• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
20
Nov

Stefnir í átök

Ekki byrjar það glæsilega ef marka má frétt sem birtist í 24 Stundum í dag. Þar kemur fram hjá Vilhjálmi Egilssyni framkvæmdastjóra Samtaka Atvinnulífsins að samtökin sjái engan fót fyrir þeirri kröfu aðildarfélaga SGS að lágmarkslaun hækki úr 125.000 kr. í 170.000 kr. 

Framkvæmdastjórinn gerir lítið úr þeim kröfum sem stéttarfélögin vítt og breitt um landið hafa verið að vinna að á undanförnum vikum og talar um "órökstudda kröfukeppni" í því samhengi. 

Hjá þeim aðildarfélögum SGS sem nefnt hafa krónutöluhækkun í sinni kröfugerð til SGS kemur fram skýlaus krafa um að lágmarkslaun verði ekki undir 170.000 kr. í samningslok. Hér er um fjölmörg aðildarfélög Starfsgreinasambandsins að ræða og á þeirri forsendu telur formaður VLFA að það stefni í hörð átök í komandi kjarasamningum.

Framkvæmdastjórinn talar um kröfukeppni sem ekki sé byggð á neinu sérstöku og ekki sett í samhengi.  Þetta er alrangt hjá framkvæmdastjóra SA. Krafa Verkalýðsfélags Akraness um að lágmarkslaun verði 170 þúsund krónur í lok samningsins byggist á könnun sem Starfsgreinasamband Íslands lét gera í september 2006.  Í þeirri könnun kom fram að meðaldagvinnulaun félaga innan SGS var í kringum 170 þúsund krónur, krafa VLFA byggist á þeirri könnun.

Eitt vekur furðu í þessari frétt í dag, það er að framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins telur að ekki sé langt á milli í áherslum aðila vinnumarkaðarins.  það liggur fyrir sú staðreynd að allflest aðildarfélög SGS hafa nefnt hækkun lágmarkslauna verði ekki undir 170.000 kr. í komandi kjarasamningum.  Slíkri kröfu hafna Samtök atvinnulífsins alfarið og sjá engan fót fyrir slíkri hækkun lágmarkslauna ef marka má fréttina í dag.  Því spyr formaður VLFA: hvað á framkvæmdastjóri SA við að ekki sé langt á milli áhersla og við hvern hefur framkvæmdastjóri SA verið að tala?

Formaður Verkalýðsfélags Akraness hefur áður sagt að ef það á að ná að laga kjör þeirra sem eru með lægstu launin þá verður Starfsgreinasambandið að standa þétt saman og hvika ekki frá þeirri kröfu að lágmarkslaun hækki þannig að þau dugi fyrir lágmarksframfærslu, en það gera lágmarkslaunin ekki í dag.

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image