• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
30
Dec

Atvinnurekendur úr stjórnum lífeyrissjóða og frysting verðtryggingar

Á forsíðu Fréttablaðsins þann 27. desember sl. var viðtal við forseta Alþýðusambands Íslands þar sem hann taldi endurskoðun kjarasamninga í uppnámi. Ástæða þess að forseti ASÍ telur samningana í uppnámi segir hann vera þá að ríkisstjórnin hafi ekki sýnt áhuga á samstarfi við verkalýðshreyfinguna og einnig óánægja með fjárlagafrumvarpið og vill verkalýðshreyfingin sjá frekari breytingar á eftirlaunafrumvarpinu. Undir þessi sjónarmið tekur stjórn Verkalýðsfélags Akraness með ASÍ

Einnig telur stjórn Verkalýðsfélags Akraness að nýta eigi ákvæði um endurskoðun kjarasamninga til að knýja ríkisstjórn Íslands til þess að frysta verðtrygginguna á meðan mesta verðbólguskotið gengur yfir. Það liggur fyrir að eignir almennings eru að brenna upp í þeirri óðaverðbólgu sem nú geisar hér á landi og það gengur ekki upp að lífeyrissjóðir, bankar og fjármagnseigendur séu þeir einu sem hagnist á því verðbólguskoti sem nú geisar. Það er lag núna að beita ákvæði um endurskoðun kjarasamninga til að knýja á um frystingu verðtryggingar.

Það á einnig að gera þá kröfu á samtök atvinnulífsins við endurskoðun kjarasamninga að atvinnurekendur víki úr stjórnum lífeyrissjóða því það er á engan hátt eðlilegt að atvinnurekendur séu að véla með lífeyrir launafólks. Þetta á að vera eitt af grundavallaratriðum við endurskoðun kjarasamninga að atvinnurekendur víki úr stjórnum lífeyrissjóða.

Ekki alls fyrir löngu var fjallað um það hér á heimasíðunni hversu óeðlilegt það sé að atvinnurekendur sitji í stjórnum þessara sjóða. Það var því mjög ánægjulegt að sjá að sjómannadeild Framsýnar á Húsavík ályktaði nýverið um að gerð verði krafa um að atvinnurekendur víki úr stjórnum lífeyrissjóða. Það þyrfti að kanna hvort að það sé ekki orðinn víðtækur stuðningur innan verkalýðshreyfingarinnar um þetta atriði því eins og áður sagði þá nær það engri átt að atvinnurekendur séu að taka ákvarðanir um fjárfestingarstefnu sjóðanna, þeir eru jú lífeyrir okkar félagsmanna og einnig eru þetta kjarasamningsbundin réttindi sem um hefur verið samið í kjarasamningum.

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image