• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
10
Feb

Gengið frá launahækkunum fyrir starfsmenn Norðuráls

Í gær náðist samkomulag við forsvarsmenn Norðuráls um þær launahækkanir sem taka eiga gildi hjá starfsmönnum frá og með 1. janúar sl. Samningsaðilar voru búnir að reyna ítrekað að ná saman og var samninganefnd stéttarfélaganna búin að taka ákvörðun um að vísa deilunni til félagsdóms til úrlausnar en eins og áður sagði þá náðist lausn í deilunni í gær.

Í kjarasamningnum frá árinu 2005 er kveðið á um að laun starfsmanna Norðuráls taki að meðaltali sömu breytingum og laun í sambærilegum orkufrekum iðnaði. Ágreiningurinn sneri um það hvernig þetta meðaltal skyldi fundið út og einnig við hvaða fyrirtæki ætti að miða.

Samkomulagið í gær felur það í sér að laun verkamanna hækka að meðaltali um 10,7% upp í 12,5%.  Heildarlaun byrjanda munu því hækka um tæpar 35.000 kr. á mánuði og starfsmaður sem starfað hefur í 10 ár hækkar um 45.126 kr. á mánuði.

Orlofs- og desemberuppbætur hækka úr 212.676 kr. í 252.232 kr. sem er hækkun uppá 39.556 kr.

Rétt er að minna á að forsvarsmenn Norðuráls ákváðu einhliða að koma með hækkun á launum um 3% 1. janúar 2008 umfram kjarasamningsbundar hækkanir og átti sú hækkun að gilda tímabundið til síðustu áramóta.  Forsvarsmenn Norðuráls tilkynntu samninganefnd stéttarfélaganna að áðurnefnd hækkun frá 1. janúar 2008 hefði verið felld niður frá og með 1. janúar 2009.

Samkomulagið byggist á því að grunnlaun byrjanda hækkar úr 156.973 kr, í 167.176 kr. og hámarksbónusinn hækkaður úr 4% í 7,5%.  Meðaltalsbónus á síðasta ári var 3,2% sem er 80% nýtni á bónusum.  Með því að hækka hámarkið á bónusnum þá á hann að geta gefið starfsmönnum 6% ef sama nýtni verður á honum og undanfarin ár.  Það þýðir að bónusinn mun hækka um 2,8% frá því sem verið hefur.  Einnig verður breyting á greiðslu á bónusnum en sá þáttur sem lýtur að öryggisþætti verður greiddur út mánaðarlega en sá þáttur bónusins getur gefið að hámarki 4,1%

Það var mat samninganefndar stéttarfélaganna að ekki væri lengra komist og væri þetta því mun betri leið heldur en að fara með málið fyrir félagsdóm þar sem ekkert er öruggt hvað varðar niðurstöðu félagsdóms og einnig tæki nokkra mánuði að fá niðurstöðu frá dómnum. 

Formaður hvetur félagsmenn sína til að hafa samband vilji þeir fá nánari upplýsingar um samkomulagið og einnig er formaður finna út tíma til að kynna samkomulagið fyrir félagsmönnum sínum.  Mun það verða auglýst fljótlega hvenær kynning verður. 

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image