• Þjóðbraut 1, 300 Akranes
  • Mán - Fim: 8:00 - 16:00, Föstudaga 08:00 - 15:15
14
Dec

Sjómenn kolfelldu kjarasamninginn - verkfall skellur á kl. 20 í kvöld

Þá liggur það fyrir að sjómenn hafa kolfellt nýgerðan kjarasamning í atkvæðagreiðslu, en talningu atkvæða var rétt í þessu að ljúka. 75,64% þeirra sem greiddu atkvæði sögðu nei við samningnum, sem þýðir einfaldlega að verkfall sjómanna mun hefjast kl. 20 í kvöld á nýjan leik, enda var verkfallinu einungis frestað til þess tíma. Með öðrum orðum, íslenski fiskiskipaflotinn mun taka inn veiðarfæri sín og halda til hafnar kl. 20 í kvöld. Ljóst er að framundan eru gríðarlega erfiðar kjaraviðræður við útgerðarmenn, en niðurstaða úr þessari kosningu er afdráttarlaus: innihald síðasta samnings var of rýrt og því ber aðilum að setjast að nýju við samningsborðið og reyna að finna lausn á deilunni.

Sjómannadeild Verkalýðsfélags Akraness mun halda fund með sjómönnum í byrjun næstu viku, en fundurinn verður auglýstur nánar síðar, en það er ljóst að nú þarf að heyra í sjómönnum til að fara yfir hvað það er sem þarf nákvæmlega að koma til til að hægt verði að ganga frá nýjum kjarasamningi og mun Verkalýðsfélag Akraness ekki láta sitt eftir liggja í þeim efnum að reyna að leysa þessa deilu.

Nánari niðurstaða atkvæðagreiðslunnar var með eftirfarandi hætti:

Á kjörskrá voru 1.098 sjómenn og af þeim greiddu 743 atkvæði eða 67,7%.

Já sögðu 177 eða 23,82% þeirra sem greiddu atkvæði.

Nei sögðu 562 eða 75,64% þeirra sem greiddu atkvæði.

Auðir seðlar voru 4 eða 0,54% greiddra atkvæða.

Fréttir

Style Switcher
Layout Style
Predefined Colors
Background Image