• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
29
Jan

Starfsmenn Klafa hafa ákveðið að grípa til vinnustöðvunar

Í dag átti formaður félagsins fund með öllum starfsmönnum Klafa vegna þeirrar alvarlegu stöðu sem upp er komin í kjaradeilu félagsins við eigendur fyrirtækisins og Samtök atvinnulífsins.

Eins og fram kom hér á heimasíðunni í gær þá lagði ríkissáttasemjari fram innhússáttatillögu til lausnar á deilunni á fundi í fyrradag. 

Það kom einnig fram hér á heimasíðunni í gær að formaður Verkalýðsfélags Akraness og trúnaðarmaður voru tilbúnir að ganga að fyrirlagðri sáttatillögu ríkissáttasemjara og leggja hana til atkvæðagreiðslu á meðal starfsmanna til að koma í veg fyrir að deilan myndi fara í algeran hnút. Því voru það gríðarleg vonbrigði að eigendur Klafa, sem eru Norðurál og Elkem Ísland, höfnuðu í gær sáttatillögu ríkissáttasemjara algerlega sem gerir það að verkum að deilan er nú nánast illleysanleg.

Formaður félagsins og starfsmenn hörmuðu þessa afstöðu eigenda Klafa og Samtaka atvinnulífsins og telja það mikið ábyrgðarleysi af þeirra hálfu að hafna tillögu ríkissáttasemjara jafn afdráttarlaust og fram kom á fundinum í gær. Það er einnig grafalvarlegt að Samtök atvinnulífsins virðast vera að nýta sér það alvarlega ástand sem nú ríkir á íslenskum vinnumarkaði með því að hafna algerlega að ganga frá kjarasamningi við starfsmenn Klafa á svipuðum nótum og gert var við starfsmenn Elkem Ísland.

Grundvallaratriðið í þessari deilu er að búið er að semja fyrir starfsmenn Elkem Ísland sem starfa á sama starfsvæði, en gengið var frá þeim samningi í byrjun desember, eins og fram hefur komið fram hér á heimasíðunni. Byggðist krafa félagsins á sambærilegum hækkunum og þar um samdist enda eru starfsmenn Klafa fyrrverandi starfsmenn Elkem Ísland.

Einnig er rétt að minna á að þessi samningur er einn af þeim örfáu sem á eftir að ganga frá í samningahrinu síðastliðins árs. Á þeirri forsendu er algjörlega óþolandi að SA ætli sér að skilja eftir þann hluta starfsmanna sem á eftir að ganga frá sínum samningum frá liðnu ári með jafn afgerandi hætti og tillaga SA hljóðar upp á.

Vegna þeirrar ákvörðunar Samtaka atvinnulífsins og eigenda Klafa að hafna sáttatillögu frá ríkissáttasemjara alfarið ákváðu starfsmenn að kjósa um verkfallsheimild og var hún samþykkt með öllum greiddum atkvæðum.  Formaður reiknar með að verkfallið muni hefjast eftir um 12 daga.  Ugglaust eru einhverjir hissa á því að starfsmenn ætli að gripa til verkfallsvopnsins á þeim tímum eins og nú ríkja í íslensku samfélagi.  Rétt er ítreka það enn og aftur að búið er að semja við aðra starfsmenn á sama vinnusvæði með allt öðrum hætti en starfsmönnum Klafa er boðið af Samtökum atvinnulífsins, á þeirri forsendu sjá starfsmenn sig knúna til að grípa til aðgerða.

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image