• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
Vel heppnuð dagsferð eldri félagsmanna Eldri félagsmenn á leið í dagsferð VLFA
29
Aug

Vel heppnuð dagsferð eldri félagsmanna

Í gær bauð Verkalýðsfélag Akraness eldri félagsmönnum sínum ásamt mökum í dagsferð undir dyggri leiðsögn Björns Finsen. Þessi ferð er árlegur viðburður í starfsemi félagsins og að þessu sinni var farið um Suðurland.

Það voru 99 félagsmenn sem ásamt fimm fulltrúum félagsins og leiðsögumanni lögðu af stað í tveimur rútum frá Akranesi í ágætis veðri. Ekið var sem leið lá um Hvalfjarðargöng, í gegnum Mosfellsbæ þar sem fyrsti viðkomustaður var í Gvendarbrunnum. Þar var tekið veglega á móti ferðafólki af starfsmönnum Orkuveitu Reykjavíkur og starfsemin kynnt fyrir því.

Frá Gvendarbrunnum var ekið að Litlu kaffistofunni og stutt stopp gert þar. Á Litlu kaffistofunni eru myndir til sýnis sem margar tengjast knattspyrnusögu Akraness og fróðlegt var að skoða.

Næsti viðkomustaður var Hótel Örk í Hveragerði þar sem snæddur var hádegisverður. Boðið var upp á súpu og steiktan fisk og ríkti mikil ánægja með það sem á boðstólum var.

Frá Hveragerði var ekið til Þorlákshafnar en þar tók séra Baldur Kristjánsson á móti okkur í kirkjunni. Hélt hann afar fróðlegan fyrirlestur um mannlífið og kirkjuna á staðnum.

Frá Þorlákshöfn var haldið að Urriðafossi og hann skoðaður vel og vandlega og í ljós kom að þó nokkuð margir voru að sjá þennan foss í fyrsta skipti.

Að endingu var ekið að Nesjavöllum þar sem boðið var upp á kaffi og meðlæti í Nesbúð áður en haldið var heim á leið.

Þessi ferð þykir hafa heppnast ákaflega vel og kann félagið öllum þeim sem að ferðinni komu hinar bestu þakkir fyrir.

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image