• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
26
Mar

Um 1.000 verkamönnum og konum tilkynnt að staðið verði við hækkun launa þeirra

Vilhjálmur Egilsson, framkvæmdastjóri SAVilhjálmur Egilsson, framkvæmdastjóri SAÍ Morgunblaðinu í gær var viðtal við Vilhjálm Egilsson framkvæmdastjóra Samtaka atvinnulífsins. Í viðtalinu hvatti hann fyrirtæki til að láta ekki undan þrýstingi um að láta áður umsamdar launahækkanir taka gildi frá 1. mars sl.  Vilhjálmur nefndi Verkalýðsfélag Akraness sérstaklega í því sambandi og sagði það beita fyrirtæki þrýstingi um að hækkanir frá 1. mars ættu að taka gildi strax. Vilhjálmur hjá SA sagði einnig að verið væri að hrekja SA út í það að segja samningum upp með þessu framferði. Hægt er að lesa viðtalið hér.

Formaður Verkalýðsfélags Akraness telur í ljósi þessara ummæla fulla þörf á að fara yfir þetta mál nokkuð ítarlega. 

Ef byrjað er á byrjuninni þá hélt forseti ASÍ tvo fundi með formönnum allra aðildarfélaga ASÍ þar sem til umfjöllunar var hvort vilji væri fyrir því innan verkalýðshreyfingarinnar að fresta endurskoðun kjarasamninga og áður umsömdum launahækkunum framá sumarið vegna erfiðleika hjá sumum fyrirtækjum.  Þessari tillögu forseta ASÍ mótmælti formaður VLFA ásamt fimm öðrum landsbyggðarfélögum. 

Ein af ástæðum þess að formaður VLFA vildi ekki fara þessa leið var sú að hann taldi að það væru klárlega til fyrirtæki sem sannarlega gætu staðið við þann samning sem undirritaður var 17. febrúar 2008 og kvað á um 13.500 kr hækkun á launatöxtum frá 1. mars sl.  Nefndi formaðurinn sérstaklega fiskvinnslufyrirtæki sem væru í útflutningi.  Nú hefur komið í ljós að þessi ábending Verkalýðsfélags Akraness og hinna fimm landsbyggðafélaganna var á rökum reist enda eru fyrirtæki vítt og breitt um landið að tilkynna að þau ætli að standa við áður umsamdar launahækkanir. 

Meirihluti verkalýðshreyfingarinnar vildi hins vegar fresta áður umsömdum launahækkunum fram á sumarið og voru þeir aðilar með sína sýn á frestun.  Með öðrum orðum meirihlutinn í verkalýðshreyfingunni tók þessa ákvörðun um að fresta umsömdum launahækkunum og þau félög sem voru á móti þeirri leið urðu einfaldlega undir og við því er lítið að gera.  Hins vegar vildu þessi fimm landsbyggðarfélög að samkomulagið yrði lagt í atkvæðagreiðslu á meðal félagsmanna en samninganefnd ASÍ varð því miður ekki við því.

Það sem síðan gerist er að formaður Verkalýðsfélags Akraness kemst á snoðir um það að eigendur HB Granda hyggist greiða sér út arð vegna góðrar afkomu á síðasta rekstrarári og það á sama tíma og verkafólk var skikkað til að fresta sínum launahækkunum um nokkra mánuði á grundvelli bágrar stöðu fyrirtækja.  Verkalýðsfélag Akraness gagnrýndi þessa ákvörðun forsvarsmanna HB Granda harðlega og varð sú gagnrýni til þess að fyrirtækið ákvað að láta áður umsamdar launahækkanir taka gildi frá 1. mars sl.  Var VLFA afar ánægt með þessi málalok enda er það hlutverk stéttarfélaga að gæta að réttindum og launakjörum okkar félagsmanna, það er jú okkar vinna.

Ugglaust hefðu Samtök atvinnulífsins viljað að Verkalýðsfélag Akraness hefði ekki greint frá því að fyrirtæki eins og HB Grandi væri að skila góðri afkomu og ætlaði að greiða sér út arð á sama tíma og verkafólk varð af þeirri hækkun sem átti að koma til framkvæmda 1. mars sl.  Slíkt kom alls ekki til greina af hálfu formanns félagsins vegna þess að félagið á að gæta að hagsmunum sinna félagsmanna og ef fyrirtæki geta greitt út arð þá er þeim engin vorkunn að greiða sínu starfsfólki áður umsamdar launahækkanir.

Það er morgunljóst að sú umfjöllun sem Verkalýðsfélag Akraness fór af stað með þann 12. mars sl. vegna arðgreiðslna HB Granda hefur nú skilað umtalsverðum árangri fyrir verkafólk víða um landið.  Þau fyrirtæki sem nú þegar hafa tilkynnt opinberlega að þau ætli að standa við áður umsamdar launahækkanir eru:  HB Grandi, Brim, hrognavinnsla Vignis G. Jónssonar, Norðurströnd á Dalvík, Sjávariðjan á Snæfellsnesi, Godthaab í Vestmannaeyjum og Sæmá á Blönduósi.  Þessu til viðbótar er formanni kunnugt um fyrirtæki sem hafa tilkynnt að þau ætli að standa við umræddar launahækkanir án þess að gera það opinbert.  Ef það er rétt mat hjá formanni félagsins að um 1000 verkamenn hafi fengið þessa launahækkun nú þegar þá þýðir það 13,5 milljónir í heildina til handa þessu verkafólki á mánuði fyrir utan áhrif á hækkun á yfirvinnu samhliða hækkun á grunnlaunum.  Nú er búið að fresta launahækkunum alla vega til 1. júlí sem þýðir að heildarlaunahækkunin er um 40,5 milljónir handa öllum þessum starfsmönnum.  Hver starfsmaður fær rúmar 40.000 kr. hækkun þessa 3 mánuði. 

Formaður Verkalýðsfélags Akraness hefur haft samband við þó nokkur fyrirtæki sem starfa í útflutningi og biðlað til þeirra að þau standi við áður umsamda taxtahækkun.  Félagið hefur ekki á nokkurn hátt beitt fyrirtæki þrýstingi um að koma með þær hækkanir sem áttu að taka gildi 1. mars.  Einungis er óskað eftir því að það komi með þær launahækkanir hafi fyrirtækið fjárhagslega burði til slíks.  Á þeirri forsendu vísar Verkalýðsfélag Akraness því alfarið á bug sem Vilhjálmur Egilsson framkvæmdastjóri SA heldur fram að félagið sé að beita fyrirtæki óeðlilegum þrýstingi. 

Formaður félagsins spyr Vilhjálm Egilsson hins vegar af hverju eru Samtök atvinnulífsins að hvetja fyrirtæki sem hafa borð fyrir báru til að standa ekki við áður umsamdar launahækkanir?  Hvers vegna mega fyrirtæki sem hafa fjárhaglega burði til að standa við þann samning sem undirritaður var 17. febrúar 2008 ekki gera svo, treysti þau sér til þess?  Það er verið að tala um verkafólk sem er með 140 til 160 þúsund í grunnlaun á mánuði.  Þessi afstaða SA er formanni Verkalýðsfélags Akraness óskiljanleg. 

Rétt er að það komi fram að Verkalýðsfélag Akraness hefur aðstoðað þó nokkur fyrirtæki sem hafa verið í rekstrarvandræðum, sérstaklega fyrirtæki í byggingariðnaði.  Starfsmenn þeirra fyrirtækja hafa tekið á sig launalækkanir, skerðingu á starfshlutfalli og svona mætti lengi telja og hafa sýnt mikinn sveigjanleika.  Á þeirri forsendu getur það vart verið óeðlileg krafa að fyrirtæki sem hafa borð fyrir báru í sínum rekstri standi við gerða kjarasamninga.  Það er skilningur formanns að ekki var verið að fresta launahækkunum fyrir fyrirtæki sem standa vel heldur fyrir þau sem ættu í vanda. Það stendur ekki á Verkalýðsfélagi Akraness að sýna þeim fyrirtækjum fullan skilning.  

Formaður Verkalýðsfélags Akraness er hins vegar stoltur af því að hafa verið valdur af því að um eða yfir eitt þúsund fiskvinnslufólk og verkamenn vítt og breitt um landið eru að fá áður umsamdar launahækkanir frá og með 1. mars þrátt fyrir að búið hafi verið að semja um frestun á launahækkunum til 1. júlí nk. 

Rétt er að benda framkvæmdastjóra Samtaka atvinnulífsins á það í lokin að hlutverk verkalýðshreyfingarinnar er að bæta kjör sinna félagsmanna og það er Verkalýðsfélag Akraness að gera með því að skora á fyrirtæki sem hafa fjárhagslega burði til að koma með áður um samdar launahækkanir strax.  Verkalýðsfélag Akraness lætur ekki segja sér fyrir verkum svo mikið er víst.

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image