• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
27
Dec

Lausn fannst á ágreiningi við Hvalfjarðasveit

Í október leituðu ófaglærðir starfsmenn Heiðarskóla til Verkalýðsfélags Akraness vegna ágreinings um uppsögn á 6% umframkjörum sem 6 starfsmenn skólans höfðu haft frá 1. júní 2011.  En sveitastjórn Hvalfjarasveitar hafði tilkynnt umræddum starfsmönnum að þessum umframkjörum yrði sagt upp frá og með 1. desember síðastliðnum.

Ástæður fyrir uppsögn á umframkjörum þeirra starfsmanna sem um ræðir væru þær að hugmyndum um sveigjanleika í starfi hafi ekki komið til framkvæmda en einnig vildi sveitafélagið eyða launamisrétti á meðal almennra starfsmanna á grundvelli jafnræðis.

Formaður félagsins átti marga fundi með starfsmönnum Heiðarskóla til að finna lausn á málinu sem og fulltrúum sveitafélagsins.  Á þessum fundum kom fram að þessi uppsögn á þessum 6% umframkjörum væri alls ekki sparnaðaraðgerð heldur liður í að gæta jafnræðis á meðal almennra starfsmanna.  Formanni var tjáð af fulltrúum sveitafélagsins að Hvalfjarðasveit væri að greiða 16 þúsund krónur á mánuði til ófaglærðra í leik-og grunnskóla sveitafélagsins umfram kjarasamninga.

Verkalýðsfélag Akraness skrifaði sveitastjórn Hvalfjarðasveitar bréf 1. desember sl. þar sem lögð var fram tillaga að sátt í málinu sem laut að því að hækka þessar greiðslur úr 16 þúsundum í 22 þúsund krónur á mánuði til ófaglærðra starfsmanna í leik- og grunnskóla Hvalfjarðasveitar.  Rök VLFA laut að því að ekki yrði um kostnaðarauka fyrir Hvalfjarðasveit að ræða enda yrði sparnaðurinn sem hlytist af því að segja upp 6% umframkjörum hjá þessum 6 starfsmönnum notaður til að hækka þessar mánaðargreiðslur hjá öllum ófaglærðum starfsmönnum sveitafélagsins.  Þessa tillögu lagði VLFA fram á grundvelli þess að uppsögnin á umframkjörum var ekki sparnaðaraðgerð heldur gerð til eða eyða launamisrétti.

Það ánægjulega er að sveitastjórn Hvalfjarðasveitar féllst á þessa tillögu Verkalýðsfélags Akraness og munu því mánaðarlegar eingreiðslur sem ófaglærðs starfsfólks í leik-og grunnskóla Hvalfjarðasveitar hækka úr 16.000 krónum á mánuði í 22.000 krónur á mánuði frá og með 1. janúar 2017 og munu því 20 ófaglærðir starfsmenn hækka um 6.000 krónur á mánuði eða sem nemur 72.000 krónur á ársgrundvelli.

Það er ljóst að þessi ágreiningur var gríðarlega erfiður og tók mjög á þá starfsmenn sem áttu hlut að máli en miðað við aðstæður þá var þetta farsæl lausn í mjög svo erfiðu máli.

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image