• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
13
Dec

ASÍ og SA slá skjaldborg um stjórnarval í lífeyrissjóðunum

Í ljósi þess að þann 21. desember næstkomandi muni miðstjórn Alþýðusambands Íslands staðfesta endurskoðun á samningi á milli ASÍ og SA um lífeyrismál, þá er rétt að það komi fram að gert er ráð fyrir nánast óbreyttu fyrirkomulagi við val á fulltrúum í stjórnir lífeyrissjóðanna, en eins og margoft hefur komið fram hér á heimasíðunni þá hefur stjórn og trúnaðarráð Verkalýðsfélags Akraness barist um langt árabil fyrir því að lýðræði við stjórnarkjör í lífeyrissjóðunum verði stóraukið og aðkoma sjóðsfélaga sjálfra að ákvörðunartöku sjóðanna verði efld til muna.

Sem dæmi um þessa baráttu Verkalýðsfélags Akraness þá nægir að rifja upp tillögu sem félagið lagði fram að þingi ASÍ 2009 um að atvinnurekendur víki úr stjórnum sjóðanna og sjóðsfélagar kjósi alla stjórnarmenn í beinni kosningu.

Það er rétt að það komi skýrt fram að í kjarasamningi milli Samtaka atvinnulífsins og ASÍ um lífeyrismál frá árinu 1995 var samið um helmingaskipti á milli atvinnurekanda og verkalýðshreyfingarinnar í stjórnum lífeyrissjóðanna. Í þeirri tillögu sem VLFA lagði fram á þingi ASÍ 2009 var skorað á miðstjórn ASÍ að taka upp þann kjarasamning og leggja til breytingar á honum og hætta helmingaskiptum verkalýðshreyfingarinnar og atvinnurekanda í stjórnum lífeyrissjóðanna. VLFA lagði til á þinginu 2009 að í þessum samningi yrði stjórnarvali í sjóðunum breytt þannig að sjóðsfélagar myndu kjósa alla stjórnarmenn lífeyrissjóðanna beinni kosningu og atvinnurekendur vikju úr stjórnum sjóðanna.

Miðstjórn ASÍ skrifaði umsögn vegna tillögu VLFA og í þeirri umsögn hafnaði miðstjórnin því að atvinnurekendur myndu fara úr sjóðunum og sjóðsfélagar myndu kjósa alla stjórnarmenn, en lagði hins vegar til að samþykkt yrði að fela miðstjórn að standa að víðtækri og almennri umræðu meðal aðildarsamtaka sinna um endurskoðun á kjarasamningi ASÍ og SA um lífeyrismál.

ASÍ ákvað í febrúar 2010 að halda stefnumótunarfund um lífeyrismál á Selfossi þar sem stjórnarskipan lífeyrissjóðanna var mikið til umfjöllunar og á þeim fundi komu klárlega sterkar raddir fram um að efla þyrfti lýðræðið við stjórnarval í sjóðunum, en þessi stefnumótunarfundur átti að verða einn liður í því að undirbúa endurskoðun á kjarasamningi ASÍ og SA um lífeyrismál.

Á þessum stefnumótunarfundi á Selfossi kynnti Verkalýðsfélag Akraness niðurstöður skoðanakönnununar sem félagið lét gera en í þeirri könnun voru 1200 manns spurð eftirfarandi spurningar: „Ert þú hlynnt(ur) því eða andvíg(ur) að tekið verði upp nýtt fyrirkomulag við val á stjórnarmönnum í lífeyrissjóðum þannig að stjórnarmenn verði að vera sjóðsfélagar og sjóðsfélagar sjálfir kjósi alla stjórnarmenn í beinni kosningu?“  Niðurstaðan var að 72% töldu það brýnt að sjóðsfélagar myndu kjósa alla stjórnarmenn í lífeyrissjóðina.  Vilji sjóðsfélaga var hvellskýr!

Í ein 6 ár eða frá árinu 2010 hefur lítið sem ekkert heyrst um þessa vinnu þar til í síðustu viku að boðað var til fundar með formönnum stéttarfélaganna og þeim tilkynnt að nefnd á vegum ASÍ og Samtaka atvinnulífsins væri ná samkomulagi um drög að tillögum um breytingar á stjórnskipan á lífeyrissjóðunum. Breytingar sem eru í sjálfu sér afar takmarkaðar enda áfram gengið út frá helmingaskiptum verkalýðshreyfingarinnar og atvinnurekanda í stjórnum sjóðanna og áfram sé stuðst við svokallað fulltrúalýðræði við val á stjórnarmönnum. Stéttarfélögunum voru gefnir nokkrir dagar til að andmæla eða koma með tillögur og það er skemmst frá því að segja að VLFA mótmælti þessum drögum harðlega á grundvelli þess að ekki væri verið að fara eftir tillögum frá Rannsóknarnefnd um lífeyrissjóðina né hefur nánast ekkert samtal átt sér stað við hinn almenna sjóðfélaga um þessar breytingar.

Í ljósi þessa telur formaður Verkalýðsfélags Akraness þessi vinnubrögð langt frá því að vera lýðræðisleg. Gleymum því ekki að miðstjórn ASÍ talaði um á þingi ASÍ 2009 að eiga víðtæka og almenna umræðu um lífeyrismál. Varla kalla menn það víðtæka og almenna umræðu að halda einn fund fyrir 6 árum síðan?

Það liggur fyrir að hinn almenni sjóðsfélagi hefur verið að kalla eftir opnu og auknu lýðræði við stjórnarval í lífeyrissjóðunum og það vita það allir sem eitthvað fylgjast með umræðunni um þessi mál að sjóðsfélagar vilja aukið lýðræði í lífeyrissjóðunum og gríðarlega margir telja að atvinnurekendur eigi ekki að víla og díla með kjarasamningsbundin réttindi launafólks í stjórnum lífeyrissjóðanna og eigi því að víkja úr stjórnum þeirra.

Það sem vekur einnig furðu í þessum drögum er að það er ekki einu sinni farið eftir ábendingum sem fram koma í Rannsóknarskýrslu um lífeyrissjóðina sem kom út í febrúar 2012, en þar leggja skýrsluhöfundar til að alla vega einn sjóðsfélagi sé kosinn í beinni kosningu af sjóðsfélögum. Meira að segja fjalla skýrsluhöfundar um að fulltrúalýðræðið við val á stjórnarmönnum sé ekki að virka sem skyldi.  Það verður að teljast undarlegt að í þessum drögum sé ekki tekið tillit til ábendinganna sem fram koma í rannsóknarskýrslunni.

Orðrétt segir í Rannsóknarskýrslu um lífeyrissjóðina varðandi stjórn og starfshætti:  „Óeðlilegt virðist að eigendur lífeyrissjóðanna (sjóðfélagar) eigi almennt ekki fulltrúa í stjórnum sjóðanna og hafi enga aðkomu að því hverjir sitji þar (Sjá kafla 5.2.2). - Úttektarnefndin leggur til að lífeyrissjóðir á almennum markaði og opinberum móti sér þá stefnu að einn eða fleiri stjórnarmenn séu kosnir beinni kosningu á ársfundi lífeyrissjóðsins. Fimm árum héðan í frá verði reynslan af þessu fyrirkomulagi metin og athugað verði hvort lengra skuli haldið.

Að hugsa sér að einhver sjálfskipaður hópur innan ASÍ hefur nú í samvinnu við Samtök atvinnulífsins ákveðið að sáralitlar breytingar verði gerðar á stjórnarskipan í lífeyrissjóðina og áfram verði svokölluð helmingaskiptaregla við lýði.  Ekkert tillit verði tekið til ábendinga sem fram komu í rannsóknarskýrslunni um að óeðlilegt sé að eigendur lífeyrissjóðanna (sjóðfélagar) eigi almennt ekki fulltrúa í stjórnum sjóðanna og hafi enga aðkomu að því hverjir sitji þar. Þessar ábendingar eru hunsaðar algerlega.

Það er með svo miklum ólíkindum og grátlegt að ekki hafi átt sér stað samtal við hinn almenna sjóðsfélaga og hann spurður að því hvernig hann vilji að sjá að stjórnarkjöri í lífeyrissjóðum verði háttað í framtíðinni.  Nei, í staðinn er fámennur hópur innan verkalýðshreyfingarinnar sem ákveður hvort gera eigi einhverjar breytingar á þessum málum eða ekki.

Það er rétt að geta þess að 21. desember næstkomandi mun miðstjórn ASÍ staðfesta endurskoðun á kjarasamningi ASÍ og SA og allt eins líklegt að þar verði staðfest að litlar sem engar breytingar verði gerðar á við val á fulltrúum í stjórnir lífeyrissjóðanna. Sem sagt áfram verði helmingaskiptareglan á milli atvinnurekenda og verkalýðshreyfingarinnar við lýði og áfram verði stuðst við fulltrúalýðræði við val inn í stjórnir sjóðanna.

Formaður VLFA fullyrðir að ekki er vilji hjá hinum almenna sjóðsfélaga að viðhafa þessa helmingaskiptareglu við stjórnarval í lífeyrissjóðunum með þeim hætti sem verið hefur. Enda liggur fyrir ákall frá almenningi um aukið lýðræði við stjórnarval í lífeyrissjóðunum en núna er það deginum ljósara að ASÍ og SA ætla sér að slá skjaldborg um veru sína í stjórnum lífeyrissjóðanna og það er gert með því að hunsa ábendingar sem fram komu í rannsóknarskýrslunni um lífeyrissjóðina og einnig með því að hunsa samtal við hinn almenna sjóðsfélaga og spyrja um hans álit á þessum málum.

Það er morgunljóst í huga formanns VLFA að enn og aftur fjarlægist forysta ASÍ sína félagsmenn með því að viðhafa andlýðræðisleg vinnubrögð við endurskoðun á kjarasamningi ASÍ og SA um lífeyrismál  enda liggur fyrir að hinn almenni félagsmaður og sjóðsfélagi mun ekkert hafa um þennan samning að segja, enda á að afgreiða hann án aðkomu hins almenna félagsmanns.     

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image