• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
01
Apr

Myntkörfulán að leggja marga að velli

Óhætt er að segja að vandi heimilanna sé ærinn þessi misserin sökum stóraukinnar greiðslubyrði heimilanna. Ráðamönnum þjóðarinnar hefur verið tíðrætt um lán sem tengjast húsnæðiskaupum og þeim hækkunum sem þau lán hafa tekið sökum stóraukinnar verðbólgu á liðnum mánuðum. Gríðarlega mikilvægt er að finna farsæla lausn á því hvernig vandi þessa hóps er leystur.

Það sem gleymst hefur í allri þessari umræðu er vandi gríðarlega stórs hóps sem er með svokölluð myntkörfulán sökum bílakaupa. Þessi lán hafa hækkað stórkostlega á undanförnum mánuðum og greiðslubyrðin í samræmi við þá hækkun. Við höfum séð dæmi þar sem fólk hefur tekið 2,4 milljóna myntkörfulán fyrir rúmu ári síðan en áramótastaða lánsins var rúmar 5 milljónir. Afborganir þessa láns höfðu hækkað um tugi þúsunda á mánuði. Annað dæmi sem kom inn á borð til okkar er lán upp á 1,5 milljónir. Þetta lán stendur í 2,3 milljónum í dag og hefur greiðslubyrðin aukist úr 26.000 kr. fyrir ári síðan, í 47.000 kr. í dag sem gerir 81% hækkun. Fjölmörg önnur dæmi hafa borist inn á borð skrifstofu félagsins og alveg ljóst að margir eru að kikna undan þessum lánum og afar brýnt að fundin verði lausn á vanda þessa fólks.

Fram hefur komið í máli alls þess fólks sem hefur leitað til félagsins að þegar það stofnaði til þessara skuldbindinga á sínum tíma þá gat það fyllilega staðið undir þeim. Var öllu þessu fólki ráðlagt að myntkörfulánin væru langhagkvæmasti kosturinn til bílakaupa en gengið gæti rokkað á bilinu 5-10% til eða frá.

Hægt er að leysa þennan vanda með því að færa gengisvísitöluna niður eins og hún var í eðlilegu árferði, sem var í kringum 130 stig og breyta síðan þeim lánum á því gengi í verðtryggð íslensk lán.

Það er alveg morgunljóst að á þessum vanda verður að taka og undrast margir að lítið sem ekkert hefur verið fjallað um þennan mikla vanda sem hér er á ferð af hálfu ráðamanna þjóðarinnar. Það er ljóst að þeir sem hafa lánað fólki til bílakaupa munu klárlega ganga á húseignir þess ef fólk ekki getur staðið í skilum með afborganir af bílalánum sínum einfaldlega vegna þess að veðhæfni bifreiðanna hefur ekki aukist í samræmi við hækkun lánanna sem á þeim eru.

Þessi staðreynd gerir það að verkum að jafn brýnt er að taka á þessum vanda eins og lánum sem lúta að íbúðarkaupum.

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image