• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
Fréttir

Fréttir

11
Mar

Neyðarkerran afhent Rauða krossinum á morgun

Eins og fram hefur komið hér á heimasíðunni þá tók Verkalýðsfélag Akraness það verkefni að sér að safna fyrir neyðarkerru eftir að hafa fengið ábendingu um að slík kerra væri ekki til staðar hér á Akranesi. Þessi neyðarkerra inniheldur allan mikilvægasta búnað til að starfrækja fjöldahjálparstöð með gistingu fyrir 30 manns fyrsta sólarhringinn í neyðaraðgerðum. 

Formaður félagsins hafði samband við nokkur öflug fyrirtæki hér á Akranesi - Norðurál, HB Granda, Elkem Ísland, Faxaflóahafnir og Akraneskaupstað og óskaði eftir að þessir aðilar myndu leggja þessu brýna samfélagsmáli lið. Það er skemmst frá því að segja að það tók örskamma stund að safna fyrir kerrunni og voru allir tilbúnir til að leggja málefninu lið. Meira að segja hafði slysavarnadeildin Líf samband þegar hún frétti af þessari söfnun og óskaði eftir að fá að leggja fjármuni í verkefnið. 

Á morgun verður neyðarkerran formlega afhent Rauða krossinum á Akranesi og er Verkalýðsfélag Akraness stolt af því að hafa tekið þátt í þessu verkefni en félagið mun styrkja þetta mál um 200.000 kr. Vill stjórn félagsins þakka fyrirtækjunum, Akraneskaupstað og slysavarnadeildinni Líf fyrir að hafa tekið svona vel í að styðja við þetta góða og þarfa verkefni.

03
Mar

Framtalsaðstoð fyrir félagsmenn VLFA

Eins og undanfarin ár býður félagið upp á aðstoð við gerð einfaldra skattframtala og geta félagsmenn pantað tíma á skrifstofu VLFA eða í síma 4309900. Síðasti dagur til að skila framtali er þriðjudagurinn 15 mars, en hægt er að sækja um frest á síðunni www.skattur.is. Framtalsfrestur er lengst veittur til 20. mars.

Framtalsaðstoðin er félagsmönnum að kostnaðarlausu.

29
Feb

Launahækkanir sem taka gildi frá 1. janúar á hinum almenna vinnumarkaði

Endurskoðun kjarasamninga á hinum almenna vinnumarkaði lauk með því að gengið var frá nýjum kjarasamningi eins og fram hefur komið í fréttum. Nú er kosningu um þann samning lokið og er óhætt að segja að kosningaþátttaka hafi vægast sagt verið mjög dræm. En samningurinn var samþykktur og því munu launabreytingar taka gildi frá 1. janúar síðastliðnum með eftirfarandi hætti:

- Launataxtar verkafólks hækka samkvæmt meðfylgjandi launatöxtum
- Almennar launahækkanir til þeirra sem ekki taka laun eftir töxtum verða 6,2%. Á þessi prósentuhækkun einnig við um bónusa og aðrar aukagreiðslur. 
- Framlag atvinnurekanda í lífeyrissjóði mun hækka 1. júlí um 0,5%, fer úr 8% í 8,5%. Hugmyndir eru uppi um að launafólk fái að nýta þetta aukna framlag í séreign en það skýrist betur áður en framlagið verður aukið. 

Þetta eru helstu launabreytingarnar sem gilda fyrir þetta ár. Það jákvæða í þessu er að taxtahækkanirnar og gildistíminn flyst frá 1. maí aftur til 1. janúar. Hinsvegar er það dapurlegt að flestir sem taka laun eftir töxtum eru ekki að fá neinar breytingar á sínum töxtum heldur gagnast þetta aðallega þeim sem ekki taka laun eftir launatöxtum eða með öðrum orðum þeim tekjuhærri en almenna hækkunin átti að vera 5,5% en verður 6,2% eins og áður hefur komið fram. Vissulega ber að fagna því að samningurinn færist fram til 1. janúar 2016. 

26
Feb

Safnað var fyrir neyðarvarnakerru á Akranesi

Verkalýðsfélag Akraness fékk ábendingu eftir námskeið sem haldið var fyrir sjálfboðaliða í neyðarvörnum á vegum Rauða krossins um að það vantaði hér á Akranesi svokallaða neyðarvarnakerru. Slík kerra inniheldur allan mikilvægasta búnað til að starfrækja fjöldahjálparstöð með gistingu fyrir 30 manns fyrsta sólarhringinn í neyðaraðgerðum.

Eftir þessa ábendingu ákvað Verkalýðsfélag Akraness að fara á fulla ferð við að reyna að safna fyrir slíkri kerru en hún kostar um 1,5 milljón og getur skipt miklu máli ef til dæmis kemur til rýminga, hópslysa, lokana á vegum eða annarra alvarlegra atburða. Stjórn Verkalýðsfélags Akraness ákvað strax að styrkja þetta verkefni um 200.000 kr. en ákvað jafnframt að leita til þeirra öflugu fyrirtækja sem eru á okkar starfssvæði. Sendi formaður eftirfarandi aðilum tölvupóst með ósk um að þeir myndu leggja þessu brýna samfélagsmáli lið: HB Grandi, Norðurál, Elkem Ísland, Faxaflóahafnir og Akraneskaupstaður. Það er skemmst frá því að segja að það tók þessa aðila ekki langan tíma að svara kalli Verkalýðsfélags Akraness til að leggja þessu brýna verkefni lið og voru allir tilbúnir til að leggja í púkkið til að hægt væri að kaupa þessa neyðarvarnakerru. Þessu til viðbótar hafði Slysavarnardeildin Líf samband og óskaði einnig eftir að fá að styrkja þetta verkefni. 

Nú hefur Jón Brynjar Birgisson, sviðsstjóri neyðarvarnasviðs Rauða krossins, pantað kerruna frá Þýskalandi og verður hún klár til afhendingar Rauða krossinum hér á Akranesi á vormánuðum en endanleg dagsetning liggur ekki fyrir. Það er afar ánægjulegt hversu vel gekk að fjármagna þetta verkefni og þetta sýnir svo ekki verður um villst hversu mikilvægt það er fyrir hvert sveitarfélag að hafa öflug fyrirtæki innan sinna vébanda sem eru tilbúin til að leggja brýnum samfélagslegum verkefnum lið þegar eftir því er leitað. Í þessu tilfelli skorti ekki vilja hjá þessum áðurnefndu fyrirtækjum, Akraneskaupstað og Slysavarnadeildinni Líf. 

Félagið vill ítreka þakklæti sitt til þeirra sem lögðu þessu málefni lið því það er hverju sveitarfélagi mikilvægt að hafa góða almannavarnaumgjörð því alltaf getum við átt von á því að einhverjar hamfarir eða slys eigi sér stað þar sem grípa þarf til slíks neyðarbúnaðar eins og er í umræddri neyðarvarnakerru.  

25
Feb

VLFA lýsir yfir stuðningi við starfsmenn Alcan í Straumsvík

Rétt í þessu lauk sameiginlegum aðalfundi deilda Verkalýðsfélags Akraness (nema sjómannadeildar). Auk venjubundinna aðalfundarstarfa var eðli málsins samkvæmt rædd sú alvarlega staða sem upp er komin hjá þeim sem starfa í Alcan í Straumsvík. Nú hafa starfsmenn þar verið samningslausir í 14 mánuði en þeir hafa mætt afar óbilgjarnri kröfu af hálfu eigenda Alcan. 

Þessi krafa byggist á því að vilja verktakavæða störf sem unnin eru daglega inni í fyrirtækinu, störf eins og í mötuneyti, við ræstingar og hliðgæslu og telja sig með þessu geta sparað sér uppundir 40 milljónir á ári. Með þessari kröfu vilja þeir gjaldfella laun sem unnin eru í þessum störfum um allt að 30-40% og að þeir sem starfi við þessi störf lúti kjarasamningum á hinum almenna vinnumarkaði sem eru í mörgum tilfellum langtum lakari en gerist í kjarasamningum tengdum stóriðjum. 

Forsvarsmenn fyrirtækisins hafa haldið því fram að þeir séu eina fyrirtækið á Íslandi sem hafi slíkar kvaðir en slíkt stenst ekki eina einustu skoðun enda liggur fyrir að til dæmis eru öll dagleg störf hjá Norðuráli á Grundartanga unnin af starfsmönnum sem taka laun eftir kjarasamningi Verkalýðsfélags Akraness við Norðurál. Það eru einungis verktakar sem koma í tímabundin verkefni inn á svæðið sem ekki taka laun eftir þessum kjarasamningi. Enda kæmi það aldrei til greina hjá Verkalýðsfélagi Akraness að gjaldfella laun með því að samþykkja að hverfa frá stóriðjusamningi yfir í kjarasamning á hinum almenna vinnumarkaði. Slíkt myndi eins og áður hefur komið fram leiða til tekjulækkunar upp á 30-40%. 

Það eru fleiri stóriðjufyrirtæki á Grundartanga eins og til dæmis Elkem Ísland. Þar eru þeir með mötuneyti og ræstingu í verktöku en Verkalýðsfélag Akraness tryggði með afgerandi hætti að þeir sem starfa við þau störf njóta mjög sambærilegra kjara og þeir sem starfa almennt inni á svæðinu. Þeir njóta mun hærri grunnlauna, þeir njóta ferðapeninga, bónusa og þeir njóta miklu hærri orlofs- og desemberuppbóta en gengur og gerist á hinum almenna vinnumarkaði. Það er annað verktakafyrirtæki að nafni Snókur sem starfar inni hjá Elkem Ísland og þar gilda sömu laun og greidd eru hjá Elkem Ísland. Þessu til viðbótar eiga Norðurál og Elkem Ísland sameiginlegt fyrirtæki sem heitir Klafi og sér um allar út- og uppskipanir og það sama gildir þar, þau kjör sem gilda í stóriðjunum á Grundartanga gilda einnig fyrir starfsmenn Klafa og því er það fjarri lagi hjá forsvarsmönnum Alcan að um störf sem sinnt er í stóriðjum vítt og breitt um landið gildi kjarasamningar á hinum almenna vinnumarkaði.

Þessi réttindabarátta skiptir gríðarlega miklu máli, að stéttarfélögin standi fast í lappirnar og láti ekki eigendur erlendra auðhringja skerða laun þeirra sem starfa í stóriðjunum með slíkum hótunum eins og þeir hafa viðhaft í þessari deilu. Laun í stóriðjum hafa almennt verið mun betri en gengur og gerist á hinum almenna vinnumarkaði eins og áður sagði og það er skemmst frá því að segja að kjarasamningar Norðuráls og Alcan í straumsvík runnu út á nákvæmlega sama tíma eða nánar tiltekið 1. janúar 2015. Verkalýðsfélag Akraness gekk frá fantagóðum samningi við forsvarsmenn Norðuráls, samningi sem er launavísitölutryggður og skilaði starfsmönnum Norðuráls 16% hækkun á fyrsta ári auk 300.000 kr. eingreiðslu á hvern einasta starfsmann sem starfar hjá fyrirtækinu. Einnig er rétt að geta þess að félagið gekk líka frá afar góðum samningi við Elkem Ísland á Grundartanga. Launakjör Elkem Íslands og Norðuráls eru orðin 12-14% betri en hjá Alcan í Straumsvík eins og staðan er í dag. 

Aðalfundur deilda Verkalýðsfélags Akraness telur afar brýnt að starfsmenn standi fast í lappirnar og gefi ekki eftir í þessari deilu enda er þessi óbilgjarna krafa forsvarsmanna Alcan fólgin í því að gjaldfella stórkostlega kjör þeirra sem heyra undir mötuneyti, ræstingar og hliðgæslu. Slíkt má aldrei gerast og lýsir fundurinn yfir afdráttarlausum stuðningi við starfsmenn Alcan í Straumsvík og sendir þeim baráttukveðjur í þessari erfiðu kjaradeilu. Eftirfarandi ályktun var samþykkt á fundinum. 


Ályktun.

Aðalfundur deilda Verkalýðsfélags Akraness lýsir yfir fullkomnum stuðningi við starfsmenn Alcan í Straumsvík í þeirri erfiðu kjaradeilu sem þeir eiga nú í við eigendur fyrirtækisins. Sú krafa sem forsvarsmenn fyrirtækisins eru með um að verktakavæða störf í mötuneyti, ræstingu og hliðgæslu er afar ógeðfelld enda hefur hún þann tilgang að gjaldfella þau störf sem þar eru unnin. 

 

Það er algjörlega óviðunandi og óþolandi að erlendur auðhringur skuli haga sér hér með þeim hætti sem hér hefur birst og fari ekki eftir þeim meginreglum sem gilda á íslenskum vinnumarkaði og því ekkert annað í stöðunni hjá starfsmönnum en að sýna fyrirtækinu fullkomna hörku til að brjóta fyrirætlanir þeirra á bak aftur. 

Aðalfundurinn skorar á eigendur Alcan í Straumsvík að ganga frá kjarasamningum við starfsmenn álversins og hverfa frá því að reyna að gjaldfella laun íslensks verkafólks og iðnaðarmanna sem byggð hafa verið upp í stóriðjunum á liðnum árum og áratugum. 

 

Aðalfundurinn telur verulega hættu á að ef að þessi græðgivæðing um að gjaldfella laun með verktakavæðingu verður að veruleika geti hún haft alvarlegar afleiðingar gagnvart öðrum kjarasamningum í stóriðjum og því mikilvægt að stéttarfélög sem eiga aðild að stóriðjusamningum standi þétt saman með starfsmönnum Alcan í að brjóta þessa fyrirætlan á bak aftur.

25
Feb

Munið aðalfund deilda í kvöld kl. 18

Félagsmenn Verkalýðsfélags Akraness athugið!

Sameiginlegur aðalfundur Almennrar deildar, Stóriðjudeildar, Opinberrar deildar, Iðnsveinadeildar og Matvæladeildar verður haldinn á Gamla kaupfélaginu fimmtudaginn 25. febrúar kl. 18:00.

Dagskrá:
1. Venjuleg aðalfundarstörf
2. Staða kjaramála
3. Farið yfir starfsemi félagsins frá síðasta aðalfundi
4. Önnur mál

Boðið verður upp á súpu og brauð að afloknum fundi.

Félagsmenn eru eindregið hvattir til að fjölmenna!

Aðalstjórn Verkalýðsfélags Akraness

22
Feb

Páskar 2016

Nú er opið fyrir umsóknir um dvöl í orlofshúsum félagsins í páskavikunni. Um er að ræða vikuleigu frá 23. til 30. mars. Tekið er á móti umsóknum á skrifstofu félagsins Sunnubraut 13, á netfangið This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it. eða í síma 4309900 til og með 25. febrúar. Úthlutað verður 26. febrúar og þarf að greiða leiguverð við úthlutun.

16
Feb

Samið um 4% álag fyrir starfsmenn á leikskólum Akraneskaupstaðar

Eins og fram hefur komið hér á heimasíðunni þá gekk Verkalýðsfélag Akraness frá kjarasamningi við Samband íslenskra sveitarfélaga eftir harða kjaradeilu vegna svokallaðs Salek samkomulags. Eins og einnig hefur komið fram þá féll Samband íslenskra sveitarfélaga frá því að samkomulagið þyrfti að vera hluti af kjarasamningi og einnig breytti það inngangi samningsins sem gerði það að verkum að félagið var tilbúið til að ganga frá nýjum kjarasamningi. Kosningu um kjarasamninginn er nú lokið og var hann samþykktur með rúmlega 97% atkvæða.

Rétt er að geta þess að samhliða þessum kjarasamningi við Samband íslenskra sveitarfélaga gekk Verkalýðsfélag Akraness frá samkomulagi við Akraneskaupstað vegna svokallaðra sérákvæða sem gilda bara fyrir starfsmenn Akraneskaupstaðar. Sum ákvæði var félagið með fyrir, svosem sumaruppbót upp á 26.585 kr. sem og júníuppbót til þeirra sem voru í starfi fyrir 30. mars 2005. Nemur sú uppbót 6% af heildarlaunum. Einnig tókst að ná fram í þessu sérsamkomulagi sem formaður gerði við bæjarstjóra, aukavaktarfríi vegna vaktavinnufólks sem starfar á dvalarheimilinu Höfða. 

Þessu til viðbótar gekk félagið frá sérákvæði fyrir ófaglært starfsfólk á leikskólum bæjarins og nemur það álag 4% og mun það verða greitt afturvirkt frá 1. janúar 2015 í næstu útborgun. Þessi 4% eru að skila umræddum starfsmönnum rúmlega 12.000 kr. launahækkun á mánuði og afturvirknin mun nema í kringum 160.000 kr. Eins og einnig hefur komið fram hér á heimasíðunni þá gildir kjarasamningurinn frá 1. maí 2015 þannig að starfsmaður í fullu starfi er að fá hækkun á sínum grunnlaunum um á bilinu 25.000 til 28.000 kr. og afturvirknin mun skila starfsmönnum í kringum 235.000 kr. Starfsmaður í fullu starfi á leikskóla mun því fá uppundir 400.000 kr. vegna afturvirkninnar. Það er ljóst að slík upphæð skiptir fólk máli. 

Félagið er ánægt með að hafa getað gengið frá þessum sérmálum við Akraneskaupstað og samstarfið við fulltrúa Akraneskaupstað þau Regínu Ásvaldsdóttur, Ólaf Adolfsson og Steinar Adolfsson var til mikillar fyrirmyndar enda laut þessi kjaradeila ekki beint að bænum heldur sogaðist bærinn inn í hana vegna Salek samkomulagsins sem Samband íslenskra sveitarfélaga er aðili að. Vill félagið þakka bæjaryfirvöldum fyrir sinn þátt í lausn á deilunni. Hér má sjá myndir frá undirritun samkomulagsins.

12
Feb

Nýr kjarasamningur fyrir starfsfólk Akraneskaupstaðar samþykktur með 97,8% atkvæða

Nú rétt í þessu lauk talningu atkvæða í kosningu um kjarasamning Verkalýðsfélags Akraness og Sambands íslenskra sveitarfélaga sem undirritaður var þann 3. febrúar síðastliðinn.

Á kjörskrá voru 219 félagsmenn. Greidd atkvæði voru 46 talsins svo kosningaþátttaka var 21%. Já sögðu 44. Nei sagði 1. Einn seðill var auður og enginn ógildur.

Samningurinn telst því samþykktur með 97,8% greiddra atkvæða sem er yfirgnæfandi meirihluti og mun samningurinn því strax taka gildi.

11
Feb

Kynningarfundur var haldinn í gær vegna kjarasamnings við Akraneskaupstað

Í gær hélt Verkalýðsfélag Akraness kynningarfund fyrir starfsmenn Akraneskaupstaðar vegna nýgerðs kjarasamnings sem félagið gerði við Samband íslenskra sveitarfélaga fyrir skemmstu. Formaður fór yfir helsta innihald samningsins en byrjaði á því að þakka starfsmönnum kærlega fyrir skilninginn og stuðninginn sem var fólginn í þeirri biðlund sem starfsmenn Akraneskaupstaðar sýndu félaginu í þessari erfiðu kjaradeilu. Eins og fram hefur komið hér á heimasíðunni snerist sú deila að litlu leyti um launabreytingar en aðallega um Salek samkomulagið. Það hefur líka komið fram hér að þetta mál fór fyrir Félagsdóm en niðurstaðan var sú að Samband íslenskra sveitarfélaga féll frá því að gera kröfu um að Salek samkomulagið yrði fylgiskjal og inngangi samningins hjá VLFA var breytt miðað við aðra samninga sem Sambandið hafði gert. Formaður tók fram að það er gríðarlega mikilvægt að vera með félagsmenn sem hafa þennan skilning og styðja félagið sitt í orði og á borði þegar á reynir. 

Það voru einnig nokkur sérákvæði sem félagið þurfti að berjast fyrir, meðal annars sérákvæði sem lýtur að 4% álagi fyrir starfsmenn í leikskólum en félagið gekk frá slíku samkomulagi við forsvarsmenn Akraneskaupstaðar og mun það gilda fyrir alla starfsmenn sem nú eru í starfi og verður leiðrétt afturvirkt til 1. janúar 2015. Það mun skila starfsmönnum á leikskólum afturvirkni sem nemur um 73.000 kr. fyrir fullt starf. Algengt er að starfsmenn í fullu starfi muni fá leiðréttingu sinna launa þetta í kringum 220-250.000 kr. enda gildir samningurinn frá 1. maí 2015. Það var ánægjulegt að heyra að starfsmenn voru ánægðir með þá staðfestu sem félagið hefur sýnt í þessu máli en þokkalega góð mæting var á kynningarfundinn og virtust félagsmenn sem taka laun eftir þessum kjarasamningi almennt vera nokkuð sáttir með þá vinnu sem félagið hefur innt af hendi í þessu máli. Sérstaklega var mikil ánægja vegna sérákvæðanna því það var ekki bara þetta 4% álag sem félagið náði til handa starfsmönnum á leikskólum heldur einnig auka vaktafrí fyrir starfsmenn sem starfa í vaktavinnu á dvalarheimilinu Höfða. 

Hægt verður að kjósa um samninginn til kl. 12 á hádegi á morgun, föstudag, á skrifstofu félagsins en þeir sem mættu á kynningarfundinn kusu í gær að aflokinni kynningu.  

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image