• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
Stál í stál Starfsmenn Klafa
23
Dec

Stál í stál

Nú á Verkalýðsfélag Akraness eftir að ganga frá einum kjarasamningi í þessari samningalotu, en það er kjarasamningur fyrir starfsmenn Klafa.  Starfsmenn Klafa sjá um allar upp- og útskipanir á Grundartangasvæðinu ásamt því að þjónusta bæði Norðurál og Elkem Ísland.

Eigendur Klafa eru stóriðjufyrirtækin á Grundartanga þ.e.a.s Norðurál og Elkem Ísland en þau eiga 50% hvort um sig.

Verkalýðsfélag Akraness hefur átt í viðræðum við Samtök atvinnulífsins að undanförnu vegna þessa kjarasamnings en hann rann út 1. desember sl.  Eins og fram kom hér á heimasíðunni þá samdi félagið við Elkem Ísland um nýjan kjarasamning og er sá kjarasamningur að gefa starfsmönnum 17,7% við undirskrift og uppí rúm 22% á samningstímanum.

Samtök atvinnulífsins lagði hins vegar fram tilboð að nýjum kjarasamningi Klafa fyrir nokkrum dögum en það tilboð var ekki í neinu samræmi við það sem um var samið fyrir starfsmenn Elkem fyrr í þessum mánuði.  Rétt er að það komi fram að starfsmenn Klafa voru eitt sinn starfsmenn Elkem og tóku laun eftir þeim samningi, en fyrir nokkrum árum var nokkrum deildum innan fyrirtækisins skipt upp og stofnuð fyrirtæki í kringum þær deildir.

Á þeirri forsendu er það óskiljanlegt að eigendur Klafa skuli hafa lagt fram tilboð til handa starfsmönnum Klafa sem kveður á um lakari hækkanir en um var samið hjá Elkem.  Það er ekki bara það að starfsmönnum Klafa hafi verið boðið lakari hækkanir en starfsmönnum Elkem, heldur vildu Samtök atvinnulífsins einnig að kjarasamningur Klafa yrði gerður að fyrirtækjasamningi.

Það er morgunljóst að Verkalýðsfélag Akraness mun alls ekki ganga frá samningi fyrir starfsmenn Klafa sem kveður á um lakari hækkanir og réttindi heldur en um var samið til handa starfsmönnum Elkem, frá þeirri kröfu verður ekki kvikað. 

Einnig liggur það fyrir að starfsmenn munu ekki samþykkja að breyta sínum kjarasamningi í fyrirtækjasamning.  Nú er bara að vona að eigendur Klafa og SA sjái að sér svo hægt verði að klára nýjan kjarasamning eins fljótt og kostur er, ella er allt eins líklegt að það stefni í átök til að ná fram þeirri sanngjörnu kröfu að starfsmenn Klafa fái sömu hækkanir og um var samið handa starfsmönnum Elkem Ísland fyrr í þessum mánuði. 

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image