• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
Fréttir

Fréttir

02
Jun

Sjómannadagurinn 2016

Næstkomandi sunnudag verður Sjómannadagurinn haldinn hátíðlegur um land allt. Björgunarfélag Akraness sér um fjölbreytta dagskrá við Akraneshöfn og víðs vegar um bæinn ættu allir að geta fundið afþreyingu við sitt hæfi.

Dagskrá:

Kl. 9.00-18.00
Frítt í sund í Jaðarsbakkalaug.

Kl. 10.00
Minningarstund við minnismerki um týnda sjómenn í kirkjugarði.

Kl. 10.00-16.00  
Opið í Akranesvita. Málverkasýning Sigfríðar Lárusdóttur prýðir veggi vitans.

Kl. 11.00       
Dýfingakeppni á vegum Sjóbaðsfélags Akraness. Keppendur og áhorfendur safnast saman við Aggapall við Langasand. Dýfingarnar munu fara fram af bátnum Jóni forseta. Keppt verður í tveimur greinum, annars vegar hefðbundinni stungu og hins vegar frjálsri aðferð. Aldursflokkar verða tveir, 49 ára og yngri og 50+. Veitt verða verðlaun fyrir þrjú efstu sætin í hvorum flokki.

Kl. 11.00            
Sjómannadagsmessa, sjómaður heiðraður. Blómsveigur lagður að sjómanninum á Akratorgi að lokinni athöfn.

Kl. 11.00
Íslandsmótið í Eldsmíði hefst á Byggðasafninu og stendur fram eftir degi. Eldsmíðahátíð fer fram 2.-5. júní á Byggðasafninu. Allir hjartanlega velkomnir að fylgjast með.

Kl. 13.00-14.00
Dorgveiðikeppni á Sementsbryggjunni.

Kl. 13.30            
Sigling á smábátum

Kl. 13.30-16.30  
Kaffisala í Jónsbúð á vegum Slysavarnafélagsins Líf. Allir hjartanlega velkomnir.

Kl.14.00-16.00  
Björgunarfélag Akraness sér um fjölskylduskemmtun í samstarfi við Akraneskaupstað, Verkalýðsfélag Akraness, HB Granda, Faxaflóahafnir og Runólf Hallfreðsson ehf. við Akraborgarbryggjuna. Á boðstólnum verða m.a.: Fyrirtækjakeppni Gamla Kaupfélagsins, þrautir og leikir fyrir börn, kassaklifur, hoppukastalar, úrval fiska til sýnis, koddaslagur, karahlaup og fleira.  

Kl. 14.00-16.00  
Félagar í Sjósportfélaginu Sigurfara verða á svæðinu með kajaka og fleira .

Kl. 15.00             
Þyrla landhelgisgæslunnar kemur til okkar og sýnir björgun úr sjó.

Kl. 19.00             
Sumargleði Kórs Akraneskirkju í Vinarminni. Fjölbreytt dagskrá í tali og tónum. Sérstakur gestur verður Gísli Gíslason, hafnarstjóri Faxflóahafna. Boðið verður upp á ljúffenga sjávarréttasúpu. Aðgangseyrir kr. 2.500.

Fleiri upplýsingar um Sjómannadaginn 2016 má finna á heimasíðu Akraneskaupstaðar www.akranes.is

01
Jun

Akraneskaupstaður leiðréttir laun upp á 5,7 milljónir

Formaður Verkalýðsfélags Akraness hefur gengið frá samkomulagi við Akraneskaupstað vegna leiðréttingar á launum skólaliða í Brekkubæjarskóla og Grundaskóla. Málið laut að því að þegar Verkalýðsfélag Akraness fór að skoða mál er tengjast aðalhreingerningum skólaliða, en þær eru framkvæmdar eftir að skólanum lýkur ár hvert, kom í ljós að skólaliðar voru ekki að fá álagsgreiðslu sem nemur 55% af dagvinnutaxta vegna aðalhreingerninga eins og kveðið er á um í kjarasamningi á milli VLFA og Akraneskaupstaðar. Félagið gerði því athugasemdir vegna þessarar vangreiðslu við forsvarsmenn Akraneskaupstaðar og átti formaður nokkra fundi með bæjarstjóra og forsvarsmönnum bæjarins til að finna lausn á þessum ágreiningi. Eftir að bæjaryfirvöld höfðu skoðað málið og komist að því að þessi athugsemd VLFA var á rökum reist þá náðist samkomulag um lausn á málinu.

Samkomulagið fól það í sér að skólaliðar munu fá 55% álag vegna aðalræstinga endurgreitt fjögur ár aftur í tímann og nemur sú endurgreiðsla tæpum 200 þúsundum fyrir þá sem eiga fullan rétt, en í heildina nemur þessu endurgreiðsla til allra skólaliða um 5,7 milljónum króna. Auk þess var samið um viku í viðbótarorlof handa skólaliðum í fullu starfi. Formaður kynnti samkomulagið fyrir félagsmönnum sínum í Brekkubæjarskóla í gær og voru starfsmenn mjög ánægðir með þetta samkomulag. Verkalýðafélag Akraness vill þakka bæjaryfirvöldum fyrir að sameiginleg lausn hafi fundist á þessu máli ,enda byggðist vangreiðslan á vissum misskilningi og var alls ekki um neinn ásetning að ræða. 

Þetta er ekki eina málið sem fékk farsæla niðurstöðu í gær því félagið var með annað mál í vinnslu hjá sér sem laut að ofgreiðslu sem starfsmaður Hvalfjarðarsveitar hefði fengið upp á tæpar 150 þúsund krónur, en hafði síðan verið dregin af honum. Slíkt er óheimilt ef starfsmaðurinn er í góðri trú um að laun hans séu rétt og hann er algerlega grandalaus um að um ofgreiðslu væri að ræða. Verkalýðsfélag Akraness óskaði eftir því að Hvalfjarðarsveit myndi endurgreiða það sem hafði verið dregið af starfsmanninum og vísaði félagið í dómafordæmi máli sínu til stuðnings. Eftir að málið hafði verið skoðað af sveitarstjóra var fallist á rök VLFA og starfsmanninum endurgreidd sú upphæð sem um var að ræða.

Þetta sýnir hversu mikilvæg stéttarfélögin eru þegar kemur að því að verja og varðveita þau réttindi sem um hefur verið samið og félagsmenn eiga rétt á.

27
May

Formaður með fræðslu á fiskvinnslunámskeiði

Í gær var formaður Verkalýðsfélags Akraness með kynningu á fiskvinnslunámskeiði sem milli 20 og 30 starfsmenn HB Granda hafa setið þessa vikuna. Í kynningunni fór formaður yfir réttindi og skyldur á íslenskum vinnumarkaði, fór yfir launatöflur, bónusmál og fleira því tengdu. Nemendur báru upp fjölmargar spurningar og var þetta afar lifandi og góð fræðsla.

Mikilvægt er að fyrirtæki bjóði reglulega upp á námskeið af þessu tagi og er það bæði hagur fyrirtækisins og starfsmanna, en sérhæfður fiskvinnslumaður fær tveggja flokka launahækkun eftir útskrift svo það er brýnt að þeim standi slíkt námskeið reglulega til boða.

20
May

95 starfsmenn Norðuráls hafa útskrifast úr stjóriðjuskóla Norðuráls

Árið 2011 samdi Verkalýðsfélag Akraness við forsvarsmenn Norðuráls um  stofnun stóriðjuskóla og það er óhætt að segja að þar hafi verið stigið mikið heillaspor að setja þennan skóla á laggirnar, ekki bara fyrir starfsmenn heldur einnig fyrirtækið. Það er morgunljóst að námið eykur færni og hæfni starfsmanna til muna og því til viðbótar er einnig fjárhagslegur ávinningur fyrir starfsmenn að fara í námið.

Grunnnám stóriðjuskólans er þrjár annir og gefur þeim starfsmönnum sem því ljúka launahækkun upp á 5%. Framhaldsnám skólans gefur svo 5% til viðbótar. Með öðrum orðum þá skilar námið ekki bara aukinni færni og hæfni nemenda heldur getur það skilað 10% launahækkun að afloknu grunn- og framhaldsnámi og nemur sá ávinningur um eða yfir 70 þúsundum króna á mánuði. Rétt er að geta þess líka að í stóriðjuskólanum öðlast starfsmenn aukna færni og þekkingu á lykilferlum við örugga og hagkvæma framleiðslu á áli. Þannig er rétt að ítreka enn og aftur að það er bæði hagur starfsmanna og fyrirtækisins að hafa þetta nám innan Norðuráls. Námið fer fram í húsakynnum Norðuráls á Grundartanga og koma kennarar frá Fjölbrautaskóla Vesturlands og einhver námskeið eru haldin á vegum Símenntunarmiðstöðvar Vesturlands.
Glæsilegur hópur útskriftarnemaÍ gær útskrifaðist enn einn hópurinn úr stóriðjuskólanum en það voru 15 starfsmenn sem luku grunnnáminu og í heildina hafa 62 starfsmenn lokið grunnáminu frá því skólinn var settur á laggirnar. Í gær útskrifuðust líka starfsmenn í framhaldsnáminu og í heildina hafa 33 lokið framhaldsnáminu. Þetta þýðir að 95 starfsmenn hafa samtals lokið grunn- og framhaldsnámi úr stóriðjuskóla Norðuráls frá því hann hóf starfsemi sína.  

Það er óhætt að segja að útskriftarathöfnin sem haldin var í gær hafi verið öll hin glæsilegasta og mega starfsmenn og forsvarsmenn fyrirtækisins vera stoltir af allri umgjörð í kringum útskriftina enda skein mikil ánægja úr andlitum ústkriftarnema. Stjórn Verkalýðsfélags Akraness sendir þeim sem útskrifuðust í gær innilegar hamingjuóskir með þennan glæsilega áfanga.

11
May

Fyrsti heimaleikur ÍA á morgun - Félagsmenn VLFA njóta sérkjara á ársmiðum!

Félagsskírteini VLFA veitir félagsmönnum þess ýmsa afslætti eins og sjá má hér á heimasíðunni. Meðal annars geta félagsmenn VLFA fengið afslátt af ársmiðum á alla heimaleiki ÍA í Pepsideild karla og kvenna gegn framvísun félagsskírteinis, en ársmiðarnir eru til sölu á skrifstofu KFÍA sem og í gegnum netfangið This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it. og í síma 4331109. 

Fyrsti heimaleikurinn er á morgun og því ekki seinna vænna að drífa sig á völlinn!

 

Brons

Silfur

Gull

Pepsideild kvenna

Félagsmenn VLFA

9.000

16.000

30.000

6.000

Almennt verð

12.000

20.000

40.000

8.000

10
May

Norðurál skilar 6 milljörðum í hagnað = Gott starfsfólk

Góður árangur næst ekki nema með afbragðsstarfsmönnumNorðurál á Grundartanga tilkynnti afkomutölur sínar í dag og þar kemur fram að hagnaður fyrirtækisins nam rétt tæpum 6 milljörðum sem verður að teljast mjög góð afkoma í ljósi þess að heimsmarkaðsverð á áli lækkaði verulega á milli ára og stendur álverð í tæpum 1.600 dollurum fyrir tonnið.  

Það er morgunljóst að svona afkomutölur ár eftir ár nást ekki nema fyrirtækið hafi afbragðs starfsfólk innan sinna vébanda og því er það afar mikilvægt að stjórnendur íslenskra fyrirtækja átti sig á því að gott starfsfólk er í höfuðatriðum lykill að góðum árangri og afkomu. Það er líka morgunljóst að góð afkoma Norðuráls hefur m.a. gert Verkalýðsfélagi Akraness kleyft að krefjast aukinnar hlutdeildar í góðri afkomu fyrirtækisins til handa starfsmönnum eins og síðasti kjarasamningur sem félagið gerði við Norðurál sannar.  

Það skiptir launafólk og stéttarfélögin miklu máli að afkoma fyrirtækja sé góð, því góð afkoma gefur stéttarfélögunum aukið svigrúm til að krefjast hlutdeildar í góðri afkomu fyrirtækja og þannig á íslenskur vinnumarkaður að virka. Það er alveg ljóst að vinna Verkalýðsfélags Akraness við að bæta kjör sinna félagsmanna er hvergi nærri lokið og því er afar ánægjulegt að sjá að mörg fyrirtæki sem félagsmenn VLFA starfa hjá eru að skila góðri afkomu eins og Norðurál og HB Grandi svo einhver dæmi séu nefnd.  

Eins og áður sagði er vinnu við að hækka laun okkar félagsmanna hvergi nærri hætt enda lýkur þeirri baráttu aldrei, það er ánægjulegt að okkur hefur tekist vel við að láta eigendur Norðuráls skila góðri afkomu til starfsmanna þegar kjarasamningar hafa verið lausir. Í dag er byrjandi á vöktum hjá fyrirtækinu með í heildarlaun með öllu 522.000 krónur á mánuði fyrir 182 tíma og starfsmaður með 10 ára starfsreynslu er með 611.000 krónur með öllu fyrir sama vinnutíma. Þessu til viðbótar stendur starfsmönnum til boða að taka stóriðjuskóla sem getur skilað allt að 10% launahækkun að afloknum skólanum og með stóriðjuskólanum getur verkamaður náð tæpum 670.000 krónum í mánaðarlaunum með öllu.  En eins og áður sagði er VLFA hvergi hætt að berjast fyrir hærri launum og aukinni hlutdeild í góðum árangri fyrirtækja.

Það sem skyggir á góða afkomu Norðuráls og margra annarra fyrirtækja er að ASÍ ásamt aðilum sem tengjast svokölluðu Salek samkomulagi vinna nú leynt og ljóst að því að taka af eða skerða samningsfrelsi stéttarfélaganna með því að færa ákvörðunartöku um hámarkslaunabreytingar yfir á nýtt þjóðhagsráð sem á að ákveða hversu mikið svigrúm er til skiptanna og ef þjóðhagsráð kemst að því að svigrúmið sé einungis 3% þá verður stéttarfélögunum skylt að semja innan þess svigrúms. Sem sagt, stéttarfélögin munu ekki mega sækja í góða afkomu fyrirtækja eins og Norðuráls því ætlunin er að meitla í stein samræmda láglaunastefnu. 

02
May

Eindagi orlofshúsa í dag

Við minnum félagsmenn okkar á að eindagi fyrri úthlutunar orlofshúsa sem fram fór 13.apríl sl. er í dag, 2 maí. Þær vikur sem enn standa eftir ógreiddar eftir eindaga verður úthlutað aftur. Sjálf endurúthlutunin fer svo fram 6.maí, þeir sem fá úthlutað fá það staðfest með bréfi.

02
May

1. maí hátíðarhöldin heppnuðust vel á Akranesi

1. maí á Akranesi heppnaðist í alla staði mjög vel eins og hann reyndar gerir ætíð. Dagskráin var hefðbundin, farið var í kröfugöngu undir taktföstum tónum skólahljómsveitar Akraness. Að því loknu var haldið í sal Verkalýðsfélags Akraness að Kirkjubraut 40 þar sem hefðbundin hátíðar- og baráttudagskrá tók við. Formaður VLFA flutti ávarp en barátturæðuna flutti hinsvegar Drífa Snædal, framkvæmdastjóri Starfsgreinasambands Íslands. 

Í ávarpi formanns Verkalýðsfélags Akraness kom fram að hann hefði gríðarlegar áhyggjur vegna fyrirætlana um að taka hér upp nýtt vinnumarkaðsmódel eins og kveðið er á um í svokölluðu Salek samkomulagi og kom fram í máli hans að hann teldi að þetta nýja vinnumarkaðsmódel gæti orðið ein mesta vá sem íslenskt launafólk hefur staðið frammi fyrir frá stofnun verkalýðshreyfingarinnar. Enda byggist þetta vinnumarkaðslíkan á að skerða og takmarka frjálsan samningsrétt stéttarfélaganna og færa hann yfir á nýtt ráð sem á að kallast þjóðhagsráð. Þetta þjóðhagsráð á að meta hversu miklar hámarkslaunabreytingar megi eiga sér stað þegar kjarasamningar eru lausir og stéttarfélögum verður skylt að halda sig innan þess svigrúms. Það kom líka fram í máli hans að verkalýðshreyfingin sem afl er gríðarlega mikilvægt enda er leikurinn milli atvinnurekandans og launamannsins æði oft afar ójafn og því mikilvægt fyrir íslenskt launafólk að hafa sterk og öflug stéttarfélög til að verja og bæta kjör sín. 

Drífa Snædal hélt mjög góða ræðu og kom meðal annars inn á hversu sterk baráttuhefð hefur verið hjá fiskvinnslukonum á Akranesi og rifjaði meðal annars upp sögu frá Bjarnfríði Leósdóttur frá 1976 í því samhengi. Hún sagði meðal annars í ræðu sinni: 

"Bjarnfríður Leósdóttir sem lést á síðasta ári segir í ævisögu sinni frá kvennaverkfallinu sem háð var hér á Skaganum árið 1976 þegar karlarnir í Reykjavík höfðu samið uppsagnarákvæði af fiskverkakonum. Konurnar á Akranesi sættu sig ekki lengur við að vera varavinnuafl og með styrk úr kvennabaráttunni, miklum hlátri, stemningu, bakkelsi og baráttuanda náðu þær að rétta kjör sín. Karlarnir voru óskaplega þreyttir á þeim, hvort sem litið var til blaðamanna, stjórnmálamanna eða þeirra sem höfðu í raun átt að vera samherjar. Bjarnfríður orðar það svo: „Það hefur verið rok á Skaga undanfarna daga með leiftrum og ljósagangi. Konurnar hafa staðið með storminn í fangið, algallaðar á verkfallsvakt.“ Við eigum konum og öðru baráttufólki á Skaganum mikið að þakka og þessi saga Bjarnfríðar skýrir það af hverju ég hef alltaf borið óttablandna virðingu fyrir fiskverkakonum frá Akranesi."

Á milli ræðuhalda ómuðu ljúfir tónar frá Kvennakórnum Ymi og í lokin var Maístjarnan sungin og að sjálfsögðu Alþjóðasöngur verkalýðsins (Internasjónalinn) þar sem allir stóðu á fætur og tóku undir. Það var ekki bara að kvennakórinn Ymur töfraði fram ljúfa tóna heldur sáu þær einnig um ljúffengar veitingar enda svignaði borðið af kræsingum. Vill Verkalýðsfélag Akraness þakka öllum þeim sem sáu sér fært að mæta og taka þátt í þessum baráttudegi verkalýðsins sem er og verður mjög mikilvægur öllu íslensku launafólki. Hér má sjá myndir frá deginum.  

01
May

Ræða Drífu Snædal, framkvæmdastjóra SGS, flutt 1. maí 2016 á Akranesi

Kæru félagar – innilega til hamingju með daginn – það er heiður að fá að ávarpa ykkur!

Á þessu ári fögnum við aldarafmæli heildarsamtaka launafólks á Íslandi og er fullt tilefni til að halda uppá það. Við vitum öll hvaða merkilegu vörður hafa verið reistar á einni öld með afli launafólks en við vitum það líka að launafólk hefur ekki alltaf verið samstíga innan heildarsamtakanna. Á áttunda áratugnum voru til dæmis ekki allir búnir að fatta þetta með að jafnrétti kynjanna væri góð hugmynd og eins og oft áður og síðar kom það í hlut fiskverkakvenna af Akranesi að flétta saman verkalýðsbaráttu og jafnréttisbaráttu. 

Bjarnfríður Leósdóttir sem lést á síðasta ári segir í ævisögu sinni frá kvennaverkfallinu sem háð var hér á Skaganum árið 1976 þegar karlarnir í Reykjavík höfðu samið uppsagnarákvæði af fiskverkakonum. Konurnar á Akranesi sættu sig ekki lengur við að vera varavinnuafl og með styrk úr kvennabaráttunni, miklum hlátri, stemningu, bakkelsi og baráttuanda náðu þær að rétta kjör sín. Karlarnir voru óskaplega þreyttir á þeim, hvort sem litið var til blaðamanna, stjórnmálamanna eða þeirra sem höfðu í raun átt að vera samherjar. Bjarnfríður orðar það svo: „Það hefur verið rok á Skaga undanfarna daga með leiftrum og ljósagangi. Konurnar hafa staðið með storminn í fangið, algallaðar á verkfallsvakt.“ Við eigum konum og öðru baráttufólki á Skaganum mikið að þakka og þessi saga Bjarnfríðar skýrir það af hverju ég hef alltaf borið óttablandna virðingu fyrir fiskverkakonum frá Akranesi.

Fyrir ári síðan ávarpaði ég félaga okkar á Selfossi. Þá vorum við í  miðjum átökum – þeim stærstu og hörðustu á almenna vinnumarkaðnum í áratugi. Í aðdraganda verkfallanna hafði dunið á okkur áróður um óstöðugleika, verðbólgu, kaupmáttarrýrnun, gengisfellingu og bara allar heimsins pestir sem myndu ríða yfir þjóðina ef verkafólk sýndi ekki ábyrgð. En það var einmitt það sem verkafólk og samtök verkafólks gerði; Það sýndi ábyrgð. Ábyrgð á því að bæta lífskjör í landinu, ábyrgð á því að auka lífsgæði okkar og barnanna okkar, ábyrgð á því að þoka lágmarkslaunum nær því sem þarf til að lifa á þeim. ÞAÐ er hin ábyrga afstaða sem við verðum alltaf að taka og finna bestu leiðirnar til þess. Stundum þarf að láta sverfa til stáls og það kom í ljós þegar á þurfti að halda að verkafólk á Íslandi er tilbúið, samstillt og baráttuglatt. Árangurinn sem við náðum á síðasta ári verður ekki einungis talinn í krónum og aurum í launaumslaginu heldur er árangurinn ekki síst sá að nú vita allir að það er hægt að virkja samstöðuna þegar á þarf að halda og það er gott veganesti inn í næstu kjarasamninga. Valdahlutföllin breyttust og vinnumarkaðurinn samanstóð ekki lengur af vinnuVEITENDUM og launÞEGUM, þ.e. þeim sem veita og þeim sem þiggja, heldur af verkafólki sem setti hærri verðmiða á vinnuna sína og mótaðilum sem stóðu frammi fyrir kröfunum. 

Við þessar aðstæður kom líka í ljós sem aldrei fyrr mikilvægi verkalýðshreyfingarinnar. Verkalýðshreyfingin er stærsta fjöldahreyfing á Íslandi og sterkasta hagsmunahreyfingin. Hún rúmar nær alla þá sem eru á vinnumarkaði sem þýðir að innan hennar er þverskurður þjóðarinnar. Þar eru karlar og konur, íslendingar og útlendingar, ungir og eldri, fólk sem vaknar með hnefann á lofti á morgnana og fólk sem vill fara mýkri leiðir í baráttunni. Við höfum þörf fyrir allt þetta fólk og hreyfingin þarf að rúma alla. Hún er það sem við gerum hana að og þátttaka fleira fólks þýðir breiðari samstöðu og að ákvarðanir séu teknar út frá fleiri skoðunum – það er mikilvægt og þess vegna brýnt að sem flestir taki þátt í starfinu.

Við sýndum mátt okkar á síðasta ári en það sem fer ekki alltaf hátt eru öll hin handtökin sem unnin eru innan hreyfingarinnar og hafa verið síðustu 100 árin. Það er ekki bara verk að vinna að sækja fram heldur er baráttan fyrir velferð stöðug varnarbarátta. Við sjáum heilbrigðiskerfið verða verra og verra  og kostnað sjúklinga sífellt aukast. Menntun er farin að takmarkast við þá sem eiga bakhjarla því kostnaður við nám hefur aukist á á sama tíma er þverrandi stuðning við skólafólk. Allt er þetta barátta fyrir bættum kjörum og það má ekki gerast að fólk geti ekki verið heilbrigt og valið sér starf eftir áhuga því það velti á fjárhag foreldra. Þá erum við ekki bara að tapa sem einstaklingar heldur sem samfélag. 

Og til þess að við getum rekið samfélagið okkar þannig að allir hafi jafna möguleika til lífsgæða þurfa líka allir að leggja sitt af mörkum. Liðið sem sveik undan skatti með því að fela peninga í aflandsfélögum var ekki bara að bregðast trúnaði heldur var það að stela af okkur jöfnuði, velferð, menntun og jafnrétti. Það var verið að ræna okkur þeim gildum sem við viljum hafa. Fólk sem veikist af krabbameini á ekki að þurfa að veðsetja íbúðina eða leita á náðir ættingja til að eiga fyrir meðferð. Ungt fólk sem vill mennta sig á að geta gert það óháð fjárhag foreldra. Og við eigum að geta notið þess fallega og góða sem alls konar menning býður okkur án þess að fjárhagur skipti þar sköpum. Það hlýtur því að vera skýr krafa verkalýðshreyfingarinnar að skattsvikarar verði rannsakaðir og peningunum skilað ef fiskur leynist undir steini. 

Baráttan gegn skattaskjólum er alþjóðleg barátta launafólks fyrir sanngjörnum kjörum og velferð. Þó að Íslendingar séu heimsmeistarar í skattaskjólum (miðað við hina frægu höfðatölu) þá bitna þau á bræðrum okkar og systrum í mörgum löndum. Þannig er stríðið í Sýrlandi fjármagnað með peningum glæpasamtaka úr skattaskjólum og óendanlegar hörmungar bíða venjulegs fólks sem vill bara vinna fyrir sér og fá að vera í friði þess utan. Flóttamannavandinn er eitt stærsta verkefni ríkisstjórna og stéttarfélaga í allri Evrópu og aðbúnaður fólks er hræðilegur. Það segir sitt um þær hörmungar sem fólkið er að flýja að það leggur líf og limi í hættu til að ferðast til landa þar sem það er ekki velkomið. Við verðum að axla okkar hluta ábyrgðarinnar og taka á móti fólki hingað og gera það vel. Þar getum við lært mikið af Skagamönnum sem hafa sýnt gestrisni gagnvart flóttafólki svo eftir er tekið. Næstu ár mun flæði fólks á milli landa aukast gríðarlega og þá ríður á frekar en nokkurn tímann að vernda kjör á vinnumarkaði. Ef við leyfum því að gerast að útlendingar viti ekki réttindi sín eða séu undirborgaðir þá er það ógnun við okkur öll því það lækkar launin á öllum vinnumarkaðnum. Við verðum því að standa fast í lappirnar og gera það heyrinkunnugt að á íslenska vinnumarkaðnum er farið eftir reglum og kjarasamningum og það mun ekki líðast að samningar séu brotnir. Það er ekki Norræna vinnumarkaðsmódelið sem mörgum er tíðrætt um heldur skulum við kalla það Íslenska vinnumarkaðsmódelið. 

Það er mikilvægt að fylgjast vel með því sem gerist í löndunum í kringum okkur og það vekur áhyggjur. Félagar okkar í Svíþjóð standa nú frammi fyrir kröfum um að lækka byrjunarlaun, ríkisstjórnin í Finnlandi tók kjarasamninga úr sambandi og skerti kjör fólks uppá sitt einsdæmi og fjölmargar litlar breytingar hafa verið gerðar á norsku vinnulöggjöfinni síðustu ár til skaða fyrir launafólk. Verkalýðsbaráttan er því varnarbarátta í mörgum löndum í kringum okkur og því er það einstaklega ánægjulegt að geta sagt félögum okkar annars staðar frá árangrinum í kjaraviðræðum síðasta árs. Við vitum það hins vegar að það sem gerist úti í heimi hefur tilhneigingu til að koma til okkar og því verðum við að vera vakandi og á verðinum um leið og við sendum baráttukveðjur til launafólks um allan heim í dag og alla aðra daga.

En þótt stéttarfélögin eigi langa sögu og verkefnin í dag séu í mörgu lík því sem var í upphafi þá steðjar að ný ógn. Nú er til siðs að auglýsa eftir erlendum sjálfboðaliðum til vinnu gegn því að kynnast landi og þjóð. Þannig auglýsti ferðaþjónustufyrirtæki á höfuðborgarsvæðinu eftir sjálfboðaliðum sem áttu að fá fæði og húsnæði fyrir 10-12 tíma vaktir á dag, sex daga vikunnar. Viðkomandi þurfti að vera tilbúinn til að ganga í öll störf, afgreiða á bar og þrífa upp ælu um borð í hvalaskoðunarbát. Aðrir eru fengnir sem AU-pair en lenda í hörku vinnu við rekstur gistiheimila eða í annarri ferðaþjónustu. 

Dæmin úr byggingarbransanum þekkjum við líka. Það er reynt að toga og teygja mörk hins löglega í allar áttir og það er okkar verkefni að sjá til þess að fólk haldi sig innan rammans. Það er því fagnaðarefni að bæði innan hreyfingarinnar og í stofnunum er verið að herða eftirlit með vinnumarkaðnum því við erum reynslunni ríkari frá síðasta uppgangstímabili og ætlum ekki að líða þau svívirðilegu brot sem framin voru þá á fólki sem gat litla björg sér veitt, einangrað, mállaust og óvitandi af réttindum sínum. Þarna þurfum við öll að leggjast á eitt og upplýsa ef okkur grunar að eitthvað misjafnt eigi sér stað. Því miður höfum við af gefnu tilefni þurft að gefa út leiðbeiningar um birtingamyndir og viðbrögð við mansali en fyrir nokkrum árum hefði enginn trúað því að verkalýðshreyfingin þyrfti að standa í því að uppræta beina þrælkunarvinnu. 

Vinnan framundan er því ekki bara að sækja á um betri kjör og hækka kjarasamningsbundin laun heldur erum við í eilífri varnarbaráttu fyrir þeim kjörum sem við höfum samið um. 

Menntamál, heilbrigðismál og húsnæðismál eru ofarlega á baugi og þar er margt óunnið. Í þeim málum á verkalýðshreyfingin að beita sér af afli enda eru þetta grunnstoðir lífsgæða. Það eru því næg verkefni framundan og á dögum sem þessum er okkur hollt að ímynda okkur samfélagið sem við viljum búa í . Setja okkur það markmið að fólk geti lifað af laununum sínum, geti menntað sig og sótt þá fræðslu sem hugurinn stendur til, geti lifað mannsæmandi lífi þó heilsan gefi sig, geti notið lífsins eftir að aldurinn færist yfir og hafi möguleika til að njóta þess góða og fallega í lífinu. Við skulum sannmælast um að stefna þangað og ég er sannfærð um að ef við stöndum saman um þessi gildi og beitum aflinu sem felst í fjöldanum með þeirri baráttugleði sem er svo þekkt á þessum slóðum þá eru okkur allir vegir færir.

Innilega til hamingju með daginn okkar!

01
May

1. maí ræða formanns Verkalýðsfélags Akraness

Kæru félagar innilega til hamingju með daginn.

Sá sem hér stendur ætlaði ekki að flytja neitt ávarp hér í dag enda erum við með frábæran ræðumann sem mun flytja ræðu hér á eftir. Hinsvegar er staðan orðin þannig núna að ég get ekki orða bundist vegna svokallaðs Salek samkomulags sem ég tel vera eina mestu vá sem íslenskt launafólk hefur staðið frammi fyrir frá stofnun verkalýðshreyfingarinnar. Enda byggist þetta Salek samkomulag á að skerða frjálsan samningsrétt launafólks. 

Ágætu vinir og félagar, slagorð Alþýðusambands Íslands vegna 1. maí í ár er Samstaða í 100 ár - sókn til nýrra sigra! Sá sem hér stendur er ekki í nokkrum vafa um að verkalýðshreyfingin hefur á þeim 100 árum sem hún hefur verið við lýði unnið marga glæsta sigra við að verja og auka réttindi sinna félagsmanna. Við skulum aldrei gleyma því að mikið af þeim réttindum sem við búum við í dag á íslenskum vinnumarkaði og við teljum vera sjálfsögð mannréttindi voru það svo sannarlega ekki hér á árum áður. Við skulum heldur ekki gleyma því að það voru frumkvöðlarnir í íslenskri verkalýðsbaráttu sem með elju, krafti, dugnaði og atorkusemi lögðu grunn að þeim réttindum og kjörum sem við búum við.

En takið eftir, þessari baráttu fyrir bættum kjörum er hvergi nærri lokið enda liggur það fyrir að lágmarkslaun verkafólks á Íslandi eru einfaldlega alltof lág og það liggur líka fyrir að þau duga ekki fyrir þeim lágmarks framfærsluviðmiðum sem hið opinbera hefur gefið út. Það er sorglegt og dapurlegt til þess að vita að við skulum ennþá vera með launataxta á íslenskum vinnumarkaði sem valda því að verkafólk getur ekki haldið mannlegri reisn og framfleytt sér og sínum. Og það sama má segja um kjör aldraðra og öryrkja.

 Ég sagði áðan að slagorð ASÍ væri Samstaða í 100 ár og sókn til nýrra sigra! Já, á sama tíma og forysta ASÍ býr til flott slagorð sem kveður á um „Sókn til nýrra sigra“ þá vinna þessir aðilar að því að setja á laggirnar nýtt vinnumarkaðslíkan sem gengur út á að skerða gróflega frjálsan samningsrétt stéttarfélaganna. Nýja vinnumarkaðsmódelið sem þessir ágætu snillingar vinna nú að gengur út á að skipað verði þjóðhagsráð sem á að meta hverjar hámarks launahækkanir megi vera í kjarasamningum á Íslandi. 

Í Salek samkomulaginu sem fjallar um þetta nýja vinnumarkaðslíkan er skýrt kveðið á um að stéttarfélögin á Íslandi verði að semja innan þess svigrúms sem umrætt þjóðhagsráð mun ákvarða. En takið eftir, ætíð þegar komið hefur að því að semja fyrir verkafólk og iðnaðarmenn hafa fulltrúar Seðlabankans, Samtaka atvinnulífsins og fjármálakerfisins sagt að svigrúm til launahækkana sé  þetta í kringum 2% til 3,5%.

Það er þyngra en tárum taki að æðsta forysta verkalýðshreyfingarinnar með forseta ASÍ í broddi fylkingar ætli sér að vinna að því að skerða gróflega frjálsan samningsrétt stéttarfélaganna eins og nú er unnið að. Þessir menn vinna nú að því að meitla í stein samræmda láglaunastefnu þar sem ekki verður möguleiki á að taka tillit til sterkrar stöðu einstakra fyrirtækja og atvinnugreina. 

Hverjir eru það sem eiga að sitja í þessu þjóðhagsráði og ákveða hverjar hámarkslaunabreytingar eigi að vera? Jú, það eru fulltrúar frá eftirfarandi aðilum: Seðlabankanum, Samtökum atvinnulífsins, Sambandi íslenskra sveitarfélaga, Alþýðusambandi Íslands, BSRB og oddvitar ríkisstjórnar á hverjum tíma fyrir sig. 

Þetta verða þeir aðilar sem munu ákveða hvað laun megi hækka um mikið og öllum stéttarfélögum verður skylt að semja innan þess svigrúms sem þetta svokallaða þjóðhagsráð mun ákveða. Með öðrum orðum ef þjóðhagsráð ákveður að svigrúmið til launabreytinga sé 2,5% þá verður stéttarfélögunum skylt að semja innan þess svigrúms. Semsagt, frjáls samningsréttur stéttarfélaganna verður fótum troðinn ef þetta verður að veruleika.

 Þessir aðilar sem eiga að sitja í þjóðhagsráði hafa ætíð rekið skefjalausan hræðsluáróður þegar kemur að því að semja um kaup og kjör fyrir verkafólk og þeir hafa sagt að verðbólgan muni rjúka upp ef gengið verði að kröfum verkafólks. Öll munum við eftir auglýsingum Samtaka atvinnulífsins þar sem varað var við miklum launahækkunum til handa verkafólki og sem dæmi þá spáðu Samtök atvinnulífsins því að verðbólgan myndi fara jafnvel uppí 27% ef gengið yrði að kröfum okkar um 300.000 kr. lágmarkslaun. 

Já, okkar krafa í síðustu kjarasamningum í fyrra var að lágmarkslaun næðu innan tveggja ára 300.000 krónum, þetta var afar hófvær krafa en hún átti að mati þessara manna að valda óðaverðbólgu. En hugsið ykkur, á sama tíma og Samtök atvinnulífsins vöruðu við launahækkunum verkfólks sem einhverju næmi þá hækkuðu laun formanns Samtaka atvinnulífsins um 624 þúsund á mánuði og nema mánaðarlaun hans nú vel á fimmtu milljón króna. Hræsnin og hrokinn í þessum aðilum ríður vart við einteyming.

Kæru félagar, það er sorglegt að núna hafa æðstu forystumenn verkalýðshreyfingarinnar enn og aftur tekið undir þennan hræðsluáróður og gefið í skyn að óstöðugleiki og verðbólga sé launahækkunum launafólks nánast einum um að kenna. Allavega gengur þetta nýja vinnumarkaðsmódel út á að skerða möguleika launafólks á að sækja sér umfram kjarabætur. 

Stéttarfélögin hafa í raun og veru verið blóðug upp fyrir axlir undanfarin ár og áratugi við að berjast fyrir því að laun íslensks verkafólks hækki með þeim hætti að þau dugi til að fólk geti haldið mannlegri reisn og framfleytt sér og sinni fjölskyldu. Og takið eftir, við eigum enn töluvert í land hvað það varðar þó okkur hafi tekist að hækka lágmarkstaxta umtalsvert frá árinu 2000 og sem dæmi má nefna að árið 2000 var lægsti taxti verkafólks einungis 63.000 kr. en núna 16 árum síðar er hann kominn upp í 244.000 kr. Þetta er hækkun upp á 287% og kaupmáttaraukningin á þessu tímabili er yfir 60%. En betur má ef duga skal. En kæru félagar, ég fæ ætíð óbragð í munninn þegar talað er um prósentur og kaupmátt, einfaldlega vegna þess að ekkert okkar fer út í næstu verslun og verslar með prósentum. Við verslum með krónum og því er það dapurlegt þegar verið er að blekkja launafólk í formi prósentuhækkana. En samt sem áður í ljósi þess að þessir snillingar telja sig þurfa að tala um að auka þurfi hér kaupmátt með því að ganga frá hófstilltum kjarasamningum þá er mikilvægt að halda þeim staðreyndum hátt á lofti að kaupmáttaraukning lægstu taxta frá árinu 2000 er 60%. Þeir sem standa að Salek samkomulaginu segja að við verðum að auka kaupmáttinn og að það sé gert með hófstilltum launahækkunum. Það eru hinsvegar blákaldar staðreyndir að kaupmáttur lægstu launa á Íslandi er langt fyrir ofan það sem gerist á hinum Norðurlöndunum. En eins og áður sagði, prósentur blekkja. Ef þú leggur 1 krónu ofan á aðra krónu þá er það 100% hækkun. Ástæðan fyrir því að lágmarkslaun hafa hækkað þetta mikið í prósentum er hversu lág þau eru. Við þurfum að færa launakjör verkafólks í krónum talið til samræmis við þau lönd sem við viljum bera okkur saman við. 

Aðilar Salek samkomulagsins segja að þeir vilji taka upp norrænt vinnumarkaðslíkan þar sem byggt verður upp vinnumarkaðslíkan til að auka kaupmátt. Það stendur ekki til að hækka launin strax í upphafi til samræmis við það sem gerist á hinum Norðurlöndunum. Nei, það stendur bara til að taka einn þátt út úr líkaninu sem gengur út á að semja um hófstilltar launahækkanir sem nema á bilinu 2-3,5% á ári. Það stendur heldur ekki til að taka hér á okurvöxtum fjármálakerfisins og færa vaxtakerfið niður í 2% eins og á hinum Norðurlöndunum. Nei, það stendur ekki til. Það stendur heldur ekkert til að lækka greiðsluþátttöku sjúklinga til samræmis við það sem gerist á hinum Norðurlöndunum. Nei, það stendur heldur ekki til enda hef ég ekki séð tillögur er lúta að þessum þáttum. 

Hinsvegar hef ég séð tillögur sem lúta að því að skerða og nánast gelda stéttarfélögin í sinni kjarabaráttu enda ganga þessar tillögur út á að meitla í stein samræmda láglaunastefnu þar sem ekki má taka tillit til sterkrar stöðu einstakra fyrirtækja. Tökum dæmi hér á Akranesi en þá hefði Verklýðsfélag Akraness ekki mátt semja um 27,5% launahækkun fyrir fiskvinnslufólk HB Granda í fyrra með sérstökum bónussamningi ef nýja samningamódelið hefði verið komið á. Hugsið ykkur, okkur tókst að hækka laun fiskvinnslufólks um allt að 90.000 kr. á mánuði og fyrir fulla dagvinnu er fiskvinnslufólk núna að nálgast 400.000 kr. á mánuði. Þetta vilja þessir menn koma í veg fyrir. Við hefðum heldur ekki mátt semja um launavísitölutengingu við Norðurál í fyrra sem skilaði starfsmönnum yfir 17% launahækkun og 300 þúsund króna eingreiðslu. Kjarasamningur sem að mínu mati var tímamótasamningur. Þetta vill m.a. forysta ASÍ  koma í veg fyrir. Að stéttarfélög hafi tækifæri til að sækja á fyrirtæki sem meðal annars standa vel og eru að skila góðri afkomu. Eru menn hissa á því að sá sem hér stendur hafi áhyggjur af þeim skemmdarverkum sem þessir menn vinna nú að með því að skerða samningsréttinn okkar og færa hann að hluta til yfir á eitthvað þjóðhagsráð! 

Gleymum því aldrei að frjáls samningsréttur stéttarfélaganna hefur verið hornsteinn stéttarfélagsbaráttunnar á liðnum árum og áratugum en nú virðast þessir aðilar ætla að breyta stéttarfélögunum í einhverjar umsýslustofnanir þar sem réttur stéttarfélaganna til að semja um kaup og kjör sinna félagsmanna verður færður að stórum hluta frá þeim yfir til umrædds þjóðhagsráðs. 

Það er með svo miklum ólíkindum að forysta Alþýðusambands Íslands skuli hafa mestar áhyggjur af „of miklum“ launahækkunum sinna félagsmanna og að þær þurfi að beisla með því að setja á laggirnar þjóðhagsráð sem fái það vald að ákveða hverjar hámarkslaunabreytingar megi vera á hverjum tíma fyrir sig. Þetta er gert í nafni stöðugleika en forysta ASÍ virðist ekki hafa neinar áhyggjur af milljarða ef ekki milljarða tugum sem greiddir eru í formi arðgreiðslna til eigenda fyrirtækja. Þessar arðgreiðslur valda engum verðbólguþrýstingi að mati valdaelítunnar. Það gildir hinsvegar allt annað lögmál ef verkafólk fær hlutdeild í góðri afkomu fyrirtækja. Þá spretta þessir aðilar enn og aftur fram og gera heilu auglýsingarnar eins og áður sagði um að óðaverðbólga sé hinum megin við hornið. Og meira að segja stekkur seðlabankastjóri fram og hækkar stýrivexti gagngert til þess að draga úr ráðstöfunartekjum verkafólks. En hækkun stýrivaxta gerir ekkert annað en að færa fjármagn frá skuldsettri alþýðu yfir til fjármagnselítunnar. Hvað er að þessum mönnum og hvað gengur þeim til? Spyr sá sem ekki veit. 

Það er líka dapurlegt og í raun og veru sorglegt að forysta ASÍ virðist ekki heldur hafa neinar áhyggjur af þeim miskunnarlausu okurvöxtum og verðtryggingu sem alþýða þessa lands þarf að búa við hér á landi. Og takið eftir, almenningur þarf að greiða um 300% hærri húsnæðisvexti en í þeim löndum sem við viljum bera okkur saman við. Mitt mat: það er brýnasta hagsmunamál sem skuldsett alþýða stendur frammi fyrir að tekið verði hér á okurvöxtum fjármálakerfisins. Nei, forysta ASÍ virðist ekki vera tilbúin að taka á okurvöxtum fjármálakerfisins en er hinsvegar tilbúin til þess að láta breyta lögum um stéttarfélög og vinnudeilur til að festa nýtt vinnumarkaðslíkan í sessi. Semsagt, setja í lög að samningsréttur stéttarfélaganna verði skertur. Að koma með hugmyndir um að setja þak á óverðtryggða vexti eða afnema verðtryggingu? Nei, slíkt virðist ekki koma til greina af hálfu forystu Alþýðusambands Íslands.  

Já kæru félagar, mestu áhyggjur hjá forystu ASÍ er að beisla þurfi launahækkanir verkafólks til að koma á stöðugleika og þessar áhyggjur forystu ASÍ birtast okkur á umbrotatímum í íslensku samfélagi þar sem skefjalaus spilling birtist landsmönnum í gegnum Panamaskjölin. Spilling sem teygir anga sína til framkvæmdastjóra sem stjórna lífeyrissjóðunum okkar. Á sama tíma og alþýða þessa lands horfir upp á þessa skefja-og miskunnarlausu spillingu og misskiptingu þá vinnur forystufólk innan ASÍ leynt og ljóst að því að skerða samningsfrelsi launafólks með því að afhenda fulltrúum þjóðhagsráðs ákvörðunarvald yfir því hversu mikla hlutdeild launafólk megi fá frá fyrirtækjum. Það er ekkert skrýtið að forystumenn Samtaka atvinnulífsins, sveitarfélaga, stjórnvalda og Seðlabankans skuli vera æstir í að koma umræddu þjóðhagsráði á laggirnar. Enda liggur ávinningur þessara aðila klár fyrir, þeir eru að vinna fyrir atvinnurekendur, þeir eru launagreiðendur. 

En hvers vegna eru fulltrúar verkalýðshreyfingarinnar nánast fremstir í flokki í þeirri vegferð að ætla að rýra möguleika launafólks til að sækja kjarabætur? Það er mér gjörsamlega hulin ráðgáta. Að sjálfsögðu fagna atvinnurekendur því að beisla eigi launahækkanir því þá munu þeir bara geta greitt meira í arðgreiðslur til eigenda sinna.

Já, ég spyr á hvaða vegferð er forysta ASÍ svo ekki sé talað um forseta sambandsins sem virðist ætíð taka stöðu með fjármálaöflunum og atvinnurekendum og nægir að nefna í því sambandi hvatningu hans um að alþýða þessa lands skyldi ábyrgjast Icesave á sínum tíma. Svo ekki sé talað um þegar hann lagði til að neysluvísitalan yrði ekki tekin úr sambandi í hruninu í október 2008 en hann sat í nefnd sem hafði það hlutverk að koma með tillögu um hvort hægt væri að taka neysluvísitöluna úr sambandi til að hlífa skuldsettum heimilum. Rök forseta ASÍ á sínum tíma voru að það myndi kosta fjármálakerfið 200 milljarða. Með öðrum orðum var hann í raun og veru að segja á þessum tíma, þegar hann hafði tækifæri til að koma alþýðunni til hjálpar: skítt með alþýðuna, henni mátti fórna á altari verðtryggingarinnar. 

Og hagsmunagæslan í kringum fjármálaöflin og atvinnurekendur heldur áfram því núna vilja þessir sömu aðilar taka þátt í því að skerða samningsfrelsi launafólks með því að láta eitthvað þjóðhagsráð ákveða hámarks launabreytingar í kjarasamningum á komandi árum. Þeir hafa meira að segja í hyggju eins og ég nefndi áðan að láta breyta lögum um stéttarfélög og vinnudeilur til að tryggja umrætt vinnumarkaðsmódel í sessi.

   

Fyrirgefið mér kæru vinir og félagar en mér er mikið niðri fyrir vegna þessa og ég tel að þessir aðilar muni beita öllum brögðum og meðulum til að blekkja launafólk til að reyna að koma umræddu vinnumarkaðslíkani á koppinn. 

En ég er ekki í nokkrum vafa um að íslenskt launafólk stendur nú frammi fyrir mestu vá sem það hefur nokkurn tímann staðið frammi fyrir því eins og áður hefur komið fram þá er frjáls samningsréttur hornsteinn íslenskrar stéttarfélagsbaráttu og það er spurning hvort við munum raska ró gömlu frumkvöðlanna sem börðust hér á síðustu öld fyrir bættum kjörum þar sem þeir hvíla nú lúin bein vítt og breitt í kirkjugörðum landsins vegna þeirra fyrirætlana um að skerða samningsfrelsi stéttarfélaganna með þeim hætti sem menn hafa nú í hyggju að gera.

Já kæru félagar, slagorð ASÍ er samstaða í 100 ár - sókn til nýrra sigra. Við ykkur vil ég segja að lokum, ef við ætlum halda áfram að sækja fram til sigurs þá verður það ekki gert með því að láta takmarka samningsrétt launafólks með því að láta þjóðhagsráð ákvarða hámarkslaunabreytingar. Með slíkum gjörningi er verkalýðshreyfingin að skora sjálfsmark aldarinnar og sóknin fyrir bættum kjörum launafólks mun tapast illilega. Stöndum saman öll sem eitt til að koma í veg fyrir það að hornsteinn stéttarfélagsbaráttunnar sem er frjáls samningsréttur verði ekki skertur eða tekinn af okkur. Þannig munum við geta haldið áfram sókn til nýrra sigra.

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image