningarsamninga, tímaskriftir og launaseðla og það án þess að grunur um brot sé til staðar. Reynslan sýnir að erlent starfsfólk veit almennt lítið um réttindi sín á íslenskum vinnumarkaði og veigrar sér við að leita aðstoðar verkalýðsfélaganna. Dæmin sanna einnig að einstaka atvinnurekendur hafa nýtt sér þessa vankunnáttu. Ljóst er að á stéttarfélögum hvílir skylda til að tryggja að á félagssvæði þeirra sé unnið samkvæmt íslenskum lögum og kjarasamningum og hafa þau víðtæka hagsmuni af því að svo sé gert. Er með öllu óskiljanlegt ef ekki er vilji til að notfæra sér þessa eftirlitsleið. Stéttarfélögin hafa á að skipa starfsfólki með víðtæka reynslu í túlkun kjarasamninga og með þekkingu á hinum ýmsu sérkjarasamningum sem í gildi eru. Er hins vegar ólíklegt nema með stórauknu fjárframlagi að Vinnumálastofnun geti sinnt ætluðu eftirlitshlutverki sínu.

Formaður er algerlega sammála félagsmálaráðherra í því að Vinnumálastofnun eigi að senda skýr skilaboð út á vinnumarkaðinn um að lögbrot og félagsleg undirboð verði ekki liðin, reyndar hefði stofnunin átt að vera löngu búin að senda umrædd skilaboð út á vinnumarkaðinn.  Formaður hefur margoft rætt það við starfsmenn Vinnumálastofnunar að taka eigi hart á þeim lögbrotum sem upp koma.  Því miður hefur stofnunin sýnt alltof mikla linkind í þessum málum hingað til, en allt bendir til að breyting sé að verða þar á, þökk sé félagsmálaráðherra.

Hægt er að lesa umsagnir Verkalýðsfélags Akraness til félagsmálanefndar með því smella hérHér er önnur umsögn sem félagið sendi félagsmálanefnd.

05
Sep

Allsherjar úttekt á Íslenskum vinnumarkaði

Koma þarf í veg fyrir félagsleg undirboðKoma þarf í veg fyrir félagsleg undirboðÞað er mat formanns Verkalýðsfélags Akraness að herða þurfi stórlega eftirlit með þeim fyrirtækjum sem eru með erlent vinnuafl í sinni þjónustu.  Því miður hefur sagan sýnt okkur svo ekki verður um villst að til eru fyrirtæki sem eru alls ekki að fara eftir þeim lögum og reglum sem gilda á íslenskum vinnumarkaði.

Það þarf að gera víðtæka úttekt á þeim fyrirtækum sem eru með erlenda starfsmenn í sinni þjónustu.  Best væri að verkalýðshreyfingin ásamt starfsmönnum Vinnumálastofnunnar myndu framkvæma slíka úttekt og yrði slík úttekt framkvæmd með því að fara og heimsækja þau fyrirtæki sem eru með erlenda starfsmenn í vinnu.

Í slíkri úttekt yrði kannað hvort viðkomandi starfsmenn hafi verið skráðir eins og lög kveða á um og hvort verið sé að greiða laun eftir þeim kjarasamningum sem hér gilda.  Í slíkri allsherjar úttekt væri hægt að útrýma þeim félagslegum undirboðum sem því miður hafa verið alltof algeng á íslenskum vinnumarkaði á síðustu misserum.  Félagsleg undirboð sem sum fyrirtæki ástunda gjaldfella launakjör hjá íslensku verkafólki, við því verður að bregðast af fullri hörku.

 

Það eru gríðarlegir hagsmunir hér í húfi fyrir íslenskt samfélag.  Það er alvitað að hundruðir ef ekki þúsundir erlendra starfsmanna eru hér að störfum án þess að hafa verið skráðir hér á landi með lögformlegum hætti.  Dæmin sýna einnig að alltof mörg fyrirtæki hafa ekki sótt um kennitölur fyrir sína starfsmenn og þar af leiðandi eru ekki greidd opinbergjöld af þeim starfsmönnum.

Það er því ljóst að íslenskt samfélag verður að töluverðum fjármunum þegar fyrirtæki koma sér hjá því að greiða til hins opinbera eins og lög kveða á um.  Heiðarleg fyrirtæki eru einfaldlega ekki samkeppnishæf gagnvart þeim fyrirtækjum sem koma sér hjá því að greiða þau opinberugjöld sem þeim ber.

Verkalýðsfélag Akraness hefur átt nokkuð gott samstarf við Vinnumálastofnun hvað varðar öflun gagna tengt erlendu vinnuafli.  Hins vegar er formaður félagsins afar ósáttur með að Vinnumálastofnun hefur ekki verið tilbúin að grípa til þeirra refsinga sem hún hefur samkvæmt lögunum, þegar sannast hefur að fyrirtæki hefur gerst brotlegt.

Vinnumálastofnun verður að senda skýr skilaboð út á vinnumarkaðinn að brot á skráningum og félagslegum undirboðum verða ekki liðin á íslenskum vinnumarkaði lengur.

03
Sep

Kennitölulausir í yfir 300 daga

Eins og fram kom í Fréttablaðinu á sunnudaginn þá hyggst Ragnar Jóhannsson eigandi Formaco ehf stefna Verkalýðsfélagi Akraness fyrir meiðyrði.  En Verkalýðsfélag Akraness kærði umrætt fyrirtæki til lögreglunar vegna grunsemda um að Lithár sem starfa hjá Formaco væru ekki skráðir hér á landi eins og lög kveða skýrt á um.

Rétt er að geta þess að lögfræðingur Vinnumálastofnunar Unnur Sverrisdóttir hvatti Verkalýðsfélag Akraness til að kæra áðurnefnt fyrirtæki vegna sterkra grunsemda um brot á lögum.  Í viðtali við DV í júní sagði lögmaður Vinnumálastofnunar m.a. “það blasir við að fyrirtækið hefur ekki sinnt skráningum eins og því ber að gera.  Málið lítur þannig út að það vanti allt yfir þessa starfsmenn en við vitum ekki hversu langt aftur í tímann þetta nær.  Einnig sagði lögmaður Vinnumálastofnunar þetta. “Við erum í samstarfi með verkalýðshreyfingunni um að leysa þetta mál og hvöttum við fulltrúa þeirra í sjálfu sér til að kæra.  Það er margt sem virðist vera mjög dularfullt þarna og allt í lagi að lögreglan skoði hugsanleg lögbrot aftur í tímann.

Vinnumálastofnun skoðaði málið og kom þá í ljós að fyrirtækið var með 27 erlenda starfsmenn sem ekki höfðu kennitölur né dvalarleyfi.  Einungis 6 af 27  Litháunum voru skráðir hjá Vinnumálastofnun, hins vegar var enginn þeirra með  kennitölu né dvalarleyfi.  Einnig hefur félagið sterkar grunsemdir um að ekki hafi verið borguð opinbergjöld af mönnum.  Gögn sem Vinnumálastofnun, lögreglan og Verkalýðsfélag Akraness hafa undir höndum staðfesta þessar grunsemdir.

Þó svo að þessar upplýsingar liggi fyrir þá heldur eigandi Formaco því fram í Fréttablaðinu á sunnudaginn að fyrirtækið hafi farið í einu og öllu að lögum vegna áðurnefndra starfsmanna.

Verkalýðsfélag  Akraness hefur fjallað um þetta mál nokkrum sinnum hér á heimasíðunni og ætið bent á að fyrirtækið hafi ekki skráð Litháanna eins og lög kveða skýrt á um.  Staðreyndir þessa máls eru:  Formaco var eða er með erlenda starfsmenn í vinnu sem ekki hafa kennitölur og dvalarleyfi hér á landi.

Kæran var lögð fram 1. júní og þremur mánuðum seinna eða nánar tilgetið 31. ágúst voru Litháarnir ekki ennþá komnir með kennitölur og með ólíkindum ef Vinnumálastofnun mun láta það viðgangast öllu lengur.  Formaður skorar einnig á skattayfirvöld að taka hart á þeim fyrirtækjum sem reyna að koma sér undan því að greiða opinbergjöld af erlendu vinnuafli.

Verkalýðshreyfingin hefur ríka eftirlitsskildu með íslenskum vinnumarkaði og á þeirri forsendu ákvað VLFA að kæra umrætt fyrirtæki.  Heiðarleg fyrirtæki sem fara eftir þeim leikreglum sem gilda á íslenskum vinnumarkaði og greiða þau opinbergjöld sem þeim ber eru ekki samkeppnishæf fyrirtækjum sem koma sér hjá slíku.  Hér eru miklir hagsmunir fyrir allt samfélagið og ekki síst fyrir almennt verkafólk.

Verkalýðsfélag Akraness hræðist ekki að fá stefnu frá fyrirtæki sem hefur gerst jafn brotlegt hinum ýmsu lögum er lúta að íslenskum vinnumarkaði, svo mikið er víst.

31
Aug

Hin árlega ferð eldri félagsmanna farin í gær

Í gær bauð Verkalýðsfélag Akraness eldri félagsmönnum sínum ásamt mökum í dagsferð undir dyggri leiðsögn Björns Finsen. Þessi ferð er árlegur viðburður í starfsemi félagsins og að þessu sinni var farið um Suðurland.

Það voru 96 félagsmenn sem ásamt þremur fulltrúum félagsins og leiðsögumanni lögðu af stað frá Akranesi í rigningarúða. Ekið var sem leið lá um Hvalfjarðargöng og út á Kjalarnesið. Þaðan var ekið inn Mosfellsdal yfir á Þingvelli þar sem stoppað var stundarkorn. Þar tíndu sumir ber en aðrir nutu útsýnisins.

Frá Þingvöllum var ekið um Lyngdalsheiði að Laugarvatni þar sem snæddur var hádegisverður á veitingahúsinu Lindinni. Boðið var upp á nýjan silung og fleira góðgæti úr nágrenni staðarins.

Frá Laugarvatni var ekið sem leið lá að Gullfossi og þaðan í sólina við Geysi. Áð var á báðum stöðum. Frá Geysi var ekið að Skálholti þar sem Sr. Sigurður Sigurðarson vígslubiskup tók á móti hópnum inni í kirkjunni og ræddi aðeins um sögu staðarins.

Næsti viðkomustaður var Hótel Selfoss þar sem boðið var upp á hressingu. Þaðan var farið yfir Hellisheiði og hin nýlega Hellisheiðarvirkjun skoðuð með leiðsögn áður en haldið var heim á leið í sól og blíðu.

Þessi ferð þykir hafa heppnast ákaflega vel og kann félagið öllum þeim sem að ferðinni komu hinar bestu þakkir fyrir.

Myndir úr ferðinni eru komnar inn á síðuna og má skoða þær með því að smella hér.

28
Aug

Vinnumálastofnun hefur aldrei beitt dagsektum

Það kom formanni Verkalýðsfélags Akraness ekki á óvart að grunur væri á að erlendu starfsmennirnir sem lentu í rútuslysinu í Fljótsdal á sunnudaginn sl. hefðu ekki allir tilskilin leyfi til að starfa hér á landi.

Verkalýðsfélag Akraness hefur margoft bent á að töluverð brotalöm sé á því að fyrirtæki skrái erlenda starfsmenn eins og lög kveða á um.

Verkalýðsfélag Akraness hefur haldið úti mjög öflugu eftirliti með þeim fyrirtækjum sem hafa erlenda starfsmenn í sinni þjónustu.  Er það gert til að tryggja að kaup og kjör séu eftir íslenskum kjarasamningum og einnig til að tryggja að starfsmenn séu skráðir í samræmi við lög og reglugerðir.

Á síðustu þremur árum hefur VLFA margoft þurft að hafa afskipti af fyrirtækjum sem ekki hafa farið eftir þeim leikreglum sem gilda á íslenskum vinnumarkaði. 

Sem dæmi þá lagði félagið fram kæru til lögreglunnar í júní á hendur fyrirtæki að nafni Formaco.  Kæran var lögð fram vegna grunsemda um að erlendir starfsmenn sem voru á vegum fyrirtækisins væru ekki skráðir eins og lög kveða skýrt á um.

Við rannsókn málsins kom fram að grunsemdir Verkalýðsfélags Akraness voru á rökum reistar en 27 starfsmenn frá Litháen voru að störfum hjá fyrirtækinu.  Starfsmennirnir voru ekki með íslenskar kennitölur, dvalarleyfi né skráðir hjá Vinnumálastofnun eins og skýrt er kveðið á um í lögum þó svo að sumir þeirra væru búnir að starfa hér á landi í rétt tæpt ár.

Mjög líklegt er að Litháarnir hafi ekki verið sjúkratryggðir hér á landi þar sem þeir voru ekki með íslenskar kennitölur.

Lögin eru skýr, vinnuveitandi hefur 10 daga til að tilkynna og skila inn ráðningarsamningi þegar nýr erlendur starfsmaður hefur störf hjá fyrirtækinu.  Lögin kveða einnig á um að Vinnumálastofnun hafi heimild til að beita dagsektum ef fyrirtæki trassa að skrá erlenda starfsmenn til Vinnumálastofnunar að 10 dögum liðnum.  Sektin getur numið allt að 50.000 á dag.  Samkvæmt upplýsingum sem formaður hefur aflað sér þá hefur Vinnumálastofnun aldrei beitt dagsektum frá því lögin tóku gildi og verður það að teljast afar athygilsvert í ljósi þess að skráningum samkvæmt nýju lögunum hefur verið verulega ábótavant . 

Mál Formaco er ennþá hjá lögreglu og formaður VLFA trúir ekki öðru en að ákært verði í málinu því öll gögn sýna að fyrirtækið hefur brotið lög bæði hvað varðar skráningu sem og skil á opinberum gjöldum af erlendu starfsmönnunum.

Það er ótrúlegt að það þurfi óhapp eins og áðurnefnt rútuslys til að hinir ýmsu aðilar taki við sér.  Eins og áður sagði þá hefur VLFA margoft bent á þetta vandamál og telur formaður að hundruðir ef ekki þúsundir erlendra starfsmanna séu að störfum hér á landi án tilskilinna leyfa. 

Jóhanna Sigurðardóttir félagsmálaráherra hefur látið hafa eftir sér í fjölmiðlum í dag að greinilegt væri að brotalöm væri í eftirliti með erlendu vinnuafli á íslenskum vinnumarkaði.  Verkalýðsfélag Akraness hefur margoft bent á að eftirliti væri ábótavant og félagsmálaráðherra er það fullkunngt, enda hefur verið margoft vitnað í umsagnir Verkalýðsfélags Akraness á Alþingi þegar málefni erlends vinnuafls hefur verið til umfjöllunar á Alþingi Íslendinga.  Félagsmálanefnd Alþingis óskaði eftir umsögn frá VLFA vegna nýrra laga um erlent vinnuafl í þeirri umsögn benti félagið á að auka þyrfti heimildir stéttarfélaga til að hafa eftirlit með íslenskum vinnumarkaði.  Því miður hlustaði Alþingi ekki á þau varnaðarorð sem heyrðust víða frá verkalýðshreyfingunni um að auka þyrfti heimildir stéttarfélaga til að hafa eftirlit með fyrirtækjum sem væru með erlent vinnuafl í sinni þjónustu. 

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image