• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
29
Jan

Verkalýðsfélag Akraness og Akraneskaupstaður óska eftir opnum bæjarmálafundi um hvalveiðar með þingmönnum NV-kjördæmis

Formaður Verkalýðsfélags Akraness ætlaði vart að trúa fréttum sem honum bárust til eyrna gær um að væntanleg ríkisstjórn Samfylkingar og Vinstri Grænna hygðist hnekkja ákvörðun sjávarútvegsráðherra um heimild til veiða á langreyði og hrefnu til ársins 2013.

Það liggur fyrir að með þessari ákvörðun er verið að skapa allt að 300 ný störf í þessu landi sem er um hundrað störfum fleiri en hjá Járnblendifélaginu Elkem Ísland á Grundartanga. Með öðrum orðum má segja að hér sé um hálfgerða vistvæna stóriðju að ræða. Ekki aðeins mun störfum fjölga hér umtalsvert heldur mun þetta skapa þjóðarbúinu umtalsverðar útflutningstekjur sem ekki veitir af nú á þeim erfiðu tímum sem íslenskt samfélag er að ganga í gegnum. Það væri fróðlegt að vita hjá komandi ríkisstjórn afturkalli hún þessa ákvörðun sjávarútvegsráðherra, hvaða nýju störf geta þau boðið okkur landsmönnum í staðinn?

Það liggur fyrir að hrefnuveiðimenn og Kristján Loftsson hjá Hval hf. hafa í hyggju að vera með starfsstöð sína að stórum hluta hér á Akranesi. Í dag eru um 300 Akurnesingar á atvinnuleysisskrá þannig að þessi ákvörðun um að heimila hvalveiðar myndi verða gríðarlega jákvæð innspýting í atvinnulífið hér á Akranesi.

Á þeirri forsendu er um mikla hagsmuni að ræða fyrir okkur Akurnesinga og nærsveitunga og ljóst að stjórn Verkalýðsfélags Akraness mun ekki sætta sig við að komandi ríkisstjórn muni afturkalla þessa jákvæðu ákvörðun sjávarútvegsráðherra um heimild til hvalveiða.

Það liggur einnig fyrir að fjöldi hagsmunaaðila í sjávarútvegi, svo sem Landssamband íslenskra útvegsmanna og Samtök fiskvinnslustöðva hafa lýst yfir fullum stuðningi við þessa ákvörðun og með þeirri stuðningsyfirlýsingu eru þeir einnig að segja að þeir óttist ekki að hvalveiðar muni skaða markaði erlendis tengdum fiskútflutningi.  Samtök hvalskoðunarmanna hafa lýst yfir áhyggjum af því að hrefnuveiðar verði auknar og hafnar verið veiðar á langreyðum. Telja þeir að slíkt muni draga úr ferðaþjónustu. Hins vegar er það nú einu sinni þannig að allar rannsóknir sýna að ferðamönnum tengdum hvalveiðiskoðunum hefur fjölgað jafnt og þétt þó svo að stundaðar hafi verið hér hrefnuveiðar um alllanga hríð. Það er einnig rétt að rifja það upp að þegar að hvalveiðar voru stundaðar hér á árum áður þá kom fjöldinn allur af erlendum ferðamönnum í skoðunarferðir upp í hvalstöð þannig að það er mat formanns að það sé vel hægt að tengja saman hvalaskoðunarferðir og ferðir upp í hvalstöð þar sem erlendir ferðamenn geti séð þessi stórhveli í návígi.

Það var ótrúleg frétt sem birtist á Vísi.is í gær þar sem vitnað var í Jón Ásgeir Jóhannesson stjórnarformann Baugs og Icelandic verslunarkeðjunnar. Í viðtalinu segir hann að ákvörðun sjávarútvegsráðherra um að heimila hvalveiðar muni skaða eignir Íslendinga erlendis og vonast hann til að ný ríkisstjórn taki á þessu strax og láti þetta verða sitt annað verk að snúa þessari ákvörðun við.

Að Jón Ásgeir skuli voga sér að tala sér með þessum hætti, aðili sem virðist eiga stóran þátt í því neyðarástandi sem nú ríkir í íslensku samfélagi er með öllu óþolandi. Það á hins vegar að vera fyrsta verk nýrrar ríkisstjórnar að frysta eigur þessara manna sem hafa komið okkur Íslendingum í þessa skelfilegu stöðu sem við nú erum í. Jón Ásgeir hefur áhyggjur af ímynd þjóðarinnar, en það liggur hins vegar fyrir að það eru útrásarvíkingarnir sem fóru fram með græðgisvæðinguna eina að leiðarljósi sem eru búnir að eyðileggja ímynd þessa lands. Það er alveg ljóst að það verða ekki hvalveiðar sem munu skaða hana enda er það skylda okkar og réttur að nýta þær sjávarauðlindir sem við eigum að gefinni veiðiráðgjöf frá Hafrannsóknarstofnun.

Formaður hefur haft samband við forseta Alþingis og óskað eftir því við hann að haldinn verði opinn fundur með öllum þingmönnum kjördæmisins fljótlega í næstu viku. Þar verður til umræðu ákvörðun sjávarútvegsráðherra um heimild til hvalveiða að nýju.  Tók forseti Alþings vel í þessa hugmynd og ætlar að hafa samband við þingmenn kjördæmisins til að finna hentugan tíma í næstu viku.

Stjórn Verkalýðsfélags Akraness vill sjá hver afstaða þingmanna kjördæmisins er til þessara jákvæðu ákvörðunar sjávarútvegsráðherra enda mun þessi ákvörðun, ef hún fær að standa óhögguð, skapa tugi nýrra starfa hér á Akranesi og skapa umtalsverðar útflutningstekjur fyrir þjóðarbúið.

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image