• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
16
Sep

Stefnir að öllum líkindum í hörð verkfallsátök sjómanna við Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi!

Eins og flestir landsmenn vita þá hafa sjómenn verið kjarasamningslausir í hartnær 6 ár eða nánar til getið frá 1. janúar 2011. Rétt er að geta þess að sjómannadeild Verkalýðsfélags Akraness sem og flest önnur sjómannafélög fólu Sjómannasambandi Íslands samningsumboð til kjarasamningsgerðar við Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi. Þann 24. júní síðastliðinn undirritaði Sjómannasamband Íslands og Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi nýjan kjarasamning, en því miður var innihald þess samnings afar rýrt enda var samningurinn kolfelldur af sjómönnum í atkvæðagreiðslu sem lauk 8. ágúst síðastliðinn.

Í ljósi þeirrar stöðu að sjómenn höfnuðu algerlega þeim kjarasamningi sem undirritaður var 24. júní var reynt til þrautar að ná fram viðbót við samninginn en algerlega án árangurs og því hefur nú slitnað uppúr viðræðum við útgerðarmenn. Það er morgunljóst að reiði kraumar meðal sjómanna vegna þess skeytingarleysis sem þeir finna frá Samtökum fyrirtækja í sjávarútvegi og þeirra atriða sem sjómenn telja að þurfi að koma til svo hægt sé að ganga frá nýjum sanngjörnum kjarasamningi.

Þau atriði sem sjómenn telja að þurfi að koma til svo hægt sé að ganga frá nýjum kjarasamningi eru þessi helst:

- Verðlagsmálin
- Mönnunarmálin
- Afnám á nýsmíðaálagi
- Bætur vegna afnáms á sjómannaafslætti
- Hækkun á fatapeningum
- Sjómenn fái orlofs- og desemberuppbætur eins og annað launafólk
- Tekið sé á miklum kostnaði sjómanna vegna fjarskipta

Á þessu sést að það ber töluvert á milli aðila og að sjálfsögðu eru sum þessara mála stærri en önnur eins og verðlagsmálin, en sjómenn vilja að sjálfsögðu að markaðsverð á sjávarafurðum verði látið gilda enda munar allt að 30% á uppgjörsverði til sjómanna og markaðsverði. Sjómenn eru líka afar ósáttir við að þurfa að greiða 10% af sínum launum vegna nýsmíðaálags í 7 ár og það án þess að eignast neitt í viðkomandi skipi.

Bara til að benda á óréttlætið sem felst í þessu nýsmíðaálagi þá er ekkert óalgengt að dregið sé af sjómanni vegna nýsmíðaálagsins sem nemur uppundir 7 milljónum á 7 ára tímabili vegna endurnýjunar á fiskiskipi og það án þess að sjómaðurinn eignist neina hlutdeild í viðkomandi skipi! Þetta væri svipað og ef flugstjórar, flugfreyjur og flugvirkjar greiddu 10% af sínum launum til vinnuveitenda sinna Icelandair og Wow air svo fyrirtækin geti endurnýjað flugflota sinn! Eða að læknar og aðrir heilbrigðisstarfsmenn yrðu látnir greiða 10% af sínum launum vegna byggingar á nýjum Landsspítala. Það sjá allir skynsamir menn að þetta nýsmíðaálag er afar óréttlátt svo ekki sé fastar að orði kveðið.

Það er líka rétt að rifja upp að árið 2009 var sjómannaafslátturinn tekinn af sjómönnum í þrepum og er hann nú allur dottinn út en við það varð sjómannastéttin af 1,6 milljarði án þess að nokkrar bætur kæmu til handa sjómönnum vegna þessa.

Það er líka rétt að vekja sérstaka athygli á því að sjómönnum hefur fækkað gríðarlega á undanförnum árum. Árið 2009 voru þeir um 6.000 en árið 2014 hafði þeim fækkað niður í 4.400. Það liggur fyrir að útgerðarmenn hafa verið að fækka verulega um borð í fiskiskipaflotanum og tala sjómenn núna um að þessi fækkun sé farin að ógna öryggi þeirra um borð í skipunum. Þess vegna leggja sjómenn mikla áherslu á að fá í kjarasamninginn ákvæði sem kveður á um lágmarksmönnun um borð í fiskiskipum.

Að þessu sögðu liggur fyrir að himinn og haf skilur á milli deiluaðila í kjaradeilu sjómanna við útgerðamenn og hafa aðildarfélög Sjómannasambands Íslands því hafið undirbúning að kosningu um allsherjarverkfall sjómanna. Kosning um verkfall hefst eftir helgi og samþykki sjómenn það mun verkfall hefjast 10. nóvember klukkan 23.00. Rétt er að geta þess að um rafræna kosningu verður að ræða og munu kjörgögn berast sjómönnum eftir helgina með leiðbeiningum um hvernig á að kjósa. Sjómannadeild VLFA vill vekja athygli á því að þeir sjómenn sem telja sig ekki hafa fengið kjörgögn í hendurnar fyrir lok næstu viku skulu setja sig í samband við skrifstofu Verkalýðsfélags Akraness. Rétt er að taka það fram að smábátasjómenn heyra ekki undir þennan kjarasamning við Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi og eru því ekki að kjósa um verkfall, enda fara kjör þeirra eftir öðrum kjarasamningi.

Sjómannadeild Verkalýðsfélags Akraness skorar á alla sjómenn að kjósa og sýna afstöðu sína í verki með því að segja já við verkfalli því við viljum fá sanngjarnan og réttlátan kjarasamnig við útgerðarmenn, en rétt er að geta þess að útgerðin skilar hreinum hagnaði sem nemur einum milljarði í hverri viku!

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image