• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
09
Feb

Törn hjá bræðsluköllum á Akranesi

Formaður fór í vinnustaðaheimsókn í Síldarbræðsluna á Akranesi í gær en þar hefur staðið yfir bræðsla á gulldeplu síðastliðna viku og hafa starfsmenn nú staðið vaktir sleitulaust í 7 daga.

Þetta er ágætis búbót fyrir starfsmenn, en þeir tjáðu formanni að búið væri að landa um 4000 tonnum af gulldeplu á þessari vertíð. Þetta er í fyrsta sinn sem slík afurð er brædd í verksmiðjunni á Akranesi og að sögn starfsmanna hafa verið svolitlir byrjunarörðugleikar á vinnslunni.

Bræðsla á gulldeplu mun að öllum líkindum standa til 15. þessa mánaðar en það er sá tími sem skipin hafa leyfi til veiða á gulldeplu. Vonuðust þeir til að í framhaldinu myndi loðnuvertíð hefjast en eins og staðan er í dag er alls óvíst hvort gefinn verður út loðnukvóti eða ekki.

Eins og fram kom í fréttum í gær þá var verið að landa úr Ingunni AK um 1000 tonnum af gulldeplu þegar tveir starfsmenn sem voru að störfum við löndun urðu fyrir súrefnisleysi í lest skipsins og liðu út af. Má segja að skjót viðbrögð sjúkraflutningamanna og starfsmanna á staðnum hafi bjargað því að ekki fór verr. Samkvæmt upplýsingum sem formaður hefur þá voru löndunarmennirnir fluttir á gjörgæslu í Reykjavík en voru báðir komnir til meðvitundar í gærkvöldi.

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image